3.12.2009 | 00:48
Rangt. Rangt. Rangt.
Látum okkur nú sjá.
"Tyrkneskur ráðherra segir..."
Hann er ekki ráðherra, hvað þá forsætisráðherra eins og apinn sem skrifaði þessa frétt heldur. Forsætisráðherra Tyrklands heitir Recep Tayyip Erdoğan. Þessi Egemen Bağış er flokksbróðir hans, og þingmaður, en er auk þess varaformaður flokksins í utanríkismálum (vice-chairman in charge of foreign affairs) og formaður samninganefndarinnar sem annast aðildarviðræður við ESB. Hann er líka ráðgjafi forsætisráðherrans.
Þetta þykja kannske ekki alvarleg mistök, en þegar misfróðir menn úti í bæ éta vitleysuna upp og endurtaka hana gagnrýnilaust er varla hægt að taka mark á þeim. Ef þeir ætla að mála sig sem einhverja sérfræðinga um þessi mál er lágmark að þeir kunni að googla.
Hvetur múslima til að tæma bankareikninga í Sviss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2009 | 18:51
Jón Valur og lösnu lesbíurnar
Nú eru komin rúm tvö ár síðan ég sá Jón Val Jensson fyrst halda því fram að einhverjir sjúkdómar væru til sem leggðust fremur á lesbíur en annað fólk. Það var í umræðum hér, nánar tiltekið í innleggi númer 57. Hann er þar að svara þessum orðum Svans Sigurbjörnssonar læknis:
"Hugsanlega eru óvarin mök karlkyns samkynhneigðra heilsufarslega áhættusamari en óvarin mök gagnkynhneigðra, en óvarin mök lesbia eru trúlega áhættuminnst. Það er því ekki hægt að álasa samkynhneigð vegna áhættu, enda hafi samkynhneigðir sömu möguleika og aðrir til að verja sig."
Jón Valur svarar svo:
"Orð Svans um heilsufarsmálin, t.a.m. lesbíanna, bera með sér, að hann hafi ekki kynnt sér þau mál mjög náið, jafnvel þótt læknir sé."
Því miður spurði enginn nánar út í þessa staðhæfingu lesbíusérfræðingsins, en það hefði svosem líklega ekki haft mikið upp á sig hvort eð er. Jón á það nefnilega til að vera alveg svakalega upptekinn þegar hann hefur engin svör.
Það er einmitt það sem gerðist hér, en þar spurði ég Jón í fyrsta skipti um nánari útlistun á þessum meintu heilsufarsvandamálum lesbía og fékk þetta svar:
"Tinna Gígja spurði hér kl. 19.31: "Hvaða sérstaka áhætta fylgir annars kynlífi lesbía sem ekki fylgir kynlífi karls og konu?" Svör getur hún fundið í ýmsum framlögðum gögnum í eftirmálsgrein [30] á þessari mikilvægu vefsíðu minni (fullri af heimildum)."
Ég smellti að sjálfsögðu á hlekkinn, en í eftirmálsgrein 30 var ekkert svar að finna. Lesendur geta sannreynt það sjálfir. Neðanmálsgreinin fjallar um HIV-smit, og eru þar tilteknar einhverjar prósentutölur yfir lesbíur sem hafa stundað kynmök með karlmönnum. Ég umorðaði því spurninguna í von um betra svar:
"Já, þetta er sérlega fróðlegt. Kemur málinu ekki við, en fróðlegt. Spurning mín var illa orðuð. Betra hefði verið að spyrja "Hvaða sérstaka áhætta fylgir kynlífi tveggja kvenna?" Þ.e.a.s. hvað gerir kynlíf kvenna sem eingöngu stunda kynlíf með öðrum konum líkamlega hættulegra en kynlíf kvenna sem stunda (einnig) kynlíf með körlum?"
Jón Valur þrjóskaðist við:
"Takk fyrir svarið, Tinna. En vissulega kemur þetta málinu við, sem finna má á þessum tilvísaða stað. Ég geymi mér til morguns að svara nýrri spurningu þinni, en veit þó af svörum."
Ég innti hann síðan eftir svörum daginn eftir, en fékk auðvitað hið klassíska Jóns-Vals-svar:
"Tinna, ég hef haft nóg að gera í dag og var búinn að gleyma þessu. Nú er nýtt á dagskránni."
Enn var Jón upptekinn þegar ég spurði hann hér í umræðum um lesbískan biskup í Svíþjóð:
"Lesbíusjúkdómar voru ekki til umræðu hér, og ég er að sinna öðru."
Hér reyndi Jón að afvegaleiða umræðu um dauðarefsingar með því að fara að rífast um mína afstöðu til fóstureyðinga, svo ég notaði tækifærið til að spyrja enn á ný. Jón var ekki hress með það:
"Tinna, þú forðast umræðuefnið hér, getur ekki svarað mér um afstöðu þína til ófæddu barnanna. Ætlarðu að segja, að þú eigir þér enga vörn að þetta sé bara nánast eins og hatur í verki? PS. Lesbíur eru hér ekki umræðuefnið!"
Ég svaraði honum:
"Nú voru lesbíur umræðuefnið á síðunni þinni fyrir stuttu, en þar neitaðirðu líka að svara. Ég hélt að þú hefðir kannske loksins tíma til að svara hér. Það er greinilegt að þú varst að ljúga þegar þú sagðist geta nefnt dæmi um sjúkdóma sem herja frekar á lesbíur en aðra."
Og fékk þetta undanskot til baka:
"Tinna, ég get alveg "nefnt dæmi um sjúkdóma sem herja frekar á lesbíur en aðra," en nú yrði ég að grafa það upp með erfiðismunum og tímaeyðslu sem ég hef ekki ráð á núna, en uppfylli þessa ósk þína síðar."
Nú síðast spurði ég hann hér, en hann kaus að hundsa mig algjörlega.
Því sé ég mér ekki annað fært en að birta þessa áskorun hér og nú, á mínu eigin bloggi, þó ég geri mér svosem engar vonir um að Jón bregðist við, enda vill hann ekki viðurkenna að hann hafi engin svör. Hann var klárlega að ljúga þegar hann sagðist geta nefnt "lesbíusjúkdóma", rétt eins og hann hefur logið síðan til að koma sér undan því að viðurkenna fyrstu lygina.
Jón Valur!
Segðu okkur hvaða smitsjúkdómar það eru sem herja fremur á lesbíur* en annað fólk! Hvað hefur þú fyrir þér í því að kynmök lesbía séu ekki áhættuminni en kynmök fólks af gagnstæðu kyni?
*Lesbíur þýðir hér konur sem eingöngu stunda kynlíf með öðrum konum, en ekki með körlum. Því miður virðist þurfa að útskýra hugtakið fyrir sjálfum lesbíusjúkdómasérfræðingnum.
Heilbrigðismál | Breytt 15.10.2011 kl. 04:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.11.2009 | 17:22
...en hann sagði það...
Mér leiðist íslensk "fréttamennska". Í stað þess að fjalla um það sem er að gerast, er fjallað um hvað einhver segir um það sem er að gerast.
Yfirlit frétta er í stíl Kent Brockmans - upphrópun sem nær athygli, og svo mjórri röddu tekið fram að þetta sé skoðun einhvers aðila.
"ÞEIR SEM KUSU D OLLU HRUNINU! Þetta segir Jón Jónsson, vitleysingur sem enginn tekur mark á."
Næsta kvöld mætir svo sá sem kallaði Jón vitleysing, og kvöldið eftir það er rætt við móður Jóns, sem segist oft taka mark á honum og aftur við Jón sjálfan, en skýrt tekið fram að það séu ekki allir sammála honum. Voilá: góðar fimmtán mínútur af "fréttum". Það er svo hægt að líta yfir ævi Jóns í Fréttaaukanum, skoða safn hans af sultukrukkum í Kastljósinu og hekluðu dúkana hans í Íslandi í dag. Ef bloggheimur bítur er hægt að hefja frétt á orðunum "mikil umræða hefur verið", og síðan hægt að ræða við einhvern áberandi bloggara um umræðuna um umfjöllunina um skoðun vitleysingsins Jóns.
Auðvitað eru ekki allar fréttir svona. Margar eru áhugaverðar, vel unnar og raunverulega hlutlausar. Hlutleysi er ekki að varpa fram skoðun eins og fá svo einhvern með andstæða skoðun til að mótmæla. Það má kalla það 'jafnvægi' en það er ekki hlutleysi. Ég hef ekkert á móti jafnvægi. Raddir allra eiga að fá að heyrast og allir eiga að hafa jafnan rétt til sinna skoðana. En ekki í fréttatímanum. Fréttir eiga að segja frá atburðum. Punktur. Þeir þurfa ekki að vera merkilegir. Mér er alveg sama hvað einhverjum sjálfskipuðum sérfræðingi finnst. Ef fram kemur tillaga um breytingar á sköttum, vil ég fá að vita hvernig breytingarnar eiga að vera, svo ég geti myndað mér skoðun á þeim. Mér er sama þó hagfræðingur A sé alfarið á móti þeim og hagfræðingur B sterklega fylgjandi.
Ef hagfræðingarnir mæta svo í Ísland í dag eða Silfur Egils og útskýra hvað þeim finnst, eða rífast á blogginu, eða standa á sápukassa á Lækjartorgi og hrópa í gegnum gjallarhorn getur vel verið að ég hlusti. Gjallarhornin eiga hins vegar ekki heima í fréttatímanum.
Gott dæmi um afleiðingar "jafnvægis" í stað hlutleysis má sjá í Bandaríkjunum. Segjum að kosningabarátta sé í fullum gangi. Þáttastjórnandi á stöð sem er meira að segja með orðið "jafnvægi" í slagorði sínu býður frambjóðendum beggja flokka í viðtal. Er það ekki gott? Báðir flokkar fá að koma sínu á framfæri...hjá Bill O'Reilly. Þar er kannske jafnvægi, en hlutdrægara verður það varla.
Og hvað með það? Það eru líka "vinstri" stöðvar í Bandaríkjunum, þar sem Demókrötum er gert hærra undir höfði. Jafnast þetta ekki út?
Tökum annað dæmi frá Bandaríkjunum. Forseti er löglega kosinn, en einn vitleysingur ákveður að halda því fram að forsetinn sé í raun ekki bandarískur ríkisborgari. Allir hafa rétt á sinni skoðun, sama hversu heimskuleg hún er, svo stöðvarnar flytja "fréttir" af málinu. Eitt smávægilegt vandamál fer framhjá þeim: þetta er ekki frétt.
Það er ekki frétt að einhver haldi einhverju fram. Það er ekki hlutleysi að gefa í skyn að það sé merkilegt að einhver vitleysingur hafi einhverja ákveðna skoðun. Það er orðin frétt þegar stór hluti landsmanna trúir vitleysingnum, en það hefði aldrei gerst nema vegna þess að þessi tiltekni hálfviti fékk pláss í fréttum. Skoðun hans var ekki bara röng, heldur heimskuleg og rasísk. Hún breiddist út vegna þess að hún fékk ímyndað vægi vegna umfjöllunar "fréttamanna". Þetta snýst meira um að búa til fréttir en að flytja þær.
Þegar "fréttatíminn" byrjar á eftir, býst ég við að í yfirlitinu verði nokkrar fullyrðingar einhverra manna úti í bæ (Alþingi er auðvitað úti í bæ). Ætli neftóbaksádeila Hreyfingarinnar komi ekki sterk inn, með æfum neftóbaksnotanda úr Framsókn sem snýtir sér hátt - til að gæta "jafnvægis". En er það frétt að kerling á þingi sé ósátt við að menn taki í nefið þar á bæ? Kemur það mér við?
Ekki það, þetta er voða kjút "frétt", og nokkuð alvarlegt ef rétt er að tóbakskornin hafi valdið skemmdum. Ef það er rétt, og skemmdirnar hafa haft áhrif á atkvæðagreiðslur, er þetta frétt. Ef það er ólöglegt að neyta tóbaks í þingsalnum er þetta frétt. Annars er þetta kerling að röfla um störf þingsins, í ræðutíma sem er ætlaður undir umræður um störf þingsins. Það er ekki frétt.
Kannske vill fólk svona "fréttir". Kannske væru fréttatímar ómögulegir ef ég fengi að ráða.
Kannske er ómögulegt að flytja fréttir á hlutlausan hátt. Kannske er "hlutleysi" ekki til.
En fjandinn hafi það, það má að minnsta kosti reyna.
*edit*
Það er kannske rétt að geta þess að ég reit þennan pistil eftir lestur færslu hjá Óla Gneista.
Fjölmiðlar | Breytt 13.11.2009 kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
9.11.2009 | 14:51
Bann #2
Við þessa færslu setti ég inn komment. Ég tel það ekki sérlega ofsafengið, en það er greinilega bara einhver blinda hjá mér.
---
Er það góð stefna að hóta börnum með helvíti ef þau eru ekki "góð" og/eða trúa ekki á Jesú?
Hversvegna þarf að blanda Jesú inn í fræðslu um góða hegðan og almenna siðfræði? Eru engir góðir nema þeir sem trúa á Jesú? Voru allir sem tóku þátt í gróðærinu kannske trúleysingjar eða "villutrúarmenn"?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.11.2009 kl. 14:19
------
Sæl Tinna, Ég svona velti því fyrir mér þessum ofsa í þér svona ALMENNT, því ég er ekki að lesa þig hjá mér í fyrsta sinn.
Bloggið er opið öllum.
Er öllum börnum hótað helvíti ef að þau eru ekki góð ?
þá segi ég við þig.
Hvernig veist þú það ,
hver hefur gefið þér þá gáfu....... að vita það ?
Kær kveðja.Kærleikskveðja á þig.
Þórarinn Þ Gíslason, 8.11.2009 kl. 16:14
------
Öh. Ég skil ekki alveg "svarið" þitt. Er það ekki boðskapur kristninnar að þeir sem ekki trúa á Jesú fari til helvítis (svo er mismunandi hvernig þetta "helvíti" á að vera)?
Er það ekki hluti af því sem þú vilt kenna börnum? Eða viltu bara velja það góða úr Biblíunni? Ef svo er, hvers vegna þarf það þá að koma úr Biblíunni? Er ekki hægt að kenna börnum að það sé ljótt að stela og ljúga og sýna fram á það með rökum og almennri skynsemi, frekar en að segja að það sé vegna þess að "Jesú sagði það"?
Hvaða ofsa ertu svo að tala um? Hvað í innlegginu fannst þér ofsafengið?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.11.2009 kl. 19:43
---------
Sæl Tinna Gígja.
Þar sem að mér finnst ekki grundvöllur á að ræða við þig á þeim nótum sem að þú sækist eftir, Þá leyfi ég mér að halda mér við mína trú og þú getur eins og Guð gaf öllum VILJA til að gera hvað hann/hún vildi .
Það er nefnilegur langur vegur (og eins stuttur) á milli Ljóss og myrkurs . Þú rökræðir bara í hótunum og þess vegna LOKA ég á þig.
Ég hef annað við tíman að gera , það er fullt af góðu fólki til í tilverunni.
Kær kveðja á þig og ég vona að þú hugsir í framtíðinni.
Þórarinn Þ Gíslason, 9.11.2009 kl. 03:10
-----------
Ha?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
2.11.2009 | 10:33
Guðrún og tjáningarfrelsið
Einhverjir kannast kannske við Guðrúnu nokkra Sæmundsdóttur, sem ég hef stundum reynt að rökræða við, og sem bannaði mér að setja inn athugasemdir hjá sér. Fyrir þá sem eru svo heppnir að gera það ekki, er Guðrún fyrrum frambjóðandi hins misheppnaða L-lista, og hennar helstu baráttumál eru að halda Íslandi utan ESB, að skerða mannréttindi, að senda alla neytendur ólöglegra vímuefna úr landi (en þó mærir hún konur sem af hetjuskap fara kasóléttar á fyllerí í stað þess að fara í fóstureyðingu ef þær geta ekki sleppt því að þamba áfengi í níu mánuði) og að berjast gegn talsmanni Djöfulsins, í Jesú nafni.
Ég er sumsé talsmaður Djöfulsins (með stóru D-i).
Þetta fræddi hún mig um eftir nokkuð langar og...sérstakar umræður á bloggi Páls Vilhjálmssonar. Umræðan snérist í upphafi um trúariðkun innan veggja Háskólans, en Guðrún var fljót að afvegaleiða þá umræðu. Ég er svosem ýmsu vön frá henni, en meira að segja ég varð hissa á nýjasta útspili hennar.
Eftir að hún hafði ítrekað þá skoðun sína að ég (eins og allir aðrir sem vilja endurskoða misheppnaða fíkniefnalöggjöf hér á landi) væri siðblind og illmenni, ýjað að því að ég væri búin að skaða mig andlega á vímuefnaneyslu og væri hugsanlega fíkniefnasali, og líkti mér við barnaníðing, auk þess að kalla mig talsmann bæði Djöfulsins og náfrænda hans, Fíkniefnadjöfulsins (gott ef hún líkti ekki samskiptum okkar við þau sem eiga að hafa átt sér stað á milli Djöfulsins og sjálfs Jesúsar Jósepssonar samkvæmt frásögnum Nýja Testamentisins) missti ég þolinmæðina og mælti með því að hún leitaði sér hjálpar sálfræðings. Þá kom hún með þetta óborganlega innlegg:
"Tinna ég er einmitt að pæla í að leita mér hjálpar við að koma lögum yfir þig og aðra sem að auglýsa dóp hér á netinum [sic] með því að vísa í tilhæfulausar "rannsóknir" um skaðleysi eiturlyfja. Það er leikur einn að fletta upp öllum dópáróðri frá þér hér á netinu og það er kominn tími til að þú verðir látin svara fyrir hann í réttarsölum."
Þar sýndi hún sitt rétta andlit, auk þess að koma upp um hversu fáfróð hún er um þau lög um tjáningarfrelsi sem gilda hér á landi - nema henni sé hreinlega alveg sama um sjálfsögð grundvallarmannréttindi annarra. Það kæmi svosem ekki á óvart, enda hefur hún látið svipaðar skoðanir í ljós áður. Hins vegar hefur hún aldrei, að mér vitandi, hótað að kæra fólk fyrir það eitt að hafa skoðanir sem stangast á við hennar og að rökstyðja það með því að vísa á heimildir. Þar er þó kannske komin skýring á því hvers vegna henni gengur almennt svo illa að rökstyðja mál sitt- hún hélt að það væri ólöglegt!
Ég vil trúa því að Guðrún hafi skrifað þetta innlegg í geðshræringu, en hún virðist komast í slíkt ástand furðulega oft, eins og sést á skrifum hennar (sérstaklega þegar rætt er um vímuefni) sem best er lýst með orðinu 'hysterísk'.
Hefði hún stoppað til að hugsa eilítið áður en hún sendi þessa hótun inn, hefði hún vonandi séð nokkra annmarka á henni. Í fyrsta lagi, eins og ég minntist á að ofan, ríkir tjáningarfrelsi á Íslandi, þrátt fyrir innilegar óskir Guðrúnar um afnám þess. Þó svo að dreifing og sala ýmissa vímuefna sé ólögleg, er fullkomlega löglegt að tjá sig um þau. Guðrún gæti því ekki kært mig fyrir það að benda fólki á þá staðreynd að rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að kannabis er ekki jafn hættulegt og Guðrún og aðrir sjálfskipaðir siðferðispostular hafa haldið fram. Það veldur ekki siðblindu, það leiðir ekki sjálfkrafa til neyslu harðari vímuefna, og það er mun minna ávanabindandi og minna hættulegt en bæði tóbak og áfengi. Þetta eru staðreyndir, sama hversu mikið Guðrún neitar þeim.
Í öðru lagi, jafnvel þó það sem ég taldi upp að ofan væri rangt, og kannabis væri í raun stórhættulegt eiturlyf sem breytti jafnvel heilbrigðasta manni í morðóðan siðblindingja með geðklofa og barnagirnd, þýddi það eingöngu að ég hefði haft rangt fyrir mér. Það er ekki ólöglegt að hafa rangt fyrir sér - annars væri Guðrún sjálf í ansi slæmum málum, ásamt reyndar öllum jarðarbúum - og því getur hún ekki kært mig fyrir það.
Í þriðja lagi er það svo að jafnvel þó við lítum framhjá fyrstu tveimur atriðunum, og gæfum okkur að Guðrún gæti kært mig fyrir það að dreifa vísvitandi röngum upplýsingum, þyrfti hún fyrst að sanna tvennt: að allar þær rannsóknir sem ég hef vísað í og allar þær fullyrðingar sem ég hef sett fram séu rangar, og að ég hafi vitað að þær voru rangar. Þetta gæti reynst erfitt, og þá sérstaklega síðarnefnda atriðið. Þess vegna væri það ekki tímans og peninganna virði að reyna það.
Nú hef ég næga trú á lögunum (a.m.k. þeim sem snúa að tjáningarfrelsi) til að treysta því að jafnvel þó Guðrún héldi í alvöru að hún gæti kært mig fyrir "dópáróður" myndi fyrsti lögfræðingur sem hún leitaði til hlæja hana út af skrifstofunni, og engin yfirvöld myndu reyna að traðka svo á skoðanafrelsi mínu, ef ekki væri nema bara með þeim rökum að það væri slæmt fyrir ímyndina, að ekki sé minnst á að slíkt mál bryti í bága við alla mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Ég vona að Guðrún hafi eingöngu meint þetta sem illa úthugsaða hótun, í þeirri von að meintir yfirmenn mínir, Djöfullinn og Fíkniefnadjöfullinn hafi eyðilagt alla rökhugsun í útúrdópuðum kolli mínum. Því miður fyrir Guðrúnu er það ekki svo.
Það skásta sem ég gæti sagt um Guðrúnu er að hún er of bjartsýn. Hún virðist í alvörunni halda að það sé hægt að útrýma fíkniefnum á Íslandi, en hennar aðferðir eru ekki bara óraunhæfar, heldur ógeðfelldar, hvernig sem á þær er litið.
Auk þess að vilja afnema frelsi einstaklingsins (allt frá fæðingu) hefur Guðrún stungið upp á því, að því er virðist í fullri alvöru, að senda alla vímuefnaneytendur og -sala til Hollands. Við fyrstu sýn er þetta ekki svo slæmt: kannabismálin í Hollandi eru jú ásættanlegri en hér, og Guðrún er a.m.k. ekki að hvetja til ofbeldis. Þegar betur er að gáð sést þó innræti Guðrúnar. Hún heldur því fram að vímuefnasalar herji vísvitandi á börn og leitist við að gera þau háð sem flestum og sterkustum fíkniefnum, enda siðblindir, fégráðugir barnaníðingar. Þessi ímynduðu ómenni vill Guðrún losna við úr landinu, en hún sér ekkert að því að leyfa þeim að herja á börnin í Hollandi. Það er nú öll manngæskan- hún á bara við um Íslendinga.
Hefði Guðrún einhvern snefil af rökhugsun, myndi hún ekki láta svona útúr sér. Hún hefur hinsvegar sýnt það aftur og aftur að hún er ekki fær um að skilja einföldustu rök. Hún heldur því blákalt fram að þeir sem helst vilja lögleiða kannabis hljóti að vera að selja það, ellegar á mála hjá einhverjum sem það gera. Þarna er augljós rökvilla: þeir sem græða mest á að halda vímuefnum ólöglegum fara varla að berjast fyrir því að varan verði gerð lögleg og þar með tekin úr höndunum á þeim.
Þrátt fyrir að ég og margir fleiri hafi margoft reynt að útskýra þessa einföldu staðreynd fyrir Guðrúnu, og gekk ég jafnvel svo langt að setja þetta upp sem barnasögu í þeirri von að einfalt ritmál og barnalegt orðfæri næði til hennar, en allt kemur fyrir ekki. Hún stingur puttunum í eyrun og kallar okkur siðblind. Þegar henni er bent á að ekki allir sem vilja endurskoða lögin séu kannabisneytendur, galar hún um samsæri dópista. Þegar henni er bent á að ekki séu allir kannabisneytendur siðblind illmenni, dópsalar, heilaskemmdir ónytjungar eða heróínneytendur (staðreynd sem ætti að vera augljós þegar tillit er tekið til þess gríðarlega fjölda manna sem nota kannabis reglulega, hvað þá ef taldir eru allir þeir sem hafa neytt jurtarinnar einhverntímann á ævinni) heldur hún í lygina og líkir okkur við barnaníðinga.
Ég geri mér engar grillur um að Guðrún skipti nokkurn tíma um skoðun, enda er hún bæði illa haldin af áðurnefndum skorti á rökhugsun og þar að auki þrjósku og furðulegri kristinni öfgatrú, en slíkt fólk virðist hreinlega ófært um að horfast í augu við veruleikann ef hann stangast á við fyrirfram mótaða heimsmynd þeirra, sama hversu augljóst misræmið er og hversu veruleikafirrt sú heimsmynd er.
Hvers vegna er ég þá að þessu?
Jú, við Guðrún eigum eitt sameiginlegt: hvorug okkar vill að þeir sem lesa skrif hinnar taki mark á þeim sér og öðrum til skaða. Guðrún heldur því fram á þessum sama þræði að "áróður [minn] fyrir dópi" geti leitt til þess að einhver freistist til að prófa nefnt dóp og deyji jafnvel af þeim -og þar með mínum- völdum.
Ég aftur á móti kann illa við að sjá fólk eins og Guðrúnu komast upp með lygar, og þá sérstaklega lygar sem beinast gegn mér persónulega. Þess vegna held ég áfram að svara lygaáróðri Guðrúnar. Ekki vegna þess að ég vonist til að fá hana til að skipta um skoðun eða að ég sé að reyna að "vinna" þessar einhliða "rökræður", heldur vil ég ekki að óupplýstir lesendur bloggsins fái þá hugmynd að allir talsmenn endurskoðunar löggjafarinnar séu dópsalar sem herja á blogg, eða að allir sem neyta vímuefna séu siðblind illmenni eða með geðklofa.
Auðvitað ætti hverjum vitibornum manni sem les málflutning Guðrúnar að vera dagljóst að hann er ekki bara rangur heldur hreint út sagt svo fáránlegur að hann er á tímum eins og atriði í einhverjum súrrealískum sketsaþætti í anda Monty Python. Því miður á Guðrún sér eitthvað af skoðanasystkinum, og ég vil ekki að hún eignist fleiri. Ég vona innilega að hún komist aldrei í nokkra stöðu þar sem möguleiki er að hún hafi áhrif á börn eða unglinga, hvað þá að hún fái tækifæri til að spreyta sig á þingi eins og hún þráði svo heitt - og gerir kannske enn. Mig langar að trúa því að það sé enginn möguleiki á því að Guðrún fengi eitt einasta atkvæði, eða að nokkur manneskja taki hræðsluáróður hennar alvarlega, en af fenginni reynslu leyfi ég mér að fullyrða að því miður er það ekki svo.
Einn galli Guðrúnar er kannske að vera of bjartsýn. Minn er þá sá að hafa ekki næga trú á landsmönnum. Munurinn er sá að mín vantrú á greind sumra (sem betur fer fárra, enn sem komið er) landa minna er byggð á reynslu. Tálsýn Guðrúnar er hins vegar ekki byggð á neinu nema hennar eigin ranghugmyndum og/eða vísvitandi lygum.
*Uppfært*
Bleyðan Guðrún hefur nú lokað á IP töluna mína, og viðurkennir þar með að hún er ófær um málefnalega umræðu. Gott væri ef einhver lögfróður maður benti henni snöggvast á lög um tjáningarfrelsi, þar sem hún virðist of þrjósk til að lesa þennan pistil minn. Hún bítur síðan höfuðið af skömminni með því að líkja umfjöllun um kannabis við barnaklám.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (125)
29.10.2009 | 15:12
Allir út!
Það er dálítið (allt í lagi - svakalega) skemmtilegt að skoða breytingar á trúfélagaskráningu landans.
Frá árinu 1990 hefur hlutfall þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna minnkað úr 92,61% í 79,11% og þeim sem eru utan trúfélaga hefur fjölgað úr 1,32% í 2,90% (þá eru ótalin þau 7,11% sem eru skráð í "önnur trúfélög eða ótilgreint", en þeim hefur fjölgað úr skitnum 0,59%)
Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir kirkjuna, enda hefur verið stöðugur fólksflótti þaðan undanfarin ár. Búast má við því að enn fleiri skrái sig úr henni eftir skandala undanfarið, enda ekki skrýtið að fólk hugsi sig tvisvar um þegar það sér í hvað sóknargjöldin fara.
Káfandi prestur fær starfslokasamning á við meðal-bankamann.
Prestur fær rúma milljón á ári í akstursgreiðslur - fyrir utan þær greiðslur sem kjarasamningar kveða á um.
Prestar fá hærri laun en lögreglumenn - og gráta svo krókódílatárum yfir eymd almúgans.
Ekki má heldur líta framhjá því að nú, í miðri kreppu, eru útgjöld ríkisins til kirkjunnar rúmir 2 milljarðar og virðist enginn láta sér detta í hug að lækka þau eins og þó væri eðlilegt. Kirkjan fær síðan aðra tvo milljarða í formi sóknargjalda.
En landsmenn geta hjálpað. Með því að skrá þig úr Ríkiskirkjunni ertu ekki bara að spara sóknargjöldin, sem renna þá í ríkissjóð í stað þess að renna í vasa gráðugra karla í kjólum, heldur ertu að stuðla að trúfrelsi á Íslandi. Eftir því sem færri eru skráðir í Ríkiskirkjuna, þeim mun erfiðara er fyrir biskupinn og prestlingana hans að réttlæta þessi útgjöld.
Ef þú ert trúlaus, skráðu þig þá utan trúfélags. Stór hluti þeirra sem eru skráðir í Ríkiskirkjuna (og reyndar fleiri trúfélög) eiga enga samleið með henni, en hafa ekki nennt að leiðrétta skráninguna. Kannske hugsa þeir sem svo að þetta skipti engu máli. Kannske vita þeir ekki einu sinni af því að þeir séu skráðir.
Ef þú ert kristinn, en sammála því að kirkjan eigi að geta staðið undir sér sjálf (með hjálp Guðs, væntanlega), skráðu þig þá utan trúfélaga.
Ef þú ert sammála því að hér eigi að ríkja raunverulegt trúfrelsi og jafnrétti, skráðu þig þá utan trúfélaga. Það er ekki raunverulegt jafnrétti ef einn aðilinn fær milljarðastyrki á hverju ári.
Ef þú vilt koma í veg fyrir frekari niðurskurð í mennta- og heilbrigðiskerfinu, skráðu þig þá utan trúfélaga. Hver einstaklingur sem ekki greiðir sóknargjöld sparar ríkinu 13.274 krónur á ári - safnast þegar saman kemur. Nú þegar talað er um að þjóðin þurfi að standa saman, er þá ekki sniðugt að við sameinumst um að skera niður útgjöld til gagnslausrar prestastéttar og leggjum aurinn frekar í sameiginlega sjóði samfélagsins?
Þeir sem vilja breyta skráningunni geta nálgast eyðublaðið hér (PDF). Síðan er hægt að skila því útfylltu niður á Þjóðskrá í Borgartúni 24, eða faxa það í síma 5692949.
Þúsund hafa breytt um trúfélag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 30.10.2009 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
23.10.2009 | 00:47
Hugleiðing
Segjum að ég ræni manni. Ég vel hann af handahófi, kippi honum inn í bíl og ek með hann út í sveit, þar sem ég á lítinn kofa. Þetta er nokkuð afskekkt, svo lítil hætta er á að einhver eigi leið hjá af tilviljun og bjargi manngreyinu. Ég er svosem ekkert vond við hann - hann fær nóg að borða, hann er með lesefni og sjónvarp sér til dægrastyttingar, hann fær meira að segja að senda bréf heim...ritskoðuð að sjálfsögðu. Skiljanlega get ég ekki leyft honum að hringja eða nota tölvu, en hann má skreppa út á skikann sem ég girti af með rafmagnsgirðingu og gaddavír eins og einu sinni á dag í klukkutíma í senn. Ekki má láta hann drepast úr hreyfingarleysi. Ég held manninum þarna í heilt ár, án tiltakandi vandræða (fyrir mig a.m.k.) en þá gerist hið ólíklega og einhver finnur okkur. Ég er að sjálfsögðu dregin fyrir rétt og kærð fyrir frelsissviptingu eða hvað það nú er sem fólk yrði kært fyrir í svona máli.
Spurningin er: hver er hæfileg refsing fyrr þennan glæp?
Ef ég hefði lokað manninn inni með hópi annarra manna og þeir beittu hann ofbeldi, andlegu eða líkamlegu, hver væri þá viðeigandi refsing?
Ef ég hefði sleppt manninum að eigin frumkvæði, ætti það að hafa einhver áhrif?
En ef ég væri dómari sem hefði dæmt mann til refsivistar vitandi það að hann væri saklaus?
11.9.2009 | 20:17
Plögg
Fyrstu tveir hlutar ferðasögunnar eru komnir upp (á ensku) hér og hér.
Sýnishorn:
In retrospect, it would have been clever to ask the confused librarian about the best way to walk. Instead, I walked along the highway. Never a good idea. Let me repeat that for those in the back: walking along the M20 is a bad idea.
---
The strange man offered me a seat and produced a paper plate full of crisps (that's chips to an American) out of thin air.
O.s.frv.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.9.2009 | 02:07
Lalalalaguðlalanasistartrallalala...
Ég viðurkenni það fúslega að þó ég sé bæði trúlaus og andsnúin þjóðernishyggju, þá innihalda nokkur af mínum uppáhaldslögum trúarleg eða þjóðernisleg þemu. Sem dæmi má nefna America the Beautiful og Battle Hymn of the Republic, sérstaklega í þeim útgáfum sem ég vísa á.
America the Beautiful er auðvitað óttalegt þjóðrembuljóð, og að auki hálfkrípí að hlusta á þessa útgáfu, sem var tekin upp til styrktar fórnarlömbum næníleven, í ljósi þess sem ríkisstjórnin kom í gegn í skjóli hryðjuverkanna. Ljóðið er hins vegar fallegt þrátt fyrir það: línan "and crown thy good with brotherhood from sea to shining sea" fær mig alltaf til að tárast. Kannske er það vegna þeirra hugsjóna hinna tiltölulega ungu Ammríku sem koma fram í ljóðinu: frelsi, jafnrétti, bræðralag (enda ammríska byltingin innblásin af þeirri frönsku). Lokalína annars vers sýnir þetta: "confirm thy soul in self-control, thy liberty in law".
Battle Hymn of the Republic er eilítið öðruvísi. Það ljóð var upphaflega samið sem baráttusöngur gegn þrælahaldi. Í dag er lagið leikið sem lokalag á landsfundum repúblikana*. Það er í raun mun meira trúarljóð en ættjarðarljóð, sérstaklega í upprunalegri útgáfu, en hún inniheldur t.d. þetta vers:
"I have read a fiery gospel writ in burnished rows of steel:
"As ye deal with my condemners, so with you my grace shall deal;
Let the Hero, born of woman, crush the serpent with his heel,
Since God is marching on."
Ég er líklega bara veik fyrir lögum sem sungin eru af krafti og sannfæringu, sama hvert innihaldið er. Ég hef stundum grínast með það að hefði ég verið uppi á tímum Þriðja Ríkisins hefði ég sjálfsagt verið hinn ágætasti nasisti, enda Horst Wessel Lied og Danubia flott lög - svo voru marsarnir nokkuð djollí.
Þeim örfáu lesendum sem nenna öðru en að rífast um íslam er velkomið að svara spurningunni
Eru einhver lög sem hafa sterk áhrif á þig þó þú sért ósammála skilaboðum textans, saga lags eða ljóðs sé 'óþægileg', eða þér þyki höfundurinn óviðkunnanlegur af einhverjum ástæðum?
*Ég veit að Lincoln var repúblikani. Nútíma repúblikanar virðast hins vegar margir hverjir hafa gleymt því. Kaldhæðnislegra er þó að heyra harða repúblikana syngja fyrra ljóðið, þar sem margir þeirra myndu vilja neita höfundinum um mannréttindi í dag.
1.9.2009 | 02:18
Riddarar réttlætisins
Undanfarið hef ég staðið í umræðum um íslam, bæði hér á moggablogginu og annars staðar, m.a. á erlendum síðum. Þar sem ég forðast að alhæfa um rúman milljarð múslima hef ég verið sökuð um ýmislegt miður skemmtilegt af þeim sem sjá heiminn á annan hátt en ég.
Þrjár vinsælustu "móðganirnar" eru án efa eftirfarandi (stundum allar í einu);
"Þú ert örugglega múslimi sjálf."
"Þú þorir bara ekki að gagnrýna íslam."
"Þú ættir að vera hrædd við múslima en ert bara og vitlaus/naív/barnaleg til þess."
Þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt íslam virðast líta á það sem rót alls ills. Ef ég bendi á rangfærslur er ég því í liði með hinu illa.
Ef ég kem með dæmi sem afsanna fullyrðingu andmælanda míns um að eingöngu múslimar noti sína trú á ofbeldisfullan hátt, er ég að snúa út úr til að verja íslam, nú eða þykjast "gáfulegt krútt", hvað sem það á nú að þýða. Þrátt fyrir að ég margtaki fram að mér finnist íslam viðbjóðslegt að miklu leyti, og taki jafnvel undir hluta gagnrýninnar, er viðhorfið þannig að ef ég er ekki 100% á móti múslimum, hljóti ég að vera 100% fylgjandi íslam í sinni ljótustu mynd.
Þessi tvískipting heimsins í gott og illt er mér ekki að skapi, og það er þess vegna sem ég mótmæli málflutningi þeirra sem vilja sjá heiminn í svarthvítu, ekki vegna þess að ég sé sérstakur verjandi íslam.
Annað atriði sem fer í taugarnar á mér er óheiðarleikinn sem fólginn er í því að afneita voðaverkum í nafni annarra trúarbragða, þrátt fyrir að ótal dæmi séu nefnd. Það er hægt að halda því fram að glæpir í nafni íslam séu á einhvern hátt stærri eða alvarlegri, og þá er mögulegt að ræða það málefnalega, en að þvertaka fyrir að kristnir, hindúar eða gyðingar geti gert nokkuð slæmt er klárlega út í hött.
Þriðja atriðið sem truflar mig er sú árátta sumra einstaklinga að flagga sínum eigin trúarbrögðum, þrátt fyrir að hafa bæði sagt og sýnt það aftur og aftur að viðkomandi fylgi engum af grunnkenningum þeirrar trúar. Hér á ég t.d. við þá "kristnu" menn sem afskrifa kærleiksboðorðið sem útópíska draumsýn sem ekki á við í raunveruleikanum -og ganga jafnvel svo langt að verja pyntingar - en stæra sig jafnframt af því að vera svo móralskir og réttlátir vegna trúarinnar.
Eitt í fari þessarra sjálfskipuðu krossfara væri nokkuð skondið ef það væri ekki svona sorglegt, en það er hversu vel þeir hafa tamið sér tungutak "erkióvinanna" og hugsunarhátt. Þeir nota orð eins og kafírar og jihad í sífellu, en alvarlegra er þó sú barnalega hugsun að þar sem "vondu kallarnir" geri eitthvað fyrst, megi þeir gera það líka. Þeir réttlæta eigin tvískinnung með því að þeir séu jú réttlætisins megin, en múslimarnir á bandi hins illa. Þeim finnst hryllilegt að múslimar reyni að stjórna klæðaburði kvenna og vilja berjast gegn því með því að stjórna fatavalinu sjálfir. Þeir þreytast ekki á að minna fólk á það að múslimar sjái eingöngu trúbræður sína sem nokkurs virði, annað en kristnir sem elska alla...svo lengi sem "allir" eru kristnir. Þeir fordæma árásir múslimskra bardagamanna á óbreytta borgara, en fagna þegar enn einum múslimanum er stungið í fangabúðir, enda er hann örugglega sekur um eitthvað hvort sem er. Þeir fordæma harðlega þau mannréttindabrot sem tíðkast undir sharia-lögum, en sjá ekkert athugavert við þær pyntingar sem framdar eru í nafni vestræns "réttlætis".
Allra verst eru þó hrokinn og þrjóskan við að viðurkenna mistök. Í huga þessarra manna eru þeir nefnilega útvaldir til þess að berjast gegn hinu illa, og allir vita að hinir útvöldu gera ekki mistök. Ef einhver sakar þá um slíkt, hlýtur það að vera vegna þess að viðkomandi er annað hvort viljandi að snúa út úr eða of heimskur til að skilja speki hinna útvöldu riddara réttlætisins.
Reyndar er það synd að þessir Kíkótar internetsins skuli ekki gera sér far um að kynnast íslömskum öfgamönnum. Þeir eiga fleira sameiginlegt en þá grunar.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (102)
Um bloggið
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Tenglar
Gamalt tuð
- Blókarspotti Hróa Hróaábendingar
- Blókarspotti Dautt blogg
- Fólk er fífl.is Dautt blogg
- FerðaBlogg Á lífi - fylgist með
- MittSvæði
- Lifandi dagbók Í andarslitrunum
Bloggvinir
- malacai
- pannan
- stutturdreki
- skrekkur
- einarsmaeli
- aulinn
- furduvera
- fsfi
- valgeir
- gregg
- gurrihar
- zeriaph
- hvilberg
- hallurg
- rattati
- heidar
- hexia
- himmalingur
- hjaltirunar
- disdis
- jevbmaack
- jakobk
- changes
- prakkarinn
- jonthorolafsson
- andmenning
- ugluspegill
- miniar
- mist
- hnodri
- reputo
- robertb
- runavala
- sigmarg
- sigurjon
- shogun
- nimbus
- skastrik
- svanhvitljosbjorg
- stormsker
- kariaudar
- zion
- tara
- taraji
- texi
- thelmaasdisar
- torfusamtokin
- toshiki
- tryggvienator
- upprifinn
- vga
- vest1
- fingurbjorg
- gummih
- kiza
- kreppukallinn
- krossgata
- isdrottningin
- nosejob
- olafurfa
- tharfagreinir
- thorgnyr
- valli57
- apalsson
- skagstrendingur
- partialderivative
- biggihs
- bjorn-geir
- dingli
- einarjon
- glamor
- breyting
- gthg
- sveinnelh
- hehau
- hordurt
- kt
- omnivore
- olijon
- styrmirr
- lalamiko
- thorrialmennings
Bækur
Nýlesið/eftirlæti
-
Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian -
Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
: Mirror, Mirror -
(ISBN: 1740597796 )
Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
: Lonely Planet: Europe on a shoestring
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar