31.8.2008 | 17:48
Paranoia
Berið saman eftirfarandi:
A:
"Ég veit að ríkisstjórnin fylgist með mér. Þeir vita hvenær ég sef, hvenær ég vaki, hvað ég geri, meira að segja hvað ég hugsa. Ef ég hugsa óþjóðræknar hugsanir munu þeir refsa mér, en ef ég er þjóðrækinn í háttum og hugsunum verð ég hetja. Ég vil ekki gera ríkisstjórnina reiða, svo ég passa hvað ég segi. Ég vakna á hverjum morgni og segi upphátt "Mikið er ég feginn að búa í þessu landi. Mikið er ég þakklátur fyrir ríkisstjórnina." Áður en ég fer að sofa þakka ég ríkisstjórninni fyrir að hafa leyft mér að lifa út daginn og bið hana um að leyfa mér að lifa nóttina líka. Ég segi öllum sem vilja hlusta að ríkisstjórnin fylgist með þeim líka og að þeim verði refsað ef þeir brjóta gegn vilja hennar."
B:
"Ég veit að Guð fylgist með mér. Hann veit hvenær ég sef, hvenær ég vaki, hvað ég geri, meira að segja hvað ég hugsa. Ef ég hugsa óguðlegar hugsanir mun Hann refsa mér, en ef ég er Guðrækinn í háttum og hugsunum öðlast ég velþóknun Hans. Ég vil ekki gera Guð reiðan, svo ég passa hvað ég segi. Ég vakna á hverjum morgni og segi upphátt "Mikið er ég feginn að búa á þessari jörð. Mikið er ég þakklátur fyrir blessun Guðs." Áður en ég fer að sofa þakka ég Guði fyrir að hafa leyft mér að lifa út daginn og bið hann um að leyfa mér að lifa nóttina líka. Ég segi öllum sem vilja hlusta að Guð fylgist með þeim líka og að þeim verði refsað ef þeir brjóta gegn vilja Hans."
Hver er munurinn?
Einstaklingur A er greinilega haldinn vænisýki og ímyndunarveiki á háu stigi og yrði eflaust skikkaður til að leita sér hjálpar ef hann viðraði hugmyndir sínar opinberlega.
Einstaklingur B er aftur á móti -í augum margra- sérlega góður einstaklingur, einmitt vegna þess að hann trúir því að einhver fylgist stöðugt með honum.
Hversvegna er það "heilbrigt" og merki um æðri siðferðisvitund að trúa því að ósýnilegur aðili lesi hugsanir þínar, en merki um geðveiki að trúa því að raunverulegur einstaklingur geri hið sama? Jafnvel þó einstaklingur A væri alls ekki hættulegur umhverfi sínu og sætti sig við ímyndað eftirlitið á sama hátt og trúaðir sætta sig við sitt, yrði hann samt stimplaður geðveikur og lokaður inni.
Hvorum einstaklingnum myndirðu treysta fyrir barninu þínu? Ef barnið þitt fer í sunnudagaskóla eða fermingarfræðslu - eða jafnvel bara "trúarbragðafræðslu" í skólanum- er það líklega í umsjá aðila B.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:57 | Facebook
Um bloggið
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Tenglar
Gamalt tuð
- Blókarspotti Hróa Hróaábendingar
- Blókarspotti Dautt blogg
- Fólk er fífl.is Dautt blogg
- FerðaBlogg Á lífi - fylgist með
- MittSvæði
- Lifandi dagbók Í andarslitrunum
Bloggvinir
- malacai
- pannan
- stutturdreki
- skrekkur
- einarsmaeli
- aulinn
- furduvera
- fsfi
- valgeir
- gregg
- gurrihar
- zeriaph
- hvilberg
- hallurg
- rattati
- heidar
- hexia
- himmalingur
- hjaltirunar
- disdis
- jevbmaack
- jakobk
- changes
- prakkarinn
- jonthorolafsson
- andmenning
- ugluspegill
- miniar
- mist
- hnodri
- reputo
- robertb
- runavala
- sigmarg
- sigurjon
- shogun
- nimbus
- skastrik
- svanhvitljosbjorg
- stormsker
- kariaudar
- zion
- tara
- taraji
- texi
- thelmaasdisar
- torfusamtokin
- toshiki
- tryggvienator
- upprifinn
- vga
- vest1
- fingurbjorg
- gummih
- kiza
- kreppukallinn
- krossgata
- isdrottningin
- nosejob
- olafurfa
- tharfagreinir
- thorgnyr
- valli57
- apalsson
- skagstrendingur
- partialderivative
- biggihs
- bjorn-geir
- dingli
- einarjon
- glamor
- breyting
- gthg
- sveinnelh
- hehau
- hordurt
- kt
- omnivore
- olijon
- styrmirr
- lalamiko
- thorrialmennings
Bækur
Nýlesið/eftirlæti
-
Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian -
Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
: Mirror, Mirror -
(ISBN: 1740597796 )
Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
: Lonely Planet: Europe on a shoestring
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mjög sniðugt. Mér finnst merkilegt að fullorðið og þroskað fólk skuli ekki skammast sín fyrir að trúa á guði...
Sigurjón, 31.8.2008 kl. 21:17
Þetta er góður samanburður hjá þér. Ég hef einmitt oft líkt því fólki sem segir að trú á guð sé forsenda siðferðis við fólk sem gefur einungis stefnuljós ef það sér að lögreglubíll er í návígi.
Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 13:34
Haha voðalega fyndin,
Ef að ég persónulega myndi hafa líkar skoðanir og einstaklingur A myndi ég væntanlega vera sátt við að senda börnin mín til einstaklings A - alveg einsog ég sem "einstaklingur B" hef ekkert á móti því að aðrir "einstaklingar B" komi að uppeldi barnanna minna.
Annars þá skil ég ekki alveg þessa áráttu fólks til að láta alla vera sammála sér, það má segja Tinna mín að þú sért OFSA-trúarbragðaleysingji ;)
Sæunn Valdís, 1.9.2008 kl. 20:14
Er þetta ekki dálítil einföld samlíking? Ef ég má vil ég benda á nokkur atriði.
Það er munur á sköpun og skapara. Þótt maður gæti sagt að bæði ríkisstjórn og Guð hafi það sameiginleg að hafa ákveðið forræði yfir manni, eða þannig, þá er óendanlegur munur á milli.
Við samþykkjum völd ríkisstjórnarinnar því að við vitum að hennar er þörf til að viðhalda reglu. Við hinsvegar áttum okkur líka á því að ríkisstjórn er samsett af ófullkomnum einstaklingum og reynum bara að vinna þannig með henni.
Guð hinsvegar er skapari alheimsins. Guð er hafinn ofar öllum mannlegum eiginleikum og göllum og jafnvel það að kalla Guð fullkominn væri að reyna að binda hann í ákveðna mynd. Guð er uppspretta lífs og reglu og hann gefur okkur þær leiðbeiningar sem við þurfum á að halda til að geta uppfyllt tilgang lífs okkar og öðlast raunverulega hamingju. Hvort sem við samþykkjum Guð eða ekki er hann í lífum okkar allra þar sem við gætum ekki lifað án þessarar uppsprettu lífs okkar - við gætum allt eins reynt að afneita súrefni.
Það er mikilvægt að pæla í því hvers eðlis manneskjan er. Er hún einungis dýr eða er hún andleg vera? Í raun og veru er manneskjan bæði tvennt. Líkami okkar er af þessum heimi eðlishvata en andi okkar fylgir öðrum lögum - andlegum lögum. Þessi andlegu lög eru ekki tilgangslausar reglur gerðar til að íþyngja manninum eða taka frá honum hamingju. Þvert á móti eru lög Guðs það frelsandi afl sem gerir okkur kleift að hefja okkur yfir dýrslegar hvatir og efnismiðuð viðhorf.
Þessi lög eru ekkert ólík náttúrulögmálunum - það fylgja alltaf afleiðingar gerðum okkar. Manneskja gæti ákveðið að hún ætli ekki lengur að fylgja þyngdarlögmálinu. Er það þyngdarlögmálinu - eða öllu heldur skapara þess - að kenna ef manneskjan brýtur fót er hún stekkur fram af bjargi?
Ein mjög þekkt andleg lög eru: gerðu við aðra eins og þú myndir vilja láta gera þér.
Þú býrð til mjög tvívíða mynd af trúmanninum og virðist þetta vera sú ríkjandi mynd sem margir þeir trúleysingjar sem ég hef rætt við hafa af trúfólki. Það er svo sem í lagi mín vegna en mér finnst alltaf nauðsynlegt að reyna - ef maður getur - að sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum en bara einu. Þannig fær maður miklu betri og fallegri mynd.
Kærar kveðjur,
Jakob
. (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 20:41
Við samþykkjum völd ríkisstjórnarinnar því að við vitum að hennar er þörf til að viðhalda reglu.
Ekki ég
Annars þá skil ég ekki alveg þessa áráttu fólks til að láta alla vera sammála sér, það má segja Tinna mín að þú sért OFSA-trúarbragðaleysingji
Ert þú ekki kristin? Segir Jesú ekki að þú eigir að fara og gjöra allar þjóðir að lærisveinum? Snýst trú þín ekki um að "láta alla vera sammála þér"? Ef ekki, brýturðu gegn boðun Krists, ef þú hins vegar boðar trúna eins og skipað er fyrir um, kemur þetta úr hörðustu átt.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 1.9.2008 kl. 21:08
góóóóóður punktur!
alva (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 23:56
Mig langar aðeins að blanda mér í umræðuna og taka nokkrar setningar frá Jakobi:
,,Það er munur á sköpun og skapara. Þótt maður gæti sagt að bæði ríkisstjórn og Guð hafi það sameiginleg að hafa ákveðið forræði yfir manni, eða þannig, þá er óendanlegur munur á milli."
Þetta meikar ekkert sens sem röksemdarfærzla. Vissulega er munur á sköpun og skapara, en hvað ertu að reyna að segja með þessu? Að ríkisstjórnin sé sköpun en guð skapari? Hvernig getur svo verið óendanlegur munur á milli? Meinarðu að verið sé að deila með núlli?
Svo kemur eitthvað bull um að guð sé skapari alheimsins, sem þú auðvitað getur engar sönnur fært á, né svo mikið sem komið með góða vísbendingu um. Svo segir:
,,Hvort sem við samþykkjum Guð eða ekki er hann í lífum okkar allra þar sem við gætum ekki lifað án þessarar uppsprettu lífs okkar - við gætum allt eins reynt að afneita súrefni."
Mjög svo grunnhyggnisleg athugasemd. Hvers vegna þyrfti ég, sem samþykki ekki það þokubull að guð sé skapari ,,uppsprettu lífs okkar", að þurfa eitthvað að spekúlera í því hvort hann sé í mínu lífi, þegar ég er sannfærður um að svo sé einmitt ekki og hef aldrei haft neina ástæðu til að ætla það, hvorki beinar sannanir né einu sinni vísbendingar um slíkt?
Það er hægt að sanna áþreifanlega að súrefni sé til. Súrefni getum við skilgreint nokkuð nákvæmlega og mælt. Auk þess hafa menn sem fara inn í súrefnislaust rými dáið nokkuð snögglega. Menn sem hafa afneitað guði hafa það ekki gert, nema verið drepnir af trúuðum.
Næsta málsgrein er ótrúleg. Hvers vegna þurfa dýr og andlegar verur að vera aðskilin. Getur dýr ekki verið andleg vera? Hvernig getur þú svo sagt að andi okkar fylgi öðrum lögmálum? Hvaða lögmál eru það? Getur þú skilgreint þau á einhvern hátt? Auk þess þurfum við svo sannarlega ekki guð til að upphefja okkur yfir dýrslegar hvatir og auðga andann. Hvað þá fáránleg lög hans.
,,Þessi lög eru ekkert ólík náttúrulögmálunum - það fylgja alltaf afleiðingar gerðum okkar. Manneskja gæti ákveðið að hún ætli ekki lengur að fylgja þyngdarlögmálinu. Er það þyngdarlögmálinu - eða öllu heldur skapara þess - að kenna ef manneskjan brýtur fót er hún stekkur fram af bjargi?"
Þau eru sumsé ekkert ólík náttúrulögmálunum, nema að þau eru óskilgreinanleg og órannsakanleg, ekki satt? Það eru nefnilega náttúrulögmálin ekki. Manneskja hefur einfaldlega ekki val um hvort hún ,,ætli" að fylgja þyngdarlögmálinu. Hún getur ekkert hætt því. Fólk hefur hins vegar val um hvort það fylgir óskilgreinanlegum og órannsakanlegum lögmálum. Flestir sem hætta því gera það vegna þess að þeim finnast þau barnaleg í bezta falli, en hættuleg í versta falli.
,,Ein mjög þekkt andleg lög eru: gerðu við aðra eins og þú myndir vilja láta gera þér."
Jú, mikið rétt. Hvað eru kristlingar ekki að gera í Írak? Eða krossferðirnar forðum? Hversu margir voru brenndir á báli af kristnum rétti vegna trúvillu? Svona mætti mjög lengi telja.
,,Þú býrð til mjög tvívíða mynd af trúmanninum og virðist þetta vera sú ríkjandi mynd sem margir þeir trúleysingjar sem ég hef rætt við hafa af trúfólki."
Þú fellur nú í nákvæmlega sömu gildru varðandi trúleysingjana. Þeirra líf snýzt ekki um að koma ykkur frá ykkar trú. Það snýzt mun frekar um að fá að vera trúlaus í friði og þurfa ekki stöðugt að verða fyrir áreiti trúboðs.
Skál og prump!
Sigurjón, 2.9.2008 kl. 03:33
Ég held að merkasta niðurstaða allra þessara skoðanaskipta sem hér hafa átt sér stað sé sú að trúboð í hverri sinni mynd (þar á meðal trúleysistrúboð, því trúleysi er jú ákveðin tegund trúar) sé fyrirlitlegt og andstyggilegt - og auk þess fánýtt og einskismegnandi, því engri manneskju verður þröngvað til að trúa einu né neinu sem er andstætt hennar sinnislagi. Dauða játningu varanna má vissulega þvinga fram, en hjartað þvingar enginn maður til neins . . .
Swami Karunananda, 2.9.2008 kl. 12:04
Persónulega tel ég lífsreynslu mína síðastliðin ár taka af öll tvímæli um að æðri máttur sé til. En þessa sannfæringu mína kýs ég að halda fyrir sjálfan mig, og kemur mér ekki til hugar að reyna að telja aðra á að hún sé rétt. Og mikið held ég að heimurinn yrði dásamlegri staður ef við öll legðum niður þá hvimleiðu áráttu að leitast sífellt við að lemja okkar skoðanir og sannfæringar inn í annað fólk.
Swami Karunananda, 2.9.2008 kl. 12:23
því trúleysi er jú ákveðin tegund trúar
Nei.
Og takk fyrir langan pistil, Sigurjón minn. Ég nennti hreinlega ekki að fara að svara þessum þú-trúir-ekki-á-Guð-en-hann-trúir-á-þig "rökum" einu sinni enn.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 2.9.2008 kl. 13:24
Tinna: Hvers vegna neitarðu því án nokkurra raka að trúleysi sé ákveðin tegund trúar? Hvorttveggja byggist jú á algjörlega ósönnuðu máli: ef það er rétt að tilvera Guðs sé ekki sannanleg mannlegri skynsemi, þá er það einnig staðreynd að tilvist Guðs er ekki heldur afsannanleg mannlegri skynsemi.
Væri ekki miklu heiðarlegra og greindarlegra fyrir þig og skoðanasystkini þín að fleygja trúleysinu og aðhyllast í staðinn agnostík (þ.e. að játa því hvorki né neita að Guð sé til)? Það gerir bróðir minn Halldór (sem gengur undir nafninu Þarfagreinir í netheimum), með þeim rökum að í trúleysi sé, líkt og í trú, enginn efi til staðar: að efast ekki um að Guð sé ekki til er algjörlega hliðstætt því að efast ekki um að hann sé til. Í báðum tilvikum er um afstöðu að ræða sem mannlegum vitsmunum er ofraun að sannreyna.
Ég auglýsi því eftir rökstuddu svari við því hvers vegna trú og trúleysi séu ekki tvær hliðar á sama peningnum.
Swami Karunananda, 2.9.2008 kl. 13:56
(Til aðeins nánari glöggvunar: ef efinn á að vera lógískur og sjálfum sér samkvæmur, þá hlýtur hann að efast bæði um það að Guð sé til og að hann sé ekki til. Ekki satt?)
Swami Karunananda, 2.9.2008 kl. 14:02
Trúleysi er ekki trú: það felst í orðinu sjálfu. Þyngdarleysi er ekki það sama og þyngd. Hér virðist um að ræða útúrsnúning eða misskilning á orðinu trú. Þegar talað er um trúleysi er átt við trúarbragðaleysi, ekki skort á trú á allt og alla. Hins vegar virðast margir þrífast á því að benda á að "allir trúi á eitthvað" og þykjast ekki sjá muninn á að "trúa á sjálfan sig", "trúa einhverju upp á einhvern" og að trúa á Jehóva/Allah/whatever.
Atheism is absence of religious faith, not absence of belief.
Ég tel mig vita að Guð sé ekki til - það er ekki mitt að ýta undir ranghugmyndir annarra þó svo hópurinn sem þjáist af þeim sé stór. Fyrir mér er það algjörlega órökrétt að ætla að Guð sé til, svo ekki get ég stimplað mig agnostic - slíkt væri óheiðarleiki.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 2.9.2008 kl. 15:20
Gott og vel, þú telur þig vita að Guð sé ekki til. Og við því er víst ekkert að segja: við verðum bara hér sem oft í lífinu að vera sammála um að vera ósammála. Ég tel að rökþrætur um það sem er eðli málsins samkvæmt ofar rökhugsuninni (án þess þó að brjóta gegn henni - bara mín skoðun!) séu hvort eð er ekki til mikils gagns.
En að þessu sögðu vil ég nefna að ég hef fullkomna samúð með þér og öðrum trúleysingjum, þar sem ég var sjálfur gallharður trúleysingi fram eftir aldri - miklu, miklu harðari en þú. En ég hef komist að annarri niðurstöðu eftir ákveðna og mjög óvenjulega reynslu sem lífið hefur fært mér undanfarin rúmlega sex ár. En förum ekki nánar út í það hér.
Vera kann að ég hafi farið fullfrjálslega með orðið ´trúleysi´ í kommenti mínu hér að ofan, og ekki gætt að hárréttri skilgreiningu þess. En það breytir ekki þeim frumpunkti mínum að trúboð er oft rekið fyrir trúleysinu. Við þurfum ekki hér að fara nánar út í merkingu orðsins ´trúleysis,´ því hver sem sú merking er þá er það staðreynd að sumt fólk aðhyllist þessa lífsafstöðu, og er ófeimið við að boða öðrum hana, og stundum af engu minni ofsa en trylltustu stuðningsmenn trúarinnar.
Kærar kveðjur.
Swami Karunananda, 2.9.2008 kl. 18:00
Munurinn á trú og trúleysi er í raun einfaldur:
Trúaðir trúa að til sé æðri máttur, án þess að geta áþreifanlega sýnt fram á það eða gefið ákveðnar og augljósar vísbendingar um það.
Trúleysingjar trúa ekki að æðri máttur sé ekki til. Þeir einfaldlega hafna þeirri hugmynd af þeirri ástæðu að ekki er sýnt fram á það með augljósum hætti né gefnar vísbendingar um það.
Ef trúleysingjar tryðu því að guð væri ekki til, þá væri það trú. Því á það ekki við rök að styðjast að trúleysi sé ,,ákveðin trú".
Sigurjón, 2.9.2008 kl. 20:48
Hvað er í gangi? Sæmilega siðaðar umræður? Um trúarbrögð? Á bloggi?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 2.9.2008 kl. 21:38
"Ert þú ekki kristin? Segir Jesú ekki að þú eigir að fara og gjöra allar þjóðir að lærisveinum? Snýst trú þín ekki um að "láta alla vera sammála þér"? Ef ekki, brýturðu gegn boðun Krists, ef þú hins vegar boðar trúna eins og skipað er fyrir um, kemur þetta úr hörðustu átt."
Sko ég held ekki að maður geti gert allar þjóðir að lærisveinum með því að berja sínum skoðunum inní höfuðin á þeim, þvert á móti finst mér slíkt vera valdandi því að fólk verður mótfallið trú minni, þar af leiðandi er ég sem Kristin mjög á móti trúarbragða rökræðum sem þessum, þær gera engum gott og gerir trúarbragðaleysingja bara ennþá gallharðari á móti kristnidómi og þar af leiðandi gerir takmark Krists að "gera allar þjóðir að lærisveinum" alveg ómögulegt. Heldur finst mér við hæfi að láta verkin tala, til dæmis hjálpa þeim sem á þurfa að halda, og rækta sína trú og vera salt og ljós fyrir lýðinn.
Rökræður og rifrildi er ekki rétta leiðin til að hjálpa týndu sauðunum að finna góða hirðinn.
Einsog segir í upphafinu á laginu What if I stumble með DC talk (kristileg hljómsveit - átti td. lagið Jesus Freak) ""The greatest single cause of atheism in the world today is Christians who acknowledge Jesus with their lips and walk out the door and deny Him by their lifestyle. That is what an unbelieving world simply finds unbelievable."
Ég veit það líka að í eina tíð var ég svosem ekki besta kristna fyrirmyndin í heiminum, en ég hef mikið reynt að bæta mig í seinni tíð ;)
Sæunn Valdís, 2.9.2008 kl. 23:10
Sæll Sigurjón,
Mér sýnist ég hafa komið við einhverjar taugar hjá þér en það var alls ekki ætlunin. Eins og ég sagði í athugasemdinni þá voru þetta aðeins nokkur atriði sem ég vildi benda á og þá auðvitað út frá mínu brjósti - en ég hélt að ég þyrfti ekki að benda á það.
Ég held að það sé lítill tilgangur að reyna að fara að rökræða tilvist Guðs enda held ég að það sé ekki hægt og í raun og veru. Við getum bara sett fram okkar skilning og skoðanir í auðmýkt og fólk ákveður sjálft hversu mikið mark það tekur þeim skilningi og skoðunum. Þetta byggist auðvitað á því að við erum öll stöðugt með okkar hætti að reyna að skilja heiminn og tilvist okkar í honum. Það er þetta sem við erum að ræða á þessum opinbera vettvangi, ég held ekki að neinn hér sé með neinum hætti að reyna að troða sínum skoðunum á aðra - nema það eitt að viðra sinn skilning sé orðið að einhvers skonar yfirtroðsla á rétti annarra til trú eða trúleysis?
Ef ég má vera hreinskilinn þá held ég að þú viljir ekkert í raun og veru að ég segi minn skilning á þessum spurningum sem þú varpar fram. Ég held að þetta sé meira gert til að reyna afhjúpa þær gloppur sem kunna að vera í þeim skilningi mínum fremur en raunveruleg löngun í að skilja mitt viðhorf. Ef þetta er rangt hjá mér er ég alveg til í að svara öllum þeim spurningum sem þú kannt að hafa en ef ekki þá held að við göngum báðir sáttari frá borði ef við sleppum þeirri niðurbrjótandi æfingu að reyna að skjóta niður skoðanir hvers annars.
Með kærum kveðjum,
Jakob
. (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 23:11
" Sko ég held ekki að maður geti gert allar þjóðir að lærisveinum með því að berja sínum skoðunum inní höfuðin á þeim,"
úps! haha það vantaði EKKI í þessa setningu!
Sko ég held ekki að maður geti EKKI gert allar þjóðir að lærisveinum með því að berja sínum skoðunum inní höfuðin á þeim,
Svona á hún að líta út hehe
Sæunn Valdís, 2.9.2008 kl. 23:11
Never mind... ég er víst þreytt... þú mátt eyða þessari síðust út...og þessari...
Sæunn Valdís, 2.9.2008 kl. 23:12
Argh! Trú vond! Brenna kirkju! Krossfarir og Hitler!Kommon, höldum þessu á vanalega planinu...
Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 23:12
Sæll Jakob.
Ég er forvitinn að vita hvað fær fólk til að trúa, vegna þess að skynsemi mín segir mér að gera það ekki. Þú ræður auðvitað hvort þú svarar athugasemdum mínum, en mér þætti fróðlegt að vita svörin við þeim spurningum sem ég lagði fram í þeim.
Það er rétt að við mannfólkið reynum flest að skilja tilveru okkar og heiminn í kringum okkur. Sumir reyna að rannsaka það með vísindalegum aðferðum. Sumir reyna að gizka út í loftið og lesa 2000 ára gamlar sögur til þess. Hvor aðferðin finnst þér skynsamlegri?
Sigurjón, 2.9.2008 kl. 23:38
Hæ,
Afsakið hvað ég er seinn að svara, skólinn nýbyrjaður :)
Þetta er soldið langt hjá mér, vona að það sé í lagi.
Ég veit ekki hversu einfalt það er að fara að útskýra hvað það var sem leiddi til þess að maður fór að trúa á Guð. Fyrir mér var það ekki eitthvað sem gerðist á svipstundu eins og virðist með suma heldur voru það margir þættir yfir langt tímabil sem fengu mig loks til að stoppa og segja "já, mér finnst þetta skynsamlegt."
Ég held að ég geti sagt að það var eftir að hafa upplifað ýmist misjafnt á nokkru tímabili að ég samþykkti að prófa að skoða þessar hugmyndir með opnum huga. Það er líklega á þeim punkti sem fyrsti neistinn að minni trú kviknaði. Ég ákvað á því tímabili að prófa að skoða bahá'í trúna og eftir því sem leið þá fór ég að upplifa hluti sem ég hafði ekki upplifað áður og þá er ég meðal annars að tala um þann innri frið sem trú mín hefur veitt mér. Auk þessa þá finnst mér ég hafa mun betri og jákvæðari sýn á heiminn en áður. Þú talar mikið um skynsemi en það var einmitt skynsemin sem mér fannst ríkja í kenningum og ritum bahá'í trúarinnar sem heillaði mig. En bahá'í trúin eru heimstrúarbrögð sem komu fram fyrir um 160 árum og hafa að markmiði að sameina alla kynþætti og þjóðir í einn allsherjarmálstað og eina sameiginlega trú.
Ég held að grundvallarleið til þekkingar á Guði sé í gegnum opinberendur hans. Opinberendur eru sérstakir einstaklingar sem koma fram á hverjum tíma með nýjan boðskap frá Guði. Þessir boðberar eru meðal annars Krishna, Búddha, Móses, Jesús, Múhameð og Bahá'u'lláh. Þar sem ég er bahá'íi hef ég lært að þekkja Guð í gegnum bahá'í ritningarnar og opinberanda þeirra Bahá'u'lláh. Bahá'u'lláh sagði að Guð væri óþekkjanlegur í kjarna sínum. Í þessu samhengi getum við líkt Guð við trésmið og sköpunina við t.d. borð. Við sjáum hæfni og eiginleika trésmiðsins í borðinu en hversu mikið sem við reynum að ímynda okkur þá er það okkur algjörlega ljóst að borðið getur á engan hátt skilið smiðinn, staða borðsins sem sköpun er lægri stöðu smiðsins sem skapara.
En afhverju vorum við sköpuð? Ég trúi því að Guð hafi skapað heiminn og allt sem í honum er og Bahá'u'lláh segir að ástæðan fyrir því að Guð hafi skapað okkur sé sú að hann elski okkur. Í einu af ritum hans segir:
Ó, MANNSSONUR!
Ég unni sköpun þinni, því skóp ég þig. Elska mig, svo að ég megi nefna nafn þitt og fylla sál þína anda lífsins.
Persónulega finnst mér þetta mjög flott tilvitnun. Þegar ég les þessa tilvitnun sé ég stundum fyrir mér manneskjuna sem ílát eða glas og ást Guðs eins og rigningu. Bahá'u'lláh segir "Elska mig svo að ég megi nefna nafn þitt og fylla sál þína anda lífsins." Ef við elskum Guð ekki erum við eins og glös sem standa á hvolfi, sama hversu mikla ást Guð rignir yfir okkur erum við ekki fær að taka á móti henni nema og þar til við erum tilbúin að snúa okkur að honum. En tilgangur allra þessara boðbera sem ég minntist á er einmitt þessi, að hjálpa mönnunum þegar þeir hafa snúið sér frá Guði að beina íláti sínu að honum svo það megi fyllast og flæða yfir af ást Guðs. Þetta kallast hinn eilífi sáttmáli Guðs. Sáttmáli er eins og þú örugglega veist samningur eða loforð milli tveggja eða fleiri aðila. Samkvæmt þessum sáttmála mun Guð aldrei skilja okkur eftir ein og án leiðsagnar. Þegar mannkynið villist burt frá honum sendir hann einn af opinberendum sínum sem kunngerir okkur vilja hans og áform og þegar við hlustum á þá erum við að svara kalli Guðs.
Þrátt fyrir að allir opinberendur hafa birt sömu andlegu lögmálin ríkir mikil sundrung meðal manna um það hvaða trúarbrögð séu rétt. Til að skilja betur hugtakið opinberandi getum við tekið dæmi úr þessum efnisheimi. Sólin er uppspretta alls hita og ljóss og án hennar væri ekkert líf á plánetunni. Samt stígur sólin ekki niður til jarðarinnar og ef við reyndum að nálgast hana myndum við brenna upp og verða að engu. Ef við hinsvegar tökum spegil og beinum honum að sólinni sjáum við fullkomna mynd hennar í speglinum án þess að hún stígi niður til jarðar. Á þennan hátt er Guð eins og sólin og opinberendurnir eins og fullkomnir speglar sem beina allir til okkar sama ljósi Guðs. Þótt Guð sé ofar okkar skilningi sendir hann til okkar þessa fullkomnu einstaklinga öðru hvoru. Þessir eintaklingar lifa á meðal okkar, veita okkur leiðsögn og fylla okkur þeirri orku sem við þurfum til að taka framförum. Ástæða sundrungar meðal trúmanna heimsins, meðal annarra, er sú að margir þeirra hófu að líta á spegilinn en ekki ljósið sem skein úr honum því hefðu þeir gert það myndu þeir sjá að eitt og sama ljósið skein úr speglunum öllum.
Í bahá'í ritunum segir:
"Því er það ljóst og auðsætt að maðurinn þarfnast fræðara, og þessi fræðari verður að vera óvéfengjanlega og óefað fullkominn á allann hátt og merkastur allra manna."
Eins og áður segir birta allir boðberarnir sama ljós Guðs en hver og einn þeirra hafði líka sérstakan boðskap fyrir þann tíma sem hann lifði á. Bahá'u'lláh segir:
"Græðarinn gjörþekkjandi hefur fingur sinn á slagæð mannkynsins. Hann skilgreinir sjúkdóminn og bendir í óskeikulli visku sinni á læknislyfið. Sérhver öld glímir við sinn eigin vanda og sérhver sál á sínar sérstöku langanir. Lyfið, sem heimurinn þarfnast nú í þrengingum sínum, getur aldrei verið hið sama og það sem næsta öld þarf á að halda."
Þannig trúa bahá'íar því að Bahá'u'lláh hafi komið með boðskap sem eigi við daginn í dag. Við trúum því að hann sé hinn fyrirheitni sem sagt er fyrir um í trúarritum nærri allra þjóða þar sem gefið er fyrirheit um þann dag þegar friður og réttlæti muni ríkja á jörðinni og mannkynið muni lifa saman í farsæld. Bahá'íar trúa því að Bahá'u'lláh sé sá mikli fræðari sem með kenningum sínum geri mannkyni kleift að byggja nýjan heim. Í einum af ritum sínum segir Bahá'u'lláh:
"Það sem Drottinn hefur ákvarðað sem æðsta læknisdóminn og máttugasta meðalið til græðingar alls heimsins er eining allra þjóða hans í einum allsherjar málstað, einni sameiginlegri trú."
Markmið bahá'í trúarinnar er að sameina mannkynið. Bahá'í kenningarnar segja okkur að við séum öll ávextir á einu tré og lauf einnar greinar. Þótt við séum öll ólík og höfum mismunandi getu og hæfileika, þá erum við öll runnin af sömu rót og tilheyrum öll fjölskyldu mannsins. Mannkyninu má líkja við stóran garð þar sem blóm af öllum gerðum vaxa hlið við hlið, hvert með sinn eigin lit og ilman. Fegurð garðins er fólgin í fjölbreytileikanum. Því miður geisa stöðugt stríð og átök sem koma á milli þjóða og manna, vegna haturs, fáfræði, fordóma og eiginhagsmuna. Sem bahá'íi er ég stöðugt að reyna að samræma hugsanir mínar og gerðir trú minni á einingu mannkynsins og er það skylda mín sem bahá'ía að gera allt sem í mínu valdi stendur til að sigrast á mínum eigin fordómum.
Ég gæti haldið áfram en ég vildi bara gera grein fyrir því hver mín afstaða sem bahá'ía er. Ég held að ég hafi svarað eitthvað af spurningunum sem þú lagðir fram en ég er líka alveg til svara hinum seinna sem ég fór ekki í, þá verð ég mun stuttorðari :)
Með kærum kveðjum,
Jakob
. (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 21:19
Sem dóttir bahá'ía veit ég þetta allt. Á tímabili leit ég á bahá'í trúna sem skásta kostinn, en hef síðan komist að þeirri niðurstöðu að hún sé einungis enn ein leiðin til að koma í veg fyrir að fólk hugsi sjálfstætt.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 5.9.2008 kl. 17:33
Skondið hvað heimurinn er lítill. Ég náttúrulega hafði ekki hugmynd um að þú værir dóttir bahá'ía.
Persónulega finnst mér bahá'í túin einmitt hafa kennt mér að hugsa sjálfstætt og kemur þar inn í m.a. meginreglan um sjálfstæða leit að sannleikanum. Ef ég má spyrja hvað var það í bahá'í trúnni sem þér fannst hefta sjálfstæða hugsun?
kobbi
. (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 17:49
Þakka þér Jakob fyrir þennan fróðleik um Baháíúlla (eða hvernig sem þetta er stafað).
Þetta hins vegar svara ekki þeim spurningum sem ég lagði fram nema að litlu leyti. Þú segir að nokkrir hlutir hafi orðið til þess að þér fannst skynsamlegra að trúa á Guð. Hvaða hlutir voru það? Þú hlýtur að geta nefnt nokkur dæmi.
En er ekki eineygður maður konungur í ríki blindra? Margir sem ég kannast við og hafa ,,fundið" trú (hvernig er hægt að finna hana?) hafa leiðst í óreglu og neyzlu vímugjafa og verið oft á tíðum svo djúpt sokknir að þeim hefur jafnvel fundizt bezt að enda þetta bara allt saman. Þá hafa þeir svo fundið trúna og áttað sig á að hún var betri en að veltast um ósjálfbjarga í ræsinu.
Ég hins vegar segi: Að flýja úr einni fíkn í aðra, þó trúin sé skömminni skárri en fíkniefnaneyzla, þá eru það bara hrossalækningar. Hvernig væri bara að horfast í augu við raunveruleikann og sjúga upp í nefið? Við höfum bara að meðaltali 80 ár á þessari jörðu, svo hvernig væri að nýta þau í eitthvað skynsamlegra en trúarbrögð?
Svo átta ég mig ekki á hvernig Búddha gat verið spámaður guðs, þar eð hann boðaði einmitt hinn gullna meðalveg hófs, án þess að tilbiðja einhvern guð. Búddistar biðja ekki til Búddha eða einhvers guðs. Þeir hugleiða og þakka þeim sem hafa gert þá að því sem þeir eru, m.a. Búddha, kennara þeirra og foreldrum.
Sigurjón, 5.9.2008 kl. 18:17
Sæll Sigurjón,
Bara stutt svar við athugasemdinni um Búdda núna þar sem ég er á fullu í aðferðafræðiverkefni.
Minn skilningur á þessari tilvitnun úr ritum Búddista er sá að verið er að tala um Guð en eins og ég sagði áður er talað um Guð, sem er náttúrulega bara orð til að lýsa því ólýsanlega, í bahá'í ritunum sem hafinn ofar skilningi manna og finnst mér m.a. þessi tilvitnun ríma við það:
THE IMMUTABLE
There is a realm, where there is neither the solid, nor the fluid, neither heat, nor motion, neither this world, nor any other world, neither sun, nor moon. This I call neither arising, nor passing away, neither standing still nor being born, nor dying. There is neither foothold, nor development, nor any basis. This is the end of suffering.
There is an Unborn, Unoriginated, Uncreated, Unformed. If there were not this Unborn, this Unoriginated, this Uncreated, this Unformed, escape from the world of the born, the originated, the created, the formed, would not be possible.
But since there is an Unborn, Unoriginated, Uncreated, Unformed, therefore is escape possible from the world of the born, the originated, the created, the formed.
((The Eightfold Path), Buddha, the Word (The Eightfold Path))
. (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 18:31
Enn og aftur: Hvernig væri bara að horfast í augu við raunveruleikan?
Sigurjón, 5.9.2008 kl. 20:51
Sigurjón,
Finnst þér ekkert dónalegt að tala svona við fólk? Er ég sem sagt raunveruleika firtur þar sem ég gleypi ekki við þinni sýn á heiminn?
. (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 21:24
Nei, mér finnst ekki dónalegt að benda á staðreyndir. Það er ekki ,,mín sýn" á heiminn sem ég er að tala um, heldur bara einfaldlega almenn skynsemi. Hvernig getur verið skynsamlegt að trúa að eitthvað ósýnilegt, óskilgreinanlegt og óskilvitlegt sé til? Ekki nóg með það heldur að eyða púðri og peningum í það...
Sigurjón, 5.9.2008 kl. 22:20
Jæja þá. Eins og ég sagði áður er ég alveg til í að svara spurningum ef þær koma af raunverulegri löngun til að skilja en ég nenni ekki að vera að reyna að réttlæta eitthvað sem ég er fullkomlega sáttur við og hefur auðgað líf á hátt sem þú líklega getur ekki skilið á þessum tímapunkti.
Mér finnst nokkuð skondið að þú varst mjög fljótur að fara að tala um trúboð og slíkt en samt er það ég sem er settur í þá stöðu að þurfa að verja trú mína. Bað ég þig einhvern tímann um að trúa því sem ég trúi? Ég er ekki kristinn en þrátt fyrir það eru einu einstaklingarnir sem hafa reynt að stunda trúboð á mér trúleysingjar. Hvað heldurðu annars setning eins og "Hvernig væri bara að horfast í augu við raunveruleikan" sé? Í henni eru engin rök og ekki verið að bjóða upp á neinar samræður. Þarna er verið að segja ef þú samþykkir ekki það sem ég hef að segja þá ertu bara vitleysingur og það kalla ég trúboð.
Þú getur þrætt um skilgreiningar um að trúleysi sé ekki trú og þar fram eftir en þegar farið er að gera lítið úr skoðunum annarra, sem eru ekki á manns eigin máli, þá sé ég ekki að neinar skilgreiningar skipti máli.
Ég biðst afsökunar á pirringnum en hræsni fer alveg með mig.
. (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 22:38
Endurtek hérna þessi gullfalegu orð Kára:
Ég held að merkasta niðurstaða allra þessara skoðanaskipta sem hér hafa átt sér stað sé sú að trúboð í hverri sinni mynd (þar á meðal trúleysistrúboð, því trúleysi er jú ákveðin tegund trúar) sé fyrirlitlegt og andstyggilegt - og auk þess fánýtt og einskismegnandi, því engri manneskju verður þröngvað til að trúa einu né neinu sem er andstætt hennar sinnislagi. Dauða játningu varanna má vissulega þvinga fram, en hjartað þvingar enginn maður til neins . . .
. (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 22:44
Þú hefur ekki séð ástæðu til að svara einfaldri spurningu minni: ,,Þú segir að nokkrir hlutir hafi orðið til þess að þér fannst skynsamlegra að trúa á Guð. Hvaða hlutir voru það? Þú hlýtur að geta nefnt nokkur dæmi."
Auk þess er þessi málsgrein stórmerkileg:
,,Mér finnst nokkuð skondið að þú varst mjög fljótur að fara að tala um trúboð og slíkt en samt er það ég sem er settur í þá stöðu að þurfa að verja trú mína. Bað ég þig einhvern tímann um að trúa því sem ég trúi? Ég er ekki kristinn en þrátt fyrir það eru einu einstaklingarnir sem hafa reynt að stunda trúboð á mér trúleysingjar. Hvað heldurðu annars setning eins og "Hvernig væri bara að horfast í augu við raunveruleikan" sé? Í henni eru engin rök og ekki verið að bjóða upp á neinar samræður. Þarna er verið að segja ef þú samþykkir ekki það sem ég hef að segja þá ertu bara vitleysingur og það kalla ég trúboð."
Ég talaði hvergi um trúboð, né að ég hafi heimtað af þér eða nokkrum öðrum að ,,verja" trú þína. Þú baðst mig vissulega ekki að trúa því sem þú trúir, en það gerði ég ekki heldur. Setning eins og ,,Hvernig væri bara að horfast í augu við raunveruleikann" eru fremur til þess fallin að fá þig til að hugsa aðeins; ekki trúa. Það kallazt ekki trúboð. Mér þykir þú lesa anzi djúpt í orð mín ef þú heldur því fram að ég meini að ef þú samþykkir ekki það sem ég hef að segja, þá sértu bara vitleysingur. Ekki leggja fólki orð í munn eða huxanir í haus.
Þrátt fyrir góðan hug Kára, er ég (og fleiri) þegar búinn að útskýra hvers vegna trúleysi er ekki ákveðin trú. Þú kannske misstir af því?
Sigurjón, 5.9.2008 kl. 23:05
Jakob: Öll trúarbrögð snúast að einhverju leyti um vald yfir öðrum.
Síðast þegar ég vissi var samkynhneigð ekki sérlega vinsæl, frekar en kynlíf utan hjónabands eða neysla áfengis og lyfja. Þrátt fyrir að þetta sé ekki kallað lög heldur leiðbeiningar, breytir það því ekki að fólk sem telur sig hafa fundið "leiðina" lítur niður á þá sem ekki hafa gert það. (Og, já, ég geri það líka - en ég byggi það á eigin skoðunum, ekki orðum Guðs eða spámanna)
Þetta er það sem ég hef á móti trúarbrögðum, sama hvaða nafni þau nefnast.
Mamma hefur oft reynt að benda mér á Bahá'í trúna, hvað hún sé nú sniðug...en fyrir mér er þetta allt sama tóbakið.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 6.9.2008 kl. 11:57
Sæl bæði,
Ég er hræddur um að ég geti ekki svarað athugasemdum þínum akkurat núna Sigurjón þar sem mikið er að gera í skólanum og lífinu en ætla að reyna á næstunni.
Vildi þó benda á það að þú talar reyndar um trúboð í annarri athugasemd þinni (þó þú kannski hafir ekki verið að saka neinn um þap hér) og lýkur með mjög svo fallegri kveðju. Það var auðvitað ekki ætlunin að leggja þér nein orð í munn en ef maður íhugar ekki vel hvað maður lætur út úr sér þá getur maður alveg búist við misskilningi. Hvernig átti annars þessi umrædda setning að fá mig til að hugsa?
Með kærum kveðjum,
Jakob
. (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 14:58
Yfir í allt annað;
Klukk, þú hefur hér með verið klukkuð
Ísdrottningin, 9.9.2008 kl. 16:55
Hae,
Er a utlensku lyklabordi :/
Sigurj'on eg er buinn ad vera ad ihuga hvernig eg gaeti svarad spurningu tinni a sem skyrastan og einfaldastan hatt. Eg aetlast ekki til ad tu samtykkir mina heimsyn en tu badst mig um ad skyra hana og herna er einfold skyring.
Tegar eg lit a heiminn se eg tilgang og aaetlun i ollu. Tegar eg stend og lit a storbrotna natturuna og spyr svo sjalfan mig hvort tetta gaeti hafa gerst fyrir slysni og tilviljun ta bara get eg ekki svarard odruvisi en nei ef eg aetla ad vera samkvaemur sjalfum mer. Tetta er einfaldasta og skyrasta astaedan fyrir tvi ad eg mer finnst skynsamlegt ad trua a Gud. Mer finnst tilgangslaust ad fara ad utlista adrar astaedur.
Astaedan fyrir tvi ad eg gerdist bahaii var su ad hun setti truarbrogdin i skiljanlegt samhengi sem eg gat samtykkt baedi med hug og hjarta.
Med kaerri kvedju,
Jakob
. (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 21:42
Tinna,
Hefur tu upplifad tad i bahai trunni ad folk liti nidur a ta sem hugsa odruvisi? Eg hef nu upplifad ymislegt misjafnt fra bahaium en aldrei tetta sem tu lysir og aetti eg nu ad vita tad med minn bakgrunn.
kobbi
. (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 21:46
Saell Julius,
Eg hef nu ekki farid oft i kirkjuen held eg skilji hvad tu eigir vid. Personulegata held eg ad tessi ordtaeki sem tu minnist a vera mikid til tengd malvenjuog tvi fremur sakleysisleg i sjalfu ser. To tad gaeti talist undarlegtad nota tessi ordtaeki i kirkjunni sjalfri hugsanega...
Tad ad folk noti ritningarnar eins og tad viti hvad Gud meinti tidkast hja fleirum en kristnum samkvaemt minni reynslu.
Med kaerri kvedju,
Jakob
. (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 21:52
Gott og vel. Það er alveg rétt hjá þér að halda ekki að lífið á Jörðinni hafi orðið til fyrir einskæra tilviljun. Náttúruval og þróun er enda alls ekki tilviljun. Það er ekki tilviljunarkennt hvernig dýr þróast yfir milljónir ára. Það að trúa að eitthvað súperveldi sé yfir þessu öllu, annað en bara náttúran sjálf er hins vegar mjög barnaleg sýn á hlutina. Fyrirgefðu ef þetta hljómar dónalega, en svona er það nú samt. Þegar börnin segja að guð geri rigninguna brosir maður af barnslegri einfeldni þeirra. Þegar fullorðnir gera slíkt hið sama, verður maður vægast sagt hissa...
Sigurjón, 13.9.2008 kl. 23:49
Lýstu fyrir mér hvað þú átt við með súperveldi, ef þú myndir vera svo vænn
. (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 01:59
Auðvitað hef ég upplifað það: það er í mannlegu eðli. Kannske kem ég þessu ekki nógu skýrt frá mér.
Frasar eins og "Hötum syndina - elskum syndgarann" eða "Við tökum á móti þér þó þú -----" eru notaðir, fer það svakalega í taugarnar á mér.
"Í bréfi Andlegs þjóðarráðs bahá'ía á Íslandi til Allsherjanefndar kemur fram að bahá' íar álíti hjónabandið vera heilagan sáttmála milli karls og konu og telja það eina lögmæta og viðeigandi farveg kynlífs. Bahá' íar eru mótfallnir frjálsum ástum og óvígðri sambúð. Til þess er ætlast að þeir gagnkynhneigðu og samkynhneigðu einstalkingar sem aðhyllast bahá'í trú virði og uppfylli siðgæðismælikvarða trúarinnar og lifi sem flekklausustu lífi."
"Siðgæðismælikvarði trúarinnar"... þetta er dæmi um það sem pirrar mig. Ekkihugsa sjálfur, heldur uppfylla trúarskilyrði. Ekki er hægt að gefa saman tvær manneskjur sem elska hvor aðra, vegna þess að einhver sagði fyrir X árum að það væri ljótt. Það skiptir ekki máli hvort það var Jehósafat fyrir 2000 árum eða Shoghi Effendi 1950.
Langflest trúarbrögð hafa reynt að stjórna fólki, m.a. með því að hefta kynhegðun. Jújú, kynlíf á að stunda af ábyrgð, bla bla bla...en þetta er ein af grunnhvötum mannsins. Með því að hefta þær er auðveldara að stjórna fólki....
Æ...ég er ennþá hálfsofandi.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 14.9.2008 kl. 11:55
Súperveldi, skapari, guð. Hvað sem þetta ímyndaða fyrirbrigði kallazt. Af hverju er svona erfitt að sætta sig við að náttúran sér um lífið og útlit Jarðarinnar?
Sigurjón, 14.9.2008 kl. 15:56
Mig langaði svolítið að vita hvernig þú skilur guð svo að vitum alveg örugglega að við séum að tala um sama hlutinn. Hvernig myndir þú lýsa eða skilgreina Guð?
. (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:01
Hæ Tinna,
Takk fyrir svarið. Ég er forvitinn að vita hverjir það eru í þínum huga sem hafa áhuga á að stjórna fólki?
. (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:03
Hverjir hafa ekki áhuga á að stjórna fólki?
Nefndu mér einn trúarleiðtoga sem ekki setti fram reglur um hegðun. Nefndu einn pólitíkus sem ekki hefur áhuga á að stjórna hegðun annarra.
Hefurðu aldrei hugsað með þér hvað það væri nú þægilegt ef allir gætu bara [xxxxx] ?
Væri ekki þægilegt stundum að geta ráðið hverjir fá að fjölga sér? Eða hverjir fá að giftast? Eða hverjir fá að lifa eða deyja eða borga hæstu skattana? Þykjumst við ekki öll vita betur, a.m.k. stundum?
Ég væri alveg til í það stundum að vera trúarleiðtogi svo ég gæti skipað fólki fyrir. Ég hins vegar veit að ég hef ekki rétt fyrir mér - nema stundum - svo það er mun heillavænlegra að leyfa fólki að lifa sínu lífi.
...og reyna að benda því á mistökin eins og ég sé þau fremur en að benda á "Guð".
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 14.9.2008 kl. 22:07
Fyrir mér er guð ekki til. Ég skil guði trúaðra sem ofurverur sem hafa völd til að gera hið yfirnáttúrulega. Það finnst mér harla ólíklegt að sé til. Hvernig skilgreinir þú guð?
Sigurjón, 14.9.2008 kl. 22:37
Hæ Tinna,
Takk fyrir áhugavert svar.
Mig langar bara rétt að segja frá því hvernig ég sé þessa punkta sem þú minnist á.
Allir boðberar hafa vissulega komið með lög sem þeir sögðust hafa frá Guði. Hinsvegar hafa þeir sjaldnast lifað til að sjá þessi lög komast í framkvæmd né er hægt að segja að þeir væru að sækjast eftir því að stjórna öðrum með þeim hætti sem þú minnist á, eða eins og Jesús orðaði það svo vel gefið Sesari það sem Sesari ber en Guði það sem Guði ber (ekki bein vitnun). Ef völd væru þeirra markmið hefðu þeir getað notað aðrar auðveldari "pólitískari" leiðir. Þeir hinsvegar þurftu allir að þjást fyrir að koma með boðskap sem var andsnúinn vilja ríkjandi valdhafa hverju sinni.
Bahá'u'lláh talar oft um að það eina sem hann þráir sér til handa sé hjörtu manna:
All that is in heaven and earth I have ordained for thee, except the human heart, which I have made the habitation of My beauty and glory...
Hvað mig varðar þá hef ég auðvitað alveg hugsað það að það væri gott "ef allir gætu bara ...." En sem betur fer þá bara langar mig ekki í né mun ég nokkurn tímann vera í þeirri stöðu að ákveða slíkt. Enda langt frá því hæfur til þess Í bahá'í trúnni eru engar eiginlegar valdastöður, já ég veit að það er erfitt að trúa því en bíddu aðeins Það eru engir einstaklingar sem bera völd í bahá'í trúnni, engir prestar. Í bahá'í stjórnkerfinu er notast við lýðræðislegar kosningar þar sem allir í samfélaginu eldri en 21 árs eru kosningabærir. Það er algjörlega og án undantekningar bannað að sækjast eftir valdastöðum með kosningaherferðum, framboði eða nokkrum öðrum slíkum aðferðum. Jafnvel það eitt að þrá völd er algjörlega andstætt bahá'í andanum. Þegar kemur að kosningum fer fólk með bænir saman og kýs svo hvert í sínu lagi og merkja níu nöfn meðlima samfélagsins sem þeim finnast hæf/ir til að fara með málefni samfélagsins, þetta er auðvitað allt nafnlaust. Hlutverkin sem einstaklingarnir spila sem kosnir eru, eru þjónustuhlutverk.
Ég veit ekki hvernig samfélag gæti komist nær því að stjórna sínum eigin málefnum. Til að gera hlutina aðeins meira lýðræðislega þá hittast bahá'íar á 19 daga fresti til að skoða málefni samfélagsins og koma á framfæri m.a. beiðnum og tillögum til stjórnstofnanna bahá'í samfélagsins. Bahá'í stjórnkerfið er enn að þroskast úr barnsárum sínum en ég hef ekki séð kerfi annars staðar sem gefur áhangendum sínum jafnmikil völd til að ráða úr málefnum sínum. Enda er það tilgangur kerfisins að gera mannsandanum kleift að blómstra.
Hvað varðar lög og annað sem þú minntist á þá snýst þetta alls ekki um að einn setji sig öðrum hærri. Samanber eftirfarandi tilvitnun:
Ó, SONUR DUFTSINS!
Sannlega segi ég þér: Gálausastur allra manna er sá, sem þrætir fáfengilega og reynir að upphefja sig yfir bróður sinn. Seg, ó bræður: Látið gerðir, en ekki orð, vera prýði yðar.
Þegar manneskja gerist bahá'íi þá er sú manneskja að staðfesta trú sína á Bahá'u'lláh sem opinberanda Guðs og orð hans sem ómengað orð Guðs sjálfs. Ekki allir taka þá ákvörðun að yfirlýsa sig bahá'ía þrátt fyrir að viðurkenna sannleik bahá'í ritanna (eða ekki :P), aðrir taka sér nokkurn tíma til að skoða trúna betur áður en þeir yfirlýsa sig og enn aðrir finna sig knúna mjög fljótt eftir að hafa kynnst orðum Bahá'u'lláh að lýsa yfir trú sinni á hann. Þegar manneskja hefur lýst yfir trú sinni á Bahá'u'lláh þá er hún í raun og veru einnig að lýsa yfir vilja sínum til að fylgja boðum hans sem hún mun hægt og rólega læra að samræma lífi sínu - þetta gerist ekki á einni nóttu. Allir bahá'íar eru mislangt komnir vegi þess að samræma sig vilja Guðs. Enginn getur sagst vera kominn lengur en annar - aðeins Guð getur dæmt um það - og enginn einstaklingur hefur réttinn til að dæma aðra manneskju.
Nú minntist þú á siðgæðismælikvarðann sem minnst er á í tilvitnuninni sem þér greinilega finnst vera aðför að sjálfstæðri hugsun. Mér finnst mjög mikilvægt að það gleymist ekki að ein æðsta meginregla bahá'í trúarinnar er sjálfstæð leit að sannleikanum. Það er enginn bahá'íi af því að fylgja foreldrum eða öðrum inn í trúna heldur er krafist þess að einstaklingurinn sjálfur eigni sér trúna að eigin frumkvæði - það eru auðvitað engir einstaklingar sem ganga um og reyna að mæla þetta. Af þessu leiðir að ekki er hægt að ætlast til þess að manneskja sem ekki álítur sig bahá'ía fylgi þessum lögum en manneskja sem hefur af heilum hug rannsakað bahá'í trúna og eignað sér hana myndi líklega hafa allann vilja til að fylgja þessum siðgæðismælikvarða sem afleiðing sjálfstæðrar rannsóknar á gildi hans og vegna ástar á Guði.
Vona að þetta sé nokkuð skýrt hjá mér er sjálfur nokkuð þreyttur ...
Góða nótt,
kobbi
. (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 00:26
Hæ Sigurjón,
Svona rétt fyrir svefninn :)
Fyrir mér er guð ekki til. Ég skil guði trúaðra sem ofurverur sem hafa völd til að gera hið yfirnáttúrulega. Það finnst mér harla ólíklegt að sé til. Hvernig skilgreinir þú guð?
Ég hef aðeins talað um það hvernig ég skil Guð í öðrum athugasemdum en gæti bætt því við að ég sé Guð m.a. sem "veru" sem hefur völd til að gera hið náttúrulega. Ef Guð er til þá hlýtur hann að vera uppspretta náttúrulögmálanna er það ekki? Mér finnst vandamálið svolítið það að þú virðist persónugera Guð nokkuð mikið... er það vitleysa í mér?
kobbi kló :P
. (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 00:31
Nei, einmitt ekki. Ofurvera getur ekki verið persóna í mínum huga, þó biflían segi að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Ég skil heldur ekki hvernig það ætti að vera vandamál að ég persónugerði guð.
Ef guð er til (og þetta er stórt ef), væri hann ábyggilega uppspretta alls, bæði góðs og ills. Hins vegar sé ég ekki þörf fyrir neitt slíkt í formúlunni. Stærð sem þjónar engum tilgangi.
Sigurjón, 15.9.2008 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.