Færsluflokkur: Bloggar

Enn um frelsi

Hinn fyrsta júní taka íslendingar stórt skref í átt að fasisma, þegar reykingabannið tekur gildi. Að banna fólki að reykja á opinberum stöðum, þar sem fólk neyðist til að vera (eins og skólum, sjúkrahúsum o.fl.) er sjálfsagt, enda rangt að neyða aðra til innöndunar eitraðs lofts. Um skemmtistaði gilda önnur lögmál, enda hverjum og einum frjálst (hafi hann aldur til) að velja sér skemmtistað eftir smekk, hvort sem valið byggist á reykleysi, tónlistarúrvali, verðlagi eða einhverju öðru. Starfsfólki staðanna er einnig frjálst að sækja um vinnu á reyklausum stöðum, líki því ekki mökkurinn.

Ég drekk kók, en finnst pepsi vont. Þessvegna fer ég frekar á staði sem selja kók. Mér finnst rauðvín vont, svo ég panta bjór í staðinn. Ég hef gaman af rokki, svo ég forðast skemmtistaði þar sem leikin er raftónlist. Þegar ég var reyklaus vandi ég komur mínar á Súfistann. Hversvegna er það ekki hægt lengur? Er reyklaust fólk í dag ekki hæft til að velja sér skemmtistaði sjálft? Að taka völdin úr höndum eigenda staðanna og viðskiptavina í nafni heilsuverndarsjónarmiða er fáránlegt.  

Nú stendur til að setja "fælandi" myndir á pakkana. En æðislegt! Nú geta krakkarnir farið að skiptast á myndum af svörtum lungum, æxlum og æðastíflum, rétt eins og foreldrar þeirra eða afar og ömmur skiptust á leikaramyndum í gamla daga. Svona retro-fílíngur í þessu. Svo er þetta auðvitað sniðugt að því leyti að veikgeðja almúginn þarf ekki lengur að hafa fyrir því að lesa þessi tvö til fimm orð sem hingað til hafa þótt nægileg viðvörun. Það segir sig sjálft að meginástæða þess að fólk byrjar að reykja hreinlega hlýtur að vera sú að það haldi að reykingar séu svona líka bráðhollar, rétt eins og áfengisdrykkja og sykurneysla.


Lögin

Í framhaldi af pistlinum hér að neðan, fór ég að fletta í gegnum lagabókstafinn, og rakst á nokkra gullmola:

"Eftirleiðis skal það vera á valdi biskupanna, að veita leyfi til þess, að börn séu tekin til fermingar, þó að nokkuð vanti á, að þau hafi náð hinum lögboðna 14 ára aldri. Slíka undanþágu má þó eigi veita, nema svo sérstaklega sé ástatt um hagi foreldranna eða ákvörðun barnsins, að hún verði að álítast áríðandi fyrir velferð þess, og auk þess skal þess nákvæmlega gætt, að barnið hafi að fullu öðlast þá þekkingu, sem gert er ráð fyrir í skólatilskipununum, og að siðferði þess sé svo, að ekkert geti að því leyti verið til fyrirstöðu slíkri ívilnun. Það má heldur ekki vanta nema lítið á aldur barnsins, ef undanþágan á að fást, og jafnvel þótt allt annað mæli með undanþágunni, eigi meira en 6 mánuðir. Að öðru leyti skal biskup leita álits hlutaðeigandi prests og prófasts, áður hann veitir undanþáguna."

Er þessum lögum fylgt? Samkvæmt þeim má barn ekki fermast, segjum fimmta apríl 2007, ef það er fætt eftir fimmta október 1993. Ég sé fyrir mér kirkjulöggur ryðjast inn í Bústaðakirkju og heimta skilríki af fermingarbörnum, og handtaka prestinn, sem er dreginn út, öskrandi "Nei! Ég var svo nálægt! Ódauðleg sál þeirra skal verða mín! Mwahahahaha!"

Úr sömu lögum:

"Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti vakið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist."

"Já, það er kannske betra að Jónas fermist bara heima. Koma hans í kirkju gæti valdið hneyksli. Það sjá nú allir að þessi fæðingarblettur er ógeðslegur. Konur og börn gætu fallið í yfirlið við að sjá hann!"

" Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta."

Jahá.

"Kirkjunum skal halda hreinum og rúmgóðum á sunnudeginum, og má þar eins lítið á öðrum sem á þeim degi finnast fatnaður eður sængurklæði, gós eður vara, hneykslilegar myndir, eða þær, sem stríða móti þeirri evangelisku religion, með því að slíkt er óviðurkvæmilegt og ekki samhljóðandi við þau heilögu verk, sem þar eiga fram að fara. Þó mega kistur standa þar með því, sem kann að vera geymt í þeim, hvar ekki eru stólar eður bekkir að sitja á. Einnig, hvar loft eru í kirkjum með læsing fyrir, þar má geyma hreinlega hluti, sem ekki gefa illan daun af sér, ellegar eru á annan hátt ósæmandi í þeim stað. En engin annarleg höndlan má hafast um hönd í kirkjunni. Annars skal hver sá, sem gerir á móti þessu, sekjast einu lóði silfurs fyrir hvert sinn."

Andskotans. Ég bara er ekki með eitt lóð silfurs handbært í augnablikinu.

"Prestarnir á Íslandi skulu, hver einn fyrir sig, vera skyldir til, í minnsta máta tvisvar á ári, að vitja þeirra safnaðar í þeirra hús og híbýli, og það hvers húss og bústaðar í þeim sama; en hvar sóknin er lítil, ellegar engin annexía finnst, skal hann oftar taka sér fyrir þessa nauðsynlegu höndlun, hvar með prófasturinn í hverju héraði skal hafa kostgæfilega tilsjón, og sömuleiðis biskupinn með sérhverju tækifæri alvarlega tilhalda honum viðkomandi próföstum og prestum, að þeir forsómi hér ekkert í. Finnist nokkur prestur vanrækinn þar í, þá áminnist hann í fyrsta sinni af prófasti, en verði það annað sinn, þá mulcterist hann eftir síns kalls inntekt, og sinni formegan, hverri peningamulct að víxlast skal til fátækra barna uppfræðingar."

 Þessum lögum er greinilega ekki framfylgt.

"Hinn 7. þ.m. hefir Hans hátign allramildilegast þóknast að úrskurða, að þegar kirkjur eru byggðar að nýju, þá skuli öllum hurðum þannig hagað, að þeim verði lokið upp að innan og gangi út."

Ætli hans háæruverðuga tign, skínandi mildi og hrífandi herlegheit hafi verið lengi að pæla í þessu?

 


Þjóðsöngurinn

"Nei, nú gengu þeir of langt!" "Kærum þá!" "Er í lagi að brjóta lög, svo lengi sem það er fyndið?"

Æ, látið ekki svona. Heilagar kýr eru til þess eins gerðar að skopast að og gagnrýna. Hvort sem menn höfðu húmor fyrir þessu uppátæki eður ei, er það staðreynd að samkvæmt lögum er þetta bannað. Hinsvegar eru lögin ólög að því leyti að þau skerða tjáningarfrelsið, og þessvegna "í lagi" að brjóta þau.

Mig langar að játa á mig gróft lögbrot, sem ég framdi fyrir nokkrum árum, móður minni til hneykslunar. Ég skemmdi fánann. Já, ég, Tinna Gunnarsdóttir Gígja, afskræmdi þjóðfána Íslands, og mér fannst það bara allt í lagi. Til að bæta gráu ofan á svart var fáninn stolinn.

Tildrög þessa hryllilega glæps voru þau að ég "fann" fána (ég tek það fram að hann lá á gólfi, sem einnig er brot á fánalögum, svo í raun var ég að bjarga honum) og tók hann með mér heim. Um sumarið var ætlunin að fara á Hróarskeldu með stórum hópi fólks, og okkur vantaði einhverskonar merki, sem venja er á hátíðinni. Brugðum við því á það ráð að rita nafn tjaldbúðanna á fánann með skærappelsínugulu spreyi. Búðirnar báru hið virðulega nafn "Camp Kunta" og hugsanlega finnst einhverjum það auka háðung fánans. Við tókum fánann svo með okkur á hátíðina, festum hann við tjald með teipi, og enginn minntist á þennan hryllilega glæp, nema til að vara okkur við ef vera skyldi að myndir af voðaverkinu birtust í íslenskum fjölmiðlum.

Í dag liggur fáninn samanbrotinn eftir kúnstarinnar reglum í skápnum mínum og safnar ryki. Hann er enn þyrnir í augum móður minnar.

Með þessu vítaverða athæfi braut ég (ásamt vitorðsmanni) eftirfarandi lög:

Lög nr. 34 17. júní 1944

4. gr. Engin önnur merki en þau, er greinir í 2. og 3. gr*., má nota í þjóðfánanum.

*Tollgæzlu-T og skjaldarmerki Íslands í fána forsetaembættisins.

 6. gr. Þjóðfánann skal draga að hún á þar til gerðri stöng.

7. gr. Með [reglugerð]1) skal kveða á um fánadaga og hve lengi dags fánanum megi halda við hún.

12. gr. Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki.
Óheimilt er að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar.

Lög nr. 5 23. janúar 1991:

3. gr. Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi uppi vera lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.

14. gr. Brot gegn 4. og 5. gr. og 1. mgr. 12. gr. varða sektum …1) eða fangelsi allt að einu ári.
 Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara og gegn forsetaúrskurðum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum.
 

Mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

Hvað segið þið, haldið þið að ég verði kærð? 

Að lokum legg ég til að Ísland er land þitt verði gerður opinber þjóðsöngur, í stað þessa niðurdrepandi guðslofrullu eftir Matta Joch. Kommon! Hvort er betra;

"Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut."

eða

"Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full."

?

Í seinna laginu er einu sinni minnst á guð, og þá óbeint: "Ísland sé falið þér, eilífi faðir." Í þjóðsöngnum er tíu sinnum minnst á "Guð", enda heitir söngurinn Lofsöngur, og fjallar ekki um Ísland, heldur Guðinn hans Matta. Þið vitið, þessi sem þjóðkirkjumenn trúa á og á að vera aðskilinn frá ríkinu. Sá Guð.

 




 


Forboðið eða frjálst?

"Ný rannsókn bendir til þess að langvarandi notkun á maríjúana leiði til heilaskemmda, þ.e. neytendurnir eigi erfiðara með að læra eitthvað nýtt og muna nýjar upplýsingar. Þetta kemur fram á vefnum forskning.no.
Ný rannsókn bendir til þess að langvarandi notkun á maríjúana leiði til heilaskemmda, þ.e. neytendurnir eigi erfiðara með að læra eitthvað nýtt og muna nýjar upplýsingar. Þetta kemur fram á vefnum forskning.no.

Rannsóknin var gerð við háskólasjúkrahúsið í Patras í Grikklandi og voru bornir saman hópar stórreykingamanna maríjúana og fólks sem ekki hafði reykt maríjúana reglulega heldur af og til. Í ljós kom að því lengur sem fólk hafði notað efnið, því meiri voru neikvæð áhrif á hugsanagetu. Þátttakendur í rannsókninni voru á aldrinum 17-49 ára. Í fyrsta hópnum voru tuttugu manns sem höfðu reykt a.m.k. fjórar jónur á viku í tíu ár eða meira. Í öðrum hópnum voru tuttugu manns sem höfðu reykt jafnmikið á viku en ekki lengur en tíu ár. Í þriðja hópnum voru 24 sem höfðu prófað maríjúana en ekki reykt meira en 20 jónur alls. Enginn þátttakenda hafði notað önnur fíkniefni síðastliðin tvö ár eða í meira en þrjá mánuði nokkurn tíma á lífsleiðinni. Enginn hafði heldur reykt maríjúana 24 klukkustundir áður en rannsóknin fór fram.

Þátttakendurnir gengust undir ýmis próf til að athuga minni og hugsun. Í ljós kom að geta fyrrnefndu hópanna tveggja var minni en þeirra sem reyktu ekki maríjúana reglulega. Verst stóðu langtímanotendurnir sig. Í einu prófi áttu þeir að leggja lista með 15 orðum á minnið og gátu að meðaltali munað sjö orð. Þeir sem ekki reyktu mundu hins vegar að meðaltali tólf orð." -mbl.is 3.3.06

 

"Sumir helstu lyfjasérfræðingar Bretlands hafa lagt mat á skaðsemi fíkniefna út frá þeim félagslega skaða sem þau valda og dæma áfengi og tóbak sem hættulegri fíkniefni en kannabis, LSD eða E-töflur. Skýrsla þessa efnis var birt í læknatímaritinu Lancet.

Aðalhöfundur skýrslunnar segir að fíkniefni hafi aldrei verið ódýrari, aðgengilegri eða meira notuð. Hann segir að stefna stjórnvalda síðustu áratugi ekki hafa virkað til þess að draga úr fíkniefnanotkun. Í rannsókninni voru 29 sálfræðingar sem sérhæfa sig í meðferð við fíkniefnamisnotkun beðnir um að flokka fíkniefni eftir skaðsemi þeirra.

Niðurstöðurnar voru að heróín og kókaín væru skaðlegustu efnin, áfengi lenti í fimmta sæti og tóbak í því níunda, sæti á eftir amfetamíni. Kannabis var svo í ellefta sæti, LSD í fjórtánda og E-töflur í átjánda. Þá kom einnig fram í skýrslunni að áfengi og tóbak eru þau fíkniefni sem valda langflestum dauðsföllum árlega í Bretlandi. Þar deyr einn á dag úr áfengiseitrun og mörg þúsund á ári hverju til viðbótar vegna ofneyslu.

Sérfræðingarnir krefjast þess að ríkisstjórnin hætti að afvegaleiða almenning með villandi skilaboðum um skaðsemi hinna ýmsu fíkniefna."
-vísir.is 23.3.07

 

Svo er þetta bara spurning um hvort réttlætanlegt sé að banna fólki að neyta kannabisefna vegna -mögulegs- minnistaps, eða hvort banna eigi áfengi og tóbak vegna þeirrar byrðar sem neysla þess -mögulega- er á hinu opinbera.

Mín persónulega skoðun -eins og glöggir lesendur hafa kannske áttað sig á- er að þetta eigi allt að vera löglegt. Já, heróínið líka, svo viðbjóðslega sem það kann að hljóma. Svo lengi sem fíkillinn (eða "casual" neytandinn) er ekki beinlínis að neyða aðra til neyslu, á honum að vera frjálst að neyta efnanna sinna án afskipta ríkisins. Hitt er svo annað mál að vinir eða fjölskylda gætu gripið inn í, þætti þeim neyslan of mikil. Það er sjálfsagt, en sé fíkillinn ósáttur við það getur hann alltaf höfðað mál gegn liðinu.

Forboðnir ávextir bragðast alltaf betur.

Oft finnst mér eins og fólk rugli saman orsök og afleiðingu. Tökum tölvuleiki sem dæmi. Endrum og sinnum berast okkur fréttir af ólánsömum einstaklingum sem fara út og slátra einhverjum egfarendum, og með tilþrifum er okkur tilkynnt að viðkomandi hafi spilað mikið af tölvuleikjum. Við skulum hafa það á hreinu að tölvuleikir "láta" þig ekki gera neitt, frekar en kvikmyndir, tónlist eða fíkniefni "láta" þig gera eitthvað. Hinsvegar getur verið að viðkomandi hafi verið veikur fyrir, og þessvegna frekar leitað í ofbeldisfulla tölvuleiki, og jafnvel að tölvuleikirnir hafi "triggerað" veiluna. Að nota þessi rök fyrir banni er auðvitað algjörlega út í hött, rétt eins og að halda því fram að sykur eigi að vera ólöglegur þar sem hann geti skaðað sykursjúka eða valdið offitu.

Þetta sama er hægt að færa upp á nánast allt sem er bannað í okkar samfélagi, þ.e.a.s. það sem ekki skaðar aðra.

"Viltu þá ekki bara leyfa allt?!" Þessa setningu, með varíöntum, hef ég heyrt nokkuð oft. Nei, ég vil ekki leyfa "allt", bara það sem ekki skaðar aðra beint. Að halda því fram að við frjálshyggjumenn (og hér nota ég hugtakið án þeirra ljótu tenginga sem það hefur við Sjálfstæðisflokkinn) viljum "leyfa allt", þar með talið þjófnað, barnaklám og morð er fáránlegt. Að halda því fram að hassneysla og morð séu sambærileg er álíka asnalegt.

Einhver sagði einhverntíma eitthvað á þessa leið; "Nefndu mér tabú, og ég skal segja þér hvar og hvenær það er/var ekki tabú"

 Að drepa annan mann! Nei, það er fyllilega ásættanlegt í stríði. Menn fá fallegar stjörnur á bringuna fyrir að drepa aðra, og haldnar eru skrúðgöngur til að hylla þá.

Mannát? Kynlíf með börnum? Rán? Allt þetta hefur einhversstaðar, einhverntíma verið leyfilegt, jafnvel normið í viðkomandi samfélagi.

Annars er ég komin langt út fyrir efnið, og ekki ætlunin að fara að réttlæta morð eða misnotkun á börnum.

Ég lýk þessum sundurlausa pistli með alls ótengdum útúrsnúningamálshætti frá vinum mínum Niðurlendingum:

 "Alle beetjes helpen", zei de mug en hij pieste in zee.

( "Hvert smáræði hjálpar", sagði mýflugan og meig í sjóinn)

 


Garg!

Að blogga tvisvar á sama klukkutíma er kannske of mikið?

 

Ég bara get ekki orða bundist. "Þetta er bara geðveikt niðurlægjandi"? Um leið og við hættum að skammast okkar fyrir nekt, og sættum okkur við það að kynlíf er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir, hverfur vandamálið. Eru ungmenni dagsins í dag ekki nægilega brengluð þó ekki sé verið að koma því inn hjá þeim að kynlíf sé eitthvað hryllilegt? Af hverju ekki að beina athyglinni að einhverju öðru, eins og ofuráherslu á útlit? Sýnið eðlilega vaxið kvenfólk nakið í auglýsingum. Sýnið nakinn karlmann í sjónvarpinu! Í guðanna bænum, hættið þessu andskotans klámröfli! Nekt er ekki slæm, nekt er góð. Hvernig væri að skipuleggja nektargöngu niður Laugaveginn einhvern góðviðrisdaginn í sumar?

"Maður getur ekki orðið labbað um án þess að sjá klám þannig séð" "Þannig séð" er allt klám.

"For filth - I'm glad to say - is in the mind of the beholder"

Og munið það svo, krakkar mínir: If God wanted us to be nude, we would be born that way.

 

 


mbl.is "Klám er úti um allt á Netinu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat verið!

Þetta er nú meiri andskotans græðgin! Er ekki nóg að við aumir imbakassafíklar þurfum að þola auglýsingafarganið sem ælt er yfir okkur á tíu mínútna fresti, heldur þurfum við líka að fara að borga fyrir gubbuna!? Það er eitt að fríar stöðvar noti heilaþvottinn til tekjuöflunar, en mér dettur ekki í hug að fara að borga morð fjár fyrir tuttugu mínútna þátt sem búið er að teygja í hálftíma með auglýsingum um klósetthreinsikökur og kókómjólk.

 

Annars eru þessar klósettauglýsingar alveg kapítuli út af fyrir sig. Tökum sem dæmi vesalings konuna sem nennir ekki að þrífa klósettskálina, en finnst þægilegra að mjaka "litla klósetthreinsinum" sínum fimm sentimetra til og frá, til að grábrún skánin renni af á réttum stöðum. Síðan held ég að maðurinn sem á Harpic-klósettið þurfi að fara að kíkja til læknis, þar sem hann er greinilega með svokallaða sprengiskitu. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt.

"Má ég sjá gráu skyrtuna þína?"

"Hún er hvít!"

"Hún er ekki það sem við köllum hvítt"

"Hverskonar andskotans dónaskapur er þetta!? Ertu skyrturasisti? Láttu mig í friði!"

Það sem mér finnst best við vöruna sem auglýst er, er það að skyrtan kemur upp úr leginum hvít, hrein, þurr og straujuð. Fyrir svona vöru myndi ég glöð greiða háar fjárhæðir.

Svo ég noti tækifærið til að nöldra enn meira; hver er þulurinn í bíómyndaauglýsingunum? Hver réð þennan ómálga vanvita? The Descent verður The Decent, Ralph Fiennes verður Ralph Fíenness...er ekki lágmark að kunna að bera fram nöfn og titla? Ég er viss um að hann er launsonur Valgerðar og mannsins í Vörutorginu.

 

Og hver ber ábyrgð á því að skipa utanríkisráðherra sem getur ekki tjáð sig skammarlaust á enskri tungu? Hvað er næst? Fjármálaráðherra sem kann ekki að telja? Ólæs menntamálaráðherra?

 

Fjandinn hafi það, ég flyt úr landi.

 


mbl.is Sirkus tengdur Stöð 2 og í lokaðri dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þóf

Mikið óskaplega fer þetta í taugarnar á mér. Alltaf þurfa fréttamenn að kasta fram einhverjum tískufrösum sem engum tilgangi gegna. Þessa dagana fer orðalagið "verðskulduð athygli" í mínar fínustu. Aldrei er talað um það sem fær óverðskuldaða athygli.

 Í þann flokk falla "fréttir" af Britney Spears. Það er ekkert voðalega merkilegt að fræg manneskja fari í meðferð eða klippingu, sama hversu óvenjuleg klippingin er. Mig langar, þó ekki væri nema einu sinni, að heyra einhverna tala um óverðskuldaða athygli. Það væri assgoti hressandi.

"Nýjasta útspil Britney Spears hefur vakið óverðskuldaða athygli víða um heim."

Annars er það helst í fréttum að ég hef ákveðið að minnast alltaf á þá hópa sem fólk tilheyrir þegar ég ræði um það. Það er miklu skemmtilegra, sérstaklega ef notaðir eru "politically incorrect" frasar, en þó ekki á neikvæðan hátt. Það er bara bónus ef hægt er að láta það stuðla. Kynvillingurinn knái, Páll Óskar. Geðþekki gyðingurinn Woody Allen. Öryrkinn indæli Sigursteinn Másson.  


Tannvernd

Ég er svo heppin að vera með lélegar tennur. Svona hafa þær alltaf verið, sama hvað ég bursta, skola og rótfylli. Þær hreinlega molna í kjaftinum á mér, og það er ekkert sérstaklega heillandi lúkk. Sem skattgreiðandi og ríkisborgari á ég samkvæmt lögum rétt á niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu; sem stórreykingamaður á ég í meiri hættu að fá krabbamein - ríkið borgar. Sem þunglyndissjúklingur þarf ég lyf - ríkið borgar. En þó tannskemmdir mínar séu (a.m.k. að hluta til) af völdum erfðagalla, þarf ég að borga allar viðgerðir sjálf, eða -eins og mín fjárhagsstaða er í dag- einfaldlega láta mauka eplið súra og sjúga það í gegnum rör.

Sem skjólstæðingur Félagsmálastofnunar (eða Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eins og batteríið heitir víst í dag) á ég rétt á styrk til tannviðgerða. Síðast þegar ég vissi (fyrir tveimur árum) var upphæðin 40.000 krónur. Að láta draga eina tönn kostar í kringum 5.000 krónur með deyfingu. Tannplantar kosta 1-200.000 krónur - hver tönn. Falskar tennur (gómar) kosta svipað - fyrir allar tennurnar. Hvort sem endurnýjunin kostar hundrað þúsund eða milljón er staðreyndin sú að ég hef ekki efni á því.

Hversvegna eru tennur ekki hluti líkamans undir íslenskum almannatryggingum, nema hjá eldri borgurum, öryrkjum og börnum?

Sú tannlæknaþjónusta sem ég fékk í grunnskóla var reyndar ekki upp á marga fiska, og eftir að mér varð skylt að borga fullt verð fyrir þjónustuna hefur tönnunum heldur hrakað. Eftir því sem ég best veit eru fjórar alheilar tennur uppí mér, allt endajaxlar. Hinar eru í misgóðu ástandi; nokkrar eru varla meira en rót, aðrar þurfa ekki mikið til að fara sömu leið. Þessu fylgja að sjálfsögðu nokkur óþægindi; framtönnunum þori ég vart að beita svo nokkru nemi, enda eru þrjár þeirra sundurtættar og sprungnar, tveir jaxlar eru ónothæfir auk þess sem annar þeirra veldur mér kvölum með reglulegu millibili. Það þarf vart að taka fram að bros mitt er ekki af þeirri tegund sem lýsir upp herbergi. Það er heldur að glottið tæmi herbergi, þar sem þessu öllu fylgir fnykur sá sem gýs upp úr rotnum tannrótum.

Nú hugsa lesendur sjálfsagt sem svo að ég geti nú alveg eins bitið (varlega) á jaxlinn og greitt tannsa smátt og smátt, komið þessu í lag og fengið fínasta Tom-Cruise-bros. En það er ekki svo gott. Eitt sinn er ég -sárþjáð- mætti í tíma hjá tannlækni (ekki mínum venjulega, þar sem sá var í fríi), leit hann upp í mig, fussaði og sveiaði, og rak mig út með fúkyrðum og hótunum um ákæru þegar hann uppgötvaði að ég var ekki með nokkurt fé handbært. Hafði málið þó verið útskýrt vendilega fyrir manneskjunni sem ansaði í símann þegar tíminn var pantaður, og hélt hún það lítið mál að fá að greiða skuldina um næstu mánaðamót, sem voru ekki langt undan. 

Ég skil vel að tannlæknar vilji fá greitt fyrir sína vinnu, en eru virkilega engir hugsjóna-tannlæknar þarna úti? Er ekki einn einasti tannlæknir sem finnst mikilvægara að gera við tennur en að rukka sjúkling um fimm þúsund krónur fyrir tíu mínútna skoðun? Er það réttlætanlegt að nýta sér þessa fáránlegu lagasetningu til að okra á fólki sem þjáist? Ég er hrædd um að hér yrði uppi fótur og fit ef skurðlæknir neitaði að bjarga lífi sjúklings vegna þess að deyjandi maðurinn gæti ekki staðgreitt hjartaaðgerðina sína.

 

 


Frelsið

Tjáningarfrelsið virðist nokkuð teygjanlegt hugtak. Hér ríkir tjáningarfrelsi, nema þegar kemur að hlutum eins og áfengis- eða tóbaksauglýsingum. Í Þýskalandi ríkir tjáningarfrelsi á meðan þú heldur því ekki fram að Helförin hafi ekki átt sér stað eða verið umfangsminni en raun ber vitni. Í Bandaríkjunum...við skulum ekki einu sinni minnast á þau mannréttindabrot sem þar hafa átt sér stað síðan 2001. Út frá pælingum um tjáningarfrelsi fór ég að lesa mér til um bækur og kvikmyndir sem hafa verið bannaðar. Margar þeirra þykja ekki grófar í dag, og sumar eru taldar til meistaraverka. Hér er örlítið brot af kvikmyndum sem hafa verið bannaðar:

King Kong, Drakúla, og Frankenstein - allar bannaðar í Ástralíu 1942.

Dirty Harry - bönnuð í Finnlandi 1972

Texas Chainsaw Massacre - bönnuð í Þýskalandi enn þann dag í dag

Monty Python's Meaning of Life - bönnuð á Írlandi frá 1983-1990

Clockwork Orange - bönnuð á Írlandi frá 1971-2000

The Great Dictator - bönnuð á Spáni frá 1940-1976

Nosferatu - bönnuð í Svíþjóð 1922-1972

Þarna sést að það eru ekki bara "vondu" þjóðirnar, eins og Malasía og Kína sem hefta tjáningarfrelsið.

Við verðum að muna að öll höft á tjáningarfrelsið eru slæm, jafnvel þó ritskoðunin sé falin á bak við göfugan málstað. Margar bækur og myndir hafa verið bannaðar í þeim göfuga tilgangi að "vernda börnin" eða  jafnvel "vernda fólk fyrir spillingu". Slík forræðishyggja er alltaf röng. Það á ekki að vera í höndum ríkisins að velja og hafna fyrir einstaklinginn, það á að vera einstaklingsins sjálfs að velja eigin afþreyingu, hvort sem hún felst í lestri, lyfjaneyslu eða ferðalögum.

Ég vil nota tækifærið og minnast á aðra tegund forræðishyggju, en hún hefur átt miklum vinsældum að fagna hérlendis undanfarið. Hana kýs ég að nefna kapítalíska forræðishyggju. Með kapítalískri forræðishyggju á ég við þau höft sem ríkið leggur á hluti sem það þykist þurfa að "vernda" okkur fyrir, svo sem áfengi og tóbak, og að vissu leyti sykur og fitu. Í stað þess að banna þessa hluti er verði þeirra haldið háu, svo einungis hinir betur efnuðu hafa efni á slíkum vörum. Þetta er líka forræðishyggja, sama hversu vel hún er falin á bak við heilbrigðissjónarmið og annað "göfugt". Nú getur vel verið að hækkandi verð á tóbaki verði til þess að einhverjir hætti að reykja, og það er svo sem fínt svo langt sem það nær. Lítum aðeins á hina hliðina: byrjar fólk að drekka eða reykja vegna þess að "það er bara svo fjári ódýrt"? Nei. Byrjar fólk að neyta eiturlyfja vegna þess að "það er svo auðvelt að ná í þau"? Nei. Ef þetta væri allt bannað (og bannið hefði tilætluð áhrif) væri vandinn úr sögunni, Ísland gæti orðið fínasta fasistaríki og við, syndararnir sem reykja og drekka, gætum flutt af landi brott. Það er hins vegar ekki gert, en þess í stað fá kapítalísku fasistarnir að ráðskast með okkur með skattlagninguna að vopni, og við klöppum húrra fyrir heilsuverndarsjónarmiðum.

Vörumst hræsnina. Bann er fasískt, en það er þó heiðarlegt. Forræðishyggja dulbúin sem vernd gegn illum öflum er það ekki, sama hversu "góður" málstaðurinn er.


Klám

Já, þó það sé að bera í bakkafullan lækinn ætla ég að tjá mig um meinta sorahugsun annars bloggara. Ég sá loksins textann umrædda (á öðru bloggi), og datt fyrst í hug að hér væri um að ræða tilraun bloggarans til kaldhæðni, en eftir að hafa rennt stuttlega í gegnum aðrar færslur hennar finnst mér það sífellt ólíklegra. Umrætt blogg er nefnilega algjörlega laust við kímni, kaldhæðni og annað slíkt, en vera má að þessi færsla hafi verið misheppnuð fyrsta tilraun.

Einn skemmtilegasti húmoristi síðustu aldar er stærðfræðingurinn og píanóleikarinn Tom Lehrer, sm margir kannast sjálfsagt við. Eitt laga hans ber titilinn Obscenity, og í textanum má finna eftirfarandi orð: 

 All books can be indecent books, though recent books are bolder, for filth -I'm glad to say- is in the mind of the beholder. When correctly viewed, everything is lewd!

Getur verið að bloggarinn hafi á lúmskan hátt verið að gera grín að klámumræðu síðustu daga, eða var henni alvara með þessu? Dæmi hver fyrir sig:

 

“Auglýsingabæklingur frá Smáralind var borinn í hús í dag. Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig.

Forsíðumyndin blandar saman sakleysi barnæskunnar (stúlkan er umkringd böngsum og loðdýrum) við tákn úr klámi (líkamsstellingin, opni munnurinn og háu hælarnir). Útkoman verður hin saklausa hóra, hin hreina mey sem í einni svipan verður klámmyndadrottning. Er slík notkun á táknum, sem eru flestum fullorðnum vel kunnug, viðeigandi á bækling sem er ætlaður fermingarbörnum?

Á öðrum stað í auglýsingablaðinu eru myndir af þekktri söngkonu sem máluð er eins og Barbie-dúkka. Í texta segir: „Barbie loves MAC er ný litalína sem kemur aðeins í takmarkaðan tíma sérstaklega hönnuð fyrir allar lifandi dúkkur.“ Eru stúlkurnar, sem eru um það bil að fara að fermast, aðeins lifandi dúkkur?

Skilaboðin sem auglýsingablað Smáralindar sendir ungum stúlkum eru þessi: Verið undirgefnar kynlífsdúkkur. “

      Hefði þetta verið ritað sem háðsádeila á þá sem sjá klám og perraskap í hverju horni þætti mér þetta nokkuð beitt. Því miður bendir allt til hins gagnstæða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 3500

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband