Færsluflokkur: Mannréttindi

Allir út!

Það er dálítið (allt í lagi - svakalega) skemmtilegt að skoða breytingar á trúfélagaskráningu landans.

Frá árinu 1990 hefur hlutfall þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna minnkað úr 92,61% í 79,11% og þeim sem eru utan trúfélaga hefur fjölgað úr 1,32% í 2,90% (þá eru ótalin þau 7,11% sem eru skráð í "önnur trúfélög eða ótilgreint", en þeim hefur fjölgað úr skitnum 0,59%)

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir kirkjuna, enda hefur verið stöðugur fólksflótti þaðan undanfarin ár. Búast má við því að enn fleiri skrái sig úr henni eftir skandala undanfarið, enda ekki skrýtið að fólk hugsi sig tvisvar um þegar það sér í hvað sóknargjöldin fara.

Káfandi prestur fær starfslokasamning á við meðal-bankamann.

Prestur fær rúma milljón á ári í akstursgreiðslur - fyrir utan þær greiðslur sem kjarasamningar kveða á um.

Prestar fá hærri laun en lögreglumenn - og gráta svo krókódílatárum yfir eymd almúgans.

 

Ekki má heldur líta framhjá því að nú, í miðri kreppu, eru útgjöld ríkisins til kirkjunnar rúmir 2 milljarðar og virðist enginn láta sér detta í hug að lækka þau eins og þó væri eðlilegt. Kirkjan fær síðan aðra tvo milljarða í formi sóknargjalda.

 

En landsmenn geta hjálpað. Með því að skrá þig úr Ríkiskirkjunni ertu ekki bara að spara sóknargjöldin, sem renna þá í ríkissjóð í stað þess að renna í vasa gráðugra karla í kjólum, heldur ertu að stuðla að trúfrelsi á Íslandi. Eftir því sem færri eru skráðir í Ríkiskirkjuna, þeim mun erfiðara er fyrir biskupinn og prestlingana hans að réttlæta þessi útgjöld.

Ef þú ert trúlaus, skráðu þig þá utan trúfélags. Stór hluti þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna (og reyndar fleiri trúfélög) eiga enga samleið með henni, en hafa ekki nennt að leiðrétta skráninguna. Kannske hugsa þeir sem svo að þetta skipti engu máli. Kannske vita þeir ekki einu sinni af því að þeir séu skráðir.

Ef þú ert kristinn, en sammála því að kirkjan eigi að geta staðið undir sér sjálf (með hjálp Guðs, væntanlega), skráðu þig þá utan trúfélaga.

Ef þú ert sammála því að hér eigi að ríkja raunverulegt trúfrelsi og jafnrétti, skráðu þig þá utan trúfélaga. Það er ekki raunverulegt jafnrétti ef einn aðilinn fær milljarðastyrki á hverju ári.

Ef þú vilt koma í veg fyrir frekari niðurskurð í mennta- og heilbrigðiskerfinu, skráðu þig þá utan trúfélaga. Hver einstaklingur sem ekki greiðir sóknargjöld sparar ríkinu 13.274 krónur á ári - safnast þegar saman kemur. Nú þegar talað er um að þjóðin þurfi að standa saman, er þá ekki sniðugt að við sameinumst um að skera niður útgjöld til gagnslausrar prestastéttar og leggjum aurinn frekar í sameiginlega sjóði samfélagsins?

Þeir sem vilja breyta skráningunni geta nálgast eyðublaðið hér (PDF). Síðan er hægt að skila því útfylltu niður á  Þjóðskrá í Borgartúni 24, eða faxa það í síma 5692949.

 


mbl.is Þúsund hafa breytt um trúfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing

Segjum að ég ræni manni. Ég vel hann af handahófi, kippi honum inn í bíl og ek með hann út í sveit, þar sem ég á lítinn kofa. Þetta er nokkuð afskekkt, svo lítil hætta er á að einhver eigi leið hjá af tilviljun og bjargi manngreyinu. Ég er svosem ekkert vond við hann - hann fær nóg að borða, hann er með lesefni og sjónvarp sér til dægrastyttingar, hann fær meira að segja að senda bréf heim...ritskoðuð að sjálfsögðu. Skiljanlega get ég ekki leyft honum að hringja eða nota tölvu, en hann má skreppa út á skikann sem ég girti af með rafmagnsgirðingu og gaddavír eins og einu sinni á dag í klukkutíma í senn. Ekki má láta hann drepast úr hreyfingarleysi. Ég held manninum þarna í heilt ár, án tiltakandi vandræða (fyrir mig a.m.k.) en þá gerist hið ólíklega og einhver finnur okkur. Ég er að sjálfsögðu dregin fyrir rétt og kærð fyrir frelsissviptingu eða hvað það nú er sem fólk yrði kært fyrir í svona máli.

 

Spurningin er: hver er hæfileg refsing fyrr þennan glæp?

Ef ég hefði lokað manninn inni með hópi annarra manna og þeir beittu hann ofbeldi, andlegu eða líkamlegu, hver væri þá viðeigandi refsing? 

Ef ég hefði sleppt manninum að eigin frumkvæði, ætti það að hafa einhver áhrif?

 

En ef ég væri dómari sem hefði dæmt mann til refsivistar vitandi það að hann væri saklaus?


Riddarar réttlætisins

Undanfarið hef ég staðið í umræðum um íslam, bæði hér á moggablogginu og annars staðar, m.a. á erlendum síðum. Þar sem ég forðast að alhæfa um rúman milljarð múslima hef ég verið sökuð um ýmislegt miður skemmtilegt af þeim sem sjá heiminn á annan hátt en ég.

 

Þrjár vinsælustu "móðganirnar" eru án efa eftirfarandi (stundum allar í einu);

 

"Þú ert örugglega múslimi sjálf."

"Þú þorir bara ekki að gagnrýna íslam."

"Þú ættir að vera hrædd við múslima en ert bara og vitlaus/naív/barnaleg til þess."

 

Þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt íslam virðast líta á það sem rót alls ills. Ef ég bendi á rangfærslur er ég því í liði með hinu illa.

Ef ég kem með dæmi sem afsanna fullyrðingu andmælanda míns um að eingöngu múslimar noti sína trú á ofbeldisfullan hátt, er ég að snúa út úr til að verja íslam, nú eða þykjast "gáfulegt krútt", hvað sem það á nú að þýða. Þrátt fyrir að ég margtaki fram að mér finnist íslam viðbjóðslegt að miklu leyti, og taki jafnvel undir hluta gagnrýninnar, er viðhorfið þannig að ef ég er ekki 100% á móti múslimum, hljóti ég að vera 100% fylgjandi íslam í sinni ljótustu mynd.

 

Þessi tvískipting heimsins í gott og illt er mér ekki að skapi, og það er þess vegna sem ég mótmæli málflutningi þeirra sem vilja sjá heiminn í svarthvítu, ekki vegna þess að ég sé sérstakur verjandi íslam.

Annað atriði sem fer í taugarnar á mér er óheiðarleikinn sem fólginn er í því að afneita voðaverkum í nafni annarra trúarbragða, þrátt fyrir að ótal dæmi séu nefnd. Það er hægt að halda því fram að glæpir í nafni íslam séu á einhvern hátt stærri eða alvarlegri, og þá er mögulegt að ræða það málefnalega, en að þvertaka fyrir að kristnir, hindúar eða gyðingar geti gert nokkuð slæmt er klárlega út í hött. 

Þriðja atriðið sem truflar mig er sú árátta sumra einstaklinga að flagga sínum eigin trúarbrögðum, þrátt fyrir að hafa bæði sagt og sýnt það aftur og aftur að viðkomandi fylgi engum af grunnkenningum þeirrar trúar. Hér á ég t.d. við þá "kristnu" menn sem afskrifa kærleiksboðorðið sem útópíska draumsýn sem ekki á við í raunveruleikanum -og ganga jafnvel svo langt að verja pyntingar - en stæra sig jafnframt af því að vera svo móralskir og réttlátir vegna trúarinnar.

 Eitt í fari þessarra sjálfskipuðu krossfara væri nokkuð skondið ef það væri ekki svona sorglegt, en það er hversu vel þeir hafa tamið sér tungutak "erkióvinanna" og hugsunarhátt. Þeir nota orð eins og kafírar og jihad í sífellu, en alvarlegra er þó sú barnalega hugsun að þar sem "vondu kallarnir" geri eitthvað fyrst, megi þeir gera það líka. Þeir réttlæta eigin tvískinnung með því að þeir séu jú réttlætisins megin, en múslimarnir á bandi hins illa. Þeim finnst hryllilegt að múslimar reyni að stjórna klæðaburði kvenna og vilja berjast gegn því með því að stjórna fatavalinu sjálfir. Þeir þreytast ekki á að minna fólk á það að múslimar sjái eingöngu trúbræður sína sem nokkurs virði, annað en kristnir sem elska alla...svo lengi sem "allir" eru kristnir. Þeir fordæma árásir múslimskra bardagamanna á óbreytta borgara, en fagna þegar enn einum múslimanum er stungið í fangabúðir, enda er hann örugglega sekur um eitthvað hvort sem er. Þeir fordæma harðlega þau mannréttindabrot sem tíðkast undir sharia-lögum, en sjá ekkert athugavert við þær pyntingar sem framdar eru í nafni vestræns "réttlætis". 

 

Allra verst eru þó hrokinn og þrjóskan við að viðurkenna mistök. Í huga þessarra manna eru þeir nefnilega útvaldir til þess að berjast gegn hinu illa, og allir vita að hinir útvöldu gera ekki mistök. Ef einhver sakar þá um slíkt, hlýtur það að vera vegna þess að viðkomandi er annað hvort viljandi að snúa út úr eða of heimskur til að skilja speki hinna útvöldu riddara réttlætisins.

 

Reyndar er það synd að þessir Kíkótar internetsins skuli ekki gera sér far um að kynnast íslömskum öfgamönnum. Þeir eiga fleira sameiginlegt en þá grunar.


Hvernig á að banna búrkuna?

Ég er með spurningu til ykkar sem endilega viljið banna búrku/niqab; hver eiga viðurlögin við brotum á banninu að vera?

Þið segið að búrkan sé notuð til að kúga konur. Er þá réttlátt að refsa þeim fyrir að vera kúgaðar?

Þið segið að konur geti ekki mögulega valið þetta sjálfar, svo rökrétt væri að refsa þeim sem neyðir hana til að bera klæðin. Hvernig ætlið þið að sanna þann glæp? Ef konan sjálf heldur því fram að hún velji að bera niqab, ætlið þið þá að segja henni að hún geti ekki haft það val, hún sé bara heilaþvegin? Goð hugmynd: fátt sem eykur sjálfstraust kúgaðra kvenna meira en að segja henni að orð hennar séu ómarktæk af því að hún er bara (múslima)kona!

Þær konur sem raunverulega búa við það að vilja/mega ekki sýna andlit sitt á almannafæri nota niqab sem einskonar "ferðaheimili". Ef ekki er fyrir þessa ímynduðu "vörn" gegn öðru fólki, er hætta á að konan velji/sé neydd til að halda sig alveg innan veggja heimilisins. Ekki hjálpar það kúgaðri konu.

 

Ég er ekki viss um að þið hafið hugsað þetta nógu vel. Endilega segið mér hvernig á að framfylgja svona búrkubanni, ég sé það ekki alveg. 

 

Ég er fylgjandi því að konur hafi fullt frelsi til að klæða sig eins og þær vilja, hvort sem þær vilja hylja sig frá toppi til táar eða ganga um naktar (en það er efni í annað blogg) eða eitthvað þar á milli. Þú verndar ekki einstaklingsfrelsið með því að hefta frelsi einstaklingsins. Svo ég tönnlist nú á þessu hérna líka:

Þú verndar ekki rétt kvenna til fóstureyðinga með því að banna barneignir. Þú verndar ekki rétt til vinnu með því að neyða fólk til starfa. Þú verndar ekki málfrelsið með því að banna ákveðin orð, eða hugsanafrelsi með því að banna ákveðnar skoðanir. Þú verndar ekki trúfrelsi með því að banna ákveðna trú. 

Lögin banna nú þegar kúgun og nauðung. Að búa til sérstök búrkulög er óþarft, auk þess sem slik lög myndu hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. 

Að  hjálpa þeim konum sem raunverulega eru kúgaðar, hvort sem er vegna trúarbragða eða annars, er verðugt verkefni. Rétta leiðin til þess er hinsvegar ekki sú að banna ákveðinn klæðnað eða hegðun, svo lengi sem viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Með því að auka menntun og félagslegan stuðning við konur (og reyndar alla) sem eru í áhættuhópi, t.d. vegna trúar (eða vegna þess að viðkomandi er nýfluttur til landsins, þekkir engan og á því ekki jafn víðtækt tengslanet og aðrir, og aðhyllist auk þess trú þar sem kúgun kvenna er alltof algeng) er hægt að ná mun betri árangri en með því að gera viðkomandi að glæpamanni.

 

Ég mæli svo með því að þið lesið þessa grein.


mbl.is Danir deila um búrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíðum aðeins...

Ég renndi yfir þau blogg sem þegar er búið að tengja við fréttina og fæ ekki betur séð en að þeir sem þau rita séu allir á bandi stúlkunnar. Þó hafa komið fram athugasemdir sem ekki eru jafn skemmtilegar.

Við þessa færslu er að finna svohljóðandi athugasemd:

 

        "Hún er núna gift, þar með er hún hluti af hans fjölskyldu, þetta er ekki eins og hérna."

 

og við þessa má lesa:

 

        "Ég er múslími. Dóttirin er ekki ein af móðurfjölskyldunni lengur...hún tilheyrir fjölskyldu mannsins sem hún giftist...þannig er það nú bara...og ekkert við því að segja."

 

Þetta eru ekki gild rök. Móðirin vill greinilega að dóttir hennar og tengdasonur komi til Íslands, þau vilja það sjálf...en tveir Íslendingar vita betur og segja það ekki í samræmi við hefðir múslima. Þeir hljóta auðvitað að vita betur en Ayda og Sama hvernig hefðir og venjur eru hjá þessari tilteknu fjölskyldu, ekki satt? Ég læt svo svar síðuhöfundar fylgja með seinni athugasemdinni:

 

 "Úr því fjölskylda mannsins getur ekki séð um sína, þá eiga þau að vera velkomin hingað til lands þar sem ekki er litið á konur sem húsdýr. Við byggjum þjóðfélag okkar á kristnum gildum, þar sem náungakærleikur er hafður í fyrirrúmi. Ekki á hatri og skorti á umburðarlyndi."

 

Þó hann meini eflaust vel má fátt annað lesa úr svarinu en hroka og yfirlæti. Ég leyfi honum annars að njóta vafans, hugsanlega var þetta bara illa orðað hjá honum.

Ekki er hægt að segja hið sama um athugasemdirnar við þetta blogg:

 

"Ég er skagamaður og ég get sagt þér það að við höfum nóg með okkar, og við höfum flest öll fengið nóg af þessu liði."

 

og

 

"Ef það á að sameina fjölskylduna þá hlýtur fjölskylda hans að koma á eftir, nei takk."

 

Hér er ekki umburðarlyndinu fyrir að fara, enda skrifa þessir einstaklingar ekki undir nafni.* Við fyrri athugasemdinni er lítið hægt að segja. Ég hef persónulega ekki orðið vör við þessa miklu óánægju Skagamanna, en þó getur vel verið að hún sé til staðar. Ég leyfi mér þó að vona að hún sé a.m.k. ekki jafn útbreidd og þessi "logus" vill meina. Seinni athugasemdin er öllu ljótari. Höfundur hennar er einfaldlega fordómafullur asni, nema auðvitað að hún þekki fjölskyldu tengdasonar Aydu persónulega. Ef svo er væri gott að fá skýringu á því hvers vegna hún er ekki húsum hæf. Ég efast um að þessi "Guðrún Skúladóttir" (ætli hún sé dóttir ákveðins vitleysings?) viti nokkurn skapaðan hlut um fjölskyldu Alis, svo eftir stendur skýr ótti við múslima. Svo ég leyfi sjálfri mér smá fordóma: þessi kona er sjálfsagt á miðjum aldri, horfir á Omega og les Blekpenna af áfergju. Uppáhalds bókin hennar er 'Íslamistar og naívistar' og hún getur ekki séð neitt sambærilegt við bænaköll múslima og bjölluglamur íslenskra kirkna.**

Því miður óttast ég að fleiri maðkar komi í ljós ef þetta mál fær meiri umfjöllun (sem ég vona nú samt að það geri) og að þeir tjái sínar skoðanir ekki jafn "kurteislega". Sjáum til. Svona til "gamans" skal ég spá þessu:

Einhver á eftir að draga kreppuna inn í umræðuna í því samhengi að við höfum ekki efni á að hugsa um annað en rassgatið á sjálfum okkur. Einhver á eftir að tengja byggingu mosku við málið og kvarta undan bænakallinu. Einhver á eftir að nota orðin "kristilegt siðgæði" án þess að sýna nokkuð af því*** sjálfur. 

En bíðum aðeins...sjáum til. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

 

*Ég hef ekkert á móti nafnlausum bloggurum, en nafnlausar athugasemdir eru oftast nafnlausar vegna þess að viðkomandi þorir ekki að standa við sínar skoðanir. Ég myndi líka skammast mín fyrir þessi komment.

**Það viðhorf er svosem efni í annan pistil. Ég hef síðan ekki hálfa höggmynd um hver þessi kerling er. Það er meira að segja möguleiki á að hún sé alls ekki kerling. Nafnleysið er skemmtilegt, ekki satt?

***Með "kristilegu siðgæði" á ég við almennt siðgæði, enda ekkert til sem heitir kristið siðgæði. Þeir sem hvað oftast varpa þessum frasa fram virðast a.m.k. alls ófærir um að benda á nokkuð "sérkristið" í ídeal samskiptum (sínum eða annarra) við náungann.


mbl.is Móðirin á Skaga, dóttirin í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændi

Í forystugrein fréttablaðsins í dag skrifar Steinunn Stefánsdóttir um elstu atvinnugreinina, vændi. Hún heldur á lofti sömu gömlu tuggunni, að vændi sé kynferðisofbeldi, og vísar máli sínu til stuðnings í orð talskonu Stígamóta.

Mansal og nauðung er alvarlegt mál og ekki dettur mér í hug að verja það, en orð talskonunnar slógu mig. 

"Hún sagðist ekki geta réttlætt frelsi [kvenna sem stoltar selja kynlífsþjónustu] á kostnað allra hinna sem ekki hafa raunverulegt val". 

Er einhver munur á þessu og að banna kynlíf vegna þess að misnotkun og nauðganir eiga sér stað? "Ég get ekki réttlætt frelsi kvenna til að stunda kynlíf á kostnað hinna sem er nauðgað"?

Hinn punkturinn sem Steinunn setur fram er að rannsóknir hafi sýnt að flestar konur sem stundi vændi búi við slæmar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. "Kaupandinn, eða ofbeldismaðurinn, er þannig að færa sér í nyt aðstæður þess sem stundar vændið og beita hann kynferðislegu ofbeldi sem hann greiðir fyrir, annað hvort fórnarlambinu sjálfu eða þriðja aðila." 

Vændi er vinna. Ef ekki væri fyrir kynlífstenginguna, dytti engum í hug að kalla vinnuveitanda ofbeldismann. Þetta viðhorf margar sprettur frá þeirri hugmynd að konur séu alltaf fórnarlömb í kynlífi, mýta sem átti miklum vinsældum að fagna á Viktoríutímabilinu - og reyndar langt fram á síðustu öld. Ég hélt að við værum hætt að vera svona vitlaus.

 

Ég spyr aftur, er einhver munur á því að kalla vændiskaupanda annarsvegar, eða vinnuveitanda hinsvegar, ofbeldismann? Nýta fyrirtæki sér ekki námsmenn sem búa við slæmar fjárhagslegar aðstæður? Eru Hagkaup þrælabúðir?  

Til að eiga kost á atvinnuleysisbótum þurfa umsækjendur að sækja námskeið. Ef þeir mæta ekki, fá þeir ekki pening. Er Vinnumálastofnun að nýta sér neyð fólks með því að skikka það til að fylla út eyðublöð? 

Vændiskona eða maður, sem grípur til þessa ráðs í neyð er ekkert öðruvísi en manneskja sem fer að vinna á McDonalds í neyð. Ef fólk ynni eingöngu við það sem því líkar, myndu hjól atvinnulífsins hætta að snúast. 

 

Mansal og þrælkun er svo allt annað mál, en á að falla undir sömu lög og önnur þrælkunarvinna, ekki einhver sérlög bara vegna tengingarinnar við kynlíf.

 

Hvers vegna er vændi af frjálsum vilja álitið öðruvísi en önnur líkamlega vinna sem greitt er fyrir - jafnvel þriðja aðila? Ég vann um stund hjá garðvinnufyrirtæki þar sem þriðji aðili - eigandinn - hirti launin og úthlutaði svo broti af þeim til okkar starfsmannanna. Er hann þá ofbeldismaður? Ég kaus sjálf að vinna þarna - og kaus sjálf að hætta þegar kom í ljós hvern mann eigandinn hafði að geyma og fékk aldrei nema hluta af laununum.

 

Ég hefði betur farið í vændið.


« Fyrri síða

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband