Bréf til félagsmálaráðherra

Eftirfarandi bréf var ritað og sent til Jóhönnu Sigurðardóttur í dag. 1. maí.

 

Til hæstvirts félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.


Sem kunnugt er standa fjölmörg hús auð og ónotuð víðsvegar um borgina. Á sama tíma eru margir heimilislausir, hugsanlega yfir hundrað manns. Auk þeirra er stór hópur fólks sem vart hefur efni á leiguíbúðum.
Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að enginn hafi komið með þá tillögu sem ég útlista hér að neðan. Hugsanlega er þar um að kenna hugmyndaleysi þó sjálfsagt komi þar að fleiri þættir, svo sem  mótstaða húsnæðiseigenda - þeirra sem hvað mest græða á hinu háa leiguverði- og verktaka  sem láta hús drabbast niður í þeim tilgangi að fá leyfi til niðurrifs. Hver svo sem ástæðan er breytir það ekki stöðunni.
Því kem ég með þá tillögu að slá þessar tvær flugur í einu höggi: nýta það húsnæði sem autt stendur og minnka fjölda heimilislausra í borginni. Lausnin er einföld, svo einföld að það er ótrúlegt að enginn hafi borið fram tillögu þessa efnis á hinu háa Alþingi.

 

Lausnin er að setja hústökulög.

 

Í Bretlandi, Hollandi og víðar hafa hústökulög verið við lýði í lengri tíma, víða með góðum árangri. Þó fjöldi heimilislausra í þessum löndum sé meiri en hér leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri verri ef ekki væri fyrir hústökulögin.

Í löndunum í kringum okkur er að finna fjöldann allan af yfirteknum húsum -jafnvel heilu hverfin- og nægir þar að nefna Kristjaníu í Kaupmannahöfn, Ernst-Kirchweger-Haus í Vín og Can Masdeu í Barcelona.
Í Hollandi er leyfilegt að yfirtaka hús hafi það staðið autt í tólf mánuði eða lengur og eigandinn hafi ekki brýna þörf fyrir notkun þess (svo sem útleigu sem hefst innan mánaðar). Hústökufólkið sendir síðan eiganda og lögreglu tilkynningu um að húsið hafi verið yfirtekið og geta þeir aðilar þá skoðað húsnæðið og gengið úr skugga um að ekki hafi verið unnar skemmdir á því. Einnig staðfesta þeir að viðkomandi hústökuaðili búi þar, þ.e. að á staðnum sé rúm, borð og stóll, sem og lás sem hústökuaðili hefur lykil að.
Í Bretlandi eru svipuð lög, hústökuaðili verður að hafa lyklavöld að húsnæðinu og eigandi má ekki vísa hústökufólki á dyr án dómsúrskurðar þess efnis.

Varla væri erfitt að setja svipuð lög hérlendis og til að auðvelda það enn frekar hef ég tekið saman nokkra punkta sem mættu vera til staðar í lögum:


1. Hafi hús staðið autt og ónotað í eitt ár (12 mánuði) eða lengur má aðili annar en eigandi setjast þar að án sérstaks leyfis.

 

2. Hústökuaðili skal skipta um lása, gera við brotnar rúður með viðeigandi hætti, greiða fyrir vatn og rafmagn sem hann kann að nota (og hugsanlega skrá lögheimili sitt í húsnæðinu). Séu þessi

skilyrði uppfyllt má eigandi ekki vísa hústakanda úr húsnæðinu án dómsúrskurðar þess efnis.

 

3. Þegar hústakandi hefur uppfyllt þau skilyrði sem nefnd eru í 2. lið skal hann tilkynna eiganda um hústökuna, sem og lögreglu, og skulu þeir aðilar (ásamt félagsráðgjafa ef svo ber við) staðfesta að húsnæði og hústakandi uppfylli skilyrðin.

 

4. Til að eigandi fái dómsúrskurð skal hann sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann eða leiguaðilar muni nýta húsnæðið innan mánaðar, og skulu tvær vikur þess mánaðar vera "uppsagnarfrestur" hústakanda, en hinar tvær seinni nýttar til að gera úrbætur á húsnæðinu ef þess þarf.

 

5. Hústakandi má ekki vinna aðgang að húsinu með ólöglegum hætti, svo sem innbroti, en skal njóta vafans hafi skemmdir áður verið unnar á húsnæðinu án þess að sannað verði hver hafi staðið þar að verki. 

 


Ég trúi því að setning hústökulaga verði til góðs, bæði fyrir heimilislausa og borgina alla. Nú þegar kreppa er í sjónmáli má búast við því að heimilisleysi aukist frekar en hitt og því nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu til verndar málsaðilum. Það er til háborinnar skammar að hér á landi skuli finnast heimilislausir á sama tíma og tugir húsa standa auðir og yfirgefnir, sérstaklega í ljósi þess hve auðvelt væri að ráða bót á vandanum. 


Með von um skjót viðbrögð.


Virðingarfyllst,

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
[kennitala]

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FLÓTTAMAÐURINN

Flott hugmynd hjá þér. Hef oft heyrt talað um hústökufólk en hafði aldrei gert mér grein fyrir því að það væru til lög sem styddu hústökuna.

Styð 100% að Ísland taki upp hústökulög.

FLÓTTAMAÐURINN, 1.5.2008 kl. 12:37

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Brill.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 1.5.2008 kl. 15:14

3 identicon

Flott hjá þér!!

Dexxa (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 11:31

4 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Öðrum er að sjálfsögðu velkomið að afrita bréfið og senda, ellegar senda eigið bréf um sama mál. Endilega látið aðra vita.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 2.5.2008 kl. 23:35

5 identicon

en hvað ef ég ákveð að fara td. til náms í 18 mánuði erlendis og skil húsið mitt eftir "autt" á meðan?  má ég þá eiga vona á því að aðkomufólk sé búið að setjast að í húsinu mínu án míns leyfis?  þvælulög..

húsnæðislausir eiga bara að taka til í sínum ranni, finna sér vinnu og húsnæði eins og annað fólk.

Hinsvegar á einfaldlega að setja dagsektir á þessa verktaka,, einfalt og fljótlegt.

Húsamús (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 21:24

6 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það er auðvitað frábært ef námsmenn búa svo vel að geta skroppið til útlanda í nám í eitt og hálft ár og skilið húsið eftir autt. Margir hefðu fremur kosið að leigja það út.

 Ef þú ert enn með skráð lögheimili í húsinu, ert skráður eigandi og hefur gengið svo frá húsnæðinu að það teljist "í notkun", þó ekki sé nema sem geymsla undir húsgögnin þín (fæstir taka alla búslóðina með sér fyrir 18 mánaða skrepp) ættir þú að geta gengið frá því þannig að húsið taki á móti þér í sama ástandi og þú skildir við það.

Ef þú færir í dag myndirðu væntanlega gera einhverjar varúðarráðstafanir, ráða öryggisþjónustu (þar sem þú ert greinilega engin kirkjumús) eða fá vini eða fjölskyldu til að líta eftir húsnæðinu.

Að halda því fram að húsnæðislausir eigi "bara að taka til í sínum ranni, finna sér vinnu og húsnæði eins og annað fólk" hljómar eins og það komi úr munni einhvers sem hefur hingað til aldrei átt við mótlæti að stríða. Ég óska þér að sjálfsögðu til hamingju með það. Hversvegna það er er svo spurning. Kannske áttu ríka foreldra...eða kannske hefurðu bara unnið þig upp (meðfram skóla?), eignast þitt húsnæði skuldlaust og hefur fullan rétt á að líta niður á "aumingjana" sem ekki voru nógu "duglegir" og þú. Að koma sér út úr vítahring skulda er hægara sagt en gert, að ekki sé talað um þegar aðrir þættir -eins og eiturlyfjafíkn- koma til.

Að því sögðu eru það ekki bara "aumingjarnir" sem eru húsnæðislausir; ungt fólk sem er að "koma inn á markaðinn" núna hefur margt hvert einfaldlega ekki efni á að leigja sér húsnæði, hvað þá kaupa það eins og þú bjóst þó svo vel að geta.  Ekki eru allir húsnæðislausir inni í tölunum. Bróðir minn er t.a.m. "heimilislaus" þó hann sé með skráð lögheimili hjá kunningjum og fái að gista hjá þeim eða okkur eina og eina nótt. Það er nefnilega svo að ekki er hægt að skrá sig "utan lögheimilis" á Íslandi, því eru margir rangt skráðir, jafnvel de facto heimilislausir.

Einhver þarf að vinna láglaunastörfin - tala nú ekki um ef hin margumtalaða kreppa skellur á - og ekki hafa allir tök á að búa í foreldrahúsum þar til hún gengur yfir. Hvað þá að þeir geti búið á götunni svo árum skiptir.

Ég vona annars að þú sleppir jafn vel í gegnum restina af lífinu og þú hefur gert hingað til. Það eru ekki allir svona heppnir.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 6.5.2008 kl. 06:30

7 identicon

ég er ekki fæddur með gullskeið í munninum, þvert á móti, ég hef þurft að vinna hörðum höndum fyrir öllu sem ég á.  Ég hef leigt iðnaðarhúnsæði með öðru fólki til að búa í, hef verið á verbúðum, leigt lítil herbergi sem rétt myndu teljast meðalstórar geymslur með hvorki eldhúsi, salerni né baði, bara til að hafa stað til að búa á.  Ég hef líka unnið, fengið laun, unnið mig upp hægt og rólega og eftir 20 ár tókst mér að kaupa lítið hús úti á landi... þetta er bara spurning um forgangsröðun í lífinu.  Í dag vilja allir allt, og það strax og vilja ekki þurfa að hafa neitt fyrir því, það er íslenski hátturinn.  Fyrir mér eiga t.d. eiturlyfjaneytendur engan rétt á því að yfirtaka hús annara, bara af þvi að húsið standi autt í 12 mánuði, enda eru neytendur varla bestu "leigjendurnir" eins og maður hefur oft séð í gegnum tíðina.

Þú talar um að bróðir þinn sé heimilislaus, ef hann er með vinnu, því getur hann ekki fengið sér herbergi eins og þúsundir Pólverja hér á landi? Það er verið að leigja þessi herbergi í öðru hverju iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég sagði, þetta er allt spurning um forgangsröðun.

Húsamús (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 08:05

8 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Gott hjá þér. Hins vegar snýst málið ekki um að "vilja allt. og það strax" heldur að geta lifað mannsæmandi lífi þrátt fyrir fátækt. Þú virðist halda að orsök fátæktar sé leti. Þar hefurðu all-svakalega rangt fyrir þér. Ef leti er orsakavaldurinn, mikið var þá síðasta öld skrítin. Allir voru rosalega duglegir, en urðu svo latir upp úr '30, sem er hentugt því það passaði akkúrat inn í kreppuna. Svo urðu allir voða duglegir aftur og ákváðu meira að segja að skella sér í stríð til að hafa eitthvað að gera. Svo urðu allir latir aftur eftir stríðið, tóku svo smá vinnutörn '80-'90...en eru svo að detta niður í letikast aftur.

Furðulegt.

Og forgangsröðunin, jú, hún skiptir máli. Neytendur eru ekki bestu leigjendurnir, sem er ein ástæða þess að hústökulög eru nauðsynleg - fíklar fá hvergi inni og jafnvel þó þeir fari í meðferð tekur ekkert betra en gatan við þeim þegar þeir koma aftur út: sbr. bróður minn. Ef þeir hefðu þó a.m.k. "sitt eigið" húsnæði frekar en að vera komnir upp á náð og miskunn félagslega húsnæðiskerfisins hefðu þeir betri möguleika.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 6.5.2008 kl. 10:47

9 identicon

Ég sagði hvergi að leti væri orsök fátæktar.. en það er bara þannig að við fáum mismunandi spil úr stokknum, en það er okkar að spila úr því sem við höfum á hendi.

Hústökulög leysa engan vanda að mínu áliti, ég hef búið við hliðina á hústökufólki í Kaupmannahöfn og flest af þessu fólki var hið besta fólk, en ég leyfi mér samt að fullyrða að 90% af þeim voru á ríkinu, þ.e. bótaþegar, fullfrískt ungt fólk sem vildi frekar eyða tímanum í hangs en vinnu,, svona var þetta bara.  Ég sé ekki af hverju þetta ætti að verða öðruvísi hér á landi?

Ég er hjartanlega sammála þér með að það vantar úrræði fyrir fólk sem er að koma úr t.d. meðferð eða úr fangelsum, sjúkrahúsum osfrv.  það er skammarlegt að ekki skuli vera til fleiri svona "half way house" hér á Íslandi, flestir sem virkilega vilja taka til í sínum málum þurfa oftast ekki nema örfáa mánuði til að koma sínum málum í viðunandi horf, en það þarf margt annað að breytast en bara húsnæðismál, t.d. er erfitt að byrja vinnu ef maður t.d. skuldar meðlög eða skatta, skattmann á rétt á að ganga í launin þín næstum ótakmarkað, sem er ekki beinlínis hvetjandi fyrir fólk sem er að reyna að byrja lífið að nýju eftir erfiðleika... 

en hústökulög samþykki ég ekki.. :)  ríkið og sveitarfélögin eiga einfaldlega að sjá til þess að það sé til nægt húsnæði hér í landinu fyrir alla, stóra sem smáa.

Húsamús (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 17:32

10 identicon

Þú ert snillingur! Þetta leysir vandann þegar bankavampírurnar fara að leysa til sín hús vegna vanefnda, og sitja svo með þau svo árum skiptir, vegna þess að í bókhaldinu er betra að eiga ónotað hús, en að selja það með afslætti. 

Með þessum lögum, þá verða bankarnir að gjöra svo vel að selja innan árs, eða eiga í virkilegum erfiðleikum við að selja yfirleitt.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 19:34

11 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Hústökulög, heyr heyr.

Vésteinn Valgarðsson, 10.5.2008 kl. 00:55

12 Smámynd: Sæunn Valdís

Það má sjá bæði kosti og galla á þessari hugmynd einsog öðrum,  auðvitað myndi þetta laga mörg vandamál, en þó er ég sammála húsamúsinni í nokkrum liðum - ekki það að  ég búi svo vel að eiga eigið húsnæði - en stundum spyr maður sig...

Og annað afhverju er fólk sem hefur ekki efni á því að búa í Reykjavík ekki allt flutt út á land? þar er ódýrt húsnæði og - í mörgum plássum - nóga vinnu að fá. hægt að skella sér á vertíð - slátur eða fiskur - skiptir ekki máli... það er hægt að opna augun fyrir því að það er vitsmunalíf utan við borg óttans ;)

það eru margir til dæmis sem hafa skelt sér útá land í eitthvert krummaskuð meðan þeir eru að koma undir sig fótunum og svo bara aftur til baka þegar það er búið, það kostar að flytja en það er líka hægt að sníkja húsgögn hingað og þangað eða fara bara í góða hirðinn... ekki nauðsynlegt að flytja alt gamla draslið með sér hvert á land sem er (auðvitað annað mál þegar börn eru komin inní dæmið-þá er ekki eins auðvelt að flytja milli landshluta)  

En það er í öllu falli hljómgrunnur fyrir þessari hústökulaga hugmynd og flott hjá þér Tinna að senda bréfið! -annars held ég að þú ættir að gera einum betur og bjóða þig bara einfaldlega fram!!! þú mundir verða þrusu félagsmála ráðherra!!! 

Sæunn Valdís, 12.5.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband