Tannvernd

Ég er svo heppin að vera með lélegar tennur. Svona hafa þær alltaf verið, sama hvað ég bursta, skola og rótfylli. Þær hreinlega molna í kjaftinum á mér, og það er ekkert sérstaklega heillandi lúkk. Sem skattgreiðandi og ríkisborgari á ég samkvæmt lögum rétt á niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu; sem stórreykingamaður á ég í meiri hættu að fá krabbamein - ríkið borgar. Sem þunglyndissjúklingur þarf ég lyf - ríkið borgar. En þó tannskemmdir mínar séu (a.m.k. að hluta til) af völdum erfðagalla, þarf ég að borga allar viðgerðir sjálf, eða -eins og mín fjárhagsstaða er í dag- einfaldlega láta mauka eplið súra og sjúga það í gegnum rör.

Sem skjólstæðingur Félagsmálastofnunar (eða Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eins og batteríið heitir víst í dag) á ég rétt á styrk til tannviðgerða. Síðast þegar ég vissi (fyrir tveimur árum) var upphæðin 40.000 krónur. Að láta draga eina tönn kostar í kringum 5.000 krónur með deyfingu. Tannplantar kosta 1-200.000 krónur - hver tönn. Falskar tennur (gómar) kosta svipað - fyrir allar tennurnar. Hvort sem endurnýjunin kostar hundrað þúsund eða milljón er staðreyndin sú að ég hef ekki efni á því.

Hversvegna eru tennur ekki hluti líkamans undir íslenskum almannatryggingum, nema hjá eldri borgurum, öryrkjum og börnum?

Sú tannlæknaþjónusta sem ég fékk í grunnskóla var reyndar ekki upp á marga fiska, og eftir að mér varð skylt að borga fullt verð fyrir þjónustuna hefur tönnunum heldur hrakað. Eftir því sem ég best veit eru fjórar alheilar tennur uppí mér, allt endajaxlar. Hinar eru í misgóðu ástandi; nokkrar eru varla meira en rót, aðrar þurfa ekki mikið til að fara sömu leið. Þessu fylgja að sjálfsögðu nokkur óþægindi; framtönnunum þori ég vart að beita svo nokkru nemi, enda eru þrjár þeirra sundurtættar og sprungnar, tveir jaxlar eru ónothæfir auk þess sem annar þeirra veldur mér kvölum með reglulegu millibili. Það þarf vart að taka fram að bros mitt er ekki af þeirri tegund sem lýsir upp herbergi. Það er heldur að glottið tæmi herbergi, þar sem þessu öllu fylgir fnykur sá sem gýs upp úr rotnum tannrótum.

Nú hugsa lesendur sjálfsagt sem svo að ég geti nú alveg eins bitið (varlega) á jaxlinn og greitt tannsa smátt og smátt, komið þessu í lag og fengið fínasta Tom-Cruise-bros. En það er ekki svo gott. Eitt sinn er ég -sárþjáð- mætti í tíma hjá tannlækni (ekki mínum venjulega, þar sem sá var í fríi), leit hann upp í mig, fussaði og sveiaði, og rak mig út með fúkyrðum og hótunum um ákæru þegar hann uppgötvaði að ég var ekki með nokkurt fé handbært. Hafði málið þó verið útskýrt vendilega fyrir manneskjunni sem ansaði í símann þegar tíminn var pantaður, og hélt hún það lítið mál að fá að greiða skuldina um næstu mánaðamót, sem voru ekki langt undan. 

Ég skil vel að tannlæknar vilji fá greitt fyrir sína vinnu, en eru virkilega engir hugsjóna-tannlæknar þarna úti? Er ekki einn einasti tannlæknir sem finnst mikilvægara að gera við tennur en að rukka sjúkling um fimm þúsund krónur fyrir tíu mínútna skoðun? Er það réttlætanlegt að nýta sér þessa fáránlegu lagasetningu til að okra á fólki sem þjáist? Ég er hrædd um að hér yrði uppi fótur og fit ef skurðlæknir neitaði að bjarga lífi sjúklings vegna þess að deyjandi maðurinn gæti ekki staðgreitt hjartaaðgerðina sína.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæunn Valdís

ég held að hugsjónatannlæknirinn hafi dáið út með geirfuglinum. En ég á ágætis naglbít ef þú þjáist mikið

Sæunn Valdís, 14.3.2007 kl. 04:09

2 Smámynd: Þarfagreinir

Það er ljóst að hér er markaður fyrir ódýrum tannlækningum. Spurning um að stofna sprotafyrirtæki. Ég skal leggja til þekkingu á tölvuviðgerðum - það þarf stundum að basla mikið við að ná drasli úr þessum tölvum.

Þarfagreinir, 14.3.2007 kl. 22:34

3 Smámynd: B Ewing

Á neftng og skábít.  Svo má prófa að lóða í tennurnar með tini.

B Ewing, 15.3.2007 kl. 11:46

4 Smámynd: Einar Jón

Tannlænanemar eru með ókeypis tannviðgerðir fyrir börn í Tanngarði.
Er ekki málið að fá sér falsað nafnskírteini og láta mömmu gömlu rúlla sér þangað í barnavagni?

Einar Jón, 17.3.2007 kl. 19:34

5 Smámynd: Ísdrottningin

Ætli það sé ekki hægt að leigja eins og einn eða tvo pólska tannlækna af starfsmannaleigunum frægu?   Ef einn pólskur tannlæknir er leigður hingað í tvær, þrjár vikur ásamt einhverju af helstu græjunum þá ætti að vera leikur einn hjá þér að gera hann út.  Þú lætur fólk borga helmingi minna en það borgar hér heima fyrir viðgerðina, færð fría viðgerð sjálf, borgar honum smápeninga og stingur mismuninum í eigin vasa.

Pottþétt plan, hvenær má byrja að bóka hjá ykkur?

Ísdrottningin, 18.3.2007 kl. 00:53

6 identicon

Um leið og ég læri pólsku, svo það verði örugglega enginn misskilningur. Væri leiðinlegt ef rótfyllingar yrðu óvart að tannplöntum eða deyfingar að úrdrætti.

Tinna g. Gígja (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 04:15

7 identicon

Reyndar er það nokkuð góð hugmynd að gá hvort það væri köglegt að flytja inn erlenda tannlækna. Væri sjálfsagt hægt að græða helling á því, jafnvel þótt þyrftiað borga 50-70.000 fyrir flugið hingað. Jafnvel sniðugt að fara að plana tannlæknaferðir eins og eru farnar frá Bretlandi, Þýskalandi og USA til Póllands, Tékklands, Búlgaríu, Tælands og fleiri staða...sjálfsagt hægt að græða ágætis pening á því, og hjálpa liðinu sem er í svipaðri stöðu og ég, með því að plana hópferðir og díla við tannsana í ódýrari löndunum...

Höfundur (nenni ekki að skrá ;9) (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 04:22

8 identicon

Síðast þegar ég vissi var einn á Fáskrúðsfiriði - sá lærði í Noregi og kunni ekki að okra.

Steinar (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband