Færsluflokkur: Bloggar

Bréf til félagsmálaráðherra

Eftirfarandi bréf var ritað og sent til Jóhönnu Sigurðardóttur í dag. 1. maí.

 

Til hæstvirts félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.


Sem kunnugt er standa fjölmörg hús auð og ónotuð víðsvegar um borgina. Á sama tíma eru margir heimilislausir, hugsanlega yfir hundrað manns. Auk þeirra er stór hópur fólks sem vart hefur efni á leiguíbúðum.
Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að enginn hafi komið með þá tillögu sem ég útlista hér að neðan. Hugsanlega er þar um að kenna hugmyndaleysi þó sjálfsagt komi þar að fleiri þættir, svo sem  mótstaða húsnæðiseigenda - þeirra sem hvað mest græða á hinu háa leiguverði- og verktaka  sem láta hús drabbast niður í þeim tilgangi að fá leyfi til niðurrifs. Hver svo sem ástæðan er breytir það ekki stöðunni.
Því kem ég með þá tillögu að slá þessar tvær flugur í einu höggi: nýta það húsnæði sem autt stendur og minnka fjölda heimilislausra í borginni. Lausnin er einföld, svo einföld að það er ótrúlegt að enginn hafi borið fram tillögu þessa efnis á hinu háa Alþingi.

 

Lausnin er að setja hústökulög.

 

Í Bretlandi, Hollandi og víðar hafa hústökulög verið við lýði í lengri tíma, víða með góðum árangri. Þó fjöldi heimilislausra í þessum löndum sé meiri en hér leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri verri ef ekki væri fyrir hústökulögin.

Í löndunum í kringum okkur er að finna fjöldann allan af yfirteknum húsum -jafnvel heilu hverfin- og nægir þar að nefna Kristjaníu í Kaupmannahöfn, Ernst-Kirchweger-Haus í Vín og Can Masdeu í Barcelona.
Í Hollandi er leyfilegt að yfirtaka hús hafi það staðið autt í tólf mánuði eða lengur og eigandinn hafi ekki brýna þörf fyrir notkun þess (svo sem útleigu sem hefst innan mánaðar). Hústökufólkið sendir síðan eiganda og lögreglu tilkynningu um að húsið hafi verið yfirtekið og geta þeir aðilar þá skoðað húsnæðið og gengið úr skugga um að ekki hafi verið unnar skemmdir á því. Einnig staðfesta þeir að viðkomandi hústökuaðili búi þar, þ.e. að á staðnum sé rúm, borð og stóll, sem og lás sem hústökuaðili hefur lykil að.
Í Bretlandi eru svipuð lög, hústökuaðili verður að hafa lyklavöld að húsnæðinu og eigandi má ekki vísa hústökufólki á dyr án dómsúrskurðar þess efnis.

Varla væri erfitt að setja svipuð lög hérlendis og til að auðvelda það enn frekar hef ég tekið saman nokkra punkta sem mættu vera til staðar í lögum:


1. Hafi hús staðið autt og ónotað í eitt ár (12 mánuði) eða lengur má aðili annar en eigandi setjast þar að án sérstaks leyfis.

 

2. Hústökuaðili skal skipta um lása, gera við brotnar rúður með viðeigandi hætti, greiða fyrir vatn og rafmagn sem hann kann að nota (og hugsanlega skrá lögheimili sitt í húsnæðinu). Séu þessi

skilyrði uppfyllt má eigandi ekki vísa hústakanda úr húsnæðinu án dómsúrskurðar þess efnis.

 

3. Þegar hústakandi hefur uppfyllt þau skilyrði sem nefnd eru í 2. lið skal hann tilkynna eiganda um hústökuna, sem og lögreglu, og skulu þeir aðilar (ásamt félagsráðgjafa ef svo ber við) staðfesta að húsnæði og hústakandi uppfylli skilyrðin.

 

4. Til að eigandi fái dómsúrskurð skal hann sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann eða leiguaðilar muni nýta húsnæðið innan mánaðar, og skulu tvær vikur þess mánaðar vera "uppsagnarfrestur" hústakanda, en hinar tvær seinni nýttar til að gera úrbætur á húsnæðinu ef þess þarf.

 

5. Hústakandi má ekki vinna aðgang að húsinu með ólöglegum hætti, svo sem innbroti, en skal njóta vafans hafi skemmdir áður verið unnar á húsnæðinu án þess að sannað verði hver hafi staðið þar að verki. 

 


Ég trúi því að setning hústökulaga verði til góðs, bæði fyrir heimilislausa og borgina alla. Nú þegar kreppa er í sjónmáli má búast við því að heimilisleysi aukist frekar en hitt og því nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu til verndar málsaðilum. Það er til háborinnar skammar að hér á landi skuli finnast heimilislausir á sama tíma og tugir húsa standa auðir og yfirgefnir, sérstaklega í ljósi þess hve auðvelt væri að ráða bót á vandanum. 


Með von um skjót viðbrögð.


Virðingarfyllst,

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
[kennitala]

 

 


Saga FNB

Samtökin Food Not Bombs voru stofnuð snemma á níunda áratug síðustu aldar í Cambridge í Massachusetts. Hópur fólks sem barðist gegn kjarnorku hóf að spreyja slagorðið "Mony for food, not for bombs" víðsvegar um bæinn, styttu það síðan í Food Not Bombs og tók hópurinn sér þann titil. Skömmu síðar ákváðu þau að láta verkin tala. Á meðan á fundi bankamanna sem fjármögnuðu kjarnorkuiðnað stóð, gaf hópurinn 300 manna hóp heimilislausra mat fyrir utan fundarstaðinn. Þetta vakti mikla lukku og hópurinn fór því að gera þetta reglulega.

1988 var annað "útibú" FNB stofnað í San Fransisco. Níu sjálfboðaliðar voru handteknir í ágúst það ár eftir að óeirðalögregla var send á staðinn til að stöðva matargjöfina. Næstu tvær vikur handtók lögregla 94 aðra í tengslum við FNB. Næsta sumar reyndi borgarstjórinn að ferja heimilislausa út út borginni, en þeir reistu tjaldborg gegnt ráðhúsinu og FNB sá um matinn þar næstu 27 daga, eða þar til óeirðalögreglan var enn send á staðinn. Þegar næsti borgarstjóri tók við jókst spennan enn, yfir 700 handtökur voru framkvæmdar að hans skipan. Við hverja handtökutörn jókst samtökunum máttur og gerði það lögreglu erfiðara að ráða við hópinn. 1989 hófu meðlimir að nýta sér upptökutækni og dómstóla til að berjast gegn lögregluofbeldi sem þeir urðu fyrir.

 

Á meðan á þessu stóð höfðu fleiri "útibú" tekið til starfa víðsvegar um landið. Í Boston voru nokkrir handteknir, en meðlimir borgrráðs fóru þá út og unnu með þeim við matardreifinguna í mótmælaskyni. Handtökurnar lögðust af eftir það. Willie Lewis Brown Jr. bauð sig fram til borgarstjóra í San Fransisco og lofaði m.a. að látið yrði af handtökum og árásum. Það gekk eftir þegar hann tók við embætti. Einn stofnenda var þó handtekinn árið 1997 er hann flutti mat sem átti að gefa fyrir utan ráðstefnu ýmissa borgar- og bæjarstjóra. Þetta vakti mikla athygli og "útibú" spruttu upp víða um heim, en einnig voru stofnuð tengd samtök, Homes Not Jails sem yfirtóku (leynt og ljóst) íbúðarhúsnæði sem staðið hafði autt og gerði það íbúðarhæft fyrir heimilislausa. 

Eftir innrásirnar í Afganistan og seinna Írak tóku meðlimir þátt í að dreifa mat við mótmæli gegn stríði víða um heim. Við eitt slíkt tækifæri var haft eftir F.B.I. manni að samtökin hefðu hugsanleg tengsl við hryðjuverkamenn og hafa nokkrir meðlimir verið handteknir fyrir "hryðjuverk" en enginn dæmdur. Haustið 2007 var einn meðlima handtekinn í Orlando fyrir að dreifa mat til stærri hóps en heimilt var án sérstaks leyfis. Hann var sýknaður af ákærunni.  

FNB voru einu samtökin sem dreifðu mat til fórnarlamba San Fransico jarðskjálftans fyrstu þrjá dagana eftir að hann reið yfir árið 1989. Hópurinn var einnig sá fyrsti til að fæða björgunarlið við Tvíburaturnana eftir árásirnar, fórnarlömb fellibylsins Katrinu og flóðbylgjunnar í Asíu.

Í dag eru yfir 400 "útibú" víða um heim, þar af u.þ.b. helmingur utan Bandaríkjanna.

FNB starfar eftir nokkrum grunnhugmyndum, en utan þeirra er meðlimum frjálst að taka ákvarðanir í samræmi við það sem hentar þeirra eigin samfélagi; meðlimir skulu ekki beita ofbeldi né styðja það, maturinn skal vera grænmetisfæði og fullkomið lýðræði skal ríkja innan hópsins. Allir mega elda, allir mega borða.

 

Aðferðirnar sem FNB notar til að safna mat eru svipaðar hvar sem er í himinum. Meðlimir fara milli verslana, bakaría eða heildsala og fá gefins mat, sumsstaðar nýta þeir sér einnig "gámaköfun" og góðvilja einstaklinga. Sum útibú safna fé til að geta keypt "eldhúsbíl". Allir hóparnir eiga það þó sameiginlegt að vilja nýta þann mat sem til fellur á hverjum degi til að hjálpa þeim sem minnst mega sín.

 

Heimildir:

Wikipedia

Foodnotbombs.net

 


mbl.is Matur ekki einkaþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til Mofa og restarinnar:

Þú segir sjálfur að allir hafi syndgað (brotið gegn Kristi). Hvar segir Kristur að hægt sé að fyrirgefa sumar syndir en aðrar ekki? Tekur Kristur ekki á móti öllum sem iðrast synda sinna og eru auðmjúkir í hjarta? Hví ætti honum að ganga ver að fyrirgefa Hitler eða Stalín þjóðarmorðin en öðrum hroka, leti, græðgi eða þjófnað? Þinn skilningur á Guði er, eins og annarra sem aðhyllast Biblíuna, byggður á mannlegum grunni. "Guð skapaði manninn í sinni mynd, ergo, Guð er eins og maðurinn, nema alvitur, algóður og alvaldur." Þessi hugsun er furðuleg, því ekki þarf nema eina villu (viljandi eða óviljandi) til að öll heimsmynd þín hrynji. Hún gerir nefnilega ráð fyrir mannlegum Guði - Guði sem lítur út eins og maðurinn og hugsar að miklu leyti eins og hann. Guð þinn er áþreifanlegur á sinn hátt - Guð er "vera" fremur en kraftur - hugsanlega sá kraftur sem kom Miklahvelli af stað, krafturinn sem setti þróunina í gang?

Þinn Guð er afar mannlegur: hann reiðist, verður afbrýðissamur, fylgist með gjörðum okkar eins og húsmóðir í vesturbænum fylgist með Leiðarljósi. Eini munurinn er sá að Guð þinn hefur völd til að láta persónurnar gera hvað sem hann vill. Guð þinn er mannlegur, ófullkominn og lítilmótlegur.

 


Fuck tha police!

Geir Jón yfirlöggi minntist á réttinn til að mótmæla, en bara ef það væri gert á viðeigandi hátt.

Hvað er "viðeigandi"?

Undanfarið höfum við komist að því hvað ekki er viðeigandi, m.a. þetta;

Að stöðva umferð.

Að hrópa á fundum.

Að stunda líkamsæfingar.

Að hlekkja sig við hluti.

Að vera fyrir löggubíl.

Að kasta eggjum.

Að rita ráðherrum illa stafsett bréf.

Að þeyta bílflautur.

Að mála slagorð/yfirlýsingar á veggi sendiráða.

Að kasta grjóti.

...

Hvað er þá eftir? Jú, einu "mótmælin" sem Íslendingar hafa getað stundað nokkurn veginn skammlaust í gegnum áratugina; að skrifa kurteislega orðuð lesendabréf í Moggann, rífast í Þjóðarsálinni (sem er í dag heil útvarpsrás, kölluð Útvarp Saga) og nöldra við vini og kunningja.

Já, og bloggið...megum ekki gleyma blogginu.

 Skál fyrir fasistunum!

GAS! GAS! GAS! GAS! GAS!


Þrjár flugur í einu höggi

Með því að leyfa hústöku innan ákveðinna marka er hægt að leysa mesta vandann á þremur sviðum.

 

Mikið hefur verið rætt um hús sem fá að drabbast niður - hugsanlega (líklega) til að verktakar fái frekar leyfi til niðurrifs. Þau má mörg hver nýta til íbúðar með smávægilegum lagfæringum.

Þar er komið húsnæði fyrir heimilislausa, en einnig fyrir okkur hin sem einfaldlega höfum ekki efni á að leigja á almennum markaði.  

 

Í Bretlandi og víðar hafa verið settar reglur um hústöku. Bresku lögin t.d. kveða á um að hústakandi/takendur skuli hafa lyklavöld að húsinu - þ.e. láta skipta um lása. Ekki má brjótast inn í húsið, en erfitt getur verið að sanna hver t.d. braut rúðu sem veitti aðgang að því. Húsnæðið skal hafa sömu "öryggisreglur" og annað íbúðarhúsnæði, þ.e. ekki brotna glugga eða ónýta lása.

Hústökufólk lætur skrá lögheimili í "teknu" húsnæði, fær sendan póst þangað, greiðir fyrir vatn og hita, o.s.frv.

 

Hvers vegna er þetta úrræði ekki til staðar nú þegar? Mörg hundruð fermetra standa auð í miðbænum á meðan tíu fermetra herbergi - oft ekki einu sinni með aðgangi að eldunaraðstöðu eða þvottavél - er leigt á tugi þúsunda. Fólk neyðist til að sofa í útmignum trjábeðum í hvaða veðri sem er, vegna þess að það er fast í vítahring neyslu og úrræðaleysis. Sumir bregða á það ráð að fremja smáglæpi í þeirri von að fá inni, þó ekki sé nema eina nótt, í Hegningarhúsinu. Margir sem skráðir eru með lögheimili hjá ættingjum eða vinum eru de facto heimilislausir, gistandi eina og eina nótt hjá kunningjum. Sumir neyðast til að skilja börnin sín eftir hjá ömmu eða afa til að þau þurfi ekki að troða sér í herbergiskytru með foreldrinu.

 

Ég heimta lagabreytingar til að heimila hústöku -innan marka- og það ekki seinna en strax! 


mbl.is Heimilislausir fleiri en borgin telur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herbergi hundraðogeitt

Ég var að horfa á breska þáttinn Room 101, en í honum tilnefna þekktir einstaklingar hluti sem fara í taugarnar á þeim og takist þeim að sannfæra þáttarstjórnanda er tákngerving hlutarins send í Herbergi 101.

 

Ég fór að sjálfsögðu að hugsa um hvað ég myndi senda í herbergið góða og komst að þeirri niðurstöðu að það er allt of margt sem pirrar mig. Í stað þess að taka ákvörðun um að gerast Pollýanna og hætta að pirra mig á smáatriðum ákvað ég að röfla.

Hér eru nokkrir hlutir sem mættu alveg missa sín:

 

 

#1: Fólk sem hrækir á gangstéttar.

Þetta er viðbjóðslegt. Af einhverjum ástæðum eru slímugar hrákaklessur sérstaklega algengar í og við strætóskýli, kannske vegna þess að aumingjar sem nota strætó eru almennt fársjúkir andlega jafnt sem líkamlega. Það er fátt sem fær mig til að kúgast, en að uppgötva að ég settist í grænt phlegm úr sýklamettuðum hálsi einhvers Jóns útí bæ er eitt af því.

 

#2: "Síðasti söludagur."

Við erum orðin svo vön því að einhver segi okkur hvenær hlutir eru ónýtir að við berum ekkert skynbragð á matvæli og skemmdir. Fólk hendir óopnuðum mjólkurfernum af því að þær eru komnar "fram yfir dagsetningu", eins og það haldi að mjólkin súrni nákvæmlega á slaginu tólf á miðnætti aðfararnótt "síðasta söludags". Ég næ mér stundum í grænmeti og fleira úr ruslagámum við verslanir. Ein ástæðan fyrir því að ég get það er sú að starfsfólkið hendir grænmetinu um leið og sér á því. Heilum kartöflupoka er hent vegna þess að ein kartaflan er brotin í tvennt, púrran fær að fjúka um leið og ystu blöðin verða ljót, kleinurnar eru sendar í ruslið vegna þess að það var að koma ný sending. Á góðum degi gæti ég eldað ofan í að minnsta kosti tíu manns úr matnum sem ég finn í "ruslinu". Önnur ástæða fyrir því að ég get étið "rusl" án þess að drepast eða veikjast er sú að ég nota almenna skynsemi. Ef kjötið er orðið súrt, nei takk. Ef kjötið er frosið og hefur greinilega ekki þiðnað - lambakjöt á diskinn minn. Ef maturinn er ekki í umbúðum og snertir botn eða hliðar gámsins, bæ bæ. Ef hægt er að sjóða eða steikja matinn - bring it on. Ef paprikan er farin að linast er hægt að skella henni í kalt vatn yfir nótt. Ef myglublettur er á kartöflunni er hægt að skera hann burt.

Þessi ofurtrú á stimplunum er út í hött.

 

#3: Íslenskar leikkonur.

 

Hér á ég að sjálfsögðu ekki við allar íslenskar leikkonur, heldur þessar "nýju" - sem dæmi má nefna allar "Stelpurnar". Engin þeirra er vitund fyndin, hvað þá að þær geti leikið. Ömurlegri viðrini get ég ekki hugsað mér.

Ókei, "viðrini" er kannske of sterkt til orða tekið...en mikið djöfulli fara þær í taugarnar á mér.

 

#4: Amerískur bjór.

 

Miller. Bjakk. Coors. Bjakk. Bud. Bjakk bjakk bjakk. Þetta  er  ekki  bjór ! Þetta er viðbjóðslegt fjöldaframleitt hland. Þeir sem drekka Miller hérlendis virðast aðallega vera sextán ára stelpur með álíka mikið vit á bjór og meðal-hamstur. "Ameríksur Budweiser" á ekki að sjást í ríkinu frekar en kartöflulandi. Kartöflulandinn væri reyndar skárri, því maður finnur á sér af honum. Eini munurinn á Bud og vatni er liturinn og verðið.

 

#5: "Fjölskyldumyndir" um dýr.

 

Þessar myndir eru allar ömurlegar, en þó sérstaklega ef dýrin tala eða stunda íþróttir. Hundur sem spilar körfubolta! Api sem spilar hokkí! Köttur sem reykir vindla! Mig langar að vera fluga á vegg þegar handritshöfundarnir "pitcha" þessu kjaftæði.

"Jæja, um hvað fjallar svo handritið?"

"Mús og kött sem eru óvinir."

"Æ, er það ekki gömul hugmynd? Tommi og Jenni eitthvað, fiftís."

"Nei, sko: þeir eru í sama körfuboltaliðinu og þurfa að læra að vinna saman til að sigra í keppni á móti hundaliðinu."

"Æ, ég veit ekki..."

"Var ég búinn að segja þér að þeir geta talað við fólk?"

"Þú ert snillingur - hér eru fimmtíu milljónir!"

 

#6: Barnavagnar.

Þeir fara svosem ekki í taugarnar á mér þannig séð, heldur mömmurnar sem þurfa að troða sér tvær eða þrjár hlið við hlið þvert yfir gangstéttina, hver með sinn skriðdrekann á undan sér. Þetta tengist kannske barnadýrkuninni sem allstaðar ræður ríkjum. Börn eru ekki sætari en kettlingar eða hvolpar, og þau eru ekkert merkilegri. Fólk móðgast ef ég líki kettinum mínum við barn. Kettinum mínum var haldið sofandi í sólarhring á meðan við þeyttumst um allt að leita að peningum fyrir aðgerð. Þetta má gera við dýr (og reyndar börn líka, víða um heim) og fólk spyr hversvegna við höfum ekki bara látið svæfa hann. Ef ég minnist á hvað kattamatur er dýr er ég spurð hví ég "losi mig ekki bara við kettina". Mæður mega hins vegar nöldra yfir verði á bleyjum og maukuðum banönum - og hafa fullt leyfi til að hneykslast ef ég spyr hversvegna þær hafi verið að eignast krakka sem þær hafa ekki efni á. Ég má ekki fara með kött í strætó, en það er í lagi að leyfa krakkagemlingi sem verið er að klósettvenja að míga í sætið við hliðina á mér. Ef hvolpur bítur barn er hann umsvifalaust skotinn - jafnvel þó barnið hafi bitið fyrst.

 

 

Jæja. Sex atriði og ekkert þeirra tengist trúarbrögðum.

Allt í lagi þá:

 

#7: Skipulögð trúarbrögð!

 


Kreppa schmeppa

Hver getur útskýrt fyrir mér hvers vegna kjúklingabringur eru svona fáránlega dýrar? Ég skrapp út í Krónu áðan og var við það að grípa bakka af ferskum kjúklingabringum þegar mér varð litið á kílóverðið. 3000 krónur fyrir kjúklingabringur! Ég get keypt mér kjúklingabringur á Holtinu fyrir 3000 kall. Þrjúþúsund íslenskar krónur fyrir tútturnar af tveimur og hálfri hænu! Til gamans kíkti ég á tilboðsblaðið frá Superbest og á forsíðunni blöstu einmitt við mér kjúklingabringur. Sunnudagstilboð á kjúklingabringum: 79 danskar krónur fyrir 1200 grömm af ferskum kjúllatúttum. Meira að segja á ofurgengi dagsins í dag eru þetta ekki nema rétt rúmar þúsund íslenskar kílóið. 

Danskir kjúklingar eru greinilega bara matgrennri en hinir skerversku því ég rakst á frosnar baunskar júllur á 1600 krónur kílóið. Ég keypti þær því, að sjálfsögðu.

 

 


Dánarfregn

Fartölvan mín síbilandi hefur loks gefið upp öndina. Nú eru líklega liðin hátt í fjögur ár síðan ég keypti hana og þrjú síðan hún byrjaði að klikka. Rafhlaðan er búin að vera ónýt í rúmt ár. Fyrir nokkrum dögum fór hún svo að taka upp á því að slökkva á sér í tíma og ótíma - fyrst slökkti hún reyndar á skjánum - oft í miðju verkefni*.

Núna er ég sumsé komin upp á náð og miskunn móður minnar og hennar fartölvu - og vei mér ef ég gleymi að breyta upplausninni eða hljóðstillingunum eftir notkun.

 

 

 

*blogg-röfli, asnalegum tölvuleik, e.þ.h.


Af múslimum og fordómum.

 

Og vitleysan heldur áfram

Aldrei hef ég séð jafn viðeigandi titil á bloggfærslu. Og vitleysan er komin yfir 400 innlegg.

Nokkrir punktar:

Múslimar hafa ekki "reynt að banna sparigrísi" nokkurs staðar á vesturlöndum. (Sjá nánar [hér að neðan])

Að múslimar reyni að banna svínakjöt er út í hött: samkvæmt neyslureglum múslima er margt annað haraam (óhreint), svosem "hrein" dýr sem ekki er slátrað rétt, svínsleður og áfengi. Það er hinsvegar fullkomlega réttlætanlegt að múslímskir foreldrar (og gyðingar) fari fram á að börnum þeirra sé ekki gert skylt að borða svínakjöt eða vinna með svínsleður (ef þeir á annað borð fylgja halal-reglum. Persónulega þekki ég gyðinga sem borða svínakjöt og get ímyndað mér að til séu múslimar sem gera hið sama) rétt eins og aðrir geta farið fram á að þeirra börn þurfi ekki að sitja undir trúaráróðri.

 Í sambandi við búrkur og hijab: hér fellur fólk oft í þá gryfju að halda að allir vilji ólmir lifa eftir vestrænum gildum. Margar konur finna ákveðið frelsi í búrkunni og skilja ekki hvernig vestrænar konur geta látið sjá sig í bikini á almannafæri. Auðvitað er ég ekki að verja kúgun - ef kona vill endilega ganga í bikini á hún að mega það, rétt eins og hún á að mega ganga í búrku ef hún svo kýs.

Til þeirra sem halda því fram að íslenskt samfélag byggi á kristnum gildum og megi alls ekki við íslömskum hópum: Ísland er ekki kristið samfélag, heldur "secular" - hér á að vera pláss fyrir allar trúarskoðanir, sama hvort þær eru kaþólskar (og ekki er pápisminn barnanna bestur þegar kemur að mannréttindum sem okkur þykja sjálfsögð), Kross-kristnar, Fríkirkjukristnar, hindúískar eða íslamskar. Í öllum trúarbrögðum má finna eitthvað gott - þó persónulega skilji ég ekki þessa þörf fyrir ósýnilegt, alsjáandi yfirvald (mér er ekki það vel við okkar veraldlega, hálfblinda yfirvald)- og eitthvað slæmt.

Eins og margoft hefur verið bent á er jafn fáránlegt að dæma alla múslima út frá nokkrum áberandi ófriðarseggjum og að dæma alla kristna út frá Fred Phelps eða alla hindúa út frá Gandhi.

 


Bull og vitleysa.

Mæli með því að allir sem hafa verið að hneykslast á þessum"yfirgangi múslima" lesi þetta. Þarna er á ferðinni skýrsla um samskipti múslima og Breta (og reyndar fleiri þjóða), viðhorf og fjölmiðlaumfjöllun. Sérlega áhugavert er að lesa hlutann sem fjallar um fjórar fréttir sem birtust þar ytra, en þeirra á meðal er "fréttin" um að NatWest hafi bannað sparigrísi (bls. 33 - 37). Þrjár af þessum fjórum fréttum eru runnar undan rifjum Daily Express sem er hægrisinnað slúðurblað.

 

express10


mbl.is Sótt að gríslingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband