Misskilningur

Í umfjöllun um hústökuna hef ég orðið vör við furðulegan misskilning sumra. Þeir virðast leggja það að jöfnu að nýta hús í niðurníðslu, hús sem gegna engu hlutverki nema sem 'pantégáetta' þar til hægt verður að reisa glerhallir - hvenær sem það á að verða - sem engin þörf er á, og það að ryðjast inn á heimili fólks eða stela bílum þess. Þetta fólk malar út í eitt um að eignarrétturinn sé "heilagur" og að hústökufólkið hefði bara átt að kaupa húsið ef það langaði svona í það.

Þegar þessi rök eru skotin niður er reynt að trompa með klassísku hringrökunum "þetta er ólöglegt", en aldrei reynt að ræða hvort lögin séu óréttlát. Þessi rök hafa einnig komið fram í umræðunni um lögleiðingu kannabiss og eru jafn fáránleg þar og hér.

 

Fyrsta punktinn er auðvelt að hundsa. Það er enginn að leggja til að fólk taki bara það sem það langar í eða flytji inn í næsta hús sem því líst á. Hvar mörkin liggja þarf að skoða, en það er greinilegt að hús sem hefur staðið autt í tvö ár og á ekki að fara að nota á næstunni er 'fair game'. Rétturinn til sköpunar og uppbyggilegrar starfsemi -að maður tali nú ekki um réttinn til þess að hafa þak yfir höfuðið, þó það hafi ekki verið aðal hvatinn í þessu tilfelli- verður að vera meiri en rétturinn til gróða og "eignar". 

Viljum við búa í samfélagi þar sem það er mögulegt að einn aðili kaupi upp öll hús við heila götu til þess eins að láta þau drabbast niður á sama tíma og fólk neyðist til að sofa undir grenitrjám á Klambratúni? 

 

Annar punkturinn er örlítið raunveruleikafirrtur. Á Íslandi eru afar fáir sem hafa getu til að kaupa hús án stórfelldrar lántöku, hvað þá hús á þessum stað, og enn síður þegar einhver verktaki er búinn að kaupa staðinn og reikna út gróða upp á mörg hundruð milljónir. Verktakinn er ekki á leiðinni að selja, það er deginum ljósara. Ekki þegar hann sér minnsta möguleika á að fá að rífa húsin og byggja versunarmiðstöð sem gæti fræðilega fært honum tugmilljónir ef ekki milljarða, sama hversu fjarri raunveruleikanum sá möguleiki er.

Þriðju rökin eru í raun engin rök nema þú lítir svo á að lög séu sjálfkrafa réttlát. Einhverjir reyna þó að vera málefnalegir og benda á að þó okkur líki ekki við lögin verðum við að fara eftir þeim þar til hægt er að breyta þeim. Ég vil á móti segja að glæpur er ekki glæpur án fórnarlambs, sama þó lög séu brotin. Ef ég stel bílnum þínum er ég að svipta þig afnotarétti, þar ert þú fórnarlambið.

Ef þú hins vegar átt hús sem þú neitar að halda við, notar það aldrei og ætlar að rífa það 'einhverntíma í framtíðinni', hvernig skaða ég þig með því að nota húsið þangað til þú rífur það? Jafnvel þó ég bryti rúður eða veggi væri erfitt fyrir þig að kalla það eignaspjöll - þú ætlaðir jú sjálfur að rífa húsið.

 

Einhverjir hafa bent á að þar sem húsið sé rafmagns- og vatnslaust sé eldhætta mikil. Þessu er auðvelt að kippa í lag; þú einfaldlega opnar fyrir rafmagn og vatn. Reikninginn fyrir notkuninni  er hægt að senda á einn eða fleiri úr hústökuhópnum. Ég efast um að þau myndu setja sig upp á móti því.

 

 Við skulum síðan líta aðeins á aðgerðir lögreglu. Flestir vona ég að séu sammála því að þær hafi verið of harkalegar, en einhverjir þarna úti klappa sjálfsagt og gleðjast yfir því að löggan hafi lúskrað á "skrílnum". 

Aðrar leiðir voru vel færar. Fólkið hefði komið út á endanum, því eins og Eva Hauksdóttir sagði, þurfa meira að segja anarkistar að borða og skíta.

Best hefði þó verið að leyfa fólkinu að vera. Þarna var engin niðurrifsstarfsemi í gangi, þvert á móti var mikil uppbygging í gangi þessa fáu daga sem hústökufólkið hafði húsið. Búið var að opna fríbúð þar sem ýmislegt var á boðstólum, m.a. föt, geisladiskar og bækur, allt án endurgjalds. Gestum og gangandi var boðinn matur án endurgjalds, eins og reyndar hefur verið gert á Lækjartorgi undanfarna laugardaga. Til stóð að hafa ýmiss konar starfsemi í húsinu; listsköpun, fræðslu, meira að segja ráðleggingar frá læknanemum. Rækta átti grænmeti við húsið.

Ekkert af þessu getur flokkast undir niðurrifsstarfsemi nema í augum þeirra sem enn líta á peninga sem tilgang alls. Ef ekkert er rukkað, segja þeir, er enginn tilgangur. 

Þeir skilja ekki að sumt er mikilvægara en peningar og að hús eru tilgangslaus ef þau standa auð og ónotuð. Líklega munu þeir aldrei skilja það, en með hústökunni var fyrsta skrefið stigið. Nú er málið að halda áfram, taka fleiri hús, og sýna fram á að samfélagið hagnast á því að hugsa út fyrir ramma gróða og græðgi.


mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er einfaldlega vitlaus aðferð, þó svo að lögin séu óréttlát þýðir það ekki að það megi brjóta þau. Þetta er málstaður sem er gott að vekja athygli á og það væri gaman að hafa svona hús, en að ryðjast inní hús sem annar aðili á er ekki rétt. Sama hvort aðilinn noti það eða ekki. Og ef að þeim hefði verið leyft að vera þarna þangað til að húsið yrði rifið, yrði niðurrifi á húsinu væntanlega mótmælt harkalega. Ég var ekki þarna, en mér sýnist á fréttunum að lögreglan hafi tekið aðeins of harkalega á fólkinu. 

Sunna (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 22:47

2 Smámynd: Sigurjón

Þú ert í mótsögn við sjálfa þig Sunna þegar þú segir (meira að segja í sömu setningunni): ,,Þetta er málstaður sem er gott að vekja athygli á og það væri gaman að hafa svona hús, en að ryðjast inní hús sem annar aðili á er ekki rétt,"

Svo kemur gullkorn: ,,Sama hvort aðilinn noti það eða ekki."

Lastu ekki það sem Tinna skrifaði?  Hún var einmitt að tala um að hús sem ekki hefur verið notað í 2 ár er ,,fair game".  Það er einmitt ekki sama hvort eigandinn notar það eður ei.

Ef húseigandinn ætlar ekki að nota það og hefur ekki notað það svo mánuðum skiptir (auk þess ætlar að rífa það í framtíðinni), hvers vegna í ósköpunum ætti honum ekki að vera sama hvort einhverjir noti það í eitthvað skapandi rétt á meðan hann er að klóra sér í hausnum um hvernig óskapnað hann ætlar að leggja fyrir skipulagsnefnd borgarinnar næst?

Geturðu útskýrt það?

Sigurjón, 16.4.2009 kl. 00:37

3 identicon

Nei, ég er að segja að það væri gaman að hafa svona hús ef að húseigandi væri samþykkur því að fólkið sé þar. Ég er ekki að tala um nýtingu húsanna í miðbænum.

Sunna (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 09:27

4 identicon

Eins og ég hef ítrekað bent á víða, þá er eignarrétturinn ekki sterkari en svo að ef þú lætur bílinn þinn grotna niður í stæðinu eða á túninu þínu þá getur sveitrafélagið sem þú býrð í samt fjarlægt hann og fargað honum á þinn kostnað sinnir þú ekki viðvörun um að fjarlægja hann sjálfur. 

Einar Þór (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 11:24

5 Smámynd: Sigurjón

Ég endurtek spurninguna til þín Sunna:

Ef húseigandinn ætlar ekki að nota það og hefur ekki notað það svo mánuðum skiptir (auk þess ætlar að rífa það í framtíðinni), hvers vegna í ósköpunum ætti honum ekki að vera sama hvort einhverjir noti það í eitthvað skapandi rétt á meðan hann er að klóra sér í hausnum um hvernig óskapnað hann ætlar að leggja fyrir skipulagsnefnd borgarinnar næst?

Geturðu útskýrt það?

Sigurjón, 16.4.2009 kl. 11:33

6 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sunna, þú ert alveg offlæn hérna, ert bara ekkert að fatta pointið held ég.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.4.2009 kl. 12:46

7 Smámynd: Einar Jón

Ef að eignarrétturinn er heilagur, eru eigendurnir þá ekki sekir um helgispjöll fyrir að nýta ekki húsin og láta þau eyðileggjast? Hver er refsingin við því?

Og svo er erfitt að kaupa eitthvað sem er ekki til sölu...

Einar Jón, 20.4.2009 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2975

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband