Færsluflokkur: Trúmál

Trúboð í skólum

Mikið finnst mér það merkilegt að sjá og heyra "rök" þeirra sem eru á móti því að banna truarinnrætingu barna í leik- og grunnskólum. Þau virðast standa á tveimur brauðfótum; annars vegar er því haldið fram að það sé börnunum nauðsynlegt (eða í versta falli "ekki skaðlegt") að sitja undir trúboði, en hins vegar rjúka menn upp og halda því fram að ekkert trúboð fari fram á þessum stöðum.

 

Margir hafa reynt (viljandi eður ei) að telja fólki trú um að þetta þýði að börnum verði hreinlega bannað að biðja kvöldbænir, að kristin börn verði skipulagt "afkristnuð" til að þóknast einhverri ímyndaðri trúleysisdagskrá (sem yfirleitt er sögð koma frá Siðmennt eða Vantrú), eða að börn fái ekki að læra ljóð sem innihalda orðið "Guð". Þetta er svo út í hött að það er erfitt að trúa því að einföldum misskilningi sé um að kenna, sérstaklega eftir ítraðar leiðréttingar. Þrátt fyrir að margoft hafi verið tekið fram að einungis sé verið að banna trúboð, ekki trúfræðslu, og að foreldrar hafi áfram rétt til að innræta börnum sínum hvaða vitleysu sem er, rétt eins og hingað til, eru viðbrögðin á þá leið að halda mætti að Manréttindaráð Reykjavíkur væri einhverskonar spænskur rannsóknarréttur trúleysingja og að börn sem tala um Jesú í skólanum eigi það á hættu að verða brennd á báli. 

 

Hluti kristinna manna er á móti því að trúboð líðist innan skólaveggja. Þeir treysta því að börnin þeirra velji Jesú "alveg sjálf" án aðkomu presta eða annars kirkjufólks. Þeir treysta sjálfum sér til að veita sínum börnum trúaruppeldi eftir eigin höfði. Þeir sem gala hvað hæst, virðast hvorki treysta sjálfum sér, eigin börnum, né aðdráttarafli trúarinnar. Þeir telja að besta leiðin til að tryggja viðhald kristindómsins sé heilaþvottur á börnum sem vita ekki betur. 

Ég er sammála þeim í því. Þess vegna vil ég banna trúboð í skólum.


Opinber starfsmaður kemur upp um einbeittan brotavilja

Séra Geir Waage er hugsanlega glæpamaður. Það er a.m.k. vel mögulegt að einhver hafi sagt honum frá einhverju sem séranum er skv. lögum skylt að tilkynna, en það hafi Geir ekki gert. Það er auðvitað mun líklegra að Geir hafi aldrei þurft að takast á við slíka játningu.

 

Ég vona að þessi kærleiksríki og auðmjúki þjónn Guðs þurfi aldrei að horfast í augu við barn sem orðið hefur fyrir misnotkun eða öðru ofbeldi og útskýra fyrir því að þó hann hafi vitað af ofbeldinu hafi hann ekki viljað gera neitt. Hvernig ætli Geir færi að því að réttlæta þessa afstöðu fyrir fórnarlömbunum? 

 

Ég hlakka til að sjá hvernig - eða öllu heldur hvort - biskupsómyndin tekur á málinu. Sjálfur tók hann fullan þátt í að reyna að þagga niður glæpi Ólafs Skúlasonar á sínum tíma, svo það verður varla að teljast líklegt að hann skammi Geir fyrir að hylma yfir aðra glæpi. Það sama hlýtur að gilda um glæpamennina sem Geir vill hlífa og háheilagan nauðgarann hvers stól Karl vermir - Guð einn mun dæma

Geri Karl ekkert er það sameiginleg skylda yfirvalda og sóknarbarna í Reykholti að sjá til þess að skeggapinn í svarta kjólnum fái ekki tækifæri til að hylma yfir glæpi barnaníðinga. Prestar eru opinberir starfsmenn, laun þeirra eru greidd af skattgreiðendum með milligöngu ríkisins, og það er ólíðandi að hafa opinberan starfsmann á launaskrá eftir að hann hefur lýst því yfir að hann hyggist brjóta ekki bara siðareglur eigin stéttarfélags, heldur landslög, að ekki sé minnst á siðferðisbrotið sem felst í þessu. Lögum samkvæmt gæti Geir átt yfir höfði sér allt að árs fangelsi, láti hann hjá líða að tilkynna glæpi gegn börnum. 

Klerkur tekur sér hér stöðu með kúgurum og ofbeldismönnum, gegn fórnarlömbum þeirra.

 

Það er þá aldeilis kristilegt, eða hvað?


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ólöglegt að segja upp samningum?

Ég er ekki lögfróð manneskja, en varla getur það verið rétt að ríkið geti aldrei sagt upp þessum samningi nema með samþykki kirkjunnar? Er ríkið skuldbundið til að greiða þessar jarðir margfaldar, vegna þess að kirkjan getur alltaf neitað að endurskoða samninginn eða segja honum upp? Rennur þetta samkomulag aldrei út?

 

 

Ég ætlaði að setja inn komment við grein Jóns Vals, en gleymdi því að ég er ekki í náðinni (ólíkt hinum dularfulla "Predikara" sem alltaf fær að birta komment þrátt fyrir að vera nafnlaus. Jón hlýtur að vita hver hann er þó við hin gerum það ekki). 

Í athugasemdum við grein Jóns var m.a. stungið upp á því að prestar láti 30% launa sinna ganga til Hjálparstofnunar Kirkjunnar, en eins og sumir vita kannske er mataraðstoð kirkjunnar í sumarfríi akkúrat núna. Það er óneitanlega hjákátlegt að heyra presta ríkiskirkjunnar væla um það að þjónusta við borgarana skerðist verði kirkjan skikkuð til að skera niður um 9% á sama tíma og þeir segja fátæklingum borgarinnar að éta það sem úti frýs -  a.m.k. yfir sumarið!

Hvers vegna hafa þær stofnanir sem dreifa mat ekki samstarf um lokunartíma? Ef einungis ein hjálparstofnun væri í fríi á hverjum tíma, gætu hinar tvær dreift aukaálaginu á milli sín. 

 

30% "tíundin" er ágætis byrjun, en persónulega myndi ég vilja sjá prestana taka af skarið og heimta að svo lengi sem þeir eru á ríkisspenanum verði laun þeirra lækkuð niður í lágmarkslaun. Þar með myndu þessir ósérhlífnu og fórnfúsu þjónar Guðs bæði fylgja fordæmi meints leiðtoga lífs síns og sýna samstöðu með þeim sem minnst mega sín. En þetta gera þeir auðvitað aldrei. Svo lengi sem ríkið greiðir laun presta, hvort sem er í skjóli meingallaðra kirkjujarðasamninga eða meintrar "þjónustu" sem aurapúkarnir á Benzjeppunum þykjast veita borgurum landsins, munu laun þeirra halda áfram að hækka upp úr öllu valdi.

 

Ég veit um margt gáfulegra sem hægt er að eyða skattpeningunum okkar í.

 


mbl.is Semja við kirkjuna um niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði útskýrt á einfaldan hátt

Ég hef oft lent í rökræðum um siðferði trúlausra, síðast hér. Því miður lauk þeirri umræðu snögglega, þó ég vilji ekki geta mér til um ástæður þess. Nonnar þessa heims hafa hins vegar örugglega ekkert nema gott af því að lesa þessa teiknimyndasögu:

http://www.smbc-comics.com/index.php?db=comics&id=1899#comic


Er Jón Valur Jensson óheiðarlegur, huglaus, eða hvort tveggja?

Fyrr í dag setti ég inn athugasemd við færslu Jóns, Engar trúar- né siðferðislegar varnir hjá þingmönnum – ekki einn þorði að andmæla hjónabandi samkynhneigðra!

Athugasemdin birtist næst á undan athugasemd Kristins Ásgrímssonar klukkan 16:04 í dag, 11. júní.

 

Jón eyddi að sjálfsögðu athugasemdinni, enda ragur við að takast á við þau föstu og sterku rök (svo eftirlætisfrasar hans sjálfs séu notaðir) sem ég setti þar fram. Í innlegginu var hvorki að finna dónaskap né nokkuð sem túlka mætti sem "guðlast", en þrátt fyrir það eyddi Jón innlegginu og bannaði mér að gera athugasemdir. 

Ég skora á Jón Val hér, þar sem hann bannar mér að gera það við umrædda færslu, að birta athugasemdina sem ég gerði, annað hvort við þá færslu eða þessa. Jafnvel þó honum hafi fundist eitthvað í athugasemdinni lasta guð hans, ætti hann þó að sjá sér fært að birta hana hér. 

 

 

Því miður klikkaði ég á því að vista athugasemdina (sem ég geri þó oftast, enda viðbúin viðurstyggilegum heigulshætti Jóns) og man hana ekki svo glöggt sem stendur. Eftir því sem mig minnir snérist hún m.a. um það að Jón, verandi kaþólikki, hefði engra hagsmuna að gæta innan ríkiskirkjunnar, enda aðhylltist hún villutrú samkvæmt andlegum leiðtoga Jóns sjálfs. Að auki getur verið að ég hafi minnst á að hér væri engum þröngvað til að gefa saman pör sem ekki eru guði Jóns þóknanleg.

 

 

Ég skora aftur á Jón að birta athugasemd mína - hér, á síðu hans sjálfs, eða með því að senda mér einkaskilaboð - og aflétta banninu sem hann hefur sett á mig, enda hef ég ekki sagt neitt sem brýtur í bága við þá skýru skilmála sem hann setur athugasemdagerðarmönnum:

Nafnlausar athugasemdir ókunnra manna eru ekki leyfðar á þessum vef og verða fjarlægðar, einnig dónalegar eða óheflaðar persónuárásir. Guðlasti verður útrýmt, sem og árásum gegn lífsrétti ófæddra barna og landráðahugmyndum. Innlegg fjalli um mál viðkomandi vefsíðu.

 

Vilji Jón ekki verða þekktur sem heigull, og þar að auki óheiðarlegur, mun hann án efa verða við þessarri einföldu bón.

 


Kraftaverk - Guð drepur 103!

Sumir eiga erfitt með að sætta sig við tilvist tilviljana. Þegar þeir verða vitni að ótrúlegum tilviljunum garga þeir strax á aðrar útskýringar. Þá er nú gott að geta gripið til yfirnáttúru og ævintýra:

 

 Hvílíkt kraftaverk! Þarna stóð Guð sig nú aldeilis vel; almáttugur, alvitur og algóður og með innan við 1% árangur í þessu tilfelli. Bravó.

 

Hvaða bull - auðvitað getur það ekki verið. Alvitur, almáttugur og algóður Guð færi ekki að leyfa 103 saklausum manneskjum að deyja í hræðilegu flugslysi. En bíddu... þetta hefur allt verið hluti af áætlun Guðs! Líklega voru þessir 103 ekki Guði þóknanlegir. Þeir hafa ekki átt skilið að bjargast. A.m.k. fannst Guði það ekki, og hann veit alltaf best, ekki satt?

 

En svona er ljótt að segja. Svona má ekki segja. Við eigum að sjá "kraftaverk", hrópa húrra fyrir því og gleyma restinni. 

 

Nei, þetta virkar ekki svona. Það er ekki hægt að segja að björgun drengsins - eins frábær og ótrúleg og hún var - sé kraftaverk, án þess að samþykkja annaðhvort að hinir 103 hafi átt skilið að deyja, eða að Guð sé dálítill skíthæll. 

 

Nema auðvitað að Guð sé ekki til (ellegar deískur) og hér hafi því ekki verið um guðlegt inngrip að ræða, heldur - í grunninn - tilviljun. Það er engin ástæða til að panika - vilji menn þakka einhverjum lífsbjörg drengsins er hægt að velja á milli björgunarfólks, lækna, hjúkrunarfólks... það er nóg af fólki sem framkvæmir ótrúlega hluti á hverjum degi, ekki fyrir tilviljun, ekki vegna þess að Guð "vinnur í gegnum það" heldur vegna þess að það vill það. Er það ekki fallegra, betra og merkilegra en að segja að ímyndaður Súpermann hafi bjargað þessum eina dreng?

 

 

Ég vona að drengurinn jafni sig, þó það gæti tekið langan tíma, og ég vona svo sannarlega að enginn reyni að telja honum trú um að hann hafi bjargast vegna Guðlegs inngrips. Þá held ég að það sé betra að sætta sig við tilviljanirnar og þakka þeim sem raunverulega hjálpuðu.

 


mbl.is Björgun drengs sögð kraftaverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin til Pápistan

Hugsum okkur þjóðríki - köllum það Pápistan.

 

 

Í Pápistan er forsetinn æviráðinn af hópi gamalla karla. Lögin koma í veg fyrir að konur eigi möguleika á starfinu, enda mega þær ekki gegna neins konar opinberum stjórnarstöðum. Í Pápistan eru getnaðarvarnir bannaðar, sem og fóstureyðingar, tæknifrjóvgun, sjálfsfróun, og kynlíf utan hjónabands. Eingöngu gagnkynhneigð hjón mega ættleiða börn. Skilnaður er bannaður með lögum.

 

Umræða um Pápistan hefur verið áberandi undanfarið, en nýlega kom í ljós að opinberir starfsmenn (sem samkvæmt lögum er stranglega bannað að stunda kynlíf)  hafa nauðgað börnum í stórum stíl, og að sjálfur forsetinn hafi hugsanlega tekið þátt í að fela voðaverkin fyrir umheiminum. Yfirlýst stefna ríkisins er heimsyfirráð og hefur nokkuð gengið að sannfæra fólk um að því sé betur borgið innan ríkisins, enda halda yfirmenn þess því fram að allir utan þess muni þjást óendanlega mikið í mjög, mjög, mjög langan tíma. Ríkið er afar auðugt, þó opinberlega segi forsetinn (rétt eins og forverar hans, allt aftur til meints stofnanda ríkisins) að auður sé rót alls ills og auðsöfnun ósamræmanleg þeim gildum sem ríkið var reist á. 

 

Saga ríkisins er ljót - þar hafa viðgengist mannréttindabrot frá upphafi, en sérstaklega hefur Pápistönum verið illa við Gyðinga. Sú hefð byggist á því að stofnandi ríkisins (sem sjálfur var Gyðingur í a.m.k. aðra ætt) hafi verið drepinn af Gyðingum, jafnvel þó opinberlega viðurkenndar sögur af stofnun ríkisins segi berum orðum að aðrir hafi staðið að aftökunni.

 

Ríkið átti blómaskeið fyrr á öldum, en þáverandi forsetar stunduðu það að ráðast inn í önnur ríki með blóðsúthellingum, auk þess sem þegnar sem brutu hin ströngu og ósanngjörnu lög ríkisins voru brenndir á báli. Auðvitað væri óréttlátt að kenna núverandi forseta um aðgerðir löngu látinna forvera hans, en í raun er ekkert sem kemur í veg fyrir að þetta gerist aftur; forsetinn getur -kjósi hann svo- gefið hvaða þá skipun sem honum þóknast svo lengi sem hann tekur það sérstaklega fram að hún sé 'innblásin' og að hann bara geti alls ekki haft rangt fyrir sér. Vogi sér einhver að mótmæla slíkri skipun er viðkomandi vísað úr landi. 

 

Til að gæta sanngirni skal tekið fram að þó ríkið teljist fjölmennt fara ekki allir þegnar eftir lögum þess, en fæstir lögbrjótanna eru reknir úr landi. Sumum er þó vísað burt án eftirsjár; fyrir nokkru var læknum vísað úr landi fyrir að framkvæma fóstureyðingu á níu ára gömlu fórnarlambi nauðgunar.

 

Þrátt fyrir þessa ólýræðislegu og mannfjandsamlegu -og jafnvel glæpsamlegu- hegðun er forsetanum víðast hvar vel tekið. Þjóðhöfðingjar annarra landa dirfast ekki að gagnrýna hann, því þó ríkið ráði ekki yfir her eða vopnum er það afar fjölmennt. Sum ríki fá jafnvel Pápistana til að gefa ráð við lagasetningar, og víða er ólöglegt að gera grín að ríkinu, lögum þess eða starfsmönnum.

 

Ef þessi forseti Pápistans væri til, værir þú sátt/ur við að hann kæmi í opinbera heimsókn? Þætti þér eðlilegt að hann nyti virðingar?

 

Myndir þú vilja búa í Pápistan? 


Hvers vegna að biðjast afsökunar?

Í frétt Telegraph er talað um að minnisblaðið hafi 'hæðst að' kenningum kaþólsku kirkjunnar.  Skjalið umdeilda er listi yfir það sem ritarar þess myndu vilja sjá páfann gera í opinberri heimsókn til Bretlands. Með því fylgdi þetta kaveat:

 

"Please protect; these should not be shared externally. The ‘ideal visit’ paper in particular was the product of a brainstorm which took into account even the most far-fetched of ideas." 

 

Kaþólski biskupinn af  Nottingham hafði þetta að segja:


“This is appalling. You don’t invite someone to your country and then disrespect them in this way. It’s outlandish and outrageous to assume that any of the ideas are in any way suitable for the Pope.”

 

 

Þetta er því miður ekki erkibiskup, en hann er hálfnaður - hann er greinilega erkifífl

 

Skoðum listann aðeins og athugum hvort við komum auga á eitthvað svakalega móðgandi:

pope2_1623149a

 

Er það virkilega talin móðgun að leggja til að karlskarfurinn standi fyrir máli sínu í kappræðum? Eða að hann snúi við heimskulegri og hættulegri stefnu Vatíkansins í getnaðarvarnamálum - og leggi blessun sína yfir staði sem hjálpa fórnarlömbum sömu stefnu? Eða að hann láti af kynjamismunun? Eða að hann hætti að mismuna fólki eftir kynhneigð? Eða að hann taki raunverulega á barnanaugðunarmálum og hjálpi fórnarlömbum þeirrar stefnu sem hann hefur fylgt í þeim málum? Er þetta það sem móðgar kaþólikka? Er ekki allt í fokking lagi með ykkur? 

 

Okkur finnst allt í lagi að gera þá kröfu til ríkja sem vilja ganga í bandalög eins og SÞ eða ESB að þau breyti stefnu sinni í mannréttindamálum, en það er "móðgandi" að stinga upp á - innan lokaðs hóps, eins og ætlunin var - að svokallaður "andlegur leiðtogi" milljóna manna geri hið sama? 

Okkur finnst allt í lagi -og hvetjum meira að segja til þess- að gagnrýna múslimaríki fyrir kynjamisrétti og hómófóbíu, en það má ekki gagnrýna gamla, hvíta, krumpaða kallfíbblið í gullhásætinu fyrir það sama?

advent11oo8

 

 


mbl.is Biðjast opinberlega afsökunar á „smokkaminnisblaði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lesbíusjúkdómar Jón Vals

Ég gef Jóni hér með tækifæri til að koma á framfæri þeim "traustu læknifræðilegu heimildum" sem hann talaði um fyrir jól.

Jón er strangheiðarlegur maður og færi varla að ljúga til um slíkar heimildir, en ég skil vel að einörð barátta hans gegn pólitískum og andlegum villutrúarmönnum sé tímafrek - þetta er jú fjandi stór hópur. Undanfarna daga hefur Jón svo varla haft við að verja brúði Krists fyrir árásum illskeyttra hatursmanna Páfagarðs, sem nú vilja hafa af vesalings prestunum þeirra einu skemmtun.

Þrátt fyrir þessar annir þætti mér vænt um að Jón tæki sér nokkrar mínútur í að grafa upp þessar traustu læknisfræðilegu heimildir fyrir okkur hin.


Hræsni?

Bæði þykjast þau Gunnar og Jónína fylgja Jesú. Gunnar fór mikinn í umræðum um nýja Biblíuþýðingu og sagði m.a. þetta:

 

"Hafa þessir menn vogarskálar sem vega hvað er synd og hvað er ekki synd í ljósi breytts tíðaranda? Er Biblían ekki heilög Ritning?" -Gunnar Þorsteinsson

Og í trúarjátningu Krossmanna má finna þetta:

 

"Við trúum því að Biblían sé innblásið orð Guðs og því óskeikult. (II. Tím 3:16).

Biblían er hið æðsta vald sem Guð hefur gefið manninum. Öll kenning, trú, von og leiðbeining verður að byggjast á og vera í samræmi við hana. Biblían á að lesast og rannsakast af öllum mönnum alls staðar og getur aðeins verið skilin til fulls af þeim sem smurðir eru Heilögum Anda. I Jóh. 2:27, II Pét. 1:20-21." -Gunnar Þorsteinsson

 

 

Það er gaman að sjá að Gunnari hefur snúist hugur. Hann getur varla enn verið á þeirri skoðun að Biblían sé heilög ritning og skilgreiningar hennar á syndum óbreytanlegar, því nú drýgir hann hór eins og ekkert sé.

"Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.' En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór." - Jesús Jósepsson (Matt. 5:31-32)

 

Það skyldi þó aldrei vera að Gunnar og Jónína séu búin að ákveða að þetta sé ekki synd...í ljósi breytts tíðaranda?

 

 

Ég óska þeim allrar hamingju í nýja hjónabandinu og vona að þau verði svo svakalega upptekin við að njóta þess að þau gleymi barasta öllu um detox og afhommanir og kraftaverk og kjaftæði um trúleysingja!


mbl.is Jónína og Gunnar í hjónaband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband