Færsluflokkur: Trúmál

Of mikil mannréttindi?

Við þessa færslu hafa spunnist nokkrar umræður um múslima og stöðu þeirra á Vesturlöndum. Kannske er of langt gengið að kalla þetta "umræður", þar sem samskiptin snúast mest um hvað múslimar séu nú ömurlegir. Einhver "Brynjar" hefur þetta að segja:

"Það merkilega er að margir kanar eru vel meðvitaðir um þetta, t.d. hægri menn, en ríkisstjórn Obama er vilholl múslimum og stjórnmálarmi þeirra, t.d. er hann með sérstakan ráðgjafa á málum í Hvíta húsinu í málefnum íslam, sem að sjálfsögðu er múslimi. Sumir vilja meina að Obama sé sjálfur múslimi í laumi og vinni að uppgangi íslams, hann t.d. neitaði að sverja persónulegan embættiseið sinn, eftir opinberu athöfnina, við Bíblíuna eins og venja hefur verið þar í landi, hvað svo sem mönnum kann að finnast um það." (Feitletrun mín)

 

Þetta er auðvitað kjaftæði. Finnst mönnum það virkilega óeðlilegt að Obama skipi ráðgjafa um málefni múslima? Miðað við ástand samskipta Bandaríkjanna við múslimaríkin Írak og Afghanistan er varla vanþörf á. 

Obama neitaði síðan ekki að sverja embættiseið við Biblíuna, en rétt er að í seinna skiptið sem hann fór með eiðinn var engin Biblía við höndina og því var henni sleppt. Daginn áður sór hann hins vegar við Biblíu, en menn muna kannske eftir því að orðin rugluðust eitthvað við innsetninguna sjálfa og því sór Obama eiðinn aftur daginn eftir. Það var hins vegar formsatriði - hann var búinn að sverja við Biblið.

 

Einhver sem kallar sig "Mohammed" vísar á áróðursmyndbandið Muslim demographics, sem ég hef áður minnst á.

 

Alexander nokkur Kristófer - innvígður meðlimur Skúla-æskunnar- skellir svo fram þessum gullmola:

"Múslimar hafa of mikill mannréttindi í Evrópu"

 

 

Ég spurði hvað hann teldi "of mikil mannréttindi" og fékk á móti langdregið "svar" frá einhverri Jóhönnu Þórkötlu þar sem hún einblínir á mannréttindabrot múslima, að því er virðist til að gefa í skyn að ég sé eindreginn stuðningsmaður barnaníðs og misþyrminga. Jóhanna þessi virðist ekki skilja hugtakið mannréttindi. Þau enda nefnilega þar sem þau fara að ganga á rétt annarra. "Réttur" til að nauðga og misþyrma öðrum er ekki mannréttindi. 

Ég gerði ekki ráð fyrir því að Jóhanna vildi svör, en hún leiðrétti þann misskilning í næsta innleggi sínu:

"Ég hélt að mínar spurningar væru laufléttar þegar ég bað þig svara.  En þær virðast vefjast eitthvað um fyrir þér því engin fékk ég svörin.  En það sýnir hvað í rauninni þú átt erfitt.  En ég get svarað þínum spurningum strax.  Fólk sem aðhyllist þessi trúarbrögð eiga að halda sig heima þar sem það getur gólað 5sinnum á dag og látið okkar menningu í friði, hvort sem hún er betri eða verri.  Ég er afdráttalaust á móti múslimum og öllum þeirra kenningum og vona svo sannarlega að þjóðaratkvæðakosning verði um hvort þessir pedofilar eigi að koma til Íslands.(Mohammed giftist  9ára telpu. Er það ekki pedofili?) "

 

Þarna erum við komin að kjarna málsins: Jóhanna er á móti múslimum. Það er svosem fínt að fólk sé ekki að fela sorglega fordóma sína. Ég er hins vegar ansi hrædd um að ég fengi ekki góðar móttökur á blogginu ef ég segðist vera á móti kristnu fólki. Ég kann hins vegar að greina á milli persónu fólks annars vegar og heimskulegra skoðana þess hins vegar; Íslam er heimskulegt, fólkið sem aðhyllist það er flest ágætt, rétt eins og flestir sem aðhyllast heimskulegu skoðunina kristni eru fínasta fólk. 

 

 

Því miður þarf ég að púlla Jón Val á þetta - ég er nefnilega upptekin í kvöld og hef því ekki tíma til að fylgjast með þessu. Mig langar hins vegar að spyrja lesendur (ef einhverjir eru) hvort þeir geti nefnt dæmi um "of mikil mannréttindi"? Hvað felst í því?


Frekja bænarinnar

Bænir eru merkilegt fyrirbrigði - sérstaklega svona opinberar hópbænir. Þarna koma menn saman og auglýsa það hátt og skýrt að þessi Guð sem þeir þykjast treysta framar öllu öðru sé í raun ekki svo merkilegur pappír. Til hvers þarf að biðja?

Er Guð ekki að fylgjast með - er þetta "vitundarvakning" í von um yfirnáttúrulega íhlutun? Er Guð að leiða þjóðina til glötunar - og ef svo er, eiga bænir þá að fá hann til að skipta um stefnu? Eða er honum sama? Er hann kannske ekki til?

Nei, þetta fólk þykist handvisst um að Guð sé til. En það treystir honum ekki. Mér finnst það ósköp skiljanlegt. 

 

Ef Guð er til - þ.e.a.s. þessi kristni Guð - hlýtur honum að finnast svona samkunda frekar hjákátleg, ef ekki hreint og beint móðgandi. Fólk sem á ekkert sérstaklega bágt kemur saman til að biðja fyrir sjálfu sér. Ef ég væri Guð myndi ég senda svosem eina eldingu í rassinn á liðinu.

 

Hinn flöturinn á þessu er sá sem nefndur er í fréttinni:

"Með því vill hópurinn undirstrika að kristið fólk ber hag þjóðarinnar mjög fyrir brjósti."

 

Eigum við að leyfa Jesú að svara? Já, gerum það! Kíkjum á sjötta kafla Mattheusarguðspjalls:

5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

7Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. 8Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

 

Úps.

 

Kannske hef ég tekið þetta úr samhengi. Kannske stendu einhversstaðar skýrum stöfum að þetta eigi ekki við Íslendinga. Kannske tók Jesú þetta til baka stuttu seinna. "Djók! Auðvitað eigið þið að biðja um það sem þið viljið, annars veit pabbi ekkert hvað það er! Það er ekki eins og hann sé alsjáandi! Hahaha!"

 

 

 

Nei, ég veit hver tilgangurinn með þessu bænatauti er. Hann kemur fram í fréttinni. Tilgangurinn er að berja sér á brjóst og segja "sjáið hvað við eru góð - okkur er ekki sama". Það er fínt að fólki sé ekki sama. Það er verra að að skuli fremur kjósa að fara með gagnslausar galdraþulur en að gera eitthvað af viti. 

 cgSgl

 


mbl.is Bænastund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I'm back!

Best að reyna að drita einhverju á bloggið áður en heill mánuður verður liðinn frá síðustu færslu. 

 Ég hef enga afsökun fyrir því að vera ekki búin að blogga, aðra en þá að vera með krónískt janúarhatur. 

 

 

Hvað hefur annars gerst það sem af er árinu? Látum okkur nú sjá...

 

1. Janúar:

Árið hefst með hvelli þegar einhver klikkhaus sprengir sjálfan sig og hundrað aðra í loft upp í Pakistan. Gettu hverjir eru taldir bera ábyrgð á því. Auðvitað bregðast öldungar bæjarins við á rökréttan hátt: "Such attacks will only strengthen our resolve – being Pashtun, revenge is the only answer to the gruesome killings," said Mushtaq Khan, 50, head of the tribal council."

 

2. Janúar:

Klikkhaus reynir að drepa danskan teiknara, en mistekst. Árásin er skiljanlega fordæmd. Á sama tíma eru írskir trúleysingjar að berjast gegn nýsettum lögum sem banna guðlast. Ég skal endurtaka þetta: Árið 2010 eru gildandi lög á Írlandi (er það ekki annars einhversstaðar við hliðina á Úganda?) sem banna þetta

 

3. Janúar:

Ekkert sérlega merkilegt virðist hafa gerst, annað en jarðskjálfti í Tajikistan sem olli því að 20.000 manns misstu heimili sín. Þennan dag árið 1521 setti Leó X hins vegar Martein Lúther út af sakramentinu fyrir að vera óþekkur strákur, og 440 árum seinna gerði Jóhannes XXIII það sama við Fidel Castro (Pius XII var reyndar búinn að gera það sama við alla kaþólska kommúnista nokkrum árum áður, nokkuð sem hann hafði aldrei fyrir því að gera við nasista. Just sayin'.) 

 

4. Janúar:

Forseti Suður-Afríku kvænist en brúðurin þarf að deila honum með tveimur öðrum eiginkonum. Suður-Afríkubúar eru ekki allir jafn hressir með það að forsetinn skuli stunda fjölkvæni, og telja margir að það eigi ekki heima í nútímanum. Samkvæmt hefð þurftu hinar eiginkonurnar að mæta í brúðkaupið og samþykkja ráðahaginn. Hvað í andskotanum kemur það fólki eiginlega við? Hversvegna er fjölkvæni/veri svona mikið tabú?

 

5. Janúar:

Yfirvöld í Íran banna landsmönnum að hafa nokkur samskipti við yfir 60 nafngreindar stofnanir, þar á meðal BBC, Yale-háskóla, Human rights watch og "British Centre for Democratic Studies", sem virðist ekki vera til. Paranoja Ahmadinejads er bráðskemmtileg séð utan frá, en Íranir eru líklega ekki sérlega hressir með hana. 

 

6. Janúar:

Viðbjóðurinn James von Brunn drepst og er það vel. James þessi komst í fréttirnar um mitt síðasta ár þegar hann réðst inn í Helfararsafnið í Washington með riffil, myrti einn og særði annan. Lögregla fann minnisbók kauða, en þar mátti m.a. finna þetta: "You want my weapons — this is how you'll get them. The Holocaust is a lie. Obama was created by Jews. Obama does what his Jew owners tell him to do. Jews captured America's money. Jews control the mass media. The 1st Amendment is abrogated henceforth...."

Sjá einnig: Pius XII, Marteinn Lúther.

 

7. Janúar:

Að minnsta kosti sex Koptar eru drepnir í 'drive-by' árás í Nag Hammadi í Egyptalandi. Yfirvöld segja að árásin hafi verið í hefndarskyni, en tólf ára gamalli múslimastúlku í bænum var nauðgað af kristnum manni í nóvember í fyrra. Sama dag hentu Kenýamenn nöttaranum Abdullah el-Faisal yfir til Gambíu, en þeim hafði reynst erfitt að koma honum úr landi. Það er svosem ekki skrýtið að enginn hafi viljað taka við karltuskunni, en hann sat m.a. í fangelsí Bretlandi í fjögur ár fyrir hatursáróður. Einn af þessum skemmtilegu "drepum-alla-vesturlandabúa-og-gyðinga" múslimagrínistum. Þetta eru nú meiri kallarnir. Abdullah var reyndar vísað aftur til Kenýa, en er nú loksins kominn aftur heim til Jamaica þar sem hann getur haldið áfram að deila visku sinni og mannelsku.

 

8. Janúar:

Pólitíkus í Úganda gubbar því loksins út úr sér að kannske sé ekki alveg bráðnauðsynlegt að drepa samkynhneigða. Annar pólitíkus er fljótur að taka það fram að fyrri pólitíkusinn tali ekki fyrir hönd stjórnarinnar. Frumvarp sem lagt var fram á úganzka þinginu í október í fyrra mun, verði það samþykkt, herða refsingar við samkynhneigð og felur m.a. í sér dauðarefsingu fyrir þá sem stunda kynlíf með ólögráða einstakingi af sama kyni, HIV-smitaða og þá sem ítrekað gerast sekir um þann hræðilega glæp að vera samkynhneigður. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar heimsóknar frá bandarískum öfgatrúðum, en þeir hafa síðan reynt að draga úr hlutverki sínu. Í dag er refsingin við samkynhneigð í Úganda allt að 14 ára fangelsi, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sú refsing verði aukin í lífstíðarfangelsi. Ég held að ég sjái galla á því plani...

Sama dag var á portúgalska þinginu lagt fram frumvarp  um lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra, en frumvarpi um rétt samkynhneigðra til ættleiðingar var hafnað. Samkynhneigð hefur verið lögleg í Portúgal síðan 1982.

 

9. Janúar:  

Egyptar neita bílalestum með hjálpargögn um aðgang að Gaza eftir vesen í kringum Viva Palestina-bílalestina. Fyrr í vikunni urðu uppþot við landamærin, og egypsk yfirvöld voru svo óhress að þau vísuðu breska þingmanninum George Galloway úr landi og bönnuðu honum að snúa aftur. 

Múslimar halda áfram að ráðast á kirkjur í Malasíu, en þeir eru í frekjukasti yfir því að aðrir trúarhópar skuli voga sér að kalla sinn guð Allah líka. Þeir eru víst hræddir um að kristnir trúboðar fari að fokka í hausnum á fólki með því að segja því að 'Allah' vilji þetta og hitt, án þess að heilaþvottarþeginn fatti að þeir eru að tala um kaþólskan Allah en ekki hinn.

 

10. Janúar:

Íslamistasamtökin Al-Muhajiroun eru bönnuð í Bretlandi (aftur), en forystusauðir þeirra hafa verið duglegir við að dásama náungana nítján sem sáu um að framkvæma næníleven, auk þess sem meðlimir samtakanna hafa verið gripnir við að fikta með sprengiefni. Obbosí, það má ekki. Lögin sem notuð voru til að banna samtökin heita Terrorism Act 2000 og hafa m.a. verið notuð til að stöðva stórhættulega ljósmyndara, krikketleikara og fötluð börn.

 

11. Janúar:

Perry v. Schwarzenegger-málaferlin hefjast í Kaliforníu, en þau eiga að skera úr um hvort Proposition 8 (lagabreytingartillaga sem ógilti aftur hjónabönd samkynhneigðra) eigi rétt á sér. 

Sama dag lést Miep Gies, maðurinn sem hélt hlífiskildi yfir Önnu Frank og fjölskyldu.

 

12. Janúar:

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðar að fyrrnefnd hryðjuverkalög Breta brjóti í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu. 

  Jarðskjálftinn á Haítí:

Pat Robertson er viðbjóðslegt eintak af mannskepnu og ég sæi ekki mikið eftir honum ef hann hyrfi ofan í djúpa holu - og allir sem taka minnsta mark á honum mega fara sömu leið.

Trúboðarnir sem plöguðu Haítí forðuðu sér auðvitaðum leið og þeir gátu, sumum finnst fínt að þeir séu ekki að flækjast fyrir, en ég varð afskaplega reið. Auðvitað er áfall að lenda í svona svakalegum náttúruhamförum, en þegar fólk þykist vilja hjálpa Haítíbúum en flýr svo um leið og fólkið þarf alvöru hjálp - eitthvað annað og nauðsynlegra en bænagaul og Jesúmyndir - þá leyfi ég mér að verða reið. 

 

Kirkjur hafa þó verið duglegar við að senda hjálpargögn: Mormónar í Bandaríkjunum, í samvinnu við íslömsk hjálparsamtök, sendu 73 tonn af tjöldum, mat, fötum og sjúkragögnum. Catholic relief services gáfu 5 milljón dollara til að byrja með. Aðventistar gáfu milljón í viðbót. Þetta er auðvitað mjög gott.

 

Og Vísindakirkjan sendi eitthvað fokking pakk á staðinn, því ef það er eitthvað sem er nauðsynlegt á stað þar sem allt er rjúkandi rúst eftir jarðskjálfta, tugþúsund létust og eftirlifendur þurfa mat og læknisaðstoð þá er það hópur fólks sem telur að áfallastreituröskun sé samsæri lyfjaiðnaðarins og að eina lækningin við henni sé að pota í fólk. Góð hugmynd, djöfulsins viðbjóðslegu fokking blóðsugurnar ykkar.

 

13. Janúar:

Ef pabbi væri ekki dauður, hefði hann sjálfsagt dottið í það í tilefni af 78 ára afmælinu sínu. 

Forseti Úganda biður ríkisstjórnina um að endurskoða drepum-hommana-lögin, af ótta við að vesturlönd hætti að senda aðstoð til landsins. Hann notar tækifærið til að endurtaka ásakanir um að samkynhneigðir komi frá Evrópu til Úganda og bjóði skólakrökkum peninga fyrir að"skipta um lið".  Maðurinn er klárlega fáviti. 

Rottweilerinn hittir og fyrirgefur kerlingunni sem réðst á hann um jólin. Þegar Mehmet Ali Ağca reyndi að drepa Jóhannes Pál II tók það páfann tvö ár að fara og heimsækja hann og fyrirgefa honum. Ætli þeir séu með töflu uppi á vegg - skotárás: tvö ár, henda páfanum í jörðina: tvær vikur?

 

14. Janúar:

Fimm konur og tvö börn troðast undir og deyja á trúarhátíð við Ganges-fljótið á Indlandi, eftir að mörg hundruð manns reyna að komast um borð í sama bátinn. Ganges er talið heilagt fljót og því sækist fólk eftir því að "baða" sig upp úr þessum rennandi drullupolli. Sumir ganga svo langt að vera með smádropa (eða hugsanlega klessu) af "vatni" úr ánni, svo hægt sé að láta deyjandi fólk drekka það. Ég er reyndar ekki viss um röðina á þessu: það er alveg jafn líklegt að fólkið sé fullkomlega heilbrigt áður en það slafrar í sig sullinu. 

 

15. Janúar:

Ekkert merkilegt í fréttum þennan daginn, annað en að 91 ár er liðið frá 'the Boston molasses disaster'.  8.700.000 lítra tankur fullur af melassa sprakk þá á óvenju heitum vetrardegi í Boston. Melassabylgjan var á milli 2,5 og 4,5 metrar á hæð og fór á allt að 56 km hraða um göturnar. Menn og dýr festust í ilmandi sykurleðjunni og drukknuðu, enda melassi seigur og þungur. Enn þann dag í dag þykjast sumir finna melassalyktina þegar sérstaklega hlýtt er í veðri.

 

16. Janúar:

Deilan um Allah heldur áfram í Malasíu. Kristnir skemma mosku í hefndarskyni, að því er virðist með því að henda í hana flösku, hugsanlega áfengisflösku. 

Annað sem vert er að minnast á er að 80 ár voru liðin frá því að áfengisbannið í Bandaríkjunum gekk í gildi. Bannið varvið lýði til 1933, en þá áttuðu menn sig skyndilega á því að það var slæm hugmynd þar sem neðanjarðarhagkerfið blómstraði og mafíósar réðu lögum og lofum. Eins gott að við gerum ekki svona vitleysur lengur!

 

17. Janúar:

Íran ákveður að fresta pílagrímsferðum þar til trúarlögregla Sáda hættir að vera vond við sjíta sem koma í heimsókn til Mekka og Medína. Fyrir þá sem eru ekki klárir á muninum á sjítum og sunníum er hann í fyrsta lagi sá að sjítar trúa því að afkomendur tengdasonar Múhameðs séu guðlega skipaðir arftakar leiðtogahlutverksins á meðan sunníar trúa því að fyrstu fjórir kalífarnir hafi verið réttmætir erfingjar þess, og í öðru lagi er miklu skemmtilegra að segja shi'ite en sunni.

 

18. Janúar:

Íslömsku samstöðuleikunum er aflýst vegna deilna um nafnið á Persaflóa. Fleiri orð eru óþörf.

Mehmet Ali Ağca (sem, eins og áður var minnst á, mistókst að drepa JPII) er sleppt úr fangelsi. Hann telur sig sendiboða Guðs á jörðu og trúir því að heimsendir sé á næstu grösum. Það er rétt að taka fram að þarna er ég að tala um Mehmet, ekki páfann.

 

19. Janúar:

Hæstiréttur Bandaríkjanna  snýr við ákvörðun lægra dómsstigs um að ekki eigi að taka Mumia Abu-Jamal af lífi. Þeir sumsé ákváðu að það ætti að taka hann af lífi. Hvaða tilgangi þjónar það að taka manninn af lífi? Heldur einhver að hann sé svo hættulegur samfélaginu að það bara verði að drepa hann? Mér er drullusama hvort hann drap þessa löggu eða ekki, get the fuck over it. Free Mumia!

 

20. Janúar:

Réttarhöld hefjast yfir blábjánanum Geert Wilders, en hann er ákærður fyrir að segja ljótt um múslima. Eins og fram hefur komið er Geert Wilders blábjáni, en hann hefur samt fullan rétt til að líkja Kóraninum við Mein Kampf og vera fordómafullur apaköttur. Það er út í hött að reyna að senda menn í fangelsi fyrir það eitt að haga sér eins og algjör Skúli og mér finnst reyndar nokkuð sniðugt hjá honum að reyna að fá Bouyeri til að bera vitni. Það breytir því ekki að hann er blábjáni - meira að segja blábjánar eiga að njóta tjáningarfrelsis.

 

21. Janúar:

Annar tíðindalaus dagur. Sagan er samt full af skemmtilegum hlutum. Árið 1908 var reynt að banna reykingar kvenna á almannafæri í New York, en borgarstjórinn afnam lögin tveimur vikum seinna. Þennan dag árið 1921 fæddist Howard Unruh. Svo virðist sem Howard hafi snappað pínu á meðan hann var í skotgröfunum í seinna stríði, en þegar hann kom heim hélt hann dagbók yfir allt sem hann ímyndaði sér að nágrannar hans hefðu gert honum og merkti við þá sem hann vildi hefna sín á. Og svo gerði hann það; hann kom heim og sá að nýja garðhliðinu hans hafði verið stolið, svo hann fór í sparifötin, hótaði mömmu sinni með skiptilykli, greip Lugerinn sinn og skaut 13 manns, þar á meðal þrjú börn. Hann var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór á svona 'killing spree'.

 

22. Janúar:

Annar dauður dagur. Fokkit. 1973 komst hæstiréttur Bandaríkjanna að niðurstöðu í Roe v. Wade, en niðurstaðan var í stuttu máli sú að konur hefðu rétt til fóstureyðinga og að ríkið ætti ekki að skipta sér af þeim. Norma McCorvey ("Jane Roe") átti þrjú börn, það fyrsta þegar hún var 18 ára, annað þegar hún var nítján ára (hún gaf það barn til ættleiðingar), og málið sjálft snerist um þriðju óléttuna. Þá var Norma 21 árs og fráskilin. Málaferlin drógust hins vegar á langinn og hún eignaðist barnið, sem hún gaf einnig til ættleiðingar. Hún var lengi virk í baráttu kvenna fyrir vali og gaf út ævisögu sína árið 1994, en þar kom hún m.a. út úr skápnum. Trúarnöttari að nafni Flip Benham gargaði á hana þar sem hún sat og áritaði bækur að hún bæri ábyrgð á dauða 33 milljóna barna. Hann opnaði síðan 'Operation Rescue' stofu við hliðina á 'A choice for women', læknastofunni þar sem Norma vann. Þau fóru smám saman að tala saman og einhvernveginn vann hann hana á sitt band. Hún "frelsaðist", "hætti" að vera lesbía, og fór að berjast gegn réttinum til fóstureyðinga. Hún skírðist inn í kaþólsku kirkjuna og hefur verið dugleg að vera nöttari undanfarin ár - hún var meira að segja handtekin þegar Sonia Sotomayor sór embættiseið sem hæstaréttardómari, þar sem hún og annar mótmælandi görguðu á Al Franken á meðan hann hélt ræðu.

 

Jæja, var þetta ekki hressandi saga? Afsakið meðan ég æli.

 

23. Janúar:

Nefnd á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytisins mælir með því að 47 fangar sem nú er haldið í Guantanamo-fangabúðunum yrði haldið þar áfram (án réttarhalda) um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt skýrslu frá nefndinni eru mennirnir hættulegir, en sönnunargögn gegn þeim myndu ekki duga til að fá þá dæmda fyrir bandarískum dómstólum. Heppilegt að geta reddað sér svona. Bandaríska réttarkerfið er ekki fullkomið, en undir því áttu a.m.k. rétt á því að vita fyrir hvað þú ert ákærður, þú átt rétt á lögfræðingi og þú átt rétt á réttarhöldum. Það er náttúrulega ekki hægt að leyfa einhverjum stórhættulegum terroristum að njóta vafans. "Saklaus þar til sekt er sönnuð" á greinilega bara við um suma. 

Obama ætlaði reyndar að vera búinn að loka Guantanamo núna, en pappírsvinnan er víst hrikaleg. Nefndin flokkaði fangana í þrjá hópa; 35 fanga mun vera hægt að senda fyrir dómstól eða herdómstól og 110 má bara sleppa (hvað voru þeir þá að gera þarna?), auk þeirra 47 sem á að halda föngnum án dóms og laga.  Og hvers vegna er ekki hægt að nota sönnunargögn gegn þessum stórhættlegu mönnum fyrir bandarískum dómstólum? Jú, játningar eða vitnisburðir sem fást með pyntingum eru ekki gildir. Úps. 

 

24. Janúar:

Létt popp í lokin? Black Eyed Peas fengu afhent verðlaun sem besta erlenda hljómsveitin á NRJ tónlistarverðlaununum í Cannes í Frakklandi. Vandamálið var bara að sveitin vann alls ekki. Þýska hljómsveitin Tokio Hotel átti að hljóta verðlaunin, en kynnirinn ruglaðist á línum og las upp rangt nafn. Það sem gerir þetta enn skemmtilegra er að svipuð mistök áttu sér stað fyrir ári síðan, en þá fékk Katy Perry óvart afhent verðlaun fyrir besta erlenda lagið, en Rihanna átti að hljóta þau. Þessir Frakkar. Zey are crazy, non?

Og við höldum okkur við tónlistina, því tveir merkismenn eiga afmæli í dag: þýski sérvitringurinn Klaus Nomi, sem hefði orðið 66 ára, og vanmetni snillingurinn Warren Zevon, sem hefði orðið 63 ára.

 ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Jæja, þetta er nú meira helvítis kjaftæðið.  


Hvernig er hægt að nýta kirkjur landsins?

Kirkjur landsins standa galtómar flesta daga, eins og flestir vita (nema þá helst þeir sem fá ríflega borgað fyrir að vita það ekki). Meira að segja biskupinn vill frekar að kirkjustarfið fari fram utan þeirra, enda mun auðveldara að telja smábörnum trú um furðusögurnar. Fyrst biskup vill breyta leik- og grunnskólum landsins í kristilegar ítroðslustöðvar er rökrétt að nota kirkjurnar sem hér eru upp um alla veggi og súlur í eitthvað nytsamlegra. 

 

Hugmynd #1: Athvarf fyrir heimilislausa.

 

Í mörg ár hefur verið skortur á úrræðum fyrir heimilislausa í Reykjavík. Kirkjur sem standa tómar mestan part ársins eru þó rúmgóðar og upphitaðar. Hægt væri að koma upp einföldum skilrúmum - og inn í flestar kirkjurnar má meira að segja hæglega bæta aukahæð! Þar með er búið að leysa vandann. Prestarnir geta svo farið að vinna fyrir ofurlaununum sínum, fyrst með því að breyta húsnæðinu og síðar með aðstoð við gestina. Þeir þyrftu samt að lofa því að vera ekki að áreita fólk með óvelkomnum giftingum og guðspjallagauli í tíma og ótíma. 

 

Hugmynd #2: Moska

 

Löng hefð er fyrir því að trúarhópar yfirtaki guðshús annarra trúarbragða. Parthenon var upphaflega tileinkað gyðjunni Aþenu, en var seinna breytt í kirkju tileinkaða Maríu "mey" og enn síðar var mínaretta byggð við og hofið orðið að mosku. Moskulausu múslimarnir á Íslandi geta nú endurtekið leikinn, þó kirkjurnar séu fráleitt jafn fallegar og hofið gríska, og yfirtekið svosem eins og eina kirkju. Aðrir trúarhópar geta líka fengið húsnæði, fyrst við erum byrjuð. Er það ekki bara sanngjarnt?

 

Hugmynd #3: Leikskólar

 

Fyrst Karl vill endilega breyta leikskólum í kirkjur, er þá ekki rökrétt að breyta kirkjunum í leikskóla?  Að vísu þyrfti að breyta þeim dálítið; skipta rýminu niður, koma upp viðeigandi salernisaðstöðu sem og eldunaraðstöðu, en þar geta prestarnir aftur komið við sögu. Er trésmíði annars ekki kennd í guðfræðinni? Það virðist passa svo vel. 

 

Hugmynd #4: Skemmtistaðir

 

Skellið upp diskókúlu, skiptið margmilljóna orgelinu út fyrir sæmilegt hljóðkerfi. DJinn getur staðið í pontu og predikað geggjað stuð. Þetta næsta lag er fyrir þig, Jesú: By the rivers of Babylon með Boney M! Þessi notkun er algengari en fólk heldur, enda mega kirkjurnar eiga það að þar er yfirleitt góður hljómburður. Kirkjurnar hafa auk þess þann ótvíræða kost að þar má nú þegar bæði drekka vín og eta barsnakk, auk þess að í sumum þeirra má reykja

 

Endilega komið með fleiri hugmyndir. Það hlýtur að vera hægt að nýta alla þessa fermetra húsnæðis í eitthvað annað en geymslupláss fyrir heilagan anda.

 


Jólin og Jesú

Við skulum byrja á því að rifja upp grundvallaratriði sem kristnir vilja oft gleyma: jólin eru ekki sér-kristin hátíð. Sólstöðu- og vetrarhátíðir eru kristninni mun eldri, eins og flestir vita, og nafnið 'Jól' er ekki sérstaklega kristið.

Þetta vita flestir, en það stoppar þá ekki í að nöldra yfir því að trúleysingjar vogi sér að gera sér glaðan dag í skammdeginu.

Hvað nöldur biskupsins varðar, verð ég að segja að ég yrði afar sátt ef að trúaráróðurinn yrði tekinn út úr skólastarfinu. Ekki einu sinni reyna að kalla þetta 'fræðslu': börn þurfa ekki að fræðast sérstaklega um það hvernig er best að krjúpa fyrir framan prestinn (hann getur kennt þeim það í einhverju bakherbergi í kirkjunni), þau þurfa ekki að fræðast um það að "Jesú vilji bænir í afmælisgjöf", og þó það sé sniðugt að fræða þau um mýtur kristninnar er betra að gera það hlutlaust - 'kristnir trúa þessu', ekki 'svona var þetta'. Rétt eins og börnum er kennt að fólk hafi einu sinni haldið að nornir þyrfti að brenna á báli eða að konur væru of heimskar til að gera nokkuð annað en að eignast börn - helst merkileg börn þá: Jesú, Jóhannes eða einhverja evrópska miðaldakonunga.

 

Hins vegar verð ég að segja að ef við ímyndum okkur að kristnin sé byggð á sönnum atburðum -fæðingu, kraftaverkum, dauða og upprisu Jesúsar- er hún ekki jafn áhugaverð og "ef" hún er samtíningur, púsluspil mýta og ýkjusagna. 

Skoðum þetta utanfrá. Guð er almáttugur, algóður og alvitur. Hann vissi því að Jesú yrði pyntaður og tekinn af lífi, enda Jesú Guð og Guð Jesú og þeir báðir heilagur andi sem er líka sérpersóna sem er hluti af Guði. Og Jesú. Það er ekki mjög fallega gert að fara í heimsókn til ókunnugs lands til að láta pynta sig, en Guð varð að gera það, er það ekki? Jesú dó fyrir syndir okkar! En almáttugur Guð þarf náttúrulega ekki að gera neitt sem hann ekki vill. Hann hefði eins getað veifað töfrasprotanum og bingó - allar syndir fyrirgefnar! 

En, nei, Guð ákvað að hafa þetta svona. Hann hlýtur að hafa vitað að ekkert segir 'ég elska þig' eins og blóðugur, deyjandi miðausturlandabúi (Bandaríkjamenn hafa einmitt stólað á slíkar ástarjátningar undanfarin ár) og því fór sem fór. Jesú fórnaði lífi sínu til að þú gætir komist í himnaríki. Tja, nei, hann fórnaði þremur dögum af lífi sínu, svo hætti hann að vera dauður og fór aftur að vera Guð. Ekki mikil fórn það. Sérstaklega ef við tökum fyrrnefnda þrenningarkenningu trúanlega, því samkvæmt henni hlýtur Jesú að hafa vitað að hann myndi verða pyntaður, dáinn og grafinn og svo upprisinn á þriðja degi. Er það fórn? 

Síðan þetta "gerðist" hafa kristnir menn svo eytt tímanum í að telja sér trú um að jarðlífið sé ómerkilegt húmbúkk, verðlaust nema sem tækifæri til að taka á móti Jesú og öðlast eilíft líf á himnum. Þetta viðhorf gerir meinta fórn Jesú enn ómerkilegri.

Guð sendi Jesú í partý, vitandi að honum yrði hent út. Það var svosem allt í lagi, Jesú vissi það líka og partýið var frekar ömurlegt, svo hann rölti bara á hinn eilífa himnapöbb eftir að honum var sparkað úr teitinu. Hvað er svona merkilegt við það?

Hver er þessi mikla fórn? Og af hverju í fjandanum ættu menn að vilja troða svona þrugli í saklaus börn? 

 


mbl.is Má bara rifja upp sögu Jesú og Maríu í kirkjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir út!

Það er dálítið (allt í lagi - svakalega) skemmtilegt að skoða breytingar á trúfélagaskráningu landans.

Frá árinu 1990 hefur hlutfall þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna minnkað úr 92,61% í 79,11% og þeim sem eru utan trúfélaga hefur fjölgað úr 1,32% í 2,90% (þá eru ótalin þau 7,11% sem eru skráð í "önnur trúfélög eða ótilgreint", en þeim hefur fjölgað úr skitnum 0,59%)

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir kirkjuna, enda hefur verið stöðugur fólksflótti þaðan undanfarin ár. Búast má við því að enn fleiri skrái sig úr henni eftir skandala undanfarið, enda ekki skrýtið að fólk hugsi sig tvisvar um þegar það sér í hvað sóknargjöldin fara.

Káfandi prestur fær starfslokasamning á við meðal-bankamann.

Prestur fær rúma milljón á ári í akstursgreiðslur - fyrir utan þær greiðslur sem kjarasamningar kveða á um.

Prestar fá hærri laun en lögreglumenn - og gráta svo krókódílatárum yfir eymd almúgans.

 

Ekki má heldur líta framhjá því að nú, í miðri kreppu, eru útgjöld ríkisins til kirkjunnar rúmir 2 milljarðar og virðist enginn láta sér detta í hug að lækka þau eins og þó væri eðlilegt. Kirkjan fær síðan aðra tvo milljarða í formi sóknargjalda.

 

En landsmenn geta hjálpað. Með því að skrá þig úr Ríkiskirkjunni ertu ekki bara að spara sóknargjöldin, sem renna þá í ríkissjóð í stað þess að renna í vasa gráðugra karla í kjólum, heldur ertu að stuðla að trúfrelsi á Íslandi. Eftir því sem færri eru skráðir í Ríkiskirkjuna, þeim mun erfiðara er fyrir biskupinn og prestlingana hans að réttlæta þessi útgjöld.

Ef þú ert trúlaus, skráðu þig þá utan trúfélags. Stór hluti þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna (og reyndar fleiri trúfélög) eiga enga samleið með henni, en hafa ekki nennt að leiðrétta skráninguna. Kannske hugsa þeir sem svo að þetta skipti engu máli. Kannske vita þeir ekki einu sinni af því að þeir séu skráðir.

Ef þú ert kristinn, en sammála því að kirkjan eigi að geta staðið undir sér sjálf (með hjálp Guðs, væntanlega), skráðu þig þá utan trúfélaga.

Ef þú ert sammála því að hér eigi að ríkja raunverulegt trúfrelsi og jafnrétti, skráðu þig þá utan trúfélaga. Það er ekki raunverulegt jafnrétti ef einn aðilinn fær milljarðastyrki á hverju ári.

Ef þú vilt koma í veg fyrir frekari niðurskurð í mennta- og heilbrigðiskerfinu, skráðu þig þá utan trúfélaga. Hver einstaklingur sem ekki greiðir sóknargjöld sparar ríkinu 13.274 krónur á ári - safnast þegar saman kemur. Nú þegar talað er um að þjóðin þurfi að standa saman, er þá ekki sniðugt að við sameinumst um að skera niður útgjöld til gagnslausrar prestastéttar og leggjum aurinn frekar í sameiginlega sjóði samfélagsins?

Þeir sem vilja breyta skráningunni geta nálgast eyðublaðið hér (PDF). Síðan er hægt að skila því útfylltu niður á  Þjóðskrá í Borgartúni 24, eða faxa það í síma 5692949.

 


mbl.is Þúsund hafa breytt um trúfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Riddarar réttlætisins

Undanfarið hef ég staðið í umræðum um íslam, bæði hér á moggablogginu og annars staðar, m.a. á erlendum síðum. Þar sem ég forðast að alhæfa um rúman milljarð múslima hef ég verið sökuð um ýmislegt miður skemmtilegt af þeim sem sjá heiminn á annan hátt en ég.

 

Þrjár vinsælustu "móðganirnar" eru án efa eftirfarandi (stundum allar í einu);

 

"Þú ert örugglega múslimi sjálf."

"Þú þorir bara ekki að gagnrýna íslam."

"Þú ættir að vera hrædd við múslima en ert bara og vitlaus/naív/barnaleg til þess."

 

Þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt íslam virðast líta á það sem rót alls ills. Ef ég bendi á rangfærslur er ég því í liði með hinu illa.

Ef ég kem með dæmi sem afsanna fullyrðingu andmælanda míns um að eingöngu múslimar noti sína trú á ofbeldisfullan hátt, er ég að snúa út úr til að verja íslam, nú eða þykjast "gáfulegt krútt", hvað sem það á nú að þýða. Þrátt fyrir að ég margtaki fram að mér finnist íslam viðbjóðslegt að miklu leyti, og taki jafnvel undir hluta gagnrýninnar, er viðhorfið þannig að ef ég er ekki 100% á móti múslimum, hljóti ég að vera 100% fylgjandi íslam í sinni ljótustu mynd.

 

Þessi tvískipting heimsins í gott og illt er mér ekki að skapi, og það er þess vegna sem ég mótmæli málflutningi þeirra sem vilja sjá heiminn í svarthvítu, ekki vegna þess að ég sé sérstakur verjandi íslam.

Annað atriði sem fer í taugarnar á mér er óheiðarleikinn sem fólginn er í því að afneita voðaverkum í nafni annarra trúarbragða, þrátt fyrir að ótal dæmi séu nefnd. Það er hægt að halda því fram að glæpir í nafni íslam séu á einhvern hátt stærri eða alvarlegri, og þá er mögulegt að ræða það málefnalega, en að þvertaka fyrir að kristnir, hindúar eða gyðingar geti gert nokkuð slæmt er klárlega út í hött. 

Þriðja atriðið sem truflar mig er sú árátta sumra einstaklinga að flagga sínum eigin trúarbrögðum, þrátt fyrir að hafa bæði sagt og sýnt það aftur og aftur að viðkomandi fylgi engum af grunnkenningum þeirrar trúar. Hér á ég t.d. við þá "kristnu" menn sem afskrifa kærleiksboðorðið sem útópíska draumsýn sem ekki á við í raunveruleikanum -og ganga jafnvel svo langt að verja pyntingar - en stæra sig jafnframt af því að vera svo móralskir og réttlátir vegna trúarinnar.

 Eitt í fari þessarra sjálfskipuðu krossfara væri nokkuð skondið ef það væri ekki svona sorglegt, en það er hversu vel þeir hafa tamið sér tungutak "erkióvinanna" og hugsunarhátt. Þeir nota orð eins og kafírar og jihad í sífellu, en alvarlegra er þó sú barnalega hugsun að þar sem "vondu kallarnir" geri eitthvað fyrst, megi þeir gera það líka. Þeir réttlæta eigin tvískinnung með því að þeir séu jú réttlætisins megin, en múslimarnir á bandi hins illa. Þeim finnst hryllilegt að múslimar reyni að stjórna klæðaburði kvenna og vilja berjast gegn því með því að stjórna fatavalinu sjálfir. Þeir þreytast ekki á að minna fólk á það að múslimar sjái eingöngu trúbræður sína sem nokkurs virði, annað en kristnir sem elska alla...svo lengi sem "allir" eru kristnir. Þeir fordæma árásir múslimskra bardagamanna á óbreytta borgara, en fagna þegar enn einum múslimanum er stungið í fangabúðir, enda er hann örugglega sekur um eitthvað hvort sem er. Þeir fordæma harðlega þau mannréttindabrot sem tíðkast undir sharia-lögum, en sjá ekkert athugavert við þær pyntingar sem framdar eru í nafni vestræns "réttlætis". 

 

Allra verst eru þó hrokinn og þrjóskan við að viðurkenna mistök. Í huga þessarra manna eru þeir nefnilega útvaldir til þess að berjast gegn hinu illa, og allir vita að hinir útvöldu gera ekki mistök. Ef einhver sakar þá um slíkt, hlýtur það að vera vegna þess að viðkomandi er annað hvort viljandi að snúa út úr eða of heimskur til að skilja speki hinna útvöldu riddara réttlætisins.

 

Reyndar er það synd að þessir Kíkótar internetsins skuli ekki gera sér far um að kynnast íslömskum öfgamönnum. Þeir eiga fleira sameiginlegt en þá grunar.


Hvernig á að banna búrkuna?

Ég er með spurningu til ykkar sem endilega viljið banna búrku/niqab; hver eiga viðurlögin við brotum á banninu að vera?

Þið segið að búrkan sé notuð til að kúga konur. Er þá réttlátt að refsa þeim fyrir að vera kúgaðar?

Þið segið að konur geti ekki mögulega valið þetta sjálfar, svo rökrétt væri að refsa þeim sem neyðir hana til að bera klæðin. Hvernig ætlið þið að sanna þann glæp? Ef konan sjálf heldur því fram að hún velji að bera niqab, ætlið þið þá að segja henni að hún geti ekki haft það val, hún sé bara heilaþvegin? Goð hugmynd: fátt sem eykur sjálfstraust kúgaðra kvenna meira en að segja henni að orð hennar séu ómarktæk af því að hún er bara (múslima)kona!

Þær konur sem raunverulega búa við það að vilja/mega ekki sýna andlit sitt á almannafæri nota niqab sem einskonar "ferðaheimili". Ef ekki er fyrir þessa ímynduðu "vörn" gegn öðru fólki, er hætta á að konan velji/sé neydd til að halda sig alveg innan veggja heimilisins. Ekki hjálpar það kúgaðri konu.

 

Ég er ekki viss um að þið hafið hugsað þetta nógu vel. Endilega segið mér hvernig á að framfylgja svona búrkubanni, ég sé það ekki alveg. 

 

Ég er fylgjandi því að konur hafi fullt frelsi til að klæða sig eins og þær vilja, hvort sem þær vilja hylja sig frá toppi til táar eða ganga um naktar (en það er efni í annað blogg) eða eitthvað þar á milli. Þú verndar ekki einstaklingsfrelsið með því að hefta frelsi einstaklingsins. Svo ég tönnlist nú á þessu hérna líka:

Þú verndar ekki rétt kvenna til fóstureyðinga með því að banna barneignir. Þú verndar ekki rétt til vinnu með því að neyða fólk til starfa. Þú verndar ekki málfrelsið með því að banna ákveðin orð, eða hugsanafrelsi með því að banna ákveðnar skoðanir. Þú verndar ekki trúfrelsi með því að banna ákveðna trú. 

Lögin banna nú þegar kúgun og nauðung. Að búa til sérstök búrkulög er óþarft, auk þess sem slik lög myndu hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. 

Að  hjálpa þeim konum sem raunverulega eru kúgaðar, hvort sem er vegna trúarbragða eða annars, er verðugt verkefni. Rétta leiðin til þess er hinsvegar ekki sú að banna ákveðinn klæðnað eða hegðun, svo lengi sem viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Með því að auka menntun og félagslegan stuðning við konur (og reyndar alla) sem eru í áhættuhópi, t.d. vegna trúar (eða vegna þess að viðkomandi er nýfluttur til landsins, þekkir engan og á því ekki jafn víðtækt tengslanet og aðrir, og aðhyllist auk þess trú þar sem kúgun kvenna er alltof algeng) er hægt að ná mun betri árangri en með því að gera viðkomandi að glæpamanni.

 

Ég mæli svo með því að þið lesið þessa grein.


mbl.is Danir deila um búrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, Jesús!

Úr dagbók árásarmannsins:

 

"Maybe soon, I will see God and Jesus. At least that is what I was told. Eternal life does NOT depend on works. If it did, we will all be in hell. Christ paid for EVERY sin, so how can I or you be judged BY GOD for a sin when the penalty was ALREADY paid. People judge but that does not matter. I was reading the Bible and The Integrity of God beginning yesterday, because soon I will see them."

 

'Nuff said.


mbl.is Fjórir látnir eftir skotárás í íþróttasal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar til Ragnars

Undanfarið hef ég staðið í þrasi um trúmál. Ragnar nokkur, sem ég kann svosem engin deili á, birti svar sitt hér. Ég ákvað því að birta mitt svar líka hér, þó ég hafi svarað honum á hans eigin síðu. Alltaf gaman að drita umræðum á nokkra staði.

 ---

Mikið ofsalega er ég þreytt á þessu "leitandi" tali alltaf hreint. Já, þið kristnir segist hafa "upplifað" eitthvað og "vitið" þ.a.l. að Guð sé til. Ég hef "upplifað" ýmislegt. Einu sinni sá ég t.d. andlit hins vestræna Jesú í skýjunum. Aðeins eitt augnablik, en eftir á sá ég það sem prentað innan á augnlokin - sólin var nefnilega ansi skær á bak við skýin. Ég veit að ástæða þessa var tilviljanakennt mynstur í skýjunum og sú árátta heilans að greina kunnugleg mynstur og jafnvel fylla upp í eyður. Aldrei kom mér til hugar að þarna væri einhver yfirnáttúruleg vera að reyna að hafa samband - enda hin skýringin einfaldari, auk þess sem ég ímynda mér að almáttugur guð hefði skýrari leiðir til að koma tilvist sinni á framfæri við mig. Þar að auki var ég bæði ósofin og skelþunn. Ég hef líka upplifað tímann standa í stað, ég hef séð -eða öllu heldur "ekki-séð"- ósýnilegt fólk, ég hef svifið langar leiðir án hjálpar tækninnar, ég hef hitt látna og fjarverandi vini, ættingja, stórstjörnur og jafnvel skáldsagnapersónur. Í öll skiptin hef ég verið allsgáð...en reyndar sofandi líka. Eitt af því sem mér líkar illa við trúarbrögð er elítisminn sem oft vill fylgja þeim. Kristnir segja að þeir "viti bara" að þeirra trú sé hin eina rétta. Hið sama segja allir aðrir um sína trú, þ.e.a.s. sína túlkun af sinni útgáfu af sínum guði. Auðvitað eru til undantekningar, margir eru hreint ekki vissir um að útgáfa þeirra sé rétt, aðrir notast við trúarkerfi sem (í orði a.m.k.) gerir öllum (eða flestum) trúarbrögðum jafn hátt undir höfði. Oftast nær er raunin samt sú, sérstaklega hjá fylgjendum Abrahamísku trúarbragðanna, að fullyrða að eigin skoðun á tilvist, persónuleika og hegðan guðs síns og hans "spámanna" sé hin eina rétta og að allir aðrir séu glataðir. Nú getur vel verið að einhver sjái trúlausa sem jafnmikla ef ekki meiri elítista en hina trúuðu; við höldum jú líka að okkar skoðun sé rétt. Hins vegar er grunnmunur á þessum lífsskoðunum. Í okkar sundurleita hópi er eitt sem tengir flesta (eins og alltaf eru undantekningar) og það er krafan um efa. Trúarbrögð gera hinsvegar flest kröfu um trú - jafnvel þó allar vísbendingar stangist á við fullyrðinguna er mikilvægast að trúa -meira að segja það að segjast vilja skoða vísbendingar sem hugsanlega gætu veikt undirstöður trúarinnar er fordæmt og jafnvel grimmilega refsað. Án efa væri þekking okkar ekki mikil. Meira að segja vísindamenn hafa fallið í þá gryfju að taka einhverju sem gefnu, en sem betur fer hefur þessi undirliggjandi krafa um efa og þekkingarleit gert öðrum kleift að hrekja, staðfesta eða breyta kenningum og "sjálfsögðum sannleik". Auðvitað er í lagi að efast um að guð sé til - eða að hann sé ekki til - en vandinn er sá að þetta er bæði ósannanlegt og óhrekjanlegt. Meint áhrif guða á hinn mælanlega veruleika eru nefnilega ekki mælanleg sjálf. Sé rakhníf Occams beitt er (nánast) alltaf hægt að finna betri útskýringu. Ég er því ekki "leitandi" í þeim skilningi sem þú leggur í orðið. Ég leita þekkingar, en þá þekkingu verður að vera hægt að rannsaka, annars er hún ekki þekking heldur getgáta og ímyndun.

« Fyrri síða

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband