Enn af "dópi" - nú með dæmum!

 

Misnotkun réttlætir ekki bann við notkun.

 Það er hægt að misnota allt. Það er nokkurnveginn skilgreiningin á misnotkun; notkun sem (vegna óhófs, t.d.) skaðleg á einhvern hátt. Spurningin er síðan hver munurinn á notkun og misnotkun er. 

Vissir þú að Nonni hennar Siggu notar dóp?

Vissir þú að Danni hennar Bínu misnotar dóp?

Í fyrra tilfellinu er um að ræða óskaðlega neyslu. Nonni skaðar kannske heilann í sér til lengri tíma litið, alveg eins og hann gerir með sígarettunum, en hann hefur stjórn á neyslunni, neytir sér til ánægju (væntanlega - ekki veit ég um neinn sem reykir hass eða droppar e til að láta sér líða illa).

Danni er hinsvegar líklega fíkill. Hann hefur á einhverjum tímapunkti orðið háður -líkamlega eða andlega- neyslunni og nú hefur hún slæm áhrif á hann. Hún skerðir lífsgæði hans og jafnvel lífslíkur.

Nonni á ekki að þurfa að minnka sín lífsgæði vegna misnotkunar Danna.

Mamma hans Danna, hún Bína, eyddi oft háum fjárhæðum í spilakassa, svo ekki var til fé fyrir mat. Pabbi hans Kalla í næsta húsi fannst matur hins vegar voða góður - og er nú með sykursýki, slitgigt og veikt hjarta. Hann er þó heppinn, því hann fær lyfin sín niðurgreidd. Þegar hann lifði fyrsta hjartaáfallið af (þetta sem hann fékk undir stýri), grét fjölskyldan af gleði. Þegar Danni lifði fyrstu alvarlegu  lifrarsýkinguna af, fussuðu ættingjarnir yfir því sem strákurinn væri búinn að koma sér í með svona óábyrgri hegðun. Hann fór samt í meðferð, en þó hann verði edrú og nái lífi sínu aftur í eigin hendur, verður hann samt alltaf "fyrrverandi dópisti". Hann er með dóm á bakinu fyrir vörslu fíkniefna, sem gerir honum erfitt fyrir, og hann er með lifrarsjúkdóm (sem ríkið niðurgreiðir líka meðferð við). Þessvegna langar hann ekki að hætta. Samfélagið er búið að stimpla hann sem aumingja sem getur sjálfum sér um kennt - hann er farinn að trúa því.

Nonni er hinsvegar í góðum málum. Hann ræktar grasið sitt inni í svefnherbergisskáp, fær sér jónu til að slappa af, og e eða sýru svona "spari". Hinsvegar er hann að spá í að hætta þessu, því nágrannarnir eru farnir að snuðra. Hjartað slær alltaf aðeins örar þegar hann heyrir þau tala um "undarlegu lyktina í stigagangnum" (þó þau gætu allt eins átt við kattarhlandlyktina frá manninum á efstu hæðinni). Hann vill ekki verða böstaður. Þá myndi hann missa umgengnisréttinn við börnin sín og mamma hans yrði "á barmi örvæntingar". Hún veit nefnilega eins og er að þeir sem reykja hass enda allir í heróíninu, alveg eins og löggan veit að enginn ræktar nema hann sé að díla.

 Alveg eins og allir vita að "dóp" verður að vera bannað því það er svo hættulegt.

---

Þeir sem oftast láta í sér heyra í fíkniefnaumræðunni virðast skiptastí tvo flokka; fyrrum misneytendur (sem höfðu ekki stjórn á neyslunni og hafa því hætt henni algjörlega - og gott ef það virkar fyrir þá) - og hina sem aldrei hafa neytt neins ólöglega eða í óhófi. Það eru þeir sem kaupa áróðurinn- "dytti ekki í hug að prófa..."o.s.frv. Hinir fáu sem leyfa sér að verja sína (hóflegu) neyslu fá nefnilega ekki bara yfir sig skítkast, heldur eru þeir að viðurkenna lögbrot í einhverjum tilfellum. Ef hóflegur neytandi hættir án þess að stimpla sjálfan sig sem fíkil með því að ganga í gegnum AA-skólann er svarið "Já, þú gast kannske hætt, en hvað með hina sem geta það ekki?" "Hugsaðu um börnin!" eða þetta besta

"Þú hlýtur að hafa hætt afþví að þér leið illa. Jú, það hlýtur að vera. Annars hefðirðu ekki hætt."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Promotor Fidei

Kæra Zerogirl.

Ég er einn af þessum mömmustrákum sem lætur dóp alveg vera, af sömu ástæðum og ég læt vera að fara í fallhlífarstökk: það gæti verið gaman, en það gæti líka haft skelfilegar afleiðingar, og ég er almennt svo sáttur við það líf sem ég lifi og svo alsæll alla daga að ég sé ekki ástæðu til að taka sénsinn á að eyðileggja góðan hlut, jafnvel þó að séu meiri líkur en minni að ég myndi koma alveg ágætlega heill út úr því að experimenta.

Og með hliðsjón af því, vil ég endilega deila með þér hugdettu sem ég fékk um daginn, sem gæti losað ísland við "eiturlyfjavandann".

Hugmyndin er í hnotskurn sú, að hið opinbera opni n.k. dópstofur, þar sem dóp yrði ekki aðeins löglegt, heldur einnig fáanlegt ókeypis og í hæsta gæðaflokki.

Ég sé fyrir mér að hver sem er geti komið á þessar stofur, hvenær sem er sólarhringsins, og fengið ókeypis einstaklingsskammt af réttum styrkleika, sem framleiddur hefur verið á öruggan hátt og er afgreiddur af heilbrigðissérfærðingi.

Fíkniefnaneytendur væru að fá skammtinn sinn í vernduðu umhverfi, þar sem ráðgjöf og stuðningur eru innan seilingar.

Þeir verst settu gætu verið þarna í móki, fengið kaffiveitingar eins og gefnar eru í Blóðbankanum, og jafnvel fengið heilsugæsluþjónustu, svefnpláss, og hægt væri að skima eftir sjúkdómum.

Þeir væru þá ekki á meðan í hnipri og viðbjóði í einhverri kompunni eða húsasundinu, væru ekki til ama úti í samfélaginu, -og það sem kannski munar mest um, fíklar hefðu ekki lengur ástæðu til að fjármagna neysluna með glæpum.

Ekki yrði heldur til ágóði af fíkniefnaframleiðslunni fyrir glæpagengi, terrorista og allskyns hernaðarhópa í frumskógum s-ameríku, steppum afríku eða fjallendi asíu.

Ég sé fyrir mér að við opnun dóp-kontóranna myndi staða fólks í fíkniefnavanda snarbatna, og glæpir fíkla myndu falla niður úr öllu valdi.

Það sem meira er, fíkniefnasalar myndu standa frammi fyrir snarminnkuðum fjölda kaupenda og hríðlækkandi verðum þökk sé miklu framboði á fríu hágæðadópi. Ávinningurinn af því að storka lögunum með fíkniefnasölu yrði mun minni, og færri og færri einstaklingar sæu sér hag í að selja fíkniefni.

Og þegar menn sjá sér ekki hag af að selja fíkniefni, hafa þeir ekki heldur ávinning að markaðssetja vöruna. Það verður til þess að dópsalar missa hvatann til að reyna að búa til nýja fíkla, hvort sem það er í eigin vinahópi eða í næsta framhaldsskóla.

Frístundaneytendur kunna að reka augun í, að ef hugmyndir mínar yrðu að veruleika myndi dílerinn þeirra finna sér annan starfa, sem er lélegt því það er lítið gaman að poppa e eða reykja hass inni á ríkiskontór, innan um róna og aumingja.

Þess vegna mætti gera ráð fyrir þeim möguleika að fólk mætti fara með einstaklingsskammta út af dópkontórnum -eina pillu fyrir ballið eða eina jónu fyrir notalega kvöldstund í moki. Slík skömmtun myndi ekki verða til þess að athafnamenn færu að reyna að koma ríkisdópi í verð á almennum markaði, heldur þvert á móti koma enn frekar í veg fyrir að dópsalar hefðu hagnað af störfum sínum og tryggja að neytendur nota gæðaefni og þannig ættu heilsuskemmdir af neyslu að vera í lágmarki.

Ég sé fyrir mér að nafnlaus persónumerking með hornhimnu- eða fingrafarssskönnun gæti fylgt hverjum skammti, svo hægt væri að fylgjast með því að hver einstaklingur væri ekki að sanka að sér efnum, og svo að stilla mætti skammtinn í samræmi við neyslumynstur hvers og eins.

Svo væri dópið auðvitað afhent í vönduðum umbúðum, með vönduðum upplýsingum un notkunaraðferð, áhrif lyfsins, aukaverkanir og hvernig á að bregðast við ofneyslu og fíkn.

-Snilld, finnst þér ekki?

Promotor Fidei, 7.1.2008 kl. 00:22

2 identicon

Það mætti alveg kalla mig mömmustelpu í sama skilningi og Promotor er mömmustrákur.. fyrir utan það að ég er alveg til í fallhlífastökk og allskonar hættuleg fíflalæti.. en fíkniefnin læt ég alveg vera.. en ég skipti mér heldur ekki af því hvort aðrir neyta þeirra eða ekki, svo framarlega sem engan skaði.. ég einfaldlega bara finn enga þörf hjá mér að prófa þetta sjálf.

Dexxa (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 16:00

3 identicon

Það er fíknin sem er rauði þráðurinn í þessu. Dópið er nefnilega fjandi líklegt til að vekja upp fíkn.

Sá sem er fíkill er að klást við geðræn vandamál og það er eðlilegt að ríkisbáknið  reyni að bregðast við því með að banna fíknilyf.  Leyfðu fíkniefnin þe sígarettur og áfengi eru engöngu leyfileg á sögulegum forsemdum, ef svo má segja. þ,e vegna þess að þau hafa verið til frá örófi alda og neysla þeirra þróast samhliða þróun ríkisvalds og laga.

Tilraunin sem Promotor mælir fyrir væri athyglisverð. 

Hafdis (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 09:47

4 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Reyndar líst mér ekki nógu vel á tillögu Promotors, aðallega vegna þess að hún byggir á stjórn ríkisvaldsins. Restin er fín, enda fékk ég svipaða hugmynd fyrir nokkrum árum, en þá undir merkjum einstaklingsframtaks.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.1.2008 kl. 10:06

5 Smámynd: Promotor Fidei

Heilbrigðissviðið er eitt af fáum sviðum þar sem ég er ekki alveg gallharður ríkisfjarverusinni. Fíkniefna-kontórs hugmyndin finnst mér vera heilbrigðismál, og jafnvel löggæslumál, þar sem verið er að leysa vanda fíkla, draga úr nýliðun fíkniefnanotenda (og þannig fækka fíklum) og stemma stigu við fíkniefnatengdum glæpum.

Einkaframtakið kemst samt alveg að, enda sjálfsagt að dópkontórarnir séu reknir af einkaaðilum skv. samningi við ríkið, rétt eins og hver önnur tannlæknastofa. Kúnstin þar er sú að finna kerfi sem verðlaunar afköst og góða þjónustu en forðast um leið að þjónustan sé þannig að hún beinlínis búi til nýja neytendur eða auki neyslu þeirra sem þegar neyta.

Er líka spurning hvort bjúrókrötum hins opinbera er treystandi til að búa til slíkt styrkjamódel svo vel sé.

Varðandi það sem Dexxa segir, að hún skipti sér ekki af neyslu annarra, svo framarlega sem engan skaði:

Ég er hlynntur því að einstaklingurinn hafi frelsi til að dópa frá sér allt vit, fé og heilsu -ef hann býr í tómarúmi. Hins vegar lendir yfirleitt mikill kostnaður á samfélaginu (og þá mér líka) vegna fíknar annarra, bæði vegna heilbrigðismeðferðar og glæpa. Bætist við í því samfélagslega módeli sem við höfum á íslandi að búið er að fjárfesta miklum fjármunum í menntun og  heilsu einstaklinga fram að lögræðisaldri, og er sú fjárfesting farin fyrir litið þegar einstaklingur ákveður/ slysast til að svipta sig rænu og heilsu með dópi, amk á meðan hann er á vinnualdri (fólk sem farið er af vinnumarkaði má mín vegna alveg dópa villt og galið, ef það borgar sjálft fyrir sjúkrahúskostnað sem getur hlotist af.)

Þá er sala og markaðssetning dóps með þeim hætti að byggir yfirleitt á misvísandi upplýsingum um gæði, öryggi og áhrif vörunnar og ánetjun í kjölfarið, og slíkir viðskiptahættir leyfa ekki eðlilega, upplýsta og yfirvegaða ákvörðun einstaklingsins um hvort hann á viðskipti eða ekki.

...þetta er snúið mál alltsaman.

Promotor Fidei, 9.1.2008 kl. 04:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband