E-númeragrýlan

Í umræðum um heilsufar og mataræði spretta reglulega upp sjálfskipaðir sérfræðingar sem reyna að selja okkur allskonar ráð og kúra. Það getur verið erfitt að vita hverjum á að treysta. Ein einföld regla til að grisja hópinn er aldrei hlusta á neinn sem varar þig við "E-númerum".

Að tala um "E-númer" sem eitthvað hræðilegt, einsleitt fyrirbæri er öruggt merki um að hér sé á ferð einstaklingur sem hefur ekki hundsvit á því sem hann er að tala um.

 

"E-númer" eru einfaldlega númer sem eru gefin viðbættum efnum í matvælum sem eru framleidd fyrir Evrópumarkað. Þetta eru mismunandi efni, en þau eiga það sameiginlegt að vera fullkomlega örugg til neyslu (a.m.k. í því magni sem má nota þau í matvæli). Sem dæmi má nefna þessi númer:

 

E160a er beta-katótín, sem finnst í þónokkru magni í gulrótum, mangói, sætum kartöflum og spínati.

E160d er lýkópen. Ef þið kannist við það nafn, er það vegna þess að  þið hafið séð það utan á rándýrum "heilsutómötum", en þeir innihalda meira lýkópen en venjulegir tómatar.

E300 er askorbínsýra eða C-vítamín, sem er lífsnauðsynlegt. Sem betur fer fá flestir nóg af því nú til dags.

E 406 er agar. Það er unnið úr þara og er mikið notað í Asíu, auk þess sem grænmetisætur hafa notað það í stað gelatíns, en gelatín er unnið úr dýrabeinum og húð.

E 500 er natríumvetniskarbónat. Það gengur einnig undir nafninu matarsódi. 

E 621 er hið ómaklega ófrægða MSG. Það er auðvitað efni í sér grein, en sem betur fer er hún til nú þegar, svo ég þarf ekki að skrifa hana. Það má þó benda MSG-fælnum á að forðast sveppi, ost, tómata og sojasósu, meðal annars.

E 901 er bývax. Það er einstaklega hættulítil vara, svo lengi sem þú smyrð henni ekki á brotin bein.

E 951 er aspartam. Annar eftirlætis "vondikall" sjálfskipuðu sérfræðinganna.

 

Af þessum fáu dæmum ætti að vera ljóst að ekki eru öll "E-númer" bráðdrepandi. Sum þeirra eru beinlínis holl. Vilji menn endilega velja "vondukalla" af listanum, mæli ég með natríumoktenýlsuccinatsterkju eða polyvinýlpolypyrrolidóni eða polýglýserólesterum interesteraðrar ríkínólsýru. Ekki vegna þess að þau séu hættuleg, heldur vegna þess að það er mun auðveldara að vera hræddur við polyoxíetýlen sorbitanmonopalmitat en ósköp venjulegt þykkingarefni, rétt eins og það er auðveldara að vera hræddur við þetta hrikalega E-500 en matarsóda.

 

Passið ykkur samt á vetnisoxíði, það er stórhættulegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: fingurbjorg

Þessi efnafóbía er svakaleg, ég hlustaði á þessa histeríu öll kaffihlé í heil fjögur ár í námi þar sem bekkjarsystur mínar spáðu í lítið annað en lífrænt ræktað, spelt, aspartam, MSG og E- efni, þess á milli voru þær að pína ofaní sig herbalife og próteindrykki. Ég hélt mér í umræðunni með að taka ekki þátt en tók með mér það nesti í skólann sem mér þóknaðist, eins og afganga af pizzu (mjög oft, nammi namm), oxpitt frá kvöldinu áður, sjoppuborgara og kleinuhringi, ég skammaðist mín ekkert fyrir það og blés á allar athugasemdir. Held að nestið mitt suma dagana hafi farið fyrir brjóstin á sumum stelpunum. :D 

fingurbjorg, 10.6.2010 kl. 13:16

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Flott klippa frá Penn og Teller.

E-númera dæmið er samt aðeins flóknara en það. Mörg efnin eru náttúruleg og óskaðleg í litlum skömmtum. Önnur efnin er smíðuð af efnafræðingum og því framandi lífverum. Það þarf ekki að vera slæmt í sjálfu sér, en það eru samt mörg dæmi um að efnasambönd sem við smíðum reynast lífverum hættuleg (og eru þá notuð í plöntu, sveppa, skordýraeitur).

Var ekki annars að koma í ljós að hreyfing skiptir meira máli en fæða fyrir heilbrigði. Næringarfræði og lýðheilsa er annars frábærlega flókið fag, og líklegast að fleiri hundruð eða þúsundir þátta (og samspil þeirra) skipti máli fyrir heilbrigði og lífslíkur.

Arnar Pálsson, 10.6.2010 kl. 14:47

3 Smámynd: fingurbjorg

Arnar, hvaða efni ert þú að tala um sem er "framandi lífverum"?

E-efnin eru unnin úr lífrænum afurðum eins og t.d. maís, það er m.a. unnin sterkja úr maís en þá er sterkjan einangruð og svo nýtt. Öll þessi E-efni eru unnin úr náttúrulegum efnum, enda ekki annað til. Í ýmsu grænmeti koma fyrir tegundir af skordýraeitri sem yrði aldrei leift að nota hvað þá í því magni sem það finnst í sumu grænmeti.

Það er t.d. ólöglegt magn af rotvarnarefnum í lífrænt ræktuðum gulrótum, sama efnið er einangrað og bætt í aðrar matvörur í minna magni en náttúran framleiðir svo það væri hægt að snúa útúr og segja að náttúran brjóti neitendalög. Svo er fólk vælandi yfir því að fólk rotni ekki í gröfinni vegna of mikillar neislu rotvarnarefna.   

E númera dæmið er svo alls ekki flókið, E stendur fyrir evrópusamþykkt (þau efni verða ekki öruggari) og tölurnar eru svo það sé auðvelt að fletta upp.  sjá ust.is

fingurbjorg, 10.6.2010 kl. 15:27

4 identicon

Í umræðum um heilsufar og mataræði hefurðu heyrt um Matreiðsluuppreisn?

http://bloggheimar.is/llll/2010/06/12/matrei%C3%B0sluuppreisn/

Zoloft (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 00:21

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Fingurbjörg

Takk fyrir ábendinguna, ég stóð í þeirri merkingu að sum E-efnin fyndust ekki í náttúrunni. Ég veit reyndar að sum efnin eru framleidd í tilraunastofu, vegna þess að það er erfitt/kostnaðarsamt að vinna þau úr náttúrulegum efnum (plöntum, dýrum, bakteríum).

Ég er ekki í sjálfu sér á móti E-efnum, en hallast frekar að minna unnum mat og einfaldari. Nema náttúrulega kexi, en það þarf ekki að setja nein rotvarnarefni í það mín vegna, það staldrar ekki nægilega lengi við á hillunni minni.

Sá annars frábæra hluta á E-efna listanum:

E153 Carbon er semsagt kolefni.

E1105 Lysozyme er ensím sem brýtur niður prótín.

Arnar Pálsson, 15.6.2010 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 3310

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband