Misskilningur

Í umfjöllun um hústökuna hef ég orðið vör við furðulegan misskilning sumra. Þeir virðast leggja það að jöfnu að nýta hús í niðurníðslu, hús sem gegna engu hlutverki nema sem 'pantégáetta' þar til hægt verður að reisa glerhallir - hvenær sem það á að verða - sem engin þörf er á, og það að ryðjast inn á heimili fólks eða stela bílum þess. Þetta fólk malar út í eitt um að eignarrétturinn sé "heilagur" og að hústökufólkið hefði bara átt að kaupa húsið ef það langaði svona í það.

Þegar þessi rök eru skotin niður er reynt að trompa með klassísku hringrökunum "þetta er ólöglegt", en aldrei reynt að ræða hvort lögin séu óréttlát. Þessi rök hafa einnig komið fram í umræðunni um lögleiðingu kannabiss og eru jafn fáránleg þar og hér.

 

Fyrsta punktinn er auðvelt að hundsa. Það er enginn að leggja til að fólk taki bara það sem það langar í eða flytji inn í næsta hús sem því líst á. Hvar mörkin liggja þarf að skoða, en það er greinilegt að hús sem hefur staðið autt í tvö ár og á ekki að fara að nota á næstunni er 'fair game'. Rétturinn til sköpunar og uppbyggilegrar starfsemi -að maður tali nú ekki um réttinn til þess að hafa þak yfir höfuðið, þó það hafi ekki verið aðal hvatinn í þessu tilfelli- verður að vera meiri en rétturinn til gróða og "eignar". 

Viljum við búa í samfélagi þar sem það er mögulegt að einn aðili kaupi upp öll hús við heila götu til þess eins að láta þau drabbast niður á sama tíma og fólk neyðist til að sofa undir grenitrjám á Klambratúni? 

 

Annar punkturinn er örlítið raunveruleikafirrtur. Á Íslandi eru afar fáir sem hafa getu til að kaupa hús án stórfelldrar lántöku, hvað þá hús á þessum stað, og enn síður þegar einhver verktaki er búinn að kaupa staðinn og reikna út gróða upp á mörg hundruð milljónir. Verktakinn er ekki á leiðinni að selja, það er deginum ljósara. Ekki þegar hann sér minnsta möguleika á að fá að rífa húsin og byggja versunarmiðstöð sem gæti fræðilega fært honum tugmilljónir ef ekki milljarða, sama hversu fjarri raunveruleikanum sá möguleiki er.

Þriðju rökin eru í raun engin rök nema þú lítir svo á að lög séu sjálfkrafa réttlát. Einhverjir reyna þó að vera málefnalegir og benda á að þó okkur líki ekki við lögin verðum við að fara eftir þeim þar til hægt er að breyta þeim. Ég vil á móti segja að glæpur er ekki glæpur án fórnarlambs, sama þó lög séu brotin. Ef ég stel bílnum þínum er ég að svipta þig afnotarétti, þar ert þú fórnarlambið.

Ef þú hins vegar átt hús sem þú neitar að halda við, notar það aldrei og ætlar að rífa það 'einhverntíma í framtíðinni', hvernig skaða ég þig með því að nota húsið þangað til þú rífur það? Jafnvel þó ég bryti rúður eða veggi væri erfitt fyrir þig að kalla það eignaspjöll - þú ætlaðir jú sjálfur að rífa húsið.

 

Einhverjir hafa bent á að þar sem húsið sé rafmagns- og vatnslaust sé eldhætta mikil. Þessu er auðvelt að kippa í lag; þú einfaldlega opnar fyrir rafmagn og vatn. Reikninginn fyrir notkuninni  er hægt að senda á einn eða fleiri úr hústökuhópnum. Ég efast um að þau myndu setja sig upp á móti því.

 

 Við skulum síðan líta aðeins á aðgerðir lögreglu. Flestir vona ég að séu sammála því að þær hafi verið of harkalegar, en einhverjir þarna úti klappa sjálfsagt og gleðjast yfir því að löggan hafi lúskrað á "skrílnum". 

Aðrar leiðir voru vel færar. Fólkið hefði komið út á endanum, því eins og Eva Hauksdóttir sagði, þurfa meira að segja anarkistar að borða og skíta.

Best hefði þó verið að leyfa fólkinu að vera. Þarna var engin niðurrifsstarfsemi í gangi, þvert á móti var mikil uppbygging í gangi þessa fáu daga sem hústökufólkið hafði húsið. Búið var að opna fríbúð þar sem ýmislegt var á boðstólum, m.a. föt, geisladiskar og bækur, allt án endurgjalds. Gestum og gangandi var boðinn matur án endurgjalds, eins og reyndar hefur verið gert á Lækjartorgi undanfarna laugardaga. Til stóð að hafa ýmiss konar starfsemi í húsinu; listsköpun, fræðslu, meira að segja ráðleggingar frá læknanemum. Rækta átti grænmeti við húsið.

Ekkert af þessu getur flokkast undir niðurrifsstarfsemi nema í augum þeirra sem enn líta á peninga sem tilgang alls. Ef ekkert er rukkað, segja þeir, er enginn tilgangur. 

Þeir skilja ekki að sumt er mikilvægara en peningar og að hús eru tilgangslaus ef þau standa auð og ónotuð. Líklega munu þeir aldrei skilja það, en með hústökunni var fyrsta skrefið stigið. Nú er málið að halda áfram, taka fleiri hús, og sýna fram á að samfélagið hagnast á því að hugsa út fyrir ramma gróða og græðgi.


mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hústökulög! Taka 3

Fyrir tæpu ári síðan skrifaði ég bréf sem ég sendi til Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra. Ég fékk ekkert svar, enda gleymdi ég lykilorðunum svar óskast.

Mér datt í hug að senda svipað bréf í dag - í tilefni af hústökunni á Vatnsstígnum- en nú nálgast kosningar, þinglok eru handan við hornið og því varla mikið upp úr því að hafa að bombardera vesalings Ástu Ragnheiði með mínum sundurlausu pælingum.

Önnur hugmynd er að senda bréf til stjórnmálaflokkanna og hvetja þá til að beita sér fyrir lögum um hústökurétt. Ég hef því miður ekki mikla trú á því að stjórnmálaflokkar beiti sér fyrir einhverju sem peningamennirnir eru ósáttir við. Þetta er kannske óþarfa svartsýni hjá mér. Kannske er núna einmitt rétti tíminn: fasteignabraskararnir þora ekki að segja neitt, því þjóðin er ekki enn búin að fyrirgefa þeim. Það er betra fyrir þá að hafa hægt um sig. 

 

Hvað finnst ykkur? 

 ---

Hér er afrit af bréfinu:

 Sem kunnugt er standa fjölmörg hús auð og ónotuð víðsvegar um borgina. Á sama tíma eru margir heimilislausir, hugsanlega yfir hundrað manns. Auk þeirra er stór hópur fólks sem vart hefur efni á leiguíbúðum.

Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að enginn hafi komið með þá tillögu sem ég útlista hér að neðan. Hugsanlega er þar um að kenna hugmyndaleysi þó sjálfsagt komi þar að fleiri þættir, svo sem mótstaða húsnæðiseigenda - þeirra sem hvað mest græða á hinu háa leiguverði- og verktaka sem láta hús drabbast niður í þeim tilgangi að fá leyfi til niðurrifs.

Hver svo sem ástæðan er breytir það ekki stöðunni. Því kem ég með þá tillögu að slá þessar tvær flugur í einu höggi: nýta það húsnæði sem autt stendur og minnka fjölda heimilislausra í borginni. Lausnin er einföld, svo einföld að það er ótrúlegt að enginn hafi borið fram tillögu þessa efnis á hinu háa Alþingi. Lausnin er að setja hústökulög.

Í Bretlandi, Hollandi og víðar hafa hústökulög verið við lýði í lengri tíma, víða með góðum árangri. Þó fjöldi heimilislausra í þessum löndum sé meiri en hér leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri verri ef ekki væri fyrir hústökulögin. Í löndunum í kringum okkur er að finna fjöldann allan af yfirteknum húsum -jafnvel heilu hverfin- og nægir þar að nefna Kristjaníu í Kaupmannahöfn, Ernst-Kirchweger-Haus í Vín og Can Masdeu í Barcelona.

Í Hollandi er leyfilegt að yfirtaka hús hafi það staðið autt í tólf mánuði eða lengur og eigandinn hafi ekki brýna þörf fyrir notkun þess (svo sem útleigu sem hefst innan mánaðar). Hústökufólkið sendir síðan eiganda og lögreglu tilkynningu um að húsið hafi verið yfirtekið og geta þeir aðilar þá skoðað húsnæðið og gengið úr skugga um að ekki hafi verið unnar skemmdir á því. Einnig staðfesta þeir að viðkomandi hústökuaðili búi þar, þ.e. að á staðnum sé rúm, borð og stóll, sem og lás sem hústökuaðili hefur lykil að.

Í Bretlandi eru svipuð lög, hústökuaðili verður að hafa lyklavöld að húsnæðinu og eigandi má ekki vísa hústökufólki á dyr án dómsúrskurðar þess efnis. Varla væri erfitt að setja svipuð lög hérlendis og hef ég tekið saman nokkra punkta sem mættu vera til staðar í lögum:

1. Hafi hús staðið autt og ónotað í eitt ár (12 mánuði) eða lengur má aðili annar en eigandi setjast þar að án sérstaks leyfis.

2. Hústökuaðili skal skipta um lása, gera við brotnar rúður með viðeigandi hætti, greiða fyrir vatn og rafmagn sem hann kann að nota (og hugsanlega skrá lögheimili sitt í húsnæðinu). Séu þessi skilyrði uppfyllt má eigandi ekki vísa hústakanda úr húsnæðinu án dómsúrskurðar þess efnis.

3. Þegar hústakandi hefur uppfyllt þau skilyrði sem nefnd eru í 2. lið skal hann tilkynna eiganda um hústökuna, sem og lögreglu, og skulu þeir aðilar (ásamt félagsráðgjafa ef svo ber við) staðfesta að húsnæði og hústakandi uppfylli skilyrðin.

4. Til að eigandi fái dómsúrskurð skal hann sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann eða leiguaðilar muni nýta húsnæðið innan mánaðar, og skulu tvær vikur þess mánaðar vera "uppsagnarfrestur" hústakanda, en hinar tvær seinni nýttar til að gera úrbætur á húsnæðinu ef þess þarf.

5. Hústakandi má ekki vinna aðgang að húsinu með ólöglegum hætti, svo sem innbroti, en skal njóta vafans hafi skemmdir áður verið unnar á húsnæðinu án þess að sannað verði hver hafi staðið þar að verki.

 

Ég trúi því að setning hústökulaga verði til góðs, bæði fyrir heimilislausa og borgina alla. Nú þegar kreppa er í sjónmáli má búast við því að heimilisleysi aukist frekar en hitt og því nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu til verndar málsaðilum. Það er til háborinnar skammar að hér á landi skuli finnast heimilislausir á sama tíma og tugir húsa standa auðir og yfirgefnir, sérstaklega í ljósi þess hve auðvelt væri að ráða bót á vandanum.

 


mbl.is Hústökufólk á Vatnsstíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnrýn hugsun? Er það eitthvað oná brauð?

Ég skal setja þetta upp á einfaldan hátt:

Tíu manns reykja gras - misoft og mismikið - en einn þeirra kaupir af díler sem selur líka allskyns fíkniefni. Salinn segir þessum aðila, köllum hann Þórarinn, að e-töflur séu fínar til að koma sér í djammgírinn. Þórarinn lætur til leiðast. Salinn býður honum síðan spítt, það er svo fínt pikköpp. Þórarinn ákveður að prófa, en hann veit ekki að hann er fíkill - rétt eins og sumir eru alkar þó þeir hafi aldrei bragðað vín (þetta er nefnilega að hluta til genetískt)- og verður háður spítti. Síðan prófar hann kók, af því að það á að vera miklu betra og svo fær hann nokkrar dísur, og svo framvegis, þar til Þórarinn er orðinn ræsisróni með sprautu í handleggnum og lifrarbólgu C. 

Þá ákveður Þórarinn að skella sér í meðferð. Hann hittir nafna sinn Tyrfingsson niðri á Vogi og sá tekur skýrslu af honum. "Byrjaði á því að reykja hass, fór svo í e, spítt, kók, dísur, contalgin..."

"Aha!" hugsar Þórarinn T. "Það er greinilega hassinu að kenna að nafni minn varð sprautufíkill."

 

Kíkjum aðeins á hina níu, sem byrjuðu að reykja gras á sama tíma og söguhetjan.

Tveir þeirra hættu að reykja eftir nokkra mánuði. Annar eignaðist fjölskyldu og hafði nóg annað að gera, hinn hætti vegna þess að á vinnustaðnum hans voru starfsmenn sendir í þvagprufu með reglulegu millibili.

Þeir sjö sem eftir voru héldu áfram að reykja. Einn þeirra var handtekinn þegar hann var á leið heim frá dílernum sínum, með fimm grömm af grasi í vasanum. Annar var gripinn með stærðarinnar stofublóm, sem reyndist vera kannabisplanta. Löggan snerti ekki á draumsóleyjunum í blómabeðinu eða sveppunum sem uxu villtir í garðinum. 

Hinir fimm héldu áfram að reykja, allir höfðu þeir vinnu þegar hana var að fá, allir borguðu skatt af laununum sínum, allir voru "góðir þjóðfélagsþegnar". Þeir minntust samt ekki á reykingarnar við nokkurn mann - þess vegna veit Þórarinn T. ekki af þeim. 

----

Tökum dæmi af öðrum manni - köllum hann Einar. Einar vinnur í Tívolíinu - hann er sérstakur æluþrífari. Hann situr inni á skrifstofu alla daga, nema einhver æli. Þá fer Einar út og spúlar ógeðið burt. Einari dettur ekki í hug að fara í klessubílana, hann veit nefnilega að flestir æla eftir þá. Einar sér bara æluna. Hann sér ekki alla hina sem ældu ekki. Einar sér ekki heldur að flestir sem æla eftir klessubílana eru búnir að fá sér pylsu og bjór og popp og kók og kandífloss og fara í öll hin tækin áður en þeir koma að klessubílunum. Einar bara veit að það er klessubílunum að kenna að fólk ælir.


mbl.is Örvandi fíkniefni fylgifiskur kannabisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært kerfi!

Við atvinnulausu aumingjarnir megum alveg fara til útlanda, en bara til að leita að vinnu. Þá verðum við að fylla út sérstakt eyðublað, megum bara fara til eins ákveðins lands og ekki vera lengur en í þrjá mánuði. Eftir það verðum við að koma heim og megum ekki fara til annars lands að leita að vinnu nema við höfum unnið á Íslandi í a.m.k. þrjá mánuði á sex mánaða tímabili.

Eins og staðan er í dag er sumsé séns á að fara til útlanda, en bara til eins ákveðins lands og ekki lengur en í þrjá mánuði. Finnist ekki vinna þar, er ekki um annað að ræða en að koma heim og vera þar til dauðadags - eða þangað til ástandið skánar nóg til að finna vinnu í þrjá mánuði.

 

Er þetta ekki ólöglegt? Á ekki að ríkja ferðafrelsi? Þetta hlýtur að teljast mannréttindabrot.


mbl.is Fastir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta bannið mitt! I feel so proud.

Fyrst hin ávallt málefnalega og alls ekki viðbjóðslega heimska Guðrún Sæmundsdóttir er búin að loka á athugasemdir frá mér, verð ég að svara sérlega gáfulegu innleggi hennar númer 71 hér:

 

Ertu virkilega að leggja það að jöfnu að reykja eina jónu heima hjá sér og fara svo að sofa, og það að nauðga börnum, ræna fólk eða steypa öllum landsmönnum og afkomendum þeirra í skuldir?

Ef svo er ert þú líklega siðblind sjálf.

Ef þú kallar það útúrsnúninga að benda á vísindalegar rannsóknir á kannabisneyslu og áhrifum hennar ertu ekki bara siðblind heldur líka vitlaus.

Þú segir hér að ofan: "alkóhólisminn er ekkert grín frekar en önnur fíkn, en það er ekki lögbrot að drekka og allflestir ráða vel við það að fá sér í glas, þó svo að alkohólistar geri það ekki. Við erum hér að tala um það að lögreglan standi sig vel í að uppræta ólöglegan verknað"

Sérðu virkilega ekki tvískinnunginn í þessu? Þú vilt að kannabis sé ólöglegt af því að það er ólöglegt, en að áfengi sé löglegt af því að það er löglegt.

Þrátt fyrir að það sé margbúið að benda þér á að kannabis sé minna skaðlegt en áfengi, vilt þú halda í lögin vegna þess að þau eru lög?

Allflestir sem reykja gras ráða vel við það, þó einstaka fólk missi sig í neyslu. Hvers vegna er það öðruvísi en áfengið?

Ef þú getur ekki svarað spurningum heiðarlega, vilt ekki breyta neinu, vilt ritskoða þá sem eru ósammála þér og jafnvel senda þá úr landi - hvað í ósköpunum ertu þá að vilja á þing?!

----

Að lokum legg ég til að Guðrún Sæmundsdóttir L-listinn verði lagður í eyði.


Hasshausar, hórur og fólkið sem bara VEIT

Undanfarna daga hef ég átt í nokkrum rökræðum (ef rökræður skyldi kalla) við fólk sem er algjörlega á móti lögleiðingu kannabiss. Dæmigerð "rök" frá þeim eru t.d.

"En ég hef sko séð fólk verða heiladautt af kannabisneyslu!"

Anecdotal evidence - the plural of 'anecdote' is not 'data'. Ég sá líka einstakling nákominn mér verða snarvitlausan af hassreykingum. Ég komst reyndar síðar að því að viðkomandi neytti annarra efna meðfram reykingunum - en það hlýtur að vera tilviljun!

"Þú ert hasshaus, það segir allt sem segja þarf!"

Hin hliðin á þessum "rökum" er svo fullyrðingin "Þú hefur aldrei reykt hass, svo þú veist ekkert um hvað þú ert að tala!" Það virðist svo í góðu lagi að þetta sama fólk noti sína eigin reynslu -eða skort á henni- sem rökstuðning.

"Það væri kannske réttast að gera húsleit heima hjá þér!"

Þarna er farið út í hálfduldar hótanir og ýjað að því að ég hljóti að vera díler - hvers vegna annars ætti ég að verja "dópið"? Svona upphrópanir eru að sjálfsögðu ekki svaraverðar.

"Við verðum að vernda börnin!"

Þetta fólk er í alvörunni sannfært um að það verði auðveldara fyrir börn að verða sér úti um kannabis (svo við látum nú meinta skaðsemi liggja á milli hluta)  hjá löggiltum söluaðilum sem lúta eftirliti stjórnvalda en hjá ólöglegum fíkniefnasölum sem hugsa aðallega um gróða.

"Kannabis er bannað í flestum löndum heims. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því!"

Argumentum ad populum. Konum var líka bannað að kjósa í flestum löndum heims. Samkynhneigð var fordæmd í flestum löndum heims. Stór hluti mannkyns lætur sig hafa það að sleppa svínakjötsáti. Meirihlutinn hefur ekki nálægt því alltaf rétt fyrir sér.

 

Ég hef líka átt í viðræðum við fólk sem er algjörlega á móti vændi. "Rökin" þeim megin hafa verið svipuð.

"Við verðum að endurreisa siðferðið í landinu!"

Það er greinilega ástæðan fyrir bankahruninu að Jón Jónsson hafi borgað Siggu Páls 20.000 kall fyrir tott. 

"Þetta stuðlar að mansali og útbreiðslu sjúkdóma!"

Já, eftirlit stjórnvalda, reglur sem krefjast þess að vændisaðilinn fari reglulega í sjúkdómaeftirlit, greiði skatta, noti smokk og láti ekki þriðja aðila hagnast á vændinu (annan en ríkið, auðvitað), ýtir greinilega undir mansal og kynsjúkdóma. Þetta fólk virðist halda að þrælahald sé almennt löglegt á Íslandi og að vændislögin nýju séu það eina sem geti komið í veg fyrirað fólk níðist á samborgurum sínum. Þessi rök eru svipað gáfuleg og fullyrðingar helvítis páfagerpisins um smokka.

"Þú myndir ekki vilja að börnin þín stunduðu vændi!"

Ég á ekki börn, svo þetta er moot point. Ætti ég börn, hugsa ég að ég myndi vilja að þau ynnu við eitthvað sem veitir þeim ánægju, hvort sem það væri blaðamennska, módelstörf, barnagæsla eða vændi. Ég myndi ekki vilja að þau ynnu við eitthvað sálardrepandi en 'viðurkennt' starf sem þau hefðu enga ánægju af, hvort sem það væri afgreiðsla í Bónus,blaðadreifing, lögmennska eða vændi.


Andstæðingar lögleiðingar kannabisefna og andstæðingar vændis (sem oft - en þó ekki alltaf- eru sama fólkið) eiga það sameiginlegt að taka ekki mark á vísindalegum rannsóknum, hundsa rök og kjósa frekar að láta stjórnast af tilfinningum.

Ef einhver sem les þessa grein vill henda fram fleiri "rökum" er mér bæði ljúft og skylt að svara þeim eftir bestu getu.


One-track mind

Alltaf þykir mér jafn merkilegt að rekast á "one-track mind" bloggara. Hér á ég við þá sem, sama hvert umræðuefnið er, tjá sig á sömu nótum.

Margir kannast sjálfsagt við hinn ágæta Doctor E, en hans færslur og komment snúast nánast alltaf um illsku trúarbragða.

Skúli Skúlason er annað gott dæmi. Í hans veröld má rekja allt sem aflaga fer til uppgangs Íslams í heiminum. Hann er þar með að hluta sammála doktornum - nema hvað að í heimi Skúla telst Íslam ekki til trúarbragða. 

Þorsteinn Scheving fer mikinn í athugasemdum við ýmsar færslur - sama hvert umræðuefnið er, er rót vandans að finna hjá Gyðingum - eða öllu heldur Zíonistum. Þeir bera t.d. alla ábyrgð á klámi.

 

Trúarbrögð vekja jú upp sterkar tilfinningar hjá fólki. Það gildir líka í hina áttina.

Aida, sem kallar sig "bænahermann Krists", hefur sjaldan nokkuð nýtt til málanna að leggja. Hjá henni snýst allt um að lofa Jesú eða biðja fyrir fólki. 

Það sama gildir um hina glimmersjúku Rósu Aðalsteinsdóttur. Þó hún bloggi stundum um eitthvað annað en GvuðogJésú eru þeir feðgar samt rauði þráðurinn í færslum hennar og kommentum. 

Aðventistinn Mofi er einn af "heilögu þrenningu" moggabloggsins. Hans færslur snúast flestar um hina svokölluðu "sköpunarkenningu" eða að reyna að koma höggi á þróunarkenninguna - kenningu sem hann er margbúinn að sýna fram á að hann skilur ekki. Inn á milli bölsótast hann svo út í þá sem voga sér að halda hvíldardaginn á sunnudögum í stað laugardaga.

Annar hluti heilögu þrenningarinnar er svo kaþólikkinn Jón Valur. Hann er reyndar það sem kalla mætti "two-track mind", þar sem hans tími skiptist á milli baráttu gegn fóstureyðingum, í anda kaþólsku kirkjunna, og baráttu gegn ESB. 

(Þriðji hlutinn er svo Guðsteinn Haukur, en hann er meðlimur í einhverri sprotakirkju.  Ólíkt þeim JVJ og Mofa hefur hann hæfileikann til að tjá sig um ýmis mál án þess að blanda trúnni inn í. Hann virðist líka mun umburðarlyndari en hinir tveir, þó ég muni seint fyrirgefa honum að hafa ekki notað tækifærið til að stinga upp í Skúla Skúlason þegar þeir komu fram saman á Omega.)

 

Auðvitað eru margir fleiri sem falla í þennan hóp, enda ekkert óeðlilegt við að menn bloggi um aðaláhugamál sín. Fyndnastir þykja mér þó þeir sem, eins og Þorsteinn og Skúli, virðast alltaf þurfa að tengja umræðuefnið við sína eigin ímynduðu fjandmenn. Það minnir mig á pistil eftir Mark Steel:

 

"I've always imagined Thought For the Day is a sort of panel game, where the contestant has to try and crowbar God into that day's news.

So tomorrow's one might go: "As teenagers across Britain eagerly digest the results of their A-levels, aren't they a bit like Jesus? For though he never had to sit A-levels, heh heh, he certainly had to do tests. When he was sent into the wilderness, wasn't that God's way of saying 'you may turn over your papers and begin – now'? And also, lots of teachers have beards, just like Jesus."

Or they could try "As the harrowing pictures of the floods in Prague continue to fill our television screens, some of us may wonder why God doesn't stop it. After all, when Moses was in trouble God parted a whole bloody sea so a burst river bank should be a piece of cake. The answer is that God clearly doesn't like Prague."

Occasionally you get a slightly cheeky one that sounds like a middle-aged headmaster trying to appear youthy in a school assembly: "While listening to my son's CD of the notorious Eminem, I had to confess to a sneaking regard for the mischievous rapper and his somewhat colourful turn of phrase. And some of the tunes were surprisingly catchy! But then it struck me, was not Jesus, at the last supper, saying in his own way 'dat mothafuckin' faggot Judas gonna get a bullet in ya damn ass ya think ya can betray me boom boom'."


Hvar er Jón Valur núna?

Ættu hann og trúbræður hans ekki að vera bloggandi í hrönnum um þessa frétt?

 

Þegar við lesum svona frétt líður okkur kannske illa; sumir verða reiðir. Sumum verður flökurt. Sumir tárast.

 

Sumir bregðast aðeins öðruvísi við.

Þeim finnst leiðinlegt að forsetinn hafi gagnrýnt biskupinn, vegna þess að þeim finnst alltaf leiðinlegt þegar einhver gagnrýnir trúarbrögð - þ.e.a.s. þeirra eigin. Þeim finnst allt í lagi að gagnrýna og jafnvel ljúga til um önnur trúarbrögð.

Þeim finnst líka alveg ómögulegt að fólk hafi óhlýðnast biskupnum og framkvæmt fóstureyðinguna, þrátt fyrir að kirkjan hafi reynt að koma í veg fyrir hana. Þeir kalla þetta morð - tvöfalt morð meira að segja! Þeir eru ánægðir með úskúfun þeirra sem frömdu þennan glæp, en hlakka samt meira til að sjá morðingjana brenna í logum vítis til eilífðar.

Þeir eru ekki nógu ánægðir með yfirlýsingu biskupsins, því hann gleymdi að fordæma stúlkuna sjálfa, þessa sem myrti sín eigin börn. Þeir benda á að hennar glæpur sé stór og hún muni einnig fá vítisvist á efsta degi.  

Þeir minnast kannske á þessa meintu nauðgun í framhjáhlaupi. "Auðvitað er nauðgarinn líka sekur en -" 

 

Þeir hefðu heldur kosið að sjá þetta níu ára gamla, 36 kílóa barn ganga með tvíbura í níu mánuði, leggja líf sitt í stórkostlega hættu til að fæða börn sem hún hefur ekki minnsta þroska eða aðstæður til að ala sómasamlega upp. Þeir hefðu verið sáttari við að stúlkan léti lífið fyrir þessa óþroskuðu frumuklasa. Einhverjir þeirra hefðu frekar kosið að drepa alla þá sem komu nálægt fóstureyðingunni - vegna þess að lífið er heilagt.

 Ef einhver einstaklingur hagaði sér svona á öðrum forsendum en trúarbragðanna, væri hinn sami fordæmdur. Maður, eða hópur manna, sem kæmi í veg fyrir að níu ára gamalt fórnarlamb nauðgunar fengi nauðsynlega læknishjálp - án þess að blanda Guði inn í -  yrði dæmdur í fangelsi fyrir að stofna lífi barns í hættu.

En ekki þessi maður. Vegna þess að hann trúir á gamlar þjóðsögur fær hann frípassa. Vegna þeirrar vænisjúku ranghugmyndar að einhver ósýnileg vera fylgist stöðugt með hugsunum hans og gjörðum, fær hann að hegða sér eins og siðblindasta ómenni.

 

Ég skora á JVJ að tjá sig um þetta mál. Mig langar að  sjá hvernig hann fer að því að réttlæta svona viðbjóð.

 


mbl.is Níu ára ólétt af tvíburum eftir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oj bara!

Í smáfréttinni er sagt að konan heiti Katya Mira en í aðalfréttinni er gefið upp rétt nafn, Cerrie Burnell.

Með örstuttu gúgli  komst ég að því að Katya Mira er talsmaður BBC. 

 

 

En um fréttina sjálfa hef ég í sjálfu sér fátt að segja. Þó finnst mér fyndið að kvörtunarefni fólks sé að það "neyðist til að ræða við börnin sín um fötlun". Í alvöru? Er það vandamálið?

 

Barn:

Pabbi, af hverju er konan bara með eina hendi?

 

Pabbi:

Hún fæddist svona. Sumt fólk er bara með eina hendi, aðrir bara með einn fót, eða kannske enga fætur eða hendur. Alveg eins og sumt fólk fæðist blint eða heyrnarlaust eða ljótt.

 

Barn:

Af hverju?

 

Pabbi (veljið svar eftir því sem hentar þroska þínum og/eða barnins):

Það bara gerist stundum þegar börn eru að verða til (athugið að þetta getur leitt til annars og lengra samtals)/ég veit það ekki, spurðu mömmu þína/það getur gerst vegna litningagalla, slyss eða einhvers sem mamman gerði eða gerði ekki á meðgöngu/[langur fyrirlestur um litninga, frumuskiðti og fósturþroska]/nei sko, kisa! 

 (Ef allt annað bregst má grípa til gamla trikksins) Guð gerði það. 

 

Síðan læturðu barnið taka til í herberginu sínu eða klæða sig í eða búa til samloku með aðra hendi fyrir aftan bak. 

 

Er þetta eitthvað mál?

 

 


mbl.is Kvartað vegna fötlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændi

Í forystugrein fréttablaðsins í dag skrifar Steinunn Stefánsdóttir um elstu atvinnugreinina, vændi. Hún heldur á lofti sömu gömlu tuggunni, að vændi sé kynferðisofbeldi, og vísar máli sínu til stuðnings í orð talskonu Stígamóta.

Mansal og nauðung er alvarlegt mál og ekki dettur mér í hug að verja það, en orð talskonunnar slógu mig. 

"Hún sagðist ekki geta réttlætt frelsi [kvenna sem stoltar selja kynlífsþjónustu] á kostnað allra hinna sem ekki hafa raunverulegt val". 

Er einhver munur á þessu og að banna kynlíf vegna þess að misnotkun og nauðganir eiga sér stað? "Ég get ekki réttlætt frelsi kvenna til að stunda kynlíf á kostnað hinna sem er nauðgað"?

Hinn punkturinn sem Steinunn setur fram er að rannsóknir hafi sýnt að flestar konur sem stundi vændi búi við slæmar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. "Kaupandinn, eða ofbeldismaðurinn, er þannig að færa sér í nyt aðstæður þess sem stundar vændið og beita hann kynferðislegu ofbeldi sem hann greiðir fyrir, annað hvort fórnarlambinu sjálfu eða þriðja aðila." 

Vændi er vinna. Ef ekki væri fyrir kynlífstenginguna, dytti engum í hug að kalla vinnuveitanda ofbeldismann. Þetta viðhorf margar sprettur frá þeirri hugmynd að konur séu alltaf fórnarlömb í kynlífi, mýta sem átti miklum vinsældum að fagna á Viktoríutímabilinu - og reyndar langt fram á síðustu öld. Ég hélt að við værum hætt að vera svona vitlaus.

 

Ég spyr aftur, er einhver munur á því að kalla vændiskaupanda annarsvegar, eða vinnuveitanda hinsvegar, ofbeldismann? Nýta fyrirtæki sér ekki námsmenn sem búa við slæmar fjárhagslegar aðstæður? Eru Hagkaup þrælabúðir?  

Til að eiga kost á atvinnuleysisbótum þurfa umsækjendur að sækja námskeið. Ef þeir mæta ekki, fá þeir ekki pening. Er Vinnumálastofnun að nýta sér neyð fólks með því að skikka það til að fylla út eyðublöð? 

Vændiskona eða maður, sem grípur til þessa ráðs í neyð er ekkert öðruvísi en manneskja sem fer að vinna á McDonalds í neyð. Ef fólk ynni eingöngu við það sem því líkar, myndu hjól atvinnulífsins hætta að snúast. 

 

Mansal og þrælkun er svo allt annað mál, en á að falla undir sömu lög og önnur þrælkunarvinna, ekki einhver sérlög bara vegna tengingarinnar við kynlíf.

 

Hvers vegna er vændi af frjálsum vilja álitið öðruvísi en önnur líkamlega vinna sem greitt er fyrir - jafnvel þriðja aðila? Ég vann um stund hjá garðvinnufyrirtæki þar sem þriðji aðili - eigandinn - hirti launin og úthlutaði svo broti af þeim til okkar starfsmannanna. Er hann þá ofbeldismaður? Ég kaus sjálf að vinna þarna - og kaus sjálf að hætta þegar kom í ljós hvern mann eigandinn hafði að geyma og fékk aldrei nema hluta af laununum.

 

Ég hefði betur farið í vændið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband