Skýringar

a) Þetta er bátur eða annað fljótandi í vatninu.

b) Þetta er fokkerí frá einhverjum google-starfsmanni.

c) Þetta er furðuvera sem hefur lifað í frekar litlu stöðuvatni síðustu hundrað/þúsund/milljón ár, en sem aldrei hefur náðst skýr mynd af og aldrei fundist nokkur sannanleg merki um.

 

Lof mér hugsa...


mbl.is Nessie á Google Earth?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að banna búrkuna?

Ég er með spurningu til ykkar sem endilega viljið banna búrku/niqab; hver eiga viðurlögin við brotum á banninu að vera?

Þið segið að búrkan sé notuð til að kúga konur. Er þá réttlátt að refsa þeim fyrir að vera kúgaðar?

Þið segið að konur geti ekki mögulega valið þetta sjálfar, svo rökrétt væri að refsa þeim sem neyðir hana til að bera klæðin. Hvernig ætlið þið að sanna þann glæp? Ef konan sjálf heldur því fram að hún velji að bera niqab, ætlið þið þá að segja henni að hún geti ekki haft það val, hún sé bara heilaþvegin? Goð hugmynd: fátt sem eykur sjálfstraust kúgaðra kvenna meira en að segja henni að orð hennar séu ómarktæk af því að hún er bara (múslima)kona!

Þær konur sem raunverulega búa við það að vilja/mega ekki sýna andlit sitt á almannafæri nota niqab sem einskonar "ferðaheimili". Ef ekki er fyrir þessa ímynduðu "vörn" gegn öðru fólki, er hætta á að konan velji/sé neydd til að halda sig alveg innan veggja heimilisins. Ekki hjálpar það kúgaðri konu.

 

Ég er ekki viss um að þið hafið hugsað þetta nógu vel. Endilega segið mér hvernig á að framfylgja svona búrkubanni, ég sé það ekki alveg. 

 

Ég er fylgjandi því að konur hafi fullt frelsi til að klæða sig eins og þær vilja, hvort sem þær vilja hylja sig frá toppi til táar eða ganga um naktar (en það er efni í annað blogg) eða eitthvað þar á milli. Þú verndar ekki einstaklingsfrelsið með því að hefta frelsi einstaklingsins. Svo ég tönnlist nú á þessu hérna líka:

Þú verndar ekki rétt kvenna til fóstureyðinga með því að banna barneignir. Þú verndar ekki rétt til vinnu með því að neyða fólk til starfa. Þú verndar ekki málfrelsið með því að banna ákveðin orð, eða hugsanafrelsi með því að banna ákveðnar skoðanir. Þú verndar ekki trúfrelsi með því að banna ákveðna trú. 

Lögin banna nú þegar kúgun og nauðung. Að búa til sérstök búrkulög er óþarft, auk þess sem slik lög myndu hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. 

Að  hjálpa þeim konum sem raunverulega eru kúgaðar, hvort sem er vegna trúarbragða eða annars, er verðugt verkefni. Rétta leiðin til þess er hinsvegar ekki sú að banna ákveðinn klæðnað eða hegðun, svo lengi sem viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Með því að auka menntun og félagslegan stuðning við konur (og reyndar alla) sem eru í áhættuhópi, t.d. vegna trúar (eða vegna þess að viðkomandi er nýfluttur til landsins, þekkir engan og á því ekki jafn víðtækt tengslanet og aðrir, og aðhyllist auk þess trú þar sem kúgun kvenna er alltof algeng) er hægt að ná mun betri árangri en með því að gera viðkomandi að glæpamanni.

 

Ég mæli svo með því að þið lesið þessa grein.


mbl.is Danir deila um búrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matur.

Grænbaunapastapæ með grænu:

"Einn hluti" miðast við rúmmál, ekki þyngd.

 

Einn hluti soðnar pastaskrúfur

Einn hluti frosnar grænar baunir

Einn hluti gufusoðið grænmeti, t.d. brokkólí, blómkál, aspas og/eða gulrætur

1/3 hluti smurostur

Einn hluti rifinn ostur + 1/3 hluti til að blanda út í sósuna 

1/4 hluti majónes

salt

sykur

(ólífu)olía

pipar

ferskur hvítlaukur (1 geiri fyrir hvern hluta af baunum)

 

Jæja: þið sumsé gufusjóðið grænmetið, sjóðið pastað og skellið grænum baunum í pott ásamt smá vatni, salti og sykri. Þegar baunirnar eru heitar í gegn og enn fagurgrænar, hellið þið vatninu af og setjið baunirnar í matvinnsluvél ásamt hvítlauk. Látið vélina ganga þar til baunirnar eru orðnar að þykku mauki, en ekki of þykku - þynnið með ólífuolíu. (Svona baunamauk er reyndar gott eitt og sér). 

Blandið síðan hluta af rifna ostinum saman við, ásamt smurosti, pipar og smávegis majónesi og blandið vel. Skellið síðan pastanu og (söxuðu) grænmetinu saman við. Hellið þessu í eldfastan dall, hyljið með þykku lagi af rifnum osti og þjappið öllu vel niður - setjið jafnvel farg ofan á þar til gumsið er kalt. 

Setjið síðan allt draslið inn í ofn þar til það er heitt í gegn og osturinn farinn að brúnast. 

Þetta má svo éta, og ætti að halda lagi sæmilega þegar það er skorið.

 

Hrikalega er ég léleg í að skrifa uppskriftir...enda fer ég aldrei eftir þeim. Ef þið lendið í vandræðum skal ég dæsa og gera þetta sjálf.

 


Takk, Jesús!

Úr dagbók árásarmannsins:

 

"Maybe soon, I will see God and Jesus. At least that is what I was told. Eternal life does NOT depend on works. If it did, we will all be in hell. Christ paid for EVERY sin, so how can I or you be judged BY GOD for a sin when the penalty was ALREADY paid. People judge but that does not matter. I was reading the Bible and The Integrity of God beginning yesterday, because soon I will see them."

 

'Nuff said.


mbl.is Fjórir látnir eftir skotárás í íþróttasal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíðum aðeins...

Ég renndi yfir þau blogg sem þegar er búið að tengja við fréttina og fæ ekki betur séð en að þeir sem þau rita séu allir á bandi stúlkunnar. Þó hafa komið fram athugasemdir sem ekki eru jafn skemmtilegar.

Við þessa færslu er að finna svohljóðandi athugasemd:

 

        "Hún er núna gift, þar með er hún hluti af hans fjölskyldu, þetta er ekki eins og hérna."

 

og við þessa má lesa:

 

        "Ég er múslími. Dóttirin er ekki ein af móðurfjölskyldunni lengur...hún tilheyrir fjölskyldu mannsins sem hún giftist...þannig er það nú bara...og ekkert við því að segja."

 

Þetta eru ekki gild rök. Móðirin vill greinilega að dóttir hennar og tengdasonur komi til Íslands, þau vilja það sjálf...en tveir Íslendingar vita betur og segja það ekki í samræmi við hefðir múslima. Þeir hljóta auðvitað að vita betur en Ayda og Sama hvernig hefðir og venjur eru hjá þessari tilteknu fjölskyldu, ekki satt? Ég læt svo svar síðuhöfundar fylgja með seinni athugasemdinni:

 

 "Úr því fjölskylda mannsins getur ekki séð um sína, þá eiga þau að vera velkomin hingað til lands þar sem ekki er litið á konur sem húsdýr. Við byggjum þjóðfélag okkar á kristnum gildum, þar sem náungakærleikur er hafður í fyrirrúmi. Ekki á hatri og skorti á umburðarlyndi."

 

Þó hann meini eflaust vel má fátt annað lesa úr svarinu en hroka og yfirlæti. Ég leyfi honum annars að njóta vafans, hugsanlega var þetta bara illa orðað hjá honum.

Ekki er hægt að segja hið sama um athugasemdirnar við þetta blogg:

 

"Ég er skagamaður og ég get sagt þér það að við höfum nóg með okkar, og við höfum flest öll fengið nóg af þessu liði."

 

og

 

"Ef það á að sameina fjölskylduna þá hlýtur fjölskylda hans að koma á eftir, nei takk."

 

Hér er ekki umburðarlyndinu fyrir að fara, enda skrifa þessir einstaklingar ekki undir nafni.* Við fyrri athugasemdinni er lítið hægt að segja. Ég hef persónulega ekki orðið vör við þessa miklu óánægju Skagamanna, en þó getur vel verið að hún sé til staðar. Ég leyfi mér þó að vona að hún sé a.m.k. ekki jafn útbreidd og þessi "logus" vill meina. Seinni athugasemdin er öllu ljótari. Höfundur hennar er einfaldlega fordómafullur asni, nema auðvitað að hún þekki fjölskyldu tengdasonar Aydu persónulega. Ef svo er væri gott að fá skýringu á því hvers vegna hún er ekki húsum hæf. Ég efast um að þessi "Guðrún Skúladóttir" (ætli hún sé dóttir ákveðins vitleysings?) viti nokkurn skapaðan hlut um fjölskyldu Alis, svo eftir stendur skýr ótti við múslima. Svo ég leyfi sjálfri mér smá fordóma: þessi kona er sjálfsagt á miðjum aldri, horfir á Omega og les Blekpenna af áfergju. Uppáhalds bókin hennar er 'Íslamistar og naívistar' og hún getur ekki séð neitt sambærilegt við bænaköll múslima og bjölluglamur íslenskra kirkna.**

Því miður óttast ég að fleiri maðkar komi í ljós ef þetta mál fær meiri umfjöllun (sem ég vona nú samt að það geri) og að þeir tjái sínar skoðanir ekki jafn "kurteislega". Sjáum til. Svona til "gamans" skal ég spá þessu:

Einhver á eftir að draga kreppuna inn í umræðuna í því samhengi að við höfum ekki efni á að hugsa um annað en rassgatið á sjálfum okkur. Einhver á eftir að tengja byggingu mosku við málið og kvarta undan bænakallinu. Einhver á eftir að nota orðin "kristilegt siðgæði" án þess að sýna nokkuð af því*** sjálfur. 

En bíðum aðeins...sjáum til. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

 

*Ég hef ekkert á móti nafnlausum bloggurum, en nafnlausar athugasemdir eru oftast nafnlausar vegna þess að viðkomandi þorir ekki að standa við sínar skoðanir. Ég myndi líka skammast mín fyrir þessi komment.

**Það viðhorf er svosem efni í annan pistil. Ég hef síðan ekki hálfa höggmynd um hver þessi kerling er. Það er meira að segja möguleiki á að hún sé alls ekki kerling. Nafnleysið er skemmtilegt, ekki satt?

***Með "kristilegu siðgæði" á ég við almennt siðgæði, enda ekkert til sem heitir kristið siðgæði. Þeir sem hvað oftast varpa þessum frasa fram virðast a.m.k. alls ófærir um að benda á nokkuð "sérkristið" í ídeal samskiptum (sínum eða annarra) við náungann.


mbl.is Móðirin á Skaga, dóttirin í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar til Ragnars

Undanfarið hef ég staðið í þrasi um trúmál. Ragnar nokkur, sem ég kann svosem engin deili á, birti svar sitt hér. Ég ákvað því að birta mitt svar líka hér, þó ég hafi svarað honum á hans eigin síðu. Alltaf gaman að drita umræðum á nokkra staði.

 ---

Mikið ofsalega er ég þreytt á þessu "leitandi" tali alltaf hreint. Já, þið kristnir segist hafa "upplifað" eitthvað og "vitið" þ.a.l. að Guð sé til. Ég hef "upplifað" ýmislegt. Einu sinni sá ég t.d. andlit hins vestræna Jesú í skýjunum. Aðeins eitt augnablik, en eftir á sá ég það sem prentað innan á augnlokin - sólin var nefnilega ansi skær á bak við skýin. Ég veit að ástæða þessa var tilviljanakennt mynstur í skýjunum og sú árátta heilans að greina kunnugleg mynstur og jafnvel fylla upp í eyður. Aldrei kom mér til hugar að þarna væri einhver yfirnáttúruleg vera að reyna að hafa samband - enda hin skýringin einfaldari, auk þess sem ég ímynda mér að almáttugur guð hefði skýrari leiðir til að koma tilvist sinni á framfæri við mig. Þar að auki var ég bæði ósofin og skelþunn. Ég hef líka upplifað tímann standa í stað, ég hef séð -eða öllu heldur "ekki-séð"- ósýnilegt fólk, ég hef svifið langar leiðir án hjálpar tækninnar, ég hef hitt látna og fjarverandi vini, ættingja, stórstjörnur og jafnvel skáldsagnapersónur. Í öll skiptin hef ég verið allsgáð...en reyndar sofandi líka. Eitt af því sem mér líkar illa við trúarbrögð er elítisminn sem oft vill fylgja þeim. Kristnir segja að þeir "viti bara" að þeirra trú sé hin eina rétta. Hið sama segja allir aðrir um sína trú, þ.e.a.s. sína túlkun af sinni útgáfu af sínum guði. Auðvitað eru til undantekningar, margir eru hreint ekki vissir um að útgáfa þeirra sé rétt, aðrir notast við trúarkerfi sem (í orði a.m.k.) gerir öllum (eða flestum) trúarbrögðum jafn hátt undir höfði. Oftast nær er raunin samt sú, sérstaklega hjá fylgjendum Abrahamísku trúarbragðanna, að fullyrða að eigin skoðun á tilvist, persónuleika og hegðan guðs síns og hans "spámanna" sé hin eina rétta og að allir aðrir séu glataðir. Nú getur vel verið að einhver sjái trúlausa sem jafnmikla ef ekki meiri elítista en hina trúuðu; við höldum jú líka að okkar skoðun sé rétt. Hins vegar er grunnmunur á þessum lífsskoðunum. Í okkar sundurleita hópi er eitt sem tengir flesta (eins og alltaf eru undantekningar) og það er krafan um efa. Trúarbrögð gera hinsvegar flest kröfu um trú - jafnvel þó allar vísbendingar stangist á við fullyrðinguna er mikilvægast að trúa -meira að segja það að segjast vilja skoða vísbendingar sem hugsanlega gætu veikt undirstöður trúarinnar er fordæmt og jafnvel grimmilega refsað. Án efa væri þekking okkar ekki mikil. Meira að segja vísindamenn hafa fallið í þá gryfju að taka einhverju sem gefnu, en sem betur fer hefur þessi undirliggjandi krafa um efa og þekkingarleit gert öðrum kleift að hrekja, staðfesta eða breyta kenningum og "sjálfsögðum sannleik". Auðvitað er í lagi að efast um að guð sé til - eða að hann sé ekki til - en vandinn er sá að þetta er bæði ósannanlegt og óhrekjanlegt. Meint áhrif guða á hinn mælanlega veruleika eru nefnilega ekki mælanleg sjálf. Sé rakhníf Occams beitt er (nánast) alltaf hægt að finna betri útskýringu. Ég er því ekki "leitandi" í þeim skilningi sem þú leggur í orðið. Ég leita þekkingar, en þá þekkingu verður að vera hægt að rannsaka, annars er hún ekki þekking heldur getgáta og ímyndun.

Fordómar

Mikið er fólk fljótt að stökkva upp og tilkynna viðbjóð sinn opinberlega. Mín fyrstu viðbrögð við greininni voru að velta því fyrir mér hversu margir hefðu -líkt og ég- fundið fyrir einhverskonar hneykslun, ekki á dýrahaldaranum heldur á setningunni "Dýrin voru flutt að Keldum þar sem gerðar voru viðeigandi ráðstafanir."

Hversu margir kipptu sér ekkert upp við það að stór hópur gæludýra einhvers væri drepinn?

Hversu margir ætli líti svo á málið að það sé réttlætanlegt að drepa dýrin vegna þess að þau eru jú ólögleg hérlendis?

Hversu margir fundu til samúðar með dýrahaldaranum? En dýrunum? 

 

Hversu margir ætli hefðu tárast ef um hefði verið að ræða kettlinga eða hvolpa?

 


mbl.is Dýrin mín stór og smá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í brottför

Eftir sólarhring verð ég komin niður á BSÍ í þeim tilgangi að bíða þar í fimm tíma -úti- eftir rútudruslu sem mun flytja mig að flugstöðinni í hrauninu. Þar mun ég bíða í tvo tíma eða svo eftir að flugvélarskriflið fari í loftið. Um það bil þremur tímum eftir flugtak ætti ég svo að vera í nágrenni Lundúna.

Þá tekur við klukkutíma lestarferð til miðborgarinnar, tímadráp í nokkrar klukkustundir þar til gestgjafinn minn lýkur vinnu, en klukkan sjö er áætlað að eg standi fyrir utan leikhús að reyna að komast frítt inn. Að því loknu fer ég væntanlega í austurborgina að sofa.

 

Ég veit svosem ekki hvað fleira ég á að gera af mér í heimsborginni annað en að hitta Eden (sem verður ráfandi um með andlitsgrímu) og hugsanlega kíkja á einhver söfn og jafnvel einhvern okurpöbbinn. 

 

Þegar Lundúnadvölinni lýkur, líklega næstkomandi sunnudag, held ég svo í átt að Dover - með viðkomu í krummaskuðinu Swanley - og reyni þar að húkka mér far yfir til Calais. Frá Frakklandsströnd liggur leiðin til Brusluborgar, hvar ég mun njóta gestrisni hins gríska Georges, en eftir bjórsmökkun þar verður miðað á Rotterdam. Þar mun ég vonandi finna næturstað og sturtupláss, því þar byrjar gamanið.

 

Frá Rotterdam er ætlunin að rölta í rólegheitum sem leið liggur, í gegnum Niðurlönd, Þýzkaland, Austurríki (með hugsanlegum útúrdúr til Prag), Slóvakíu og til Búdapest í Ungverjalandi. 

 

Þar mun ég líklega hafa samband við Össur og fá þá til að senda mér einhverskonar róbótalappir svo ég komist aftur heim.

 


Kannabisverksmiðja?

Hvað er kannabisverksmiðja? Hví er þetta verksmiðjuhugtak alltaf notað í umfjöllunum mbl?

Hafið þið annars séð tómataverksmiðju? Gúrkuverksmiðju? Rósaverksmiðju?

Eruð þið kannske sjálf með birkiverksmiðjur við húsin ykkar? 

 

Sjálf er ég með litla verksmiðju úti í stofuglugga. Þar er framleidd ein séfflera og eitt drekatré.


mbl.is Lokuðu kannabisverksmiðju á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagg

Jeminn eini! Fyrst átti að eyðileggja hjónabandið og banna fólki að skíra börnin sín* og nú má ekki einu sinni lemja þau lengur! Fólk virðir ekki  hinn heilaga eignarrétt  og vogar sér svo að gagnrýna lögregluna fyrir það eitt að dangla í nokkra skítuga hippa! Ekki nóg með það, heldur er allskonar glæpamönnum hleypt hér inn í þokkabót!

 

Þetta land er klárlega á leið beint til andskotans!

 

 

*Ég finn ekki hneykslunarblogg Guðrúnar Sæm um þetta mál. Ekki getur verið að kerlingartuðran hafi eytt því? Var það kannske aldrei til?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband