Færsluflokkur: Löggæsla

Æ, af hverju er alltaf verið að skemma allt með vísindum?

Fyrir nokkrum dögum birtist þessi frétt á mbl.is:

 

Viðhorf ungmenna til marijúana er breytt og þau hafa í auknum mæli þá afstöðu að marijúana sé ekki fíkniefni. Þetta er mat Bryndísar Jensdóttur, ráðgjafa hjá Foreldrahúsinu.

Hún segist fá stöðugt fleiri símtöl frá foreldrum barna sem gangi vel í skóla en séu að fikta við þetta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Á netinu sé að finna mikið af upplýsingum sem dragi upp jákvæða mynd af kannabis þar sem því sé haldið fram að efnið sé skaðlaust eða skaðlítið.

 

Já, er það ekki hræðilegt að blessuð börnin skuli kunna að nálgast áreiðanlegar upplýsingar á netinu í stað þess að hlusta á áróður misviturra manna (hverra lifibrauð, sumra, veltur á því að fólk trúi fyrrnefndum áróðri). Nú taka breskir vísindamenn undir þetta. Alltaf þurfa þessir helvítis vísindamenn að skemma allt.

 

Það er auðvitað fyrir öllu að fólk - og þá sérstaklega ungt fólk - geri sér grein fyrir þeim áhættum sem fylgja hinum ýmsu tegundum vímuefna. Með það í huga læt ég þennan link fljóta með, en þar er hægt að nálgast vísindalegar upplýsingar um áhrif og áhættu neyslu: http://www.drugscience.org.uk/ 

Hræðsluáróður er hættulegur. Vísindalegar staðreyndir eru mun betri grunnur fyrir fræðslu.

 

_49729408_drugs_comparisons_464gr

 

 


mbl.is Áfengi hættulegra en ólögleg fíkniefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber starfsmaður kemur upp um einbeittan brotavilja

Séra Geir Waage er hugsanlega glæpamaður. Það er a.m.k. vel mögulegt að einhver hafi sagt honum frá einhverju sem séranum er skv. lögum skylt að tilkynna, en það hafi Geir ekki gert. Það er auðvitað mun líklegra að Geir hafi aldrei þurft að takast á við slíka játningu.

 

Ég vona að þessi kærleiksríki og auðmjúki þjónn Guðs þurfi aldrei að horfast í augu við barn sem orðið hefur fyrir misnotkun eða öðru ofbeldi og útskýra fyrir því að þó hann hafi vitað af ofbeldinu hafi hann ekki viljað gera neitt. Hvernig ætli Geir færi að því að réttlæta þessa afstöðu fyrir fórnarlömbunum? 

 

Ég hlakka til að sjá hvernig - eða öllu heldur hvort - biskupsómyndin tekur á málinu. Sjálfur tók hann fullan þátt í að reyna að þagga niður glæpi Ólafs Skúlasonar á sínum tíma, svo það verður varla að teljast líklegt að hann skammi Geir fyrir að hylma yfir aðra glæpi. Það sama hlýtur að gilda um glæpamennina sem Geir vill hlífa og háheilagan nauðgarann hvers stól Karl vermir - Guð einn mun dæma

Geri Karl ekkert er það sameiginleg skylda yfirvalda og sóknarbarna í Reykholti að sjá til þess að skeggapinn í svarta kjólnum fái ekki tækifæri til að hylma yfir glæpi barnaníðinga. Prestar eru opinberir starfsmenn, laun þeirra eru greidd af skattgreiðendum með milligöngu ríkisins, og það er ólíðandi að hafa opinberan starfsmann á launaskrá eftir að hann hefur lýst því yfir að hann hyggist brjóta ekki bara siðareglur eigin stéttarfélags, heldur landslög, að ekki sé minnst á siðferðisbrotið sem felst í þessu. Lögum samkvæmt gæti Geir átt yfir höfði sér allt að árs fangelsi, láti hann hjá líða að tilkynna glæpi gegn börnum. 

Klerkur tekur sér hér stöðu með kúgurum og ofbeldismönnum, gegn fórnarlömbum þeirra.

 

Það er þá aldeilis kristilegt, eða hvað?


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt.

Í fréttinni segir eftirfarandi:

 

 "Björgvin lét í ljós  þá skoðun í viðtalinu að fórnarlömb nauðgana hefðu stundum getað minnkað líkur á broti með því að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni. Fólk setti sjálft sig í aukna hættu með drykkju og dópneyslu."

 

Þetta er akki alveg rétt. Orðrétt sagði Björgvin (skv. DV amk.)

"Oftar en ekki eru þessi mál tengd mikilli áfengisnotkun og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem er útsettur fyrir því að lenda í einhverjum vandræðum. Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðina yfir á þá. Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér.“"

 

Fjaðrafokið er yfir nákvæmlega þessum orðum, að oftast séu nauðgunarmál ekki á ábyrgð neins nema fórnarlambsins, enda erfitt að túlka þau öðruvísi. Björgvin sagði ekki "Þið eruð í meiri hættu á að verða fyrir nauðgun ef þið eruð sauðfullar á Apótekinu með lappirnar upp í loft. Passið ykkur svolítið," heldur sagði hann "Oftar en ekki eru nauðganir engum nema fórnarlambinu að kenna." 

 

Honum er auðvitað frjálst að hafa þá skoðun. Hins vegar er ekki sniðugt að þetta viðhorf sé að finna hjá manni sem vinnur við það að rannsaka nauðganir. 

Ég gef heldur ekki mikið fyrir lesskilninginn hjá formanni Lögmannafélagsins.


mbl.is Segir ofstæki ráða ferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna að biðjast afsökunar?

Í frétt Telegraph er talað um að minnisblaðið hafi 'hæðst að' kenningum kaþólsku kirkjunnar.  Skjalið umdeilda er listi yfir það sem ritarar þess myndu vilja sjá páfann gera í opinberri heimsókn til Bretlands. Með því fylgdi þetta kaveat:

 

"Please protect; these should not be shared externally. The ‘ideal visit’ paper in particular was the product of a brainstorm which took into account even the most far-fetched of ideas." 

 

Kaþólski biskupinn af  Nottingham hafði þetta að segja:


“This is appalling. You don’t invite someone to your country and then disrespect them in this way. It’s outlandish and outrageous to assume that any of the ideas are in any way suitable for the Pope.”

 

 

Þetta er því miður ekki erkibiskup, en hann er hálfnaður - hann er greinilega erkifífl

 

Skoðum listann aðeins og athugum hvort við komum auga á eitthvað svakalega móðgandi:

pope2_1623149a

 

Er það virkilega talin móðgun að leggja til að karlskarfurinn standi fyrir máli sínu í kappræðum? Eða að hann snúi við heimskulegri og hættulegri stefnu Vatíkansins í getnaðarvarnamálum - og leggi blessun sína yfir staði sem hjálpa fórnarlömbum sömu stefnu? Eða að hann láti af kynjamismunun? Eða að hann hætti að mismuna fólki eftir kynhneigð? Eða að hann taki raunverulega á barnanaugðunarmálum og hjálpi fórnarlömbum þeirrar stefnu sem hann hefur fylgt í þeim málum? Er þetta það sem móðgar kaþólikka? Er ekki allt í fokking lagi með ykkur? 

 

Okkur finnst allt í lagi að gera þá kröfu til ríkja sem vilja ganga í bandalög eins og SÞ eða ESB að þau breyti stefnu sinni í mannréttindamálum, en það er "móðgandi" að stinga upp á - innan lokaðs hóps, eins og ætlunin var - að svokallaður "andlegur leiðtogi" milljóna manna geri hið sama? 

Okkur finnst allt í lagi -og hvetjum meira að segja til þess- að gagnrýna múslimaríki fyrir kynjamisrétti og hómófóbíu, en það má ekki gagnrýna gamla, hvíta, krumpaða kallfíbblið í gullhásætinu fyrir það sama?

advent11oo8

 

 


mbl.is Biðjast opinberlega afsökunar á „smokkaminnisblaði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki með böll...

...má ég þá vera á móti banninu?

 

Mig langar að vita hvar næstum helmingur þingmanna var.

Mig langar að vita hvernig hægt er að setja lög sem innan við helmingur þingmanna samþykkir.

Mig langar að vita hvort þessi 31 þingmaður - og þeir sem klappa og fagna hvað hæst - haldi að þessi lög komi í veg fyrir mansal.

Mig langar að vita hvort þessu fjandans landi sé viðbjargandi. 

 

Endilega fræðið mig.


mbl.is Alþingi bannar nektardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðrún og tjáningarfrelsið

Einhverjir kannast kannske við Guðrúnu nokkra Sæmundsdóttur, sem ég hef stundum reynt að rökræða við, og sem bannaði mér að setja inn athugasemdir hjá sér. Fyrir þá sem eru svo heppnir að gera það ekki, er Guðrún fyrrum frambjóðandi hins misheppnaða L-lista, og hennar helstu baráttumál eru að halda Íslandi utan ESB, að skerða mannréttindi, að senda alla neytendur ólöglegra vímuefna úr landi (en þó mærir hún konur sem af hetjuskap fara kasóléttar á fyllerí í stað þess að fara í fóstureyðingu ef þær geta ekki sleppt því að þamba áfengi í níu mánuði) og að berjast gegn talsmanni Djöfulsins, í Jesú nafni.

Ég er sumsé talsmaður Djöfulsins (með stóru D-i).

 

Þetta fræddi hún mig um eftir nokkuð langar og...sérstakar umræður á bloggi Páls Vilhjálmssonar. Umræðan snérist í upphafi um trúariðkun innan veggja Háskólans, en Guðrún var fljót að afvegaleiða þá umræðu. Ég er svosem ýmsu vön frá henni, en meira að segja ég varð hissa á nýjasta útspili hennar.

Eftir að hún hafði ítrekað þá skoðun sína að ég (eins og allir aðrir sem vilja endurskoða misheppnaða fíkniefnalöggjöf hér á landi) væri siðblind og illmenni, ýjað að því að ég væri búin að skaða mig andlega á vímuefnaneyslu og væri hugsanlega fíkniefnasali, og líkti mér við barnaníðing, auk þess að kalla mig talsmann bæði Djöfulsins og náfrænda hans, Fíkniefnadjöfulsins (gott ef hún líkti ekki samskiptum okkar við þau sem eiga að hafa átt sér stað á milli Djöfulsins og sjálfs Jesúsar Jósepssonar samkvæmt frásögnum Nýja Testamentisins) missti ég þolinmæðina og mælti með því að hún leitaði sér hjálpar sálfræðings. Þá kom hún með þetta óborganlega innlegg:

 

"Tinna ég er einmitt að pæla í að leita mér hjálpar við að koma lögum yfir þig og aðra sem að auglýsa dóp hér á netinum [sic] með því að vísa í tilhæfulausar "rannsóknir" um skaðleysi eiturlyfja. Það er leikur einn að fletta upp öllum dópáróðri frá þér hér á netinu og það er kominn tími til að þú verðir látin svara fyrir hann í réttarsölum."

 

Þar sýndi hún sitt rétta andlit, auk þess að koma upp um hversu fáfróð hún er um þau lög um tjáningarfrelsi sem gilda hér á landi - nema henni sé hreinlega alveg sama um sjálfsögð grundvallarmannréttindi annarra. Það kæmi svosem ekki á óvart, enda hefur hún látið svipaðar skoðanir í ljós áður. Hins vegar hefur hún aldrei, að mér vitandi, hótað að kæra fólk fyrir það eitt að hafa skoðanir sem stangast á við hennar og að rökstyðja það með því að vísa á heimildir. Þar er þó kannske komin skýring á því hvers vegna henni gengur almennt svo illa að rökstyðja mál sitt- hún hélt að það væri ólöglegt!

Ég vil trúa því að Guðrún hafi skrifað þetta innlegg í geðshræringu, en hún virðist komast í slíkt ástand furðulega oft, eins og sést á skrifum hennar (sérstaklega þegar rætt er um vímuefni) sem best er lýst með orðinu 'hysterísk'.

 

Hefði hún stoppað til að hugsa eilítið áður en hún sendi þessa hótun inn, hefði hún vonandi séð nokkra annmarka á henni. Í fyrsta lagi, eins og ég minntist á að ofan, ríkir tjáningarfrelsi á Íslandi, þrátt fyrir innilegar óskir Guðrúnar um afnám þess. Þó svo að dreifing og sala ýmissa vímuefna sé ólögleg, er fullkomlega löglegt að tjá sig um þau. Guðrún gæti því ekki kært mig fyrir það að benda fólki á þá staðreynd að rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að kannabis er ekki jafn hættulegt og Guðrún og aðrir sjálfskipaðir siðferðispostular hafa haldið fram. Það veldur ekki siðblindu, það leiðir ekki sjálfkrafa til neyslu harðari vímuefna, og það er mun minna ávanabindandi og minna hættulegt en bæði tóbak og áfengi. Þetta eru staðreyndir, sama hversu mikið Guðrún neitar þeim.

Í öðru lagi, jafnvel þó það sem ég taldi upp að ofan væri rangt, og kannabis væri í raun stórhættulegt eiturlyf sem breytti jafnvel heilbrigðasta manni í morðóðan siðblindingja með geðklofa og barnagirnd, þýddi það eingöngu að ég hefði haft rangt fyrir mér. Það er ekki ólöglegt að hafa rangt fyrir sér - annars væri Guðrún sjálf í ansi slæmum málum, ásamt reyndar öllum jarðarbúum - og því getur hún ekki kært mig fyrir það.

Í þriðja lagi er það svo að jafnvel þó við lítum framhjá fyrstu tveimur atriðunum, og gæfum okkur að Guðrún gæti kært mig fyrir það að dreifa vísvitandi röngum upplýsingum, þyrfti hún fyrst að sanna tvennt: að allar þær rannsóknir sem ég hef vísað í og allar þær fullyrðingar sem ég hef sett fram séu rangar, og að ég hafi vitað að þær voru rangar. Þetta gæti reynst erfitt, og þá sérstaklega síðarnefnda atriðið. Þess vegna væri það ekki tímans og peninganna virði að reyna það.

 

Nú hef ég næga trú á lögunum (a.m.k. þeim sem snúa að tjáningarfrelsi) til að treysta því að jafnvel þó Guðrún héldi í alvöru að hún gæti kært mig fyrir "dópáróður" myndi fyrsti lögfræðingur sem hún leitaði til hlæja hana út af skrifstofunni, og engin yfirvöld myndu reyna að traðka svo á skoðanafrelsi mínu, ef ekki væri nema bara með þeim rökum að það væri slæmt fyrir ímyndina, að ekki sé minnst á að slíkt mál bryti í bága við alla mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Ég vona að Guðrún hafi eingöngu meint þetta sem illa úthugsaða hótun, í þeirri von að meintir yfirmenn mínir, Djöfullinn og Fíkniefnadjöfullinn hafi eyðilagt alla rökhugsun í útúrdópuðum kolli mínum. Því miður fyrir Guðrúnu er það ekki svo.

 

Það skásta sem ég gæti sagt um Guðrúnu er að hún er of bjartsýn. Hún virðist í alvörunni halda að það sé hægt að útrýma fíkniefnum á Íslandi, en hennar aðferðir eru ekki bara óraunhæfar, heldur ógeðfelldar, hvernig sem á þær er litið.

Auk þess að vilja afnema frelsi einstaklingsins (allt frá fæðingu) hefur Guðrún stungið upp á því, að því er virðist í fullri alvöru, að senda alla vímuefnaneytendur og -sala til Hollands. Við fyrstu sýn er þetta ekki svo slæmt: kannabismálin í Hollandi eru jú ásættanlegri en hér, og Guðrún er a.m.k. ekki að hvetja til ofbeldis. Þegar betur er að gáð sést þó innræti Guðrúnar. Hún heldur því fram að vímuefnasalar herji vísvitandi á börn og leitist við að gera þau háð sem flestum og sterkustum fíkniefnum, enda siðblindir, fégráðugir barnaníðingar. Þessi ímynduðu ómenni vill Guðrún losna við úr landinu, en hún sér ekkert að því að leyfa þeim að herja á börnin í Hollandi. Það er nú öll manngæskan- hún á bara við um Íslendinga.

Hefði Guðrún einhvern snefil af rökhugsun, myndi hún ekki láta svona útúr sér. Hún hefur hinsvegar sýnt það aftur og aftur að hún er ekki fær um að skilja einföldustu rök. Hún heldur því blákalt fram að þeir sem helst vilja lögleiða kannabis hljóti að vera að selja það, ellegar á mála hjá einhverjum sem það gera. Þarna er augljós rökvilla: þeir sem græða mest á að halda vímuefnum ólöglegum fara varla að berjast fyrir því að varan verði gerð lögleg og þar með tekin úr höndunum á þeim.

Þrátt fyrir að ég og margir fleiri hafi margoft reynt að útskýra þessa einföldu staðreynd fyrir Guðrúnu, og gekk ég jafnvel svo langt að setja þetta upp sem barnasögu í þeirri von að einfalt ritmál og barnalegt orðfæri næði til hennar, en allt kemur fyrir ekki. Hún stingur puttunum í eyrun og kallar okkur siðblind. Þegar henni er bent á að ekki allir sem vilja endurskoða lögin séu kannabisneytendur, galar hún um samsæri dópista. Þegar henni er bent á að ekki séu allir kannabisneytendur siðblind illmenni, dópsalar, heilaskemmdir ónytjungar eða heróínneytendur (staðreynd sem ætti að vera augljós þegar tillit er tekið til þess gríðarlega fjölda manna sem nota kannabis reglulega, hvað þá ef taldir eru allir þeir sem hafa neytt jurtarinnar einhverntímann á ævinni) heldur hún í lygina og líkir okkur við barnaníðinga.

Ég geri mér engar grillur um að Guðrún skipti nokkurn tíma um skoðun, enda er hún bæði illa haldin af áðurnefndum skorti á rökhugsun og þar að auki þrjósku og furðulegri kristinni öfgatrú, en slíkt fólk virðist hreinlega ófært um að horfast í augu við veruleikann ef hann stangast á við fyrirfram mótaða heimsmynd þeirra, sama hversu augljóst misræmið er og hversu veruleikafirrt sú heimsmynd er.

Hvers vegna er ég þá að þessu?

Jú, við Guðrún eigum eitt sameiginlegt: hvorug okkar vill að þeir sem lesa skrif hinnar taki mark á þeim sér og öðrum til skaða. Guðrún heldur því fram á þessum sama þræði að "áróður [minn] fyrir dópi" geti leitt til þess að einhver freistist til að prófa nefnt dóp og deyji jafnvel af þeim -og þar með mínum- völdum.

Ég aftur á móti kann illa við að sjá fólk eins og Guðrúnu komast upp með lygar, og þá sérstaklega lygar sem beinast gegn mér persónulega. Þess vegna held ég áfram að svara lygaáróðri Guðrúnar. Ekki vegna þess að ég vonist til að fá hana til að skipta um skoðun eða að ég sé að reyna að "vinna" þessar einhliða "rökræður", heldur vil ég ekki að óupplýstir lesendur bloggsins fái þá hugmynd að allir talsmenn endurskoðunar löggjafarinnar séu dópsalar sem herja á blogg, eða að allir sem neyta vímuefna séu siðblind illmenni eða með geðklofa.

Auðvitað ætti hverjum vitibornum manni sem les málflutning Guðrúnar að vera dagljóst að hann er ekki bara rangur heldur hreint út sagt svo fáránlegur að hann er á tímum eins og atriði í einhverjum súrrealískum sketsaþætti í anda Monty Python. Því miður á Guðrún sér eitthvað af skoðanasystkinum, og ég vil ekki að hún eignist fleiri. Ég vona innilega að hún komist aldrei í nokkra stöðu þar sem möguleiki er að hún hafi áhrif á börn eða unglinga, hvað þá að hún fái tækifæri til að spreyta sig á þingi eins og hún þráði svo heitt - og gerir kannske enn. Mig langar að trúa því að það sé enginn möguleiki á því að Guðrún fengi eitt einasta atkvæði, eða að nokkur manneskja taki hræðsluáróður hennar alvarlega, en af fenginni reynslu leyfi ég mér að fullyrða að því miður er það ekki svo. 

 

Einn galli Guðrúnar er kannske að vera of bjartsýn. Minn er þá sá að hafa ekki næga trú á landsmönnum. Munurinn er sá að mín vantrú á greind sumra (sem betur fer fárra, enn sem komið er) landa minna er byggð á reynslu. Tálsýn Guðrúnar er hins vegar ekki byggð á neinu nema hennar eigin ranghugmyndum og/eða vísvitandi lygum.

*Uppfært*

Bleyðan Guðrún hefur nú lokað á IP töluna mína, og viðurkennir þar með að hún er ófær um málefnalega umræðu. Gott væri ef einhver lögfróður maður benti henni snöggvast á lög um tjáningarfrelsi, þar sem hún virðist of þrjósk til að lesa þennan pistil minn. Hún bítur síðan höfuðið af skömminni með því að líkja umfjöllun um kannabis við barnaklám.


Hugleiðing

Segjum að ég ræni manni. Ég vel hann af handahófi, kippi honum inn í bíl og ek með hann út í sveit, þar sem ég á lítinn kofa. Þetta er nokkuð afskekkt, svo lítil hætta er á að einhver eigi leið hjá af tilviljun og bjargi manngreyinu. Ég er svosem ekkert vond við hann - hann fær nóg að borða, hann er með lesefni og sjónvarp sér til dægrastyttingar, hann fær meira að segja að senda bréf heim...ritskoðuð að sjálfsögðu. Skiljanlega get ég ekki leyft honum að hringja eða nota tölvu, en hann má skreppa út á skikann sem ég girti af með rafmagnsgirðingu og gaddavír eins og einu sinni á dag í klukkutíma í senn. Ekki má láta hann drepast úr hreyfingarleysi. Ég held manninum þarna í heilt ár, án tiltakandi vandræða (fyrir mig a.m.k.) en þá gerist hið ólíklega og einhver finnur okkur. Ég er að sjálfsögðu dregin fyrir rétt og kærð fyrir frelsissviptingu eða hvað það nú er sem fólk yrði kært fyrir í svona máli.

 

Spurningin er: hver er hæfileg refsing fyrr þennan glæp?

Ef ég hefði lokað manninn inni með hópi annarra manna og þeir beittu hann ofbeldi, andlegu eða líkamlegu, hver væri þá viðeigandi refsing? 

Ef ég hefði sleppt manninum að eigin frumkvæði, ætti það að hafa einhver áhrif?

 

En ef ég væri dómari sem hefði dæmt mann til refsivistar vitandi það að hann væri saklaus?


Hvernig á að banna búrkuna?

Ég er með spurningu til ykkar sem endilega viljið banna búrku/niqab; hver eiga viðurlögin við brotum á banninu að vera?

Þið segið að búrkan sé notuð til að kúga konur. Er þá réttlátt að refsa þeim fyrir að vera kúgaðar?

Þið segið að konur geti ekki mögulega valið þetta sjálfar, svo rökrétt væri að refsa þeim sem neyðir hana til að bera klæðin. Hvernig ætlið þið að sanna þann glæp? Ef konan sjálf heldur því fram að hún velji að bera niqab, ætlið þið þá að segja henni að hún geti ekki haft það val, hún sé bara heilaþvegin? Goð hugmynd: fátt sem eykur sjálfstraust kúgaðra kvenna meira en að segja henni að orð hennar séu ómarktæk af því að hún er bara (múslima)kona!

Þær konur sem raunverulega búa við það að vilja/mega ekki sýna andlit sitt á almannafæri nota niqab sem einskonar "ferðaheimili". Ef ekki er fyrir þessa ímynduðu "vörn" gegn öðru fólki, er hætta á að konan velji/sé neydd til að halda sig alveg innan veggja heimilisins. Ekki hjálpar það kúgaðri konu.

 

Ég er ekki viss um að þið hafið hugsað þetta nógu vel. Endilega segið mér hvernig á að framfylgja svona búrkubanni, ég sé það ekki alveg. 

 

Ég er fylgjandi því að konur hafi fullt frelsi til að klæða sig eins og þær vilja, hvort sem þær vilja hylja sig frá toppi til táar eða ganga um naktar (en það er efni í annað blogg) eða eitthvað þar á milli. Þú verndar ekki einstaklingsfrelsið með því að hefta frelsi einstaklingsins. Svo ég tönnlist nú á þessu hérna líka:

Þú verndar ekki rétt kvenna til fóstureyðinga með því að banna barneignir. Þú verndar ekki rétt til vinnu með því að neyða fólk til starfa. Þú verndar ekki málfrelsið með því að banna ákveðin orð, eða hugsanafrelsi með því að banna ákveðnar skoðanir. Þú verndar ekki trúfrelsi með því að banna ákveðna trú. 

Lögin banna nú þegar kúgun og nauðung. Að búa til sérstök búrkulög er óþarft, auk þess sem slik lög myndu hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. 

Að  hjálpa þeim konum sem raunverulega eru kúgaðar, hvort sem er vegna trúarbragða eða annars, er verðugt verkefni. Rétta leiðin til þess er hinsvegar ekki sú að banna ákveðinn klæðnað eða hegðun, svo lengi sem viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Með því að auka menntun og félagslegan stuðning við konur (og reyndar alla) sem eru í áhættuhópi, t.d. vegna trúar (eða vegna þess að viðkomandi er nýfluttur til landsins, þekkir engan og á því ekki jafn víðtækt tengslanet og aðrir, og aðhyllist auk þess trú þar sem kúgun kvenna er alltof algeng) er hægt að ná mun betri árangri en með því að gera viðkomandi að glæpamanni.

 

Ég mæli svo með því að þið lesið þessa grein.


mbl.is Danir deila um búrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband