Færsluflokkur: Bloggar

Tvö kyn?

Bloggari hér á Moggablogginu setur spurningamerki við tvíkynskiptinguna.

 

"Hins vegar finnst mér vert að ræða hvort að fólk sem fæðist í röngu kyni eigi að þurfa að gangast undir sársaukafullar skurðaðgerir og massívar hormónameðferðir til að ná sátt á milli líkama og sálar. Er það eina leiðin eða væri kannski leið að fjölga kynjunum þannig að gert sé ráð fyrir margbreytilegu samfélagi en ekki bara körlum og konum sem voru svo heppin að fæðast í "réttum" líkömum? Hvað segja hinseginfræðingarnir í þessu?"

 

Ég verð að vera sammála þessu. Hversvegna að reyna að skipta mannkyninu í tvo hópa? Það er alveg jafn asnalegt og að reyna að flokka fólk niður eftir húðlit eða hárlit.

Ég var "tomboy" þegar ég var yngri. Ég hafði mun meiri áhuga á smíðum en saumum, og fylltist heilagri reiði þegar ég komst að því að strákar fengu að mæta í smíði fyrir áramót, en stelpur eftir, enda langaði mig að mæta í smíði allt árið, ekki bara fyrir áramót. Auk þess fannst mér ósanngjarnt að strákarnir fengju að mæta á undan mér.

Hvernig væri að skylda skólabörn til að stunda nám í  báðum fögum, en leyfa þeim að velja hvenær þau mæta? Þ.e.a.s. að hafa blandaða tíma, í stað þess að kynjaskipta þeim?

Hvernig væri að leyfa fólki að vera það sjálft í stað þess að reyna að troða því í fyrirframákveðna flokka? Þannig að stelpustrákurinn, strákastelpan, stelpan sem fílar smíði og íþróttir, strákurinn sem finnst ekkert skemmtilegra en barbí og saumar, stelpan sem dreymir um að verða snyrtifræðingur og strákurinn sem á sér þá ósk heitasta að verða kraftlyftingamaður og öll hin geti lifað í sátt og samlyndi.

Kynjamisrétti byrjar heima. Leyfið börnunum að velja í stað þess að neyða kynjastereótýpur upp á þau.

 


mbl.is Skipti um kynferði án kynskiptiaðgerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væl

Æ, er vondi presturinn að stríða stóru ríkisreknu kirkjunni, búhú!

Hafa þessir prestar ekkert betra við tímann að gera en skæla yfir einhverju sem annar prestur sagði? Hefur sá prestur ekkert betra að gera en nöldra yfir þjóðkirkjuprestunum? Samkvæmt lögum sem ég hef áður bent á eiga prestar að heimsækja hvert einasta heimili í sókninni að minnsta kosti tvisvar á ári. Ekki hef ég orðið vör við þessar vitjanir, en þó ber að geta þess að ég hef aldrei verið skráð í þjóðkirkjuna, og því engin ástæða fyrir hverfisprestinn að banka uppá. Hinsvegar trúi ég því ekki að prestunum hafi tekist að heimsækja alla þá 252.234 sem voru skráðir í þjóðkirkjuna árið 2006 án þess að ég yrði vör við það. Enda þyrftu þeir að vera ansi duglegir til að ná að kíkja í kaffi og meððí tvisvar á ári til þessa fjölda.

Ef fólk ætlar að nenna að böggast yfir lögbrotum, hversvegna ekki að rífa sig yfir lögbrotum þessa óopinberlega opinbera lygaiðnaðar, fyrirbæris sem hirðir milljarða króna af skattgreiðendum á hverju ári. Hvernig væri að krefjast þess að prestarnir vinni fyrir laununum sem ríkið greiðir þeim?

Hálftómar kirkjur, byggingar sem kostuðu slatta í byggingu væru margar hverjar betur nýttar í önnur verkefni. Hér er algjör óþarfi að byggja nýjar kirkjur, við eigum allt of mikið af þeim nú þegar.

Prestar vinna sjáfsagt meira en margan grunar, þeir þurfa nú að gera meira en bara skrifa prédikanir og flytja þær. Ég meina, prestaþing, sjúkravitjanir, sunnudagaskóli, viðtöl. Allt tekur þetta sinn tíma. En mér finnst þeim ekkert of gott að rölta milli húsa og framfylgja þessum lögum.

Eins og margir sögðu þegar verið var að ræða þjóðsöngsmálið; Það á að framfylgja lögunum, sama hvers heimskuleg þau eru!


mbl.is „Við gátum ekki setið undir þessu ásamt mörgu öðru"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En niðurdrepandi.

Þetta er bara ljótt. Að eyðileggja fantasíurnar svona fyrir manni, með því að benda á afleiðingarnar. Ljóta, vonda fólk.

Þetta kennir manni bara að þræta fyrir að hafa sofið hjá stjörnum. Annars missir maður vinnuna, íbúðina og sjálfsvirðinguna.

Ég vil taka það fram að ég hef aldrei sofið hjá Ralph Fiennes. Aldrei. Gerðist ekkert. Hef ekki einu sinni hitt hann. Eða séð myndir með honum. Er hann annars frægur? Ég veit ekkert hver hann er. Ég hélt að þetta væri einhver allt annar á myndinni. Þekkti hann ekkert. Hélt jafnvel að þetta væri fugfreyjan. Alls ekki þessi Ralph. Hver sem hann nú er.

 

Hvað ætli maður þurfi samt að fljúga lengi til að eiga séns á að hitta einhvern svona? Varla 14.000 ár...eða hvað?


mbl.is Ástarfundur í flugvél hafði slæm eftirköst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölfræði er skemmtileg

Þetta er alveg meiriháttar.

"Fari maður daglega í flugferð með farþegaflugvél frá evrópsku eða n-amerísku flugfélagi mun maður ekki verða fyrir slysi fyrr en eftir 14.000 ár."

Djöfulli hljóta þeir sem hafa lent í flugslysum að vera svekktir. "Það stóð í blaðinu að ég ætti ekki að lenda í slysi fyrr en eftir nokkur þúsund ár. Svo bara hrapaði vélin!"

 


mbl.is Farþegaflug aldrei verið öruggara en nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...uh? Nei?

"Ertu hryðjuverkamaður?"

Ef maðurinn væri hryðjuverkamaður, myndi hann svara þessu játandi? Ef maður svaraði játandi, bara svona upp á djókið, yrði manni synjað um þjónustu? Hvernig eru "hryðjuverkasamtök" skilgreind samkvæmt íslenskum lögum, ef þau eru það þá yfirleitt?

Eru Greenpeace hryðjuverkasamtök? Eru þeir sem mótmæla virkjanaframkvæmdum ekki hryðjuverkamenn samkvæmt einhverjum snillingum innan löggjafarvaldsins? Eru þeir ekki til sem halda því fram að allir múslimar, Ísraelar, Palestínumenn eða eiturlyfjaneytendur séu hryðjuverkamenn eða styrki þá?

Ef svona spurningar eiga að eiga rétt á sér, verður að vera grundvöllur fyrir þeim í lögum.

 

Samkvæmt Wikipedia, einni víðtækustu en jafnframt óáreiðanlegustu heimild alnetsins) eru eða voru eftirfarandi skilgreind sem hryðjuverkasamtök;

Army of God (Her Guðs) - Samtök sem kenna sig við "réttinn til lífs" - en sá réttur nær eingöngu til fóstra og fósturvísa, en ekki lækna sem framkvæma fóstureyðingar eða hvetja til notkunar getnaðarvarna .

IRA - Írski Frelsisherinn - berst fyrir frelsi N-Írlands frá Bretlandi.

ETA - Frelsisher Baska - berst fyrir stofnun Basknesks ríkis.

ANC - Afríska Þjóðarráðið - stofnuð 1912 til að berjast fyrir réttindum svartra S-Afríkubúa, mestmegnis með friðsamlegum mótmælum, en á milli 1970 og 1980 voru samtökin þó nokkuð herská, og þá undir nafninu "Spjót Þjóðarinnar", en fyrsti leiðtogi þeirra samtaka var Nelson Mandela, sem var einmit fangelsaður fyrir meint hryðjuverk.

ELF - Earth Liberation Front - Samtök sem beita ýmsum bellibrögðum til að stöðva það sem þau sjá sem hryðjuverk gagnvart umhverfinu. Enginn hefur látist í árásum þeirra.

AIM - Hreyfing Amerískra Indíána - samtök sem berjast fyrir réttindum frumbyggja Ameríku.

 

Auk hundruða annarra.

Ert þú með einhver tengsl við hryðjuverkamenn?

 


mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekja

Já, þetta er ekkert nema frekja. Lögvernduð frekja, en frekja samt. Að ætlast til þess að skemmtanir séu felldar niður vegna þess að einhver karl fyrir tvöþúsund árum dó sirka um þetta leyti? Frekja.

 Ef þeir sem standa fyrir keppninni ætluðu sér að ryðjast inn í kirkjur með grínið væri sjálfsagt að mótmæla, alveg eins og sjálfsagt er að mótmæla því að prestar ryðjist inn á miðja skemmtun til að messa. Hér er hins vegar um að ræða skemmtun sem fólk greiðir fyrir aðgang að, og þykir mér ótrúlegt að þar verði margir sem ætluðu sér að fara í messu (eða hvað það nú er sem fólk gerir á föstudaginn langa) en hættu við, eingöngu vegna þess að hann Jónas er að keppa í djóki og það fylgir bjór með miðanum.

Ef meira mál verður gert úr þessu ætla ég að kæra alla þá sem voga sér að halda samkomur 29. ágúst, því pabbi dó þann dag. Sama gildir um 15. apríl, 6. október, 14. maí, 18. júní og helling af dögum í viðbót, enda alltaf hægt að finna einhvern sem var svo óheppinn að deyja þann dag. 

 Og ef hér á raunverulega að ríkja trúfrelsi, þarf þá ekki að setja í lög svipuð ákvæði fyrir helgidaga þeirra sem trúa á eitthvað annað? Hvað með Ramadan? Það hlýtur að vera pirrandi að vera múslimi og labba framhjá einhverjum heiðingja að háma í sig svínakjöt um miðjan dag í föstumánuðinum. Á ekki að banna það líka, svona upp á virðingu fyrir hefðum annarra?


mbl.is „Fáránlegt“ að úrslitakvöld Fyndnasta manns Íslands sé á föstudeginum langa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einelti

Í frétt á Stöð 2 kemur fram að nemendum á Akranesi finnist kennarar verkari í einelti en samnemendur.

Sem þolandi eineltis get ég tekið undir þessar niðurstöður (þó ekki finni ég neitt um þetta á mbl.is).

Þegar ég hóf nám í 8. bekk, fékk ég loks staðfestingu á því sem samnemendur mínir höfðu löngum gefið í skyn; að ég væri óæskileg. Einn kennarinn minn - Finnbogi nokkur Sigurðsson, seinna formaður grunnskólakennara í Reykjavík-  gerði mér það fullkomlega ljóst að ég ætti ekki að læra stærðfræði. Heilan vetur sat ég í tímum með handlegginn í uppréttri stöðu, en fékk enga hjálp. Eftir veturinn gafst ég upp og hætti að mæta.

Þessari kennari var reyndar þekktur fyrir það að velja úr nemendur sem honum leist vel á, aðstoða þá á hvern þann veg sem honum var fær, en hundsa hina. Ár eftir ár var kvartað yfir honum, og ár eftir ár var hann valinn einn af bestu kennurunum. Skiptust þar sumsé nánast jafnt þau útvöldu sem fengu hjálp og við hin sem sátum eftir.

Ég féll á samræmdu stærðfræðiprófi. Í sumarskólanum fékk ég rúma sex, og það þrátt fyrir takmarkaðan áhuga minn á stærðfræði - og lái mér áhugaleysið hver sem vill.

Ég vil taka það fram að í skólanum mínum voru margir góðir kennarar.

Ber þar helst að nefna Önnu Valdimarsdóttur, en því miður hef ég ekki getað komið þakklæti mínu nægilega vel til skila hingað til. Án hennar hefði ég hætt að mæta í skóla eftir sjöunda bekk.

Ágúst Pétursson kenndi mér dönsku. Hann var "skemmtilegi kennarinn", gamall hippi og kvæntur einum fremsta vinstri-fasista Íslendinga. Ég var hryllilega skotin í honum -sérstaklega eftir að ég sá þessa gömlu mynd af honum.

 Benedikt Páll Jónsson er líklega ástæðan fyrir því að ég náði stærðfræðinni í sumarskólanum. Hann var (og er líklega) alveg hrikalega sexí. Þetta segi ég skammarlaust á hálf-opinberum vettvangi. Ég mætti í næstum hvern einasta stærðfræðistuðningstíma hjá honum, auk þess að slefa áberandi mikið í efnafræðitímum.

Það má kannske segja að greddan hafi hjálpað mér í gegnum gagnfræðaskólann.

 

 


Fjandskotinn fiðraður!

 

Hér var ég búin að skrifa laaaangan texta um áhugaverða staði í Kaupmannahöfn. Hann datt út. Þess í stað ætlaði ég að birta mynd frá eftirlætisstaðnum mínum í Köben, Örstedsparken. Það var eki hægt, því

"Öryggisstillingar leyfa ekki LÍNA köll í þessa síðu"

hvurn fjandann sem það þýðir. Lesendur verða því að láta sér nægja samtvinnuð blótsyrði á engilsaxnesku;

FuckshitcuntdamnjesusassfuckshithellcrapfuckedyfuckfuckFUCK!

Að lokum legg ég til að moggabloggið verði lagt í eyði. 


Gámaköfun

Gámaköfun -dumpsterdiving- er sniðugt hobbý. Í stærri borgum erlendis tíðkast víða að skilja húsgögn og annað fyrirferðarmikið  "rusl" eftir við gangstéttarbrúnir, þar sem borgarstarfsmenn pikka það upp. Fólk í nágrenninu (eða jafnvel lengra að komið) getur hirt þetta áður en ruslakarlarnir (nú eða konurnar) aka því á haugana. Margir stunda þetta vegna bágrar fjárhagsstöðu, en færst hefur í aukana að sæmilega vel stætt fólk róti í gámum eftir húsgögnum, fötum, og jafnvel matvælum, enda þvílík ósköp sem hent er að óþörfu. Mörgum kann að finnast þetta athæfi ógeðfellt, sérlega þar sem margskonar sorpi er blandað saman, enda halda flestir sig við flokkað sorp, eða vel lýsta gáma og tunnur.

Sem krakki stundaði ég það að róta í gámum, og fann þar ýmsa nytjahluti. Meðal þeirra hluta sem ég fann voru raftæki (sum í góðu lagi, en flest þó ekki), föt (þar á meðal nokkrar flíkur sem ég nota í dag), reiðhjól (lítið mál að laga þau - eða púsla einu saman úr pörtum), bækur (persónulega hendi ég aldrei bókum, og skil ekki þá sem gera það), geisladiskar, myndbönd og kassettur, matur (óskemmdur - til dæmis ferskt grænmeti, pakkamatur o.fl.), ónotaðar snyrtivörur, húsgögn og margt fleira. Í dag er þetta ekki eins auðvelt, þó fólk fleygi enn nytjahlutum, og jafnvel í meira magni en áður fyrr.  Í dag er þessi iðja nefnilega ólögleg í praxís.

Endurvinnslustöðvar Sorpu hér á höfuðborgarsvæðinu eru allar afgirtar, og þí neyðist fólk til að brjótast inn, vilji það "bjarga" hlutum frá haugunum. Það er að sjálfsögðu ólöglegt. Við verslanir eru gámar, en þeir eru oftast læstir. Stærri verslanir (eins og Hagkaup) gefa ekki fatnað sem selst ekki, heldur er honum hent. Sem fyrrum starfsmaður Hagkaupa hef ég nokkra reynslu af þessu, og fyrrum samstarfsmenn mínir þurftu löngum að hlusta á mig nöldra yfir þessu. Auðvitað er það réttur verslana að gera það sem þeim sýnist við útrunnar eða óseldar vörur.

En eins og flestir hafa máske áttað sig á er ekki alltaf samasem-merki á milli þess sem má og þess sem rétt er. Þó það sé löglegt að klippa skálmarnar af gallabuxum áður en þeim er hent í læstan þjöppunargám - í þeirri von að fátæklingarnir fari nú ekki að ganga í fokdýru Díselbuxunum án þess að borga sautjáþúsundkall fyrir þær, er ekki þar með sagt að það sé siðferðilega ákjósanlegt, og vona ég innilega að lesendur séu sammála mér í því.

Persónuleg skoðun mín er sú að lögin ættu að gera það eftirsóknarverðara fyrir fyrirtæki að gefa óseldar vörur (og þá á ég ekki við löngu útrunnar matvörur) til góðgerðarstarfsemi, því að í dag er það svo að fyrirtækin eru beinlínis hrædd við að gefa til Rauða Krossins, Mæðró eða slíkra battería, væntanlega í þeirri trú að fólk hætti hreinlega að versla og bíði þess bara að allt fari á haugana. Sem er auðvitað frekar brenglaður hugsunarháttur.

 Sorp einstaklinga er svo annað mál. Er það ekki enn eitt dæmið um úrkynjun samfélagsins að það skuli vera ólöglegt að endurnýta sorp annarra án leyfis. Að það skuli yfirleitt vera hægt að stela rusli ?

Sem dæmi um þessa eigingirni ætla ég a deila með ykkur sögu. Fyrir nokkrum árum (fyrir tíma Góða Hirðisins) kviknaði í íbúð frænku minnar. Hún var ótryggð, og stóð frænka mín uppi án húsgagna, ljósmynda og fata, auk þess sem kötturinn hennar fórst í eldsvoðanum. Þegar mesta áfallið var liðið hjá og búið að ræsta íbúðina og mála, fór frænkan á stúfana til að reyna að finna sér húsgögn. Hún rölti á Endurvinnslustöðina í hverfinu til að leita að nýtilegum hlutum, og tóku starfsmenn vel í ósk hennar um að fá að spyrja "viðskiptavinina" hvort hún mætti hirða "ruslið" þeirra. Eftir nokkra stund bar þar að mann með bílfarm af húsgögnum, meðal annars forláta leðursófa. Hún skýrði aðstöðu sína fyrir manninum, og fór þess á leit að fá að eiga, eða jafnvel kaupa sófann - fyrst hvort eð er stæði til að henda honum. Maðurinn horfði á hana góða stund, glotti síðan, dró upp dúkahníf og risti leðrið áður en hann varpaði sófanum í gáminn.

Þess má geta að eftir því sem ég best veit þurfa starfsmen Sorpu enn að fá leyfi til að senda nytjahluti til Góða Hirðisins, og enn þónokkur hluti sem af einhverjum ástæðum neitar bóninni.

Ég spyr enn; Hverskonar þjóðfélag gerir það að glæpsamlegu athæfi að hirða eitthvað sem enginn annar vill?


Litlir kassar...

Já, það þýðir ekkert að reyna að halda lífi í neinu svona. Allt þarf að vera eins, það þarf að rýma fyrir nýjum kassablokkum fyrir millana, það þarf að stöðva þessa hryllilegu dópista sem lokka til sín börn og dópa þau upp. Fjandans fasistahelvíti allsstaðar. Hvenær eru annars kosningar í Danmörku?

Annars er þetta auðvitað frábær hugmynd hjá danska ríkinu, að ýta hasssölunum aftur í felur, svo það sé nú öruggt að þeir fari að stunda aukna glæpi. Þá er mun auðveldara að telja fólki trú um að hass sé stórhættulegt, og þessir friðsömu hippar í Stínu verða ekki lengur að flækjast fyrir og rugla fólk í ríminu.

Það er staðreynd að eftir lokun Pusher Street, fjölgaði hasssölum í Kaupmannahöfn, sala sterkari efna jókst, og gengjamyndun er algengari. 24. apríl 2005 kom til skotbardaga milli salanna í Kristjaníu og ónefnds gengis, og lauk honum með dauða 26 ára Kristjaníubúa.

Að leyfa græðgi, hræðsluáróðri og staðreyndafölsunum að stöðva samfélagslega tilraun sem hefur að mestu leyti jákvæð áhrif er rangt


mbl.is Íbúar Kristjaníu fallast á tilboð danska ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 3500

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband