Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Illa unnin frétt

Sá eða sú sem sá um að slá þetta kjaftæði inn á Moggavefinn (og kannske í blaðið líka?) hefði ekki þurft að leita langt til að sjá að þetta er ekki frétt. Ég fæ á tilfinninguna að Kleópatra hafi sjálf ritað fréttatilkynninguna og "blaðamaður" mbl gripið hana hráa og hent inn. Kannske er hann hræddur um að mötuneytið verði allt í einu... kokteilsósulaust (dam-dam-dam!).

 

Jæja, hvað um það. Eina fréttin hér er sú að starfsmaður vinsælasta fréttamiðils landsins setti frétt í loftið án þess að framkvæma lágmarks staðreyndakönnun. Annað hvort það eða viðkomandi kann ekki að gúgla. Það kann ég hins vegar. 

Þegar AuthorHouse er gúglað má m.a. sjá wikipediusíðu fyrirtækisins. Þar segir:

 

AuthorHouse, formerly known as 1stBooks, is a self-publishing company based in the United States. AuthorHouse provides self publishing and utilizes print on demand services.

 

Fyrir þá sem ekki skilja þetta, má lesa sér til um þessi s.k. "self-publishing companies" eða vanity press, eins og þau eru oft kölluð:

 

A vanity press or vanity publisher is a publishing house that publishes books at the author's expense.

 

At the author's expense. Á kostnað höfundar. Á heimasíðu fyrirtækisins sjálfs má sjá að  ódýrasti útgáfupakkinn kostar 600 dollara eða um 70.000 krónur. Vilji menn fara út í lúxus-harðspjaldaútgáfu með áritunarkitti og skilarétti bóksala kostar pakkinn 240.000 eða svo. Hafi hún gefið bækurnar út sem "non-fiction með markaðssetningu", stekkur verðið á ódýrasta pakkanum upp í nærri hálfa milljón.

 

En hvað er það svosem á móti komandi heimsfrægð og ánægjunni af því að vita að bækurnar þínar hafa verið "gefnar út" í tveimur heimsálfum...

 

 


mbl.is Kleópatra gefur út í Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverk - Guð drepur 103!

Sumir eiga erfitt með að sætta sig við tilvist tilviljana. Þegar þeir verða vitni að ótrúlegum tilviljunum garga þeir strax á aðrar útskýringar. Þá er nú gott að geta gripið til yfirnáttúru og ævintýra:

 

 Hvílíkt kraftaverk! Þarna stóð Guð sig nú aldeilis vel; almáttugur, alvitur og algóður og með innan við 1% árangur í þessu tilfelli. Bravó.

 

Hvaða bull - auðvitað getur það ekki verið. Alvitur, almáttugur og algóður Guð færi ekki að leyfa 103 saklausum manneskjum að deyja í hræðilegu flugslysi. En bíddu... þetta hefur allt verið hluti af áætlun Guðs! Líklega voru þessir 103 ekki Guði þóknanlegir. Þeir hafa ekki átt skilið að bjargast. A.m.k. fannst Guði það ekki, og hann veit alltaf best, ekki satt?

 

En svona er ljótt að segja. Svona má ekki segja. Við eigum að sjá "kraftaverk", hrópa húrra fyrir því og gleyma restinni. 

 

Nei, þetta virkar ekki svona. Það er ekki hægt að segja að björgun drengsins - eins frábær og ótrúleg og hún var - sé kraftaverk, án þess að samþykkja annaðhvort að hinir 103 hafi átt skilið að deyja, eða að Guð sé dálítill skíthæll. 

 

Nema auðvitað að Guð sé ekki til (ellegar deískur) og hér hafi því ekki verið um guðlegt inngrip að ræða, heldur - í grunninn - tilviljun. Það er engin ástæða til að panika - vilji menn þakka einhverjum lífsbjörg drengsins er hægt að velja á milli björgunarfólks, lækna, hjúkrunarfólks... það er nóg af fólki sem framkvæmir ótrúlega hluti á hverjum degi, ekki fyrir tilviljun, ekki vegna þess að Guð "vinnur í gegnum það" heldur vegna þess að það vill það. Er það ekki fallegra, betra og merkilegra en að segja að ímyndaður Súpermann hafi bjargað þessum eina dreng?

 

 

Ég vona að drengurinn jafni sig, þó það gæti tekið langan tíma, og ég vona svo sannarlega að enginn reyni að telja honum trú um að hann hafi bjargast vegna Guðlegs inngrips. Þá held ég að það sé betra að sætta sig við tilviljanirnar og þakka þeim sem raunverulega hjálpuðu.

 


mbl.is Björgun drengs sögð kraftaverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekja bænarinnar

Bænir eru merkilegt fyrirbrigði - sérstaklega svona opinberar hópbænir. Þarna koma menn saman og auglýsa það hátt og skýrt að þessi Guð sem þeir þykjast treysta framar öllu öðru sé í raun ekki svo merkilegur pappír. Til hvers þarf að biðja?

Er Guð ekki að fylgjast með - er þetta "vitundarvakning" í von um yfirnáttúrulega íhlutun? Er Guð að leiða þjóðina til glötunar - og ef svo er, eiga bænir þá að fá hann til að skipta um stefnu? Eða er honum sama? Er hann kannske ekki til?

Nei, þetta fólk þykist handvisst um að Guð sé til. En það treystir honum ekki. Mér finnst það ósköp skiljanlegt. 

 

Ef Guð er til - þ.e.a.s. þessi kristni Guð - hlýtur honum að finnast svona samkunda frekar hjákátleg, ef ekki hreint og beint móðgandi. Fólk sem á ekkert sérstaklega bágt kemur saman til að biðja fyrir sjálfu sér. Ef ég væri Guð myndi ég senda svosem eina eldingu í rassinn á liðinu.

 

Hinn flöturinn á þessu er sá sem nefndur er í fréttinni:

"Með því vill hópurinn undirstrika að kristið fólk ber hag þjóðarinnar mjög fyrir brjósti."

 

Eigum við að leyfa Jesú að svara? Já, gerum það! Kíkjum á sjötta kafla Mattheusarguðspjalls:

5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

7Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. 8Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

 

Úps.

 

Kannske hef ég tekið þetta úr samhengi. Kannske stendu einhversstaðar skýrum stöfum að þetta eigi ekki við Íslendinga. Kannske tók Jesú þetta til baka stuttu seinna. "Djók! Auðvitað eigið þið að biðja um það sem þið viljið, annars veit pabbi ekkert hvað það er! Það er ekki eins og hann sé alsjáandi! Hahaha!"

 

 

 

Nei, ég veit hver tilgangurinn með þessu bænatauti er. Hann kemur fram í fréttinni. Tilgangurinn er að berja sér á brjóst og segja "sjáið hvað við eru góð - okkur er ekki sama". Það er fínt að fólki sé ekki sama. Það er verra að að skuli fremur kjósa að fara með gagnslausar galdraþulur en að gera eitthvað af viti. 

 cgSgl

 


mbl.is Bænastund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...!

Það er ótrúlegt hvað sumt fólk er hrætt við að heyra skoðanir sem stangast á við þeirra eigin. Hvernig ætli sé að vera svo hræddur við orð á tölvuskjá að þú lokir fyrir komment við bloggfærslu, eingöngu af ótta við að fólk gæti sagt eitthvað þar sem þér líkar ekki? Hvernig ætli sé að finna hjá sér óstjórnlega þörf til að eyða út kommentum sem komin eru, bara vegna þess að þú ert heigull?

 

Þetta þykir mér merkileg hegðan.

 

 

 


Rangt. Rangt. Rangt.

Látum okkur nú sjá.

 

"Tyrkneskur ráðherra segir..."

Hann er ekki ráðherra, hvað þá forsætisráðherra eins og apinn sem skrifaði þessa frétt heldur. Forsætisráðherra Tyrklands heitir Recep Tayyip Erdoğan. Þessi Egemen Bağış er flokksbróðir hans, og þingmaður, en er auk þess varaformaður flokksins í utanríkismálum (vice-chairman in charge of foreign affairs) og formaður samninganefndarinnar sem annast aðildarviðræður við ESB. Hann er líka ráðgjafi forsætisráðherrans.

 

Þetta  þykja kannske ekki alvarleg mistök, en þegar misfróðir menn úti í bæ éta vitleysuna upp og endurtaka hana gagnrýnilaust er varla hægt að taka mark á þeim. Ef þeir ætla að mála sig sem einhverja sérfræðinga um þessi mál er lágmark að þeir kunni að googla. 

 


mbl.is Hvetur múslima til að tæma bankareikninga í Sviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...en hann sagði það...

 Mér leiðist íslensk "fréttamennska". Í stað þess að  fjalla um það sem er að gerast, er fjallað um hvað einhver segir um það sem er að gerast.

Yfirlit frétta er í stíl Kent Brockmans - upphrópun sem nær athygli, og svo mjórri röddu tekið fram að þetta sé skoðun einhvers aðila. 

 

"ÞEIR SEM KUSU D OLLU HRUNINU! Þetta segir Jón Jónsson, vitleysingur sem enginn tekur mark á."

Næsta kvöld mætir svo sá sem kallaði Jón vitleysing, og kvöldið eftir það er rætt við móður Jóns, sem segist oft taka mark á honum og aftur við Jón sjálfan, en skýrt tekið fram að það séu ekki allir sammála honum. Voilá: góðar fimmtán mínútur af "fréttum". Það er svo hægt að líta yfir ævi Jóns í Fréttaaukanum, skoða safn hans af sultukrukkum í Kastljósinu og hekluðu dúkana hans í Íslandi í dag. Ef bloggheimur bítur er hægt að hefja frétt á orðunum "mikil umræða hefur verið", og síðan hægt að ræða við einhvern áberandi bloggara um umræðuna um umfjöllunina um skoðun vitleysingsins Jóns. 

 

Auðvitað eru ekki allar fréttir svona. Margar eru áhugaverðar, vel unnar og raunverulega hlutlausar. Hlutleysi er ekki að varpa fram skoðun eins og fá svo einhvern með andstæða skoðun til að mótmæla. Það má kalla það 'jafnvægi' en það er ekki hlutleysi. Ég hef ekkert á móti jafnvægi. Raddir allra eiga að fá að heyrast og allir eiga að hafa jafnan rétt til sinna skoðana. En ekki í fréttatímanum. Fréttir eiga að segja frá atburðum. Punktur. Þeir þurfa ekki að vera merkilegir. Mér er alveg sama hvað einhverjum sjálfskipuðum sérfræðingi finnst. Ef fram kemur tillaga um breytingar á sköttum, vil ég fá að vita hvernig breytingarnar eiga að vera, svo ég geti myndað mér skoðun á þeim. Mér er sama þó hagfræðingur A sé alfarið á móti þeim og hagfræðingur B sterklega fylgjandi.

 Ef hagfræðingarnir mæta svo í Ísland í dag eða Silfur Egils og útskýra hvað þeim finnst, eða rífast á blogginu, eða standa á sápukassa á Lækjartorgi og hrópa í gegnum gjallarhorn getur vel verið að ég hlusti. Gjallarhornin eiga hins vegar ekki heima í fréttatímanum. 

 

Gott dæmi um afleiðingar "jafnvægis" í stað hlutleysis má sjá í Bandaríkjunum. Segjum að kosningabarátta sé í fullum gangi. Þáttastjórnandi á stöð sem er meira að segja með orðið "jafnvægi" í slagorði sínu býður frambjóðendum beggja flokka í viðtal. Er það ekki gott? Báðir flokkar fá að koma sínu á framfæri...hjá Bill O'Reilly. Þar er kannske jafnvægi, en hlutdrægara verður það varla. 

Og hvað með það? Það eru líka "vinstri" stöðvar í Bandaríkjunum, þar sem Demókrötum er gert hærra undir höfði. Jafnast þetta ekki út? 

Tökum annað dæmi frá Bandaríkjunum. Forseti er löglega kosinn, en einn vitleysingur ákveður að halda því fram að forsetinn sé í raun ekki bandarískur ríkisborgari. Allir hafa rétt á sinni skoðun, sama hversu heimskuleg hún er, svo stöðvarnar flytja "fréttir" af málinu. Eitt smávægilegt vandamál fer framhjá þeim: þetta er ekki frétt.

Það er ekki frétt að einhver haldi einhverju fram. Það er ekki hlutleysi að gefa í skyn að það sé merkilegt að einhver vitleysingur hafi einhverja ákveðna skoðun. Það er orðin frétt þegar stór hluti landsmanna trúir vitleysingnum, en það hefði aldrei gerst nema vegna þess að þessi tiltekni hálfviti fékk pláss í fréttum. Skoðun hans var ekki bara röng, heldur heimskuleg og rasísk. Hún breiddist út vegna þess að hún fékk ímyndað vægi vegna umfjöllunar "fréttamanna". Þetta snýst meira um að búa til fréttir en að flytja þær. 

 

Þegar "fréttatíminn" byrjar á eftir, býst ég við að í yfirlitinu verði nokkrar fullyrðingar einhverra manna úti í bæ (Alþingi er auðvitað úti í bæ). Ætli neftóbaksádeila Hreyfingarinnar komi ekki sterk inn, með æfum neftóbaksnotanda úr Framsókn sem snýtir sér hátt - til að gæta "jafnvægis". En er það frétt að kerling á þingi sé ósátt við að menn taki í nefið þar á bæ? Kemur það mér við?

Ekki það, þetta er voða kjút "frétt", og nokkuð alvarlegt ef rétt er að tóbakskornin hafi valdið skemmdum. Ef það er rétt, og skemmdirnar hafa haft áhrif á atkvæðagreiðslur, er þetta frétt. Ef það er ólöglegt að neyta tóbaks í þingsalnum er þetta frétt. Annars er þetta kerling að röfla um störf þingsins, í ræðutíma sem er ætlaður undir umræður um störf þingsins. Það er ekki frétt.

 

Kannske vill fólk svona "fréttir". Kannske væru fréttatímar ómögulegir ef ég fengi að ráða.

Kannske er ómögulegt að flytja fréttir á hlutlausan hátt. Kannske er "hlutleysi" ekki til.

 

En fjandinn hafi það, það má að minnsta kosti reyna.

 

*edit*

Það er kannske rétt að geta þess að ég reit þennan pistil eftir lestur færslu hjá Óla Gneista.


Kannabisverksmiðja?

Hvað er kannabisverksmiðja? Hví er þetta verksmiðjuhugtak alltaf notað í umfjöllunum mbl?

Hafið þið annars séð tómataverksmiðju? Gúrkuverksmiðju? Rósaverksmiðju?

Eruð þið kannske sjálf með birkiverksmiðjur við húsin ykkar? 

 

Sjálf er ég með litla verksmiðju úti í stofuglugga. Þar er framleidd ein séfflera og eitt drekatré.


mbl.is Lokuðu kannabisverksmiðju á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband