5.2.2009 | 16:01
Gott mál.
Þetta er reyndar það fyrsta sem ég heyri um að afnema eigi samræmdu prófin, en mikið er ég fegin.
Það þarf að umbylta öllu skólakerfinu og fyrsta skrefið er að leggja niður svona ofurpróf. Kennslan í tíunda bekk- í próffögunum- er kennsla til prófs, eða jafnvel kennsla í prófum. Samræmd próf síðustu ára eru ljósrituð til æfinga, farið er yfir hvaða spurningar eru líklegar til að koma, etc.
Samræmd próf segja ekkert til um gáfur eða hvernig fólk muni standa sig í framhldsskóla. Meðaleinkunnin mín var reyndar ekki nema rétt rúmlega 7, en ég fékk þó hæstu mögulegu einkunn í ensku - 10. Íslenskan og danskan liggja þarna á milli - 7,5 og 7 (þó ég muni ekki í svipinn hvort var hvort).
Stærðfræðin var sumsé veiki punkturinn, enda kolféll ég. Þar er þó ekki hægt að kenna prófinu um, heldur mér sjálfri - og kennaranum, ef kennara skyldi kalla. Hann var vægast sagt ömurlegur maður, enda margoft búið að kvarta yfir honum. Hann stundaði það nefnilega að velja úr ákveðna nemendur, sem síðan máttu prísa sig sæla ef hann yrti á þá, hvað þá að þeri fengju aðstoð. Ég var ein af þeim. Fyrstu vikurnar í áttunda bekk sat ég með handlegginn upp í loft að bíða eftir aðstoð en fékk enga. Þá hætti ég að mæta í stærðfræðitíma.
Næsta setning átti að vera "Reyndar hef ég alltaf verið léleg í stærðfræði", en mér datt í hug að grfa upp gömul einkunnaspjöld til að hafa tölurnar á hreinu. Ég fann bara spjöldin fyrir 3. - 8. bekk, en það eru líklega þau merkilegustu. Ég fann líka niðurstöðu úr samræmda könnunarprófinu sem við tókum í 7. bekk.
Stærðfræðieinkunnir mínar frá 3. bekk upp í 8.
3. bekkur haust: 24/25 á stærðfræðikönnun
3. bekkur vor: 29/30 á stærðfræðikönnun
4. bekkur haust og vor: 27/30 á stærðfræðikönnun
5. bekkur haust: 10 í stærðfræði
5. bekkur vor: 9 í stærðfræði
6. bekkur haust: 10 í stærðfræði
6. bekkur vor: 9 í stærðfræði
7. bekkur haust: 9 í stærðfræði
7. bekkur vor: 7 í stærðfræði.
7. bekkur samræmd próf: hlutfall réttra svara á námsþáttum í stærðfræði:
Reikningur og aðgerðir: 93,5%
Talnaskilningur: 100%
Rúm- og flatarmál: 78,6%
Mælingar: 100%
Tölfræði: 85,7%
Námsefni 4. bekkjar: 96%
Námsefni 5. bekkjar: 86,7%
Námsefni 6. bekkjar: 95,3%
8. bekkur haust: Vinnueinkunn 1, prófseinkunn 7.
8. bekkur vor: Vinnueinkunn 1, prófseinkunn 3.
Því miður finn ég ekki einkunnaspjöld 9. og 10. bekkjar, en samkvæmt þessum tölum var ég bara hreint ekki jafn léleg í stærðfræði og ég hélt. Fyrr en ég mætti í tíma hjá Finnboga. Námsefnið þyngist ekki svo svakalega á milli sjöunda og áttunda bekkjar að það útskýri lækkun um a.m.k. fjóra í einkunn.
Vandinn í sambandi við þennan kennara var að þeir sem fengu hjálp hjá honum voru mjög ánægðir með hann og skólastjórnendur bentu á það í hvert skipti sem reynt var að kvarta. Það skipti engu máli að maðurinn gekk um með prik sem hann lamdi í borð eða fingur ef honum mislíkaði, nokkrum sinnum svo fast að prikið brotnaði, ekki pælt í því þegar hann sparkaði undir borð vegna þess að ein stelpan lá fram á það - andlitið á henni hvíldi á borðinu, ekkert hugsað um það að hluti nemenda hans fékk enga hjálp.
Reyndar má segja að skólastjórnendum til "bóta" að ég man ekki til þess að mikið mál hafi verið gert úr þessum fjarvistum mínum, enda vissu allir sem vildu vita að maðurinn var óhæfur kennari. Umsjónarkennarinn minn var yndislegur, dönskukennarinn líka. Restin var svona la-la. Reyndar kom nýr eðlisfræðikennari til starfa í níunda bekk (frekar en tíunda, að mig minnir). Hann tók að sér að kenna aukatíma í stærðfræði. Í þá mætti ég, af því að ég var skotin í kennarinn var sætur almennilegur.
Ég féll síðan svakalega á samræmdu prófunum, en fór í sumarskólann og komst inn í MH. Þar kom fljótt í ljós að ég var hrikalega léleg í stærðfræði, bæði vegna vankunnáttu og áhugaleysis. Hitt sem var augljóst frá fyrsta degi var að ég hafði engan aga til mætinga. Ég hafði áhuga á náminu, las bækurnar spjaldanna á milli, kláraði verkefni eins og ég fengi borgað fyrir það...en nennti ekki að mæta. Ég komst nefnilega að því í gagnfræðaskóla að mætingar voru óþarfar þegar kom að þeim fögum sem ég var góð í.
Ég hætti í MH eftir þrjár annir, þegar mætingaprósentan var komin vel niður fyrir 50.
Ég skildi loksins að skóli er bara gagnlegur til að kenna okkur að hann er gagnslaus. Það ætti enginn að læra neitt vegna þess að hann er neyddur til að mæta, heldur vegna áhuga. Ef áhugann vantar er tilgangslaust að skikka fólk til að mæta í tíma.
Ég er ekki að segja að skólann eigi að leggja niður - slíkt væri firra, hvar eiga börn að læra að lesa og skrifa* - heldur að skólakerfið verði að breytast.
Í dag snýst grunnskólinn um að fá nógu háa einkunn til að komast inn í framhaldsskóla til að fá nógu góða einkunn til að komast í háskólanám til að fá nógu góða einkunn til að fá nógu há laun til að geta sest í helgan stein upp úr fimmtugu til að geta loksins farið að sinna því sem við höfum raunverulega áhuga á.
Skólinn á að snúast um að vekja áhuga okkar á heiminum, hjálpa okkur að takast á við lífið, kenna okkur að eltast við draumana, verða það sem við viljum vera - og kenna okkur það sem við, hvert og eitt, þurfum til að ná markmiðum okkar.
Hann á ekki að snúast um það hvernig á að ná samræmdu prófunum.
*Ég var reyndar orðin læs fjögurra ára, en það skiptir ekki öllu.
![]() |
Inntökupróf slegin af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.1.2009 | 15:57
Evo Morales - Þýdd grein
Tárin eru loks að þorna - tárin eftir Bush-árin og gleðitárin yfir að sjá svartan mann kosinn forseta Bandaríkjanna. Hvað nú? Klisja dagsins er að Obama muni óhjákvæmilega valda heiminum vonbrigðum en sannleikurinn er lúmskari en svo. Ef við viljum sjá hvernig Obama mun hafa áhrif á okkur - til góðs eða ills- verðum við að kryfja djúpar rætur bandarískrar utanríkisstefnu. Nothæft dæmi um þetta sést nú örskotsstund á fréttasíðum okkar -dæmi frá toppi heimsins.
Bólivía er fátækasta landið í Rómönsku Ameríku, og fátækrahverfi hennar í 4000 metra hæð yfir sjávarmáli, virðast heilli veröld frá innsetningarathöfn Obama. En ef við skoðum landið nánar getum við útskýrt eina af stærstu þversögnum Bandaríkjanna - þau hafa fóstrað sigursæla mannréttindabaráttu heima fyrir en á sama tíma grafið undan mannréttindabaráttu erlendis. Bólivía sýnir okkur vel þversagnirnar sem bíða hins svarta forseta Ameríska heimsveldisins.
Saga forseta Bólivíu, Evo Morales, er keimlík sögu Obama. Árið 2006 varð hann fyrsti forseti landsins af frumbyggjaættum - og tákn um möguleika lýðræðisins. Þegar Spánverjar komu til Bólivíu á sextándu öld, hnepptu þeir íbúa landsins í þrældóm og neyddu milljónir til að vinna sér til óbóta - jafnvel dauða. Svo seint sem á sjötta áratug síðustu aldar máttu frumbyggjar ekki einusinni ganga um miðborg La Paz, þar sem forsetahöllin og kirkjan standa. Þeir voru - og eru - oft bornir saman við apa.
Morales er sonur fátæks kartöflubónda upp til fjalla og í æsku rótaði hann í sorpi eftir appelsínuberki og bananahýði til að borða. Af sjö systkinum hans létust fjögur í frumbernsku. Alla ævi hans var því tekið sem gefnu að hvíti minnihlutinn stjórnaði landinu; "indjánarnir" voru of "barnalegir" til að geta stjórnað.
Þar sem að í Bandaríkjunum er stjórnarskrárbundið lýðræði og forsetar þeirra hafa sagst staðfastir í að breiða lýðræði út um heimsbyggðina, hefði maður búist við því að þeir tækju lýðræðislegu kjöri Morales fagnandi. En bíðið við. Í Bólivíu eru miklar birgðir náttúrugass - sem bandarísk fyrirtæki græða milljarða á. Hér fer málið að flækjast.
Fyrir valdatíð Morales var hvíta elítan ánægð með að leyfa bandarískum félögum að taka gasið og skilja eftir klink í staðinn: einungis 18 prósent af afnotkunargjöldunum. Reyndar má segja að þeir hafi rétt Bandaríkjunum hagsmuni landsins á silfurfati á meðan þeir héldu sjálfir eftir nokkrum prósentum. Árið 1999 fékk bandarískt fyrirtæki, Bechtel [sem sá um byggingu álversins á Reyðarfirði - innsk. þýðanda], vatnsréttindin og vatnsgjöld fátæka meirihlutans tvöfölduðust.
Morales bauð sig fram til að berjast gegn þessu. Hann sagði að auðlindir Bólivíu ætti að nota handa milljónum sárfátækra Bólivíumanna, ekki örfáum forríkum Bandaríkjamönnum. Hann hélt loforð sitt. Nú heldur Bólivía 82% gasgróðans - og hann hefur notað féð til að auka útgjöld í heilbrigðisþjónustu um 300 prósent og til að setja upp fyrsta bótakerfi þjóðarinnar. Hann er einna af vinsælustu leiðtogum lýðræðisríkja. Ég hef séð þessa bleiku öldu rísa í gegnum fátækrahverfi og kofabyggðir Suður-Ameríku. Milljónir manna eru að sjá lækna og skóla í fyrsta skipti á ævinni.
Mig grunar að meirihluti Bandaríkjamanna - sem eru góðir og réttsýnir - myndu fagna þessu og styðja þessar aðgerðir ef þeir fengju að heyra sannleikann um þær. En hvernig brást bandaríska ríkisstjórnin (og stór hluti fjölmiðla) við?
George Bush gargaði að "verið væri að grafa undan lýðræði í Bólivíu" og nýlegur sendiherra Bandaríkjanna í landinu líkti Morales við Osama bin Laden. Hvers vegna? Í þeirra augum ertu demókrati ef þú gefur bandarískum fyrirtækjum auðlindir landsins, en einræðisherra ef þú lætur eigin þjóð njóta þeirra. Vilji Bólivíumanna er málinu óviðkomandi.
Af þessum ástæðum hafa Bandaríkin haft fyrir því að grafa undan Morales. Fyrir undarlega tilviljun eru næstum allar gasbirgðir Bólivíu í austurhluta landsins - þar sem ríkasti, hvítasti hluti fólksins býr. Svo Bandaríkin hafa styrkt hægri-aðskilnaðarsinnana sem vilja að austurhlutinn segi sig úr lögum við Bólivíu. Þá gæti hvíta fólkið rétt bandarískum fyrirtækjum gasið eins og í þá gömlu góðu - og Morales gæti ekkert gert. Þessi íhlutun varð svo alvarleg að síðastliðinn september varð Morales að reka sendiherra Bandaríkjanna fyrir "samsæri gegn lýðræðinu". Þessa helgi [24. - 25. janúar - i.þ.] heldur Morales þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem tryggja á frumbyggjum mannréttindi.
Þá er komið að Obama - og þversögnunum hans. Hann er augljóslega góðviljaður og rökhugsandi, en hann vinnur innan kerfis sem er viðkvæmt fyrir ólýðræðislegum þrýstingi. Bólivía er lýsandi fyrir spennuna. Uppgangur Morales minnir okkur á Bandaríkin sem heimurinn elskar: já-við-getum-það viðhorfið og mannréttindahreyfinguna. En tilvist gassins minnir okkur á þau Bandaríki sem heimurinn hatar: tilraunir til að ná "allsherjaryfirráðum" yfir auðlindum heimsins, hvað sem þessum pirrandi innfæddu nöldrurum líður.
Hvor Bandaríkin mun Obama standa fyrir? Svarið er bæði - til að byrja með. Morales hefur boðið hann velkominn "sem bróður", og Obama hefur gert það skýrt að hann vill samræður í stað misnotkunar Bush áranna. En hver er Bólivíu-ráðgjafi Obama? Greg Craig, lögfræðingur Gonzalo Sánchez de Lozada - öfgahægrisinnaðs fyrrum forseta Bólivíu, sem stóð fyrir öfgafyllstu einkavæðingu níunda áratugarins og er núna eftirlýstur fyrir þjóðarmorð. Lögfræðihópur Craigs segir að Morales sé (já) að "ráðast á lýðræðið".
Sá þrýstingur innan bandaríska kerfisins sem ýtti undir andúð á lýðræðislega kjörnum mannréttindaleiðtoga eins og Morales hefur ekki gufað upp í köldu Washingtonloftinu. Bandaríkin reiða sig ennþá á erlent jarðefnaeldsneyti og bandarísk fyrirtæki kaupa enn þingmenn úr báðum flokkum. Obama verður enn fyrir áhrifum af þessu.
En á meðan þetta er vissulega ástæða til að vera pirraður, er þetta ekki ástæða til að missa trúna. Hví ekki? Vegna þess að þó Obama verði fyrir áhrifum, mun hann líka grafa undan þessu með tímanum. Hann hefur gert sjálfstæði í orkumálum - meiriháttar breytingu frá erlendri olíu og gasi til vind-, sólar- og sjávarorku - miðpunkt stjórnunarprógrammsins. Ef Bandaríkin eru ekki lengur háð bólivísku gasi verða ríkisstjórnir þeirra ólíklegri til að reyna að koma höggi á aðra sem vilja stjórna því. (Ef þau losna við olíufíknina líka eiga þau minni hagsmuna að gæta í Sádi-Arabíu og bensínstríðum Mið-Austurlanda.)
Obama segir líka að hann vilji losna við áhrif fyrirtækjaauðs á bandaríska stjórnkerfið. Hann er nú þegar minna þakinn fyrirtækjafé en nokkur forseti síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Því lengra sem hann ýtir því aftur, þeim mun meira rúm hafa lýðræðislegar hreyfingar eins og Moralesar til að stjórna eigin auðlindum. En við sjáum til. Ef þú vilt vita hvort Obama er raunverulega að breyta þeim öflum sem stjórna bandarískum stjórnmálum, fylgstu þá með þessu þaki heimsins.
Grein eftir Johann Hari sem birtist á heimasíðu Independent 23. Janúar 2009
![]() |
Safnað fyrir leigumorðingja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 14:26
Goin' walkabout...
Í desember árið 1933 ákvað Patrick Leigh Fermor, þá 18 ára, að fara í ferðalag. Hann fékk lán hjá föður vinar síns, keypti sér búnað, kvaddi vini og fjölskyldu og lagði í hann.
Búnaðurinn var ekki sérlega tæknilegur eins og gefur að skilja; bakpoki, herfrakki, nokkrar þunnar peysur, flannelskyrtur og nærbolir, vindjakki úr leðri, negld stígvél, puttees (langir renningar sem vafið er um leggina), ein eða tvær hvítar spariskyrtur, svefnpoki og göngustafur. Auk þess hafði hann með sér teikniblokk og blýanta, dagbók, eintak af Oxford book of English verse og safn af ljóðum Hóratíusar (þess má geta að orðatiltækið carpe diem er einmitt frá Hóratíusi komið).
Svefnpokanum og fyrri bókinni týndi hann eftir mánuð og saknaði þeirra ekki.
Patrick keypti sér far frá London til Rotterdam með hollensku gufuskipi og gekk síðan (að mestu leyti) þaðan til Konstantínópel. Þangað kom hann í ársbyrjun 1935, en hélt síðan til Grikklands. Þegar stríðið braust út gekk hann í herinn og var m.a. gerð kvikmynd (með Dirk Bogarde í hlutverki hans) um hetjudáðir hans þar.
Árið 1977 kom loks út fyrsti hluti ferðasögunnar, A time of gifts, en hann fjallar um ferðalagið frá London til Búdapest. Annar hlutinn, Between the woods and the water, kom út árið 1986 og nær yfir ferðina frá Búdapest til Járnhliðsins, landamæra Júgóslavíu og Rúmeníu. Þriðja og síðasta bindið er nokkurnveginn fullklárað (eftir því sem internetið segir mér) en ekki útgefið.
Þegar ég var að flækjast um Evrópu í fyrra lenti ég inn í litla fornbókaverslun í Kraká. Þar var lítið úrval bóka á ensku, en ég fann þó eina sem mér leist sæmilega á. Það var A time of gifts. Ég las hana spjaldanna á milli og byrjaði svo upp á nýtt. Allt í allt las ég hana sjálfsagt í gegn sex eða sjö sinnum, auk þess sem ég greip niður í kafla og kafla þegar ég þurfti að bíða einhversstaðar eftir lest eða öðru.
Þó liðin séu 75 ár síðan Leigh Fermor fór í sína ferð og margt hafi breyst hef ég ákveðið að feta í fótspor hans frá Rotterdam til Búdapest. Ég ætla samt að nýta mér nútíma tækni upp að vissu marki - gönguskór koma í stað negldra hermannaklossa, vindjakkinn verður úr einhverju mun léttara en leðri, puttees ætla ég að sleppa alveg og nota frekar sokka (enda legg ég af stað um vor en ekki vetur), og noti ég göngustaf verður hann væntanlega fellanlegur og úr málmi - og líklega mun ég fara hluta leiðar á puttanum.
Heimurinn er breyttur. Á millistríðsárunum hitti Leigh Fermor gamalt hefðarfólk, gisti í kastala eina nótt en hlöðu þá næstu, hitti sveitafólk sem vissi ekki hvað þetta "England" sem hann talaði um var, hvað þá að það talaði ensku, hann lifði á gestrisni ókunnugra, enda bara með fjögur pund á mánuði (hversu mikið sem það er nú í dag), og gekk hús úr húsi og teiknaði andlitsmyndir gegn greiðslu. Hann hitti nasista og kommúnista, bændur, munka, glæpamenn, bóhema og baróna. Ég veit að mín ferð verður öðruvísi, en ég vona að hún verði alveg jafn áhugaverð.
Hér er svo leiðin:
View Larger Map
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.1.2009 | 20:57
Slappið aðeins af!
Það er virkilega sorglegt að sjá orðbragðið í sumum bloggfærslunum við þessa frétt. Gunnar Th. Gunnarsson hefur ítrekað komið með ódýr skot sem virðast beinast fyrst og fremst að kynhneigð Harðar, ein kerlingin segist ætla að brenna plötur og þar fram eftir götunum.
Ég sé ekki að Hörður hafi sagt neitt sérstaklega hrikalegt - þó hann hefði kannske mátt orða þetta öðruvísi.
Að sjálfsögðu förum við ekki að slá af kröfum bara vegna þess að Geir er með æxli - skárra væri það nú.
Til þeirra sem telja það sjálfsagt og eðlilegt að Geir greini frá æxlinu vil ég segja þetta: Hann hefði getað sleppt því. Hann hefði getað notað hina pólitísku klisju "persónulegar ástæður". Betra hefði þó verið að hann hefði sagt af sér - eða tilkynnt að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í formannskjör - án þess að nefna ástæðu. Síðan hefði verið hægt að ræða ástæðurnar síðar. Eins og þessu var slengt fram er ekki nema von að fram komi efasemdarraddir.
Þá á ég alls ekki við að Geir sé að ljúga - sumir virðast hafa lesið ásökun um slíkt úr orðum Harðar - heldur að þessi veikindi séu sett fram sem rauð tuska til að draga athygli frá ábyrgð ráðamanna.
Enda virðast margir á þeirri skoðun að nú megi alls ekki gagnrýna Geir - hann er nefnilega veikur.
![]() |
Hænuskref í rétta átt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2009 | 19:41
Einelti
Ung stúlka bloggar um reynslu sína sem fórnarlamb eineltis. Ég renndi yfir athugasemdir við nýjustu færsluna og rak augun í þetta komment:
"ég lofa þér því að eftir 10 ár, þá sérð þú hvernig líf þeirra sem lögðu þig í einelti er ekki nálægt því jafn yndislegt og þitt."
Síðastliðið haust voru átta ár síðan minni grunnskólagöngu lauk, svo kannske er of snemmt að dæma um líf okkar skóla"félaganna". Eins og staðan er í dag er hins vegar afskaplega hæpið að halda því fram að mitt líf sé betra en þeirra. Nú getur vel verið að þetta fólk gráti sig í svefn á hverju kvöldi yfir því hvernig það kom fram við mig og aðra - en ég efast stórlega um það.
Einn forsprakkinn er meðal-þekktur einstaklingur í dag. Nafn hennar heyrist stundum í sjónvarpi og útvarpi. Í hvert skipti sem ég heyri það nefnt, eða sé smettið á henni í blöðunum, herpist maginn á mér saman.
Annar úr hópnum flutti úr stigagangnum stuttu eftir að ég flutti inn og sagði öllum sem heyra vildu að ástæðan hefði verið að það væri svo vond lykt af mér að hann hefði neyðst til að flytja. Ég rakst á þennan aðila í partíi fyrir nokkrum árum. Þá sagðist hann reka sitt eigið fyrirtæki. Eftir nokkuð gúgl virðist mér hann hafa sagt satt.
Þegar búið var að afhenda einkunnirnar úr samræmdu prófunum gekk einn strákurinn upp að mér og spurði hvort það væri rétt að ég hefði fengið tíu í ensku. Ég játti og hann spurði mig hvað ég hefði fengið fyrir hin fögin. Ég taldi það upp - ekki alveg jafn glæsilegar tölur þar- og hann glotti og sagði "Gott! Þá er ég ennþá hæstur." Þetta er kannske ekki gróft dæmi - en þetta staðfesti bara það sem mig grunaði: ég skipti engu máli.
Allan gagnfræðaskólann töldu kennararnir mér trú um að þetta myndi allt lagast þegar ég færi í framhaldsskóla. Ég passaði mig á því að velja þann skóla sem fæst skólasystkin mín fóru í. Ég eignaðist vini þar - eftir nokkurn tíma. Hafandi aldrei átt vini, kunni ég það einfaldlega ekki. Ég kann það ennþá varla.
Ég er bitur, já. Það hjálpar ekki að reyna að telja mér trú um að þessu fólki líði illa. Ég hef hitt það. Því líður ágætlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.1.2009 | 14:18
Hroðvirknislega unnið.
Í fyrsta lagi er maðurinn frá Oaxaca í Mexíkó, þar sem slíkt athæfi er algengt.
Zapotecar hafa sérstakar hefðir í sambandi við trúlofanir og hjónabönd. Algengt er að 14 - 15 ára fólk trúlofist. Pilturinn fer til foreldra stúlkunnar og biður um hönd hennar. Samþykki þau ráðahaginn er brúðkaup (og pælið aðeins í orðinu sjálfu) haldið eftir 3 - 4 mánuði. Samþykki þau það ekki, getur parið haldið áfram að hittast á laun. Síðan kemur skemmtilegi hlutinn: einn daginn hverfur stúlkan. Þremur dögum eftir þetta dularfulla hvarf mætir fjölskylda brúðgumans heim til foreldra brúðarinnar með stórt kerti (það verður að vera nógu stórt til að fjölskyldan móðgist ekki), ávexti og brauð. Þetta er ritúal sem á að sameina fjölskyldurnar og sýna fram á að brúðguminn geti séð fyrir brúðinni en er líka ætlað sem afsökunarbeiðni fyrir að hafa "tekið" dótturina án samþykkis foreldranna.
Brúðkaup eða brúðarkaup er eiginlega andstæða heimanmundar. Heimanmundur er gjöf (fé, eignir eða annað) sem foreldrar brúðarinnar senda með henni í hjónabandið. Brúðarkaup er "gjöf" sem brúðguminn eða foreldrar hans greiða foreldrum stúlkunnar. Hvort sem þið kjósið að líta á þessar hefðir sem úreltar leifar karlaveldis þar sem konan var eins og hver önnur eign, eða sem einfalda leið til að ganga úr skugga um að tilvonandi eiginmaðurinn væri fær um að framfleyta fjölskyldu í samfélagi þar sem til þess var ætlast, er hæpið að líta á þetta athæfi mannsins sem einhvern hrikalegan glæp. Samkvæmt öllum fréttum af málinu sem ég hef fundið, fór stúlkan sjálfviljug með piltinum.
Í öðru lagi er rangt brúðarverð uppgefið í fréttinni á mbl. Þar er talað um tvær milljónir króna, hundrað kassa af bjór og "nokkra kassa af kjöti". Rétt er að verðið var tvær milljónir (á gengi dagsins - þó það megi rífast endalaust um raunvirði 16.000 dollara), en auk þess átti brúðguminn að greiða 160 kassa af bjór, 100 kassa af gosi, 50 kassa af Gatorade, tvo kassa af víni og sex kassa af kjöti. Þetta kann að virðast mikið verð - en sem veisluföng í brúðkaupsveislu er þetta ekkert yfirdrifið. Önnur af hefðum Zapoteca er nefnilega að brúðguminn skaffi mat og drykk fyrir brúðkaupið.
Í þriðja lagi - og þetta er greinilega léttvæg villa - stendur að pilturinn hafi verið handtekinn "fyrir samræði fyrir stúlku undir lögaldri". Ég vil því koma því á framfæri að ég get tekið að mér að hafa samræði fyrir stúlkur undir lögaldri.
"Ertu undir lögaldri? Áttu sætan, eldri kærasta? Tek að mér að hafa samræði fyrir þig gegn vægu gjaldi."
Ps. Þeim sem gala hvað hæst um að þetta sé algengt hjá múslimum (sem getur vel verið), vil ég benda á að lesa sér til um fyrirbærið mahr.
![]() |
Seldi fjórtán ára dóttur sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2009 | 13:54
Hvílíkar hetjur! Fálkaorðan ekki langt undan.
Ótrúlegt! Íslenskir lögreglumenn fá ekki einu sinni klapp á bakið fyrir þessa hetjudáð á meðan erlendir kollegar þeirra fá húrrahróp fyrir það eitt að handsama nauðgara eða morðingja. Á meðan Íslendingarnir leggja líf sitt og limi í hættu til að uppræta þetta viðbjóðslega eitur heyrist ekki múkk í þeim sem þó þykjast bera hag þjóðar fyrir brjósti. Kannabis, þetta böl mannkyns - sem dregur fleiri þúsund manns til dauða á ári hverju - er svo flokkað með vægustu eiturlyfjum! Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi arfi Satans er viðurstyggð í augum allra réttsýnna manna. Með réttu ætti að gera alla "neytendur" þessa viðbjóðslega fíknilyfs útlæga frá landi voru - enda vart í anda forfeðra vorra að neyta skynjunarbreytandi efna.
Ég legg til að Fíkniefnadeild Lögreglunnar verði veitt Heiðursmerki Hinnar Íslensku Fálkaorðu þegar í stað, nú þegar búið er að setja fordæmi fyrir því að hópar geti hlotið það fyrir sama afrek. Þessi hetjudáð jafnast fyllilega á við það að vinna silfurverðlaun á einhverju íþróttamóti. Íslenska Lögreglan á skilið gull fyrir hetjulega baráttu gegn kannabisbölinu! Gott ef ekki mætti veita nágrannanum sem fann undarlega lykt úr skápunum hjá sér orðuna líka!
![]() |
Kannabisræktun stöðvuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2009 | 09:49
Merkilegt fyrirbæri
Það er nokkuð sniðugt að sjá hversu margir spretta upp til varnar þessum náunga - að því er virðist eingöngu vegna þess að kauði beinir ógeðfelldum persónuleika sínum að "skrílnum". Ég leyfi mér að fullyrða að hefði "skríli" abbast upp á hóp manna væri þetta sama fólk og ver Óla Klemm uppfullt af heilagri vandlætingu í garð þeirra sem voga sér að ráðast svona að fólki.
Þetta mál er allt hið fáránlegasta, sérstaklega þegar haft er í huga að þeir einstaklingar sem þarna sjást haga sér eins og verstu "atvinnumótmælendur" eru stórmenntaðir menn, annar svæfingalæknir og hinn starfsmaður Seðlabankans - og þar að auki í stjórn Neytendasamtakanna. Í öllum eðlilegum þjóðfélögum væri þeim síðarnefnda óvært í starfi, sjáið þið til dæmis fyrir ykkur franskan opinberan starfsmann sem hegðaði sér svona endast lengi í starfi?
Verði þessi maður ekki horfinn úr starfi, bæði innan Seðlabankans og Neytendasamtakanna, innan viku, hvet ég alla til að mótm- nei, gleymdi því, 'mótmæli' er orðið ljótt orð. Ég hvet alla til að fara eftir opinberum leiðum og senda harðort skeyti til yfirmanna Ólafs Arnar Klemenzsonar.
Annars er ég farin að halda að yfir-apanum í Seðlabankanum verði ekki komið frá nema með blóðugri byltingu - en það er efni í annan og lengri pistil.
![]() |
Taldi sér ógnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2009 | 09:07
Byssumaðurinn og presturinn.
Svo einhver asninn ákvað að rölta um hverfið með haglarann sinn, allt í lagi. Það sem vakti athygli mína var þó frétt Vísis um málið:
Lögreglan er enn með mikinn viðbúnað í Bústaðahverfi í Reykjavík en grunur leikur á að maður vopnaður byssu sé á ferð um hverfið. Lögreglan varar við ástandinu og biður fólk um að fara ekki út úr húsum sínum að óþörfu. Fréttamönnum Stöðvar 2 og Vísis sem eru á staðnum var til að mynda eindregið ráðlagt að fara ekki út úr bifreiðum sínum í grennd við Bústaðarkirkju [sic] fyrir stundu.
Lögreglu barst áreiðanleg tilkynning um átta leytið í kvöld um vopnaðan mann í hverfinu. Ekki er búið að girða svæðið af vegna þess að leitarsvæðið er afar stórt, að sögn lögreglu.
Búið er að kalla út Pálma Matthíasson, sóknarprest í Bústaðakirkju. (Feitletrun mín)
Hvers vegna? Hvað á hann að gera? Pálmi er fínn kall - svona af presti að vera - en ég leyfi mér að efast um að hann sé einhver sérfræðingur í að díla við byssusveiflandi nöttara. Ef hann hefur verið kallaður út til að sinna "áfallahjálp" fyrir íbúa ætti það að sjálfsögðu að koma fram.
Eins og þetta er sett upp gæti allt eins staðið "Búið er að kalla út Batman."
![]() |
Byssumaður afhenti vopnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2009 | 23:40
Byssumaður í Gerðunum!
Svo einhver asninn ákvað að rölta um hverfið með haglarann sinn, allt í lagi. Það sem vakti athygli mína var þó frétt Vísis um málið:
Lögreglan er enn með mikinn viðbúnað í Bústaðahverfi í Reykjavík en grunur leikur á að maður vopnaður byssu sé á ferð um hverfið. Lögreglan varar við ástandinu og biður fólk um að fara ekki út úr húsum sínum að óþörfu. Fréttamönnum Stöðvar 2 og Vísis sem eru á staðnum var til að mynda eindregið ráðlagt að fara ekki út úr bifreiðum sínum í grennd við Bústaðar[sic]kirkju fyrir stundu.
Lögreglu barst áreiðanleg tilkynning um átta leytið í kvöld um vopnaðan mann í hverfinu. Ekki er búið að girða svæðið af vegna þess að leitarsvæðið er afar stórt, að sögn lögreglu.
Búið er að kalla út Pálma Matthíasson, sóknarprest í Bústaðakirkju. (Feitletrun mín)
Hvers vegna? Hvað á hann að gera? Pálmi er fínn kall - svona af presti að vera - en ég leyfi mér að efast um að hann sé einhver sérfræðingur í að díla við byssusveiflandi nöttara. Ef hann hefur verið kallaður út til að sinna "áfallahjálp" fyrir íbúa ætti það að sjálfsögðu að koma fram.
Eins og þetta er sett upp gæti allt eins staðið "Búið er að kalla út Batman."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Tenglar
Gamalt tuð
- Blókarspotti Hróa Hróaábendingar
- Blókarspotti Dautt blogg
- Fólk er fífl.is Dautt blogg
- FerðaBlogg Á lífi - fylgist með
- MittSvæði
- Lifandi dagbók Í andarslitrunum
Bloggvinir
-
malacai
-
pannan
-
stutturdreki
-
skrekkur
-
einarsmaeli
-
aulinn
-
furduvera
-
fsfi
-
valgeir
-
gregg
-
gurrihar
-
zeriaph
-
hvilberg
-
hallurg
-
rattati
-
heidar
-
hexia
-
himmalingur
-
hjaltirunar
-
disdis
-
jevbmaack
-
jakobk
-
changes
-
prakkarinn
-
jonthorolafsson
-
andmenning
-
ugluspegill
-
miniar
-
mist
-
hnodri
-
reputo
-
robertb
-
runavala
-
sigmarg
-
sigurjon
-
shogun
-
nimbus
-
skastrik
-
svanhvitljosbjorg
-
stormsker
-
kariaudar
-
zion
-
tara
-
taraji
-
texi
-
thelmaasdisar
-
torfusamtokin
-
toshiki
-
tryggvienator
-
upprifinn
-
vga
-
vest1
-
fingurbjorg
-
gummih
-
kiza
-
kreppukallinn
-
krossgata
-
isdrottningin
-
nosejob
-
olafurfa
-
tharfagreinir
-
thorgnyr
-
valli57
-
apalsson
-
skagstrendingur
-
partialderivative
-
biggihs
-
bjorn-geir
-
dingli
-
einarjon
-
glamor
-
breyting
-
gthg
-
sveinnelh
-
hehau
-
hordurt
-
kt
-
omnivore
-
olijon
-
styrmirr
-
lalamiko
-
thorrialmennings
Bækur
Nýlesið/eftirlæti
-
Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian -
Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
: Mirror, Mirror -
(ISBN: 1740597796 )
Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
: Lonely Planet: Europe on a shoestring
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar