Færsluflokkur: Bloggar

...en hann sagði það...

 Mér leiðist íslensk "fréttamennska". Í stað þess að  fjalla um það sem er að gerast, er fjallað um hvað einhver segir um það sem er að gerast.

Yfirlit frétta er í stíl Kent Brockmans - upphrópun sem nær athygli, og svo mjórri röddu tekið fram að þetta sé skoðun einhvers aðila. 

 

"ÞEIR SEM KUSU D OLLU HRUNINU! Þetta segir Jón Jónsson, vitleysingur sem enginn tekur mark á."

Næsta kvöld mætir svo sá sem kallaði Jón vitleysing, og kvöldið eftir það er rætt við móður Jóns, sem segist oft taka mark á honum og aftur við Jón sjálfan, en skýrt tekið fram að það séu ekki allir sammála honum. Voilá: góðar fimmtán mínútur af "fréttum". Það er svo hægt að líta yfir ævi Jóns í Fréttaaukanum, skoða safn hans af sultukrukkum í Kastljósinu og hekluðu dúkana hans í Íslandi í dag. Ef bloggheimur bítur er hægt að hefja frétt á orðunum "mikil umræða hefur verið", og síðan hægt að ræða við einhvern áberandi bloggara um umræðuna um umfjöllunina um skoðun vitleysingsins Jóns. 

 

Auðvitað eru ekki allar fréttir svona. Margar eru áhugaverðar, vel unnar og raunverulega hlutlausar. Hlutleysi er ekki að varpa fram skoðun eins og fá svo einhvern með andstæða skoðun til að mótmæla. Það má kalla það 'jafnvægi' en það er ekki hlutleysi. Ég hef ekkert á móti jafnvægi. Raddir allra eiga að fá að heyrast og allir eiga að hafa jafnan rétt til sinna skoðana. En ekki í fréttatímanum. Fréttir eiga að segja frá atburðum. Punktur. Þeir þurfa ekki að vera merkilegir. Mér er alveg sama hvað einhverjum sjálfskipuðum sérfræðingi finnst. Ef fram kemur tillaga um breytingar á sköttum, vil ég fá að vita hvernig breytingarnar eiga að vera, svo ég geti myndað mér skoðun á þeim. Mér er sama þó hagfræðingur A sé alfarið á móti þeim og hagfræðingur B sterklega fylgjandi.

 Ef hagfræðingarnir mæta svo í Ísland í dag eða Silfur Egils og útskýra hvað þeim finnst, eða rífast á blogginu, eða standa á sápukassa á Lækjartorgi og hrópa í gegnum gjallarhorn getur vel verið að ég hlusti. Gjallarhornin eiga hins vegar ekki heima í fréttatímanum. 

 

Gott dæmi um afleiðingar "jafnvægis" í stað hlutleysis má sjá í Bandaríkjunum. Segjum að kosningabarátta sé í fullum gangi. Þáttastjórnandi á stöð sem er meira að segja með orðið "jafnvægi" í slagorði sínu býður frambjóðendum beggja flokka í viðtal. Er það ekki gott? Báðir flokkar fá að koma sínu á framfæri...hjá Bill O'Reilly. Þar er kannske jafnvægi, en hlutdrægara verður það varla. 

Og hvað með það? Það eru líka "vinstri" stöðvar í Bandaríkjunum, þar sem Demókrötum er gert hærra undir höfði. Jafnast þetta ekki út? 

Tökum annað dæmi frá Bandaríkjunum. Forseti er löglega kosinn, en einn vitleysingur ákveður að halda því fram að forsetinn sé í raun ekki bandarískur ríkisborgari. Allir hafa rétt á sinni skoðun, sama hversu heimskuleg hún er, svo stöðvarnar flytja "fréttir" af málinu. Eitt smávægilegt vandamál fer framhjá þeim: þetta er ekki frétt.

Það er ekki frétt að einhver haldi einhverju fram. Það er ekki hlutleysi að gefa í skyn að það sé merkilegt að einhver vitleysingur hafi einhverja ákveðna skoðun. Það er orðin frétt þegar stór hluti landsmanna trúir vitleysingnum, en það hefði aldrei gerst nema vegna þess að þessi tiltekni hálfviti fékk pláss í fréttum. Skoðun hans var ekki bara röng, heldur heimskuleg og rasísk. Hún breiddist út vegna þess að hún fékk ímyndað vægi vegna umfjöllunar "fréttamanna". Þetta snýst meira um að búa til fréttir en að flytja þær. 

 

Þegar "fréttatíminn" byrjar á eftir, býst ég við að í yfirlitinu verði nokkrar fullyrðingar einhverra manna úti í bæ (Alþingi er auðvitað úti í bæ). Ætli neftóbaksádeila Hreyfingarinnar komi ekki sterk inn, með æfum neftóbaksnotanda úr Framsókn sem snýtir sér hátt - til að gæta "jafnvægis". En er það frétt að kerling á þingi sé ósátt við að menn taki í nefið þar á bæ? Kemur það mér við?

Ekki það, þetta er voða kjút "frétt", og nokkuð alvarlegt ef rétt er að tóbakskornin hafi valdið skemmdum. Ef það er rétt, og skemmdirnar hafa haft áhrif á atkvæðagreiðslur, er þetta frétt. Ef það er ólöglegt að neyta tóbaks í þingsalnum er þetta frétt. Annars er þetta kerling að röfla um störf þingsins, í ræðutíma sem er ætlaður undir umræður um störf þingsins. Það er ekki frétt.

 

Kannske vill fólk svona "fréttir". Kannske væru fréttatímar ómögulegir ef ég fengi að ráða.

Kannske er ómögulegt að flytja fréttir á hlutlausan hátt. Kannske er "hlutleysi" ekki til.

 

En fjandinn hafi það, það má að minnsta kosti reyna.

 

*edit*

Það er kannske rétt að geta þess að ég reit þennan pistil eftir lestur færslu hjá Óla Gneista.


Bann #2

Við þessa færslu setti ég inn komment. Ég tel það ekki sérlega ofsafengið, en það er greinilega bara einhver blinda hjá mér. 

---

Er það góð stefna að hóta börnum með helvíti ef þau eru ekki "góð" og/eða trúa ekki á Jesú?

Hversvegna þarf að blanda Jesú inn í fræðslu um góða hegðan og almenna siðfræði? Eru engir góðir nema þeir sem trúa á Jesú? Voru allir sem tóku þátt í gróðærinu kannske trúleysingjar eða "villutrúarmenn"?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.11.2009 kl. 14:19

 ------

 

Sæl Tinna, Ég svona velti því fyrir mér þessum ofsa í þér svona ALMENNT, því ég er ekki að lesa þig hjá mér í fyrsta sinn.

Bloggið er opið öllum.

Er öllum börnum hótað helvíti ef að þau eru ekki góð ?

þá segi ég við þig.

Hvernig veist þú það ,

hver hefur gefið þér þá gáfu....... að vita það ?

Kær kveðja.HeartKærleikskveðja á þig.

 

Þórarinn Þ Gíslason, 8.11.2009 kl. 16:14 

 

------

 Öh. Ég skil ekki alveg "svarið" þitt. Er það ekki boðskapur kristninnar að þeir sem ekki trúa á Jesú fari til helvítis (svo er mismunandi hvernig þetta "helvíti" á að vera)?

Er það ekki hluti af því sem þú vilt kenna börnum? Eða viltu bara velja það góða úr Biblíunni? Ef svo er, hvers vegna þarf það þá að koma úr Biblíunni? Er ekki hægt að kenna börnum að það sé ljótt að stela og ljúga og sýna fram á það með rökum og almennri skynsemi, frekar en að segja að það sé vegna þess að "Jesú sagði það"?

Hvaða ofsa ertu svo að tala um? Hvað í innlegginu fannst þér ofsafengið?

 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.11.2009 kl. 19:43

 

---------

 

Sæl Tinna Gígja.

Þar sem að mér finnst ekki grundvöllur á að ræða við þig á þeim nótum sem að þú sækist eftir, Þá leyfi ég mér að halda mér við mína trú og þú getur eins og Guð gaf öllum VILJA til að gera hvað hann/hún vildi .

Það er nefnilegur langur vegur (og eins stuttur) á milli Ljóss og myrkurs . Þú rökræðir bara í hótunum og þess vegna LOKA ég á þig.

Ég hef annað við tíman að gera , það er fullt af góðu fólki til í tilverunni.

Kær kveðja á þig og ég vona að þú hugsir í framtíðinni.

 

Þórarinn Þ Gíslason, 9.11.2009 kl. 03:10

-----------

 

Ha?


Plögg

Fyrstu tveir hlutar ferðasögunnar eru komnir upp (á ensku) hér og hér.

 

Sýnishorn:

 In retrospect, it would have been clever to ask the confused librarian about the best way to walk. Instead, I walked along the highway. Never a good idea. Let me repeat that for those in the back: walking along the M20 is a bad idea.

---

The strange man offered me a seat and produced a paper plate full of crisps (that's chips to an American) out of thin air.

 

O.s.frv.


Skýringar

a) Þetta er bátur eða annað fljótandi í vatninu.

b) Þetta er fokkerí frá einhverjum google-starfsmanni.

c) Þetta er furðuvera sem hefur lifað í frekar litlu stöðuvatni síðustu hundrað/þúsund/milljón ár, en sem aldrei hefur náðst skýr mynd af og aldrei fundist nokkur sannanleg merki um.

 

Lof mér hugsa...


mbl.is Nessie á Google Earth?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, Jesús!

Úr dagbók árásarmannsins:

 

"Maybe soon, I will see God and Jesus. At least that is what I was told. Eternal life does NOT depend on works. If it did, we will all be in hell. Christ paid for EVERY sin, so how can I or you be judged BY GOD for a sin when the penalty was ALREADY paid. People judge but that does not matter. I was reading the Bible and The Integrity of God beginning yesterday, because soon I will see them."

 

'Nuff said.


mbl.is Fjórir látnir eftir skotárás í íþróttasal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómar

Mikið er fólk fljótt að stökkva upp og tilkynna viðbjóð sinn opinberlega. Mín fyrstu viðbrögð við greininni voru að velta því fyrir mér hversu margir hefðu -líkt og ég- fundið fyrir einhverskonar hneykslun, ekki á dýrahaldaranum heldur á setningunni "Dýrin voru flutt að Keldum þar sem gerðar voru viðeigandi ráðstafanir."

Hversu margir kipptu sér ekkert upp við það að stór hópur gæludýra einhvers væri drepinn?

Hversu margir ætli líti svo á málið að það sé réttlætanlegt að drepa dýrin vegna þess að þau eru jú ólögleg hérlendis?

Hversu margir fundu til samúðar með dýrahaldaranum? En dýrunum? 

 

Hversu margir ætli hefðu tárast ef um hefði verið að ræða kettlinga eða hvolpa?

 


mbl.is Dýrin mín stór og smá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í brottför

Eftir sólarhring verð ég komin niður á BSÍ í þeim tilgangi að bíða þar í fimm tíma -úti- eftir rútudruslu sem mun flytja mig að flugstöðinni í hrauninu. Þar mun ég bíða í tvo tíma eða svo eftir að flugvélarskriflið fari í loftið. Um það bil þremur tímum eftir flugtak ætti ég svo að vera í nágrenni Lundúna.

Þá tekur við klukkutíma lestarferð til miðborgarinnar, tímadráp í nokkrar klukkustundir þar til gestgjafinn minn lýkur vinnu, en klukkan sjö er áætlað að eg standi fyrir utan leikhús að reyna að komast frítt inn. Að því loknu fer ég væntanlega í austurborgina að sofa.

 

Ég veit svosem ekki hvað fleira ég á að gera af mér í heimsborginni annað en að hitta Eden (sem verður ráfandi um með andlitsgrímu) og hugsanlega kíkja á einhver söfn og jafnvel einhvern okurpöbbinn. 

 

Þegar Lundúnadvölinni lýkur, líklega næstkomandi sunnudag, held ég svo í átt að Dover - með viðkomu í krummaskuðinu Swanley - og reyni þar að húkka mér far yfir til Calais. Frá Frakklandsströnd liggur leiðin til Brusluborgar, hvar ég mun njóta gestrisni hins gríska Georges, en eftir bjórsmökkun þar verður miðað á Rotterdam. Þar mun ég vonandi finna næturstað og sturtupláss, því þar byrjar gamanið.

 

Frá Rotterdam er ætlunin að rölta í rólegheitum sem leið liggur, í gegnum Niðurlönd, Þýzkaland, Austurríki (með hugsanlegum útúrdúr til Prag), Slóvakíu og til Búdapest í Ungverjalandi. 

 

Þar mun ég líklega hafa samband við Össur og fá þá til að senda mér einhverskonar róbótalappir svo ég komist aftur heim.

 


Gagg

Jeminn eini! Fyrst átti að eyðileggja hjónabandið og banna fólki að skíra börnin sín* og nú má ekki einu sinni lemja þau lengur! Fólk virðir ekki  hinn heilaga eignarrétt  og vogar sér svo að gagnrýna lögregluna fyrir það eitt að dangla í nokkra skítuga hippa! Ekki nóg með það, heldur er allskonar glæpamönnum hleypt hér inn í þokkabót!

 

Þetta land er klárlega á leið beint til andskotans!

 

 

*Ég finn ekki hneykslunarblogg Guðrúnar Sæm um þetta mál. Ekki getur verið að kerlingartuðran hafi eytt því? Var það kannske aldrei til?


Misskilningur

Í umfjöllun um hústökuna hef ég orðið vör við furðulegan misskilning sumra. Þeir virðast leggja það að jöfnu að nýta hús í niðurníðslu, hús sem gegna engu hlutverki nema sem 'pantégáetta' þar til hægt verður að reisa glerhallir - hvenær sem það á að verða - sem engin þörf er á, og það að ryðjast inn á heimili fólks eða stela bílum þess. Þetta fólk malar út í eitt um að eignarrétturinn sé "heilagur" og að hústökufólkið hefði bara átt að kaupa húsið ef það langaði svona í það.

Þegar þessi rök eru skotin niður er reynt að trompa með klassísku hringrökunum "þetta er ólöglegt", en aldrei reynt að ræða hvort lögin séu óréttlát. Þessi rök hafa einnig komið fram í umræðunni um lögleiðingu kannabiss og eru jafn fáránleg þar og hér.

 

Fyrsta punktinn er auðvelt að hundsa. Það er enginn að leggja til að fólk taki bara það sem það langar í eða flytji inn í næsta hús sem því líst á. Hvar mörkin liggja þarf að skoða, en það er greinilegt að hús sem hefur staðið autt í tvö ár og á ekki að fara að nota á næstunni er 'fair game'. Rétturinn til sköpunar og uppbyggilegrar starfsemi -að maður tali nú ekki um réttinn til þess að hafa þak yfir höfuðið, þó það hafi ekki verið aðal hvatinn í þessu tilfelli- verður að vera meiri en rétturinn til gróða og "eignar". 

Viljum við búa í samfélagi þar sem það er mögulegt að einn aðili kaupi upp öll hús við heila götu til þess eins að láta þau drabbast niður á sama tíma og fólk neyðist til að sofa undir grenitrjám á Klambratúni? 

 

Annar punkturinn er örlítið raunveruleikafirrtur. Á Íslandi eru afar fáir sem hafa getu til að kaupa hús án stórfelldrar lántöku, hvað þá hús á þessum stað, og enn síður þegar einhver verktaki er búinn að kaupa staðinn og reikna út gróða upp á mörg hundruð milljónir. Verktakinn er ekki á leiðinni að selja, það er deginum ljósara. Ekki þegar hann sér minnsta möguleika á að fá að rífa húsin og byggja versunarmiðstöð sem gæti fræðilega fært honum tugmilljónir ef ekki milljarða, sama hversu fjarri raunveruleikanum sá möguleiki er.

Þriðju rökin eru í raun engin rök nema þú lítir svo á að lög séu sjálfkrafa réttlát. Einhverjir reyna þó að vera málefnalegir og benda á að þó okkur líki ekki við lögin verðum við að fara eftir þeim þar til hægt er að breyta þeim. Ég vil á móti segja að glæpur er ekki glæpur án fórnarlambs, sama þó lög séu brotin. Ef ég stel bílnum þínum er ég að svipta þig afnotarétti, þar ert þú fórnarlambið.

Ef þú hins vegar átt hús sem þú neitar að halda við, notar það aldrei og ætlar að rífa það 'einhverntíma í framtíðinni', hvernig skaða ég þig með því að nota húsið þangað til þú rífur það? Jafnvel þó ég bryti rúður eða veggi væri erfitt fyrir þig að kalla það eignaspjöll - þú ætlaðir jú sjálfur að rífa húsið.

 

Einhverjir hafa bent á að þar sem húsið sé rafmagns- og vatnslaust sé eldhætta mikil. Þessu er auðvelt að kippa í lag; þú einfaldlega opnar fyrir rafmagn og vatn. Reikninginn fyrir notkuninni  er hægt að senda á einn eða fleiri úr hústökuhópnum. Ég efast um að þau myndu setja sig upp á móti því.

 

 Við skulum síðan líta aðeins á aðgerðir lögreglu. Flestir vona ég að séu sammála því að þær hafi verið of harkalegar, en einhverjir þarna úti klappa sjálfsagt og gleðjast yfir því að löggan hafi lúskrað á "skrílnum". 

Aðrar leiðir voru vel færar. Fólkið hefði komið út á endanum, því eins og Eva Hauksdóttir sagði, þurfa meira að segja anarkistar að borða og skíta.

Best hefði þó verið að leyfa fólkinu að vera. Þarna var engin niðurrifsstarfsemi í gangi, þvert á móti var mikil uppbygging í gangi þessa fáu daga sem hústökufólkið hafði húsið. Búið var að opna fríbúð þar sem ýmislegt var á boðstólum, m.a. föt, geisladiskar og bækur, allt án endurgjalds. Gestum og gangandi var boðinn matur án endurgjalds, eins og reyndar hefur verið gert á Lækjartorgi undanfarna laugardaga. Til stóð að hafa ýmiss konar starfsemi í húsinu; listsköpun, fræðslu, meira að segja ráðleggingar frá læknanemum. Rækta átti grænmeti við húsið.

Ekkert af þessu getur flokkast undir niðurrifsstarfsemi nema í augum þeirra sem enn líta á peninga sem tilgang alls. Ef ekkert er rukkað, segja þeir, er enginn tilgangur. 

Þeir skilja ekki að sumt er mikilvægara en peningar og að hús eru tilgangslaus ef þau standa auð og ónotuð. Líklega munu þeir aldrei skilja það, en með hústökunni var fyrsta skrefið stigið. Nú er málið að halda áfram, taka fleiri hús, og sýna fram á að samfélagið hagnast á því að hugsa út fyrir ramma gróða og græðgi.


mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hústökulög! Taka 3

Fyrir tæpu ári síðan skrifaði ég bréf sem ég sendi til Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra. Ég fékk ekkert svar, enda gleymdi ég lykilorðunum svar óskast.

Mér datt í hug að senda svipað bréf í dag - í tilefni af hústökunni á Vatnsstígnum- en nú nálgast kosningar, þinglok eru handan við hornið og því varla mikið upp úr því að hafa að bombardera vesalings Ástu Ragnheiði með mínum sundurlausu pælingum.

Önnur hugmynd er að senda bréf til stjórnmálaflokkanna og hvetja þá til að beita sér fyrir lögum um hústökurétt. Ég hef því miður ekki mikla trú á því að stjórnmálaflokkar beiti sér fyrir einhverju sem peningamennirnir eru ósáttir við. Þetta er kannske óþarfa svartsýni hjá mér. Kannske er núna einmitt rétti tíminn: fasteignabraskararnir þora ekki að segja neitt, því þjóðin er ekki enn búin að fyrirgefa þeim. Það er betra fyrir þá að hafa hægt um sig. 

 

Hvað finnst ykkur? 

 ---

Hér er afrit af bréfinu:

 Sem kunnugt er standa fjölmörg hús auð og ónotuð víðsvegar um borgina. Á sama tíma eru margir heimilislausir, hugsanlega yfir hundrað manns. Auk þeirra er stór hópur fólks sem vart hefur efni á leiguíbúðum.

Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að enginn hafi komið með þá tillögu sem ég útlista hér að neðan. Hugsanlega er þar um að kenna hugmyndaleysi þó sjálfsagt komi þar að fleiri þættir, svo sem mótstaða húsnæðiseigenda - þeirra sem hvað mest græða á hinu háa leiguverði- og verktaka sem láta hús drabbast niður í þeim tilgangi að fá leyfi til niðurrifs.

Hver svo sem ástæðan er breytir það ekki stöðunni. Því kem ég með þá tillögu að slá þessar tvær flugur í einu höggi: nýta það húsnæði sem autt stendur og minnka fjölda heimilislausra í borginni. Lausnin er einföld, svo einföld að það er ótrúlegt að enginn hafi borið fram tillögu þessa efnis á hinu háa Alþingi. Lausnin er að setja hústökulög.

Í Bretlandi, Hollandi og víðar hafa hústökulög verið við lýði í lengri tíma, víða með góðum árangri. Þó fjöldi heimilislausra í þessum löndum sé meiri en hér leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri verri ef ekki væri fyrir hústökulögin. Í löndunum í kringum okkur er að finna fjöldann allan af yfirteknum húsum -jafnvel heilu hverfin- og nægir þar að nefna Kristjaníu í Kaupmannahöfn, Ernst-Kirchweger-Haus í Vín og Can Masdeu í Barcelona.

Í Hollandi er leyfilegt að yfirtaka hús hafi það staðið autt í tólf mánuði eða lengur og eigandinn hafi ekki brýna þörf fyrir notkun þess (svo sem útleigu sem hefst innan mánaðar). Hústökufólkið sendir síðan eiganda og lögreglu tilkynningu um að húsið hafi verið yfirtekið og geta þeir aðilar þá skoðað húsnæðið og gengið úr skugga um að ekki hafi verið unnar skemmdir á því. Einnig staðfesta þeir að viðkomandi hústökuaðili búi þar, þ.e. að á staðnum sé rúm, borð og stóll, sem og lás sem hústökuaðili hefur lykil að.

Í Bretlandi eru svipuð lög, hústökuaðili verður að hafa lyklavöld að húsnæðinu og eigandi má ekki vísa hústökufólki á dyr án dómsúrskurðar þess efnis. Varla væri erfitt að setja svipuð lög hérlendis og hef ég tekið saman nokkra punkta sem mættu vera til staðar í lögum:

1. Hafi hús staðið autt og ónotað í eitt ár (12 mánuði) eða lengur má aðili annar en eigandi setjast þar að án sérstaks leyfis.

2. Hústökuaðili skal skipta um lása, gera við brotnar rúður með viðeigandi hætti, greiða fyrir vatn og rafmagn sem hann kann að nota (og hugsanlega skrá lögheimili sitt í húsnæðinu). Séu þessi skilyrði uppfyllt má eigandi ekki vísa hústakanda úr húsnæðinu án dómsúrskurðar þess efnis.

3. Þegar hústakandi hefur uppfyllt þau skilyrði sem nefnd eru í 2. lið skal hann tilkynna eiganda um hústökuna, sem og lögreglu, og skulu þeir aðilar (ásamt félagsráðgjafa ef svo ber við) staðfesta að húsnæði og hústakandi uppfylli skilyrðin.

4. Til að eigandi fái dómsúrskurð skal hann sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann eða leiguaðilar muni nýta húsnæðið innan mánaðar, og skulu tvær vikur þess mánaðar vera "uppsagnarfrestur" hústakanda, en hinar tvær seinni nýttar til að gera úrbætur á húsnæðinu ef þess þarf.

5. Hústakandi má ekki vinna aðgang að húsinu með ólöglegum hætti, svo sem innbroti, en skal njóta vafans hafi skemmdir áður verið unnar á húsnæðinu án þess að sannað verði hver hafi staðið þar að verki.

 

Ég trúi því að setning hústökulaga verði til góðs, bæði fyrir heimilislausa og borgina alla. Nú þegar kreppa er í sjónmáli má búast við því að heimilisleysi aukist frekar en hitt og því nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu til verndar málsaðilum. Það er til háborinnar skammar að hér á landi skuli finnast heimilislausir á sama tíma og tugir húsa standa auðir og yfirgefnir, sérstaklega í ljósi þess hve auðvelt væri að ráða bót á vandanum.

 


mbl.is Hústökufólk á Vatnsstíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband