Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hugleiðing

Segjum að ég ræni manni. Ég vel hann af handahófi, kippi honum inn í bíl og ek með hann út í sveit, þar sem ég á lítinn kofa. Þetta er nokkuð afskekkt, svo lítil hætta er á að einhver eigi leið hjá af tilviljun og bjargi manngreyinu. Ég er svosem ekkert vond við hann - hann fær nóg að borða, hann er með lesefni og sjónvarp sér til dægrastyttingar, hann fær meira að segja að senda bréf heim...ritskoðuð að sjálfsögðu. Skiljanlega get ég ekki leyft honum að hringja eða nota tölvu, en hann má skreppa út á skikann sem ég girti af með rafmagnsgirðingu og gaddavír eins og einu sinni á dag í klukkutíma í senn. Ekki má láta hann drepast úr hreyfingarleysi. Ég held manninum þarna í heilt ár, án tiltakandi vandræða (fyrir mig a.m.k.) en þá gerist hið ólíklega og einhver finnur okkur. Ég er að sjálfsögðu dregin fyrir rétt og kærð fyrir frelsissviptingu eða hvað það nú er sem fólk yrði kært fyrir í svona máli.

 

Spurningin er: hver er hæfileg refsing fyrr þennan glæp?

Ef ég hefði lokað manninn inni með hópi annarra manna og þeir beittu hann ofbeldi, andlegu eða líkamlegu, hver væri þá viðeigandi refsing? 

Ef ég hefði sleppt manninum að eigin frumkvæði, ætti það að hafa einhver áhrif?

 

En ef ég væri dómari sem hefði dæmt mann til refsivistar vitandi það að hann væri saklaus?


Riddarar réttlætisins

Undanfarið hef ég staðið í umræðum um íslam, bæði hér á moggablogginu og annars staðar, m.a. á erlendum síðum. Þar sem ég forðast að alhæfa um rúman milljarð múslima hef ég verið sökuð um ýmislegt miður skemmtilegt af þeim sem sjá heiminn á annan hátt en ég.

 

Þrjár vinsælustu "móðganirnar" eru án efa eftirfarandi (stundum allar í einu);

 

"Þú ert örugglega múslimi sjálf."

"Þú þorir bara ekki að gagnrýna íslam."

"Þú ættir að vera hrædd við múslima en ert bara og vitlaus/naív/barnaleg til þess."

 

Þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt íslam virðast líta á það sem rót alls ills. Ef ég bendi á rangfærslur er ég því í liði með hinu illa.

Ef ég kem með dæmi sem afsanna fullyrðingu andmælanda míns um að eingöngu múslimar noti sína trú á ofbeldisfullan hátt, er ég að snúa út úr til að verja íslam, nú eða þykjast "gáfulegt krútt", hvað sem það á nú að þýða. Þrátt fyrir að ég margtaki fram að mér finnist íslam viðbjóðslegt að miklu leyti, og taki jafnvel undir hluta gagnrýninnar, er viðhorfið þannig að ef ég er ekki 100% á móti múslimum, hljóti ég að vera 100% fylgjandi íslam í sinni ljótustu mynd.

 

Þessi tvískipting heimsins í gott og illt er mér ekki að skapi, og það er þess vegna sem ég mótmæli málflutningi þeirra sem vilja sjá heiminn í svarthvítu, ekki vegna þess að ég sé sérstakur verjandi íslam.

Annað atriði sem fer í taugarnar á mér er óheiðarleikinn sem fólginn er í því að afneita voðaverkum í nafni annarra trúarbragða, þrátt fyrir að ótal dæmi séu nefnd. Það er hægt að halda því fram að glæpir í nafni íslam séu á einhvern hátt stærri eða alvarlegri, og þá er mögulegt að ræða það málefnalega, en að þvertaka fyrir að kristnir, hindúar eða gyðingar geti gert nokkuð slæmt er klárlega út í hött. 

Þriðja atriðið sem truflar mig er sú árátta sumra einstaklinga að flagga sínum eigin trúarbrögðum, þrátt fyrir að hafa bæði sagt og sýnt það aftur og aftur að viðkomandi fylgi engum af grunnkenningum þeirrar trúar. Hér á ég t.d. við þá "kristnu" menn sem afskrifa kærleiksboðorðið sem útópíska draumsýn sem ekki á við í raunveruleikanum -og ganga jafnvel svo langt að verja pyntingar - en stæra sig jafnframt af því að vera svo móralskir og réttlátir vegna trúarinnar.

 Eitt í fari þessarra sjálfskipuðu krossfara væri nokkuð skondið ef það væri ekki svona sorglegt, en það er hversu vel þeir hafa tamið sér tungutak "erkióvinanna" og hugsunarhátt. Þeir nota orð eins og kafírar og jihad í sífellu, en alvarlegra er þó sú barnalega hugsun að þar sem "vondu kallarnir" geri eitthvað fyrst, megi þeir gera það líka. Þeir réttlæta eigin tvískinnung með því að þeir séu jú réttlætisins megin, en múslimarnir á bandi hins illa. Þeim finnst hryllilegt að múslimar reyni að stjórna klæðaburði kvenna og vilja berjast gegn því með því að stjórna fatavalinu sjálfir. Þeir þreytast ekki á að minna fólk á það að múslimar sjái eingöngu trúbræður sína sem nokkurs virði, annað en kristnir sem elska alla...svo lengi sem "allir" eru kristnir. Þeir fordæma árásir múslimskra bardagamanna á óbreytta borgara, en fagna þegar enn einum múslimanum er stungið í fangabúðir, enda er hann örugglega sekur um eitthvað hvort sem er. Þeir fordæma harðlega þau mannréttindabrot sem tíðkast undir sharia-lögum, en sjá ekkert athugavert við þær pyntingar sem framdar eru í nafni vestræns "réttlætis". 

 

Allra verst eru þó hrokinn og þrjóskan við að viðurkenna mistök. Í huga þessarra manna eru þeir nefnilega útvaldir til þess að berjast gegn hinu illa, og allir vita að hinir útvöldu gera ekki mistök. Ef einhver sakar þá um slíkt, hlýtur það að vera vegna þess að viðkomandi er annað hvort viljandi að snúa út úr eða of heimskur til að skilja speki hinna útvöldu riddara réttlætisins.

 

Reyndar er það synd að þessir Kíkótar internetsins skuli ekki gera sér far um að kynnast íslömskum öfgamönnum. Þeir eiga fleira sameiginlegt en þá grunar.


Takk, Jesús!

Úr dagbók árásarmannsins:

 

"Maybe soon, I will see God and Jesus. At least that is what I was told. Eternal life does NOT depend on works. If it did, we will all be in hell. Christ paid for EVERY sin, so how can I or you be judged BY GOD for a sin when the penalty was ALREADY paid. People judge but that does not matter. I was reading the Bible and The Integrity of God beginning yesterday, because soon I will see them."

 

'Nuff said.


mbl.is Fjórir látnir eftir skotárás í íþróttasal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíðum aðeins...

Ég renndi yfir þau blogg sem þegar er búið að tengja við fréttina og fæ ekki betur séð en að þeir sem þau rita séu allir á bandi stúlkunnar. Þó hafa komið fram athugasemdir sem ekki eru jafn skemmtilegar.

Við þessa færslu er að finna svohljóðandi athugasemd:

 

        "Hún er núna gift, þar með er hún hluti af hans fjölskyldu, þetta er ekki eins og hérna."

 

og við þessa má lesa:

 

        "Ég er múslími. Dóttirin er ekki ein af móðurfjölskyldunni lengur...hún tilheyrir fjölskyldu mannsins sem hún giftist...þannig er það nú bara...og ekkert við því að segja."

 

Þetta eru ekki gild rök. Móðirin vill greinilega að dóttir hennar og tengdasonur komi til Íslands, þau vilja það sjálf...en tveir Íslendingar vita betur og segja það ekki í samræmi við hefðir múslima. Þeir hljóta auðvitað að vita betur en Ayda og Sama hvernig hefðir og venjur eru hjá þessari tilteknu fjölskyldu, ekki satt? Ég læt svo svar síðuhöfundar fylgja með seinni athugasemdinni:

 

 "Úr því fjölskylda mannsins getur ekki séð um sína, þá eiga þau að vera velkomin hingað til lands þar sem ekki er litið á konur sem húsdýr. Við byggjum þjóðfélag okkar á kristnum gildum, þar sem náungakærleikur er hafður í fyrirrúmi. Ekki á hatri og skorti á umburðarlyndi."

 

Þó hann meini eflaust vel má fátt annað lesa úr svarinu en hroka og yfirlæti. Ég leyfi honum annars að njóta vafans, hugsanlega var þetta bara illa orðað hjá honum.

Ekki er hægt að segja hið sama um athugasemdirnar við þetta blogg:

 

"Ég er skagamaður og ég get sagt þér það að við höfum nóg með okkar, og við höfum flest öll fengið nóg af þessu liði."

 

og

 

"Ef það á að sameina fjölskylduna þá hlýtur fjölskylda hans að koma á eftir, nei takk."

 

Hér er ekki umburðarlyndinu fyrir að fara, enda skrifa þessir einstaklingar ekki undir nafni.* Við fyrri athugasemdinni er lítið hægt að segja. Ég hef persónulega ekki orðið vör við þessa miklu óánægju Skagamanna, en þó getur vel verið að hún sé til staðar. Ég leyfi mér þó að vona að hún sé a.m.k. ekki jafn útbreidd og þessi "logus" vill meina. Seinni athugasemdin er öllu ljótari. Höfundur hennar er einfaldlega fordómafullur asni, nema auðvitað að hún þekki fjölskyldu tengdasonar Aydu persónulega. Ef svo er væri gott að fá skýringu á því hvers vegna hún er ekki húsum hæf. Ég efast um að þessi "Guðrún Skúladóttir" (ætli hún sé dóttir ákveðins vitleysings?) viti nokkurn skapaðan hlut um fjölskyldu Alis, svo eftir stendur skýr ótti við múslima. Svo ég leyfi sjálfri mér smá fordóma: þessi kona er sjálfsagt á miðjum aldri, horfir á Omega og les Blekpenna af áfergju. Uppáhalds bókin hennar er 'Íslamistar og naívistar' og hún getur ekki séð neitt sambærilegt við bænaköll múslima og bjölluglamur íslenskra kirkna.**

Því miður óttast ég að fleiri maðkar komi í ljós ef þetta mál fær meiri umfjöllun (sem ég vona nú samt að það geri) og að þeir tjái sínar skoðanir ekki jafn "kurteislega". Sjáum til. Svona til "gamans" skal ég spá þessu:

Einhver á eftir að draga kreppuna inn í umræðuna í því samhengi að við höfum ekki efni á að hugsa um annað en rassgatið á sjálfum okkur. Einhver á eftir að tengja byggingu mosku við málið og kvarta undan bænakallinu. Einhver á eftir að nota orðin "kristilegt siðgæði" án þess að sýna nokkuð af því*** sjálfur. 

En bíðum aðeins...sjáum til. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

 

*Ég hef ekkert á móti nafnlausum bloggurum, en nafnlausar athugasemdir eru oftast nafnlausar vegna þess að viðkomandi þorir ekki að standa við sínar skoðanir. Ég myndi líka skammast mín fyrir þessi komment.

**Það viðhorf er svosem efni í annan pistil. Ég hef síðan ekki hálfa höggmynd um hver þessi kerling er. Það er meira að segja möguleiki á að hún sé alls ekki kerling. Nafnleysið er skemmtilegt, ekki satt?

***Með "kristilegu siðgæði" á ég við almennt siðgæði, enda ekkert til sem heitir kristið siðgæði. Þeir sem hvað oftast varpa þessum frasa fram virðast a.m.k. alls ófærir um að benda á nokkuð "sérkristið" í ídeal samskiptum (sínum eða annarra) við náungann.


mbl.is Móðirin á Skaga, dóttirin í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar til Ragnars

Undanfarið hef ég staðið í þrasi um trúmál. Ragnar nokkur, sem ég kann svosem engin deili á, birti svar sitt hér. Ég ákvað því að birta mitt svar líka hér, þó ég hafi svarað honum á hans eigin síðu. Alltaf gaman að drita umræðum á nokkra staði.

 ---

Mikið ofsalega er ég þreytt á þessu "leitandi" tali alltaf hreint. Já, þið kristnir segist hafa "upplifað" eitthvað og "vitið" þ.a.l. að Guð sé til. Ég hef "upplifað" ýmislegt. Einu sinni sá ég t.d. andlit hins vestræna Jesú í skýjunum. Aðeins eitt augnablik, en eftir á sá ég það sem prentað innan á augnlokin - sólin var nefnilega ansi skær á bak við skýin. Ég veit að ástæða þessa var tilviljanakennt mynstur í skýjunum og sú árátta heilans að greina kunnugleg mynstur og jafnvel fylla upp í eyður. Aldrei kom mér til hugar að þarna væri einhver yfirnáttúruleg vera að reyna að hafa samband - enda hin skýringin einfaldari, auk þess sem ég ímynda mér að almáttugur guð hefði skýrari leiðir til að koma tilvist sinni á framfæri við mig. Þar að auki var ég bæði ósofin og skelþunn. Ég hef líka upplifað tímann standa í stað, ég hef séð -eða öllu heldur "ekki-séð"- ósýnilegt fólk, ég hef svifið langar leiðir án hjálpar tækninnar, ég hef hitt látna og fjarverandi vini, ættingja, stórstjörnur og jafnvel skáldsagnapersónur. Í öll skiptin hef ég verið allsgáð...en reyndar sofandi líka. Eitt af því sem mér líkar illa við trúarbrögð er elítisminn sem oft vill fylgja þeim. Kristnir segja að þeir "viti bara" að þeirra trú sé hin eina rétta. Hið sama segja allir aðrir um sína trú, þ.e.a.s. sína túlkun af sinni útgáfu af sínum guði. Auðvitað eru til undantekningar, margir eru hreint ekki vissir um að útgáfa þeirra sé rétt, aðrir notast við trúarkerfi sem (í orði a.m.k.) gerir öllum (eða flestum) trúarbrögðum jafn hátt undir höfði. Oftast nær er raunin samt sú, sérstaklega hjá fylgjendum Abrahamísku trúarbragðanna, að fullyrða að eigin skoðun á tilvist, persónuleika og hegðan guðs síns og hans "spámanna" sé hin eina rétta og að allir aðrir séu glataðir. Nú getur vel verið að einhver sjái trúlausa sem jafnmikla ef ekki meiri elítista en hina trúuðu; við höldum jú líka að okkar skoðun sé rétt. Hins vegar er grunnmunur á þessum lífsskoðunum. Í okkar sundurleita hópi er eitt sem tengir flesta (eins og alltaf eru undantekningar) og það er krafan um efa. Trúarbrögð gera hinsvegar flest kröfu um trú - jafnvel þó allar vísbendingar stangist á við fullyrðinguna er mikilvægast að trúa -meira að segja það að segjast vilja skoða vísbendingar sem hugsanlega gætu veikt undirstöður trúarinnar er fordæmt og jafnvel grimmilega refsað. Án efa væri þekking okkar ekki mikil. Meira að segja vísindamenn hafa fallið í þá gryfju að taka einhverju sem gefnu, en sem betur fer hefur þessi undirliggjandi krafa um efa og þekkingarleit gert öðrum kleift að hrekja, staðfesta eða breyta kenningum og "sjálfsögðum sannleik". Auðvitað er í lagi að efast um að guð sé til - eða að hann sé ekki til - en vandinn er sá að þetta er bæði ósannanlegt og óhrekjanlegt. Meint áhrif guða á hinn mælanlega veruleika eru nefnilega ekki mælanleg sjálf. Sé rakhníf Occams beitt er (nánast) alltaf hægt að finna betri útskýringu. Ég er því ekki "leitandi" í þeim skilningi sem þú leggur í orðið. Ég leita þekkingar, en þá þekkingu verður að vera hægt að rannsaka, annars er hún ekki þekking heldur getgáta og ímyndun.

Hverju þakka trúleysingjar?

Anna Karen spyr ágætis spurningar á síðu sinni;

 

Hverju þakka trúleysingjar á kvöldin, sérstaklega ef þeir hafa upplifað góða daga?

 

Í fyrsta lagi vil ég spyrja á móti; hvers vegna þarf að þakka einhverju? Þessi spurning er að sjálfsögðu komin frá trúaðri manneskju, og þ.a.l. dálítið trúarmiðuð, þ.e.a.s. hún gengur út frá því að allir finni hjá sér þörf til að þakka einhverskonar æðri mætti/sjálfum sér/örlögunum.

Í annan stað vil ég svara spurningunni fyrir mitt leyti. 

 

Ég þakka engum. Ég renni kannske yfir daginn (svona helstu atriði), flissa eða brosi eða gretti mig, hugsa um það sem hugsa þarf betur um...en ég þakka engum daginn - nema ef væri fólkinu sem gerði daginn góðan, og þá segi ég það líka við viðkomandi. 

 

Síðan vil ég fara út í aðrar -en tengdar- pælingar.

Hvers vegna halda sumir trúmenn því fram að heimurinn verði á einhvern hátt minna stórkostlegur við að reyna að útskýra hann? Regnbogi er alveg jafn fallegur hvort sem við segjum að hann verði til við sjóbrot eða vegna þess að "Guð er í góðu skapi" - jafnvel þó við trúum því að hann sé brú yfir í annan heim eða að gull finnist við enda hans. Hins vegar er það tímaeyðsla að reyna að hlaupa yfir regnbogann eða leita endans.

 

Á sama hátt verður mannskepnan (eða dýrin) ekkert minna stórfengleg þó við tökum þróunarkenninguna trúanlega - ef eitthvað er þykir mér ótrúlegra og stórfenglegra að hugsa til þess að kettirnir mínir séu afleiðingar tilviljanakenndra stökkbreytinga og náttúruvals en að einhver "verkfræðingur" hafi hannað þá af nákvæmni. En það er alveg jafn mikil tímaeyðsla að reyna að leita að verkfræðingnum - hvað þá að reyna að finna hann í Biblíunni eða kirkju.

    Við getum alveg furðað okkur á heiminum, fyllst hamingju án ástæðu, dáðst að regnboganum eða afrekum manna eða ofsa veðursins án þess að bæta Guði inn í myndina. Ef eitthvað er gerir það þessar stórkostlegu tilviljanir - þessa óendanlega ólíkleglegu atburði sem komu heiminum í það horf sem hann er í í dag- enn mikilfenglegri en nokkuð útpælt "Guðs verk".

 

 

 

 

 

 


Paranoia

Berið saman eftirfarandi:

A: 

"Ég veit að ríkisstjórnin fylgist með mér. Þeir vita hvenær ég sef, hvenær ég vaki, hvað ég geri, meira að segja hvað ég hugsa. Ef ég hugsa óþjóðræknar hugsanir munu þeir refsa mér, en ef ég er þjóðrækinn í háttum og hugsunum verð ég hetja. Ég vil ekki gera ríkisstjórnina reiða, svo ég passa hvað ég segi. Ég vakna á hverjum morgni og segi upphátt "Mikið er ég feginn að búa í þessu landi. Mikið er ég þakklátur fyrir ríkisstjórnina." Áður en ég fer að sofa þakka ég ríkisstjórninni fyrir að hafa leyft mér að lifa út daginn og bið hana um að leyfa mér að lifa nóttina líka. Ég segi öllum sem vilja hlusta að ríkisstjórnin fylgist með þeim líka og að þeim verði refsað ef þeir brjóta gegn vilja hennar."

B:

 

"Ég veit að Guð fylgist með mér. Hann veit hvenær ég sef, hvenær ég vaki, hvað ég geri, meira að segja hvað ég hugsa. Ef ég hugsa óguðlegar hugsanir mun Hann refsa mér, en ef ég er Guðrækinn í háttum og hugsunum öðlast ég velþóknun Hans. Ég vil ekki gera Guð reiðan, svo ég passa hvað ég segi. Ég vakna á hverjum morgni og segi upphátt "Mikið er ég feginn að búa á þessari jörð. Mikið er ég þakklátur fyrir blessun Guðs." Áður en ég fer að sofa þakka ég Guði fyrir að hafa leyft mér að lifa út daginn og bið hann um að leyfa mér að lifa nóttina líka. Ég segi öllum sem vilja hlusta að Guð fylgist með þeim líka og að þeim verði refsað ef þeir brjóta gegn vilja Hans."

 

Hver er munurinn?

Einstaklingur A er greinilega haldinn vænisýki og ímyndunarveiki á háu stigi og yrði eflaust skikkaður til að leita sér hjálpar ef hann viðraði hugmyndir sínar opinberlega.

Einstaklingur B er aftur á móti -í augum margra- sérlega góður einstaklingur, einmitt vegna þess að hann trúir því að einhver fylgist stöðugt með honum.

 

Hversvegna er það "heilbrigt" og merki um æðri siðferðisvitund að trúa því að ósýnilegur aðili lesi hugsanir þínar, en merki um geðveiki að trúa því að raunverulegur einstaklingur geri hið sama? Jafnvel þó einstaklingur A væri alls ekki hættulegur umhverfi sínu og sætti sig við ímyndað eftirlitið á sama hátt og trúaðir sætta sig við sitt, yrði hann samt stimplaður geðveikur og lokaður inni.

Hvorum einstaklingnum myndirðu treysta fyrir barninu þínu? Ef barnið þitt fer í sunnudagaskóla eða fermingarfræðslu - eða jafnvel bara "trúarbragðafræðslu" í skólanum- er það líklega í umsjá aðila B.

 

 


Skemmtileg tilvitnun úr Bibblíunni

Matteusarguðspjall, 6. kafli:5.-6. vers: 

5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Umorðað: nú með blótsyrðum!

Hættu að auglýsa trú þína, hræsnarinn þinn! Drullastu til að hugleiða, biðja eða vott-fokking-evör heima hjá þér! Niður með kirkjuna! *Jésú múnar og hleypur í burtu*

 

 

 


Af íslam og kristni

Ég fór allt í einu að velta þessu fyrir mér:

Fyrir 500 árum var kristin kirkja kúgarinn; stóð fyrir brennum og pyntingum, barði niður mótmæli og stóð í vegi fyrir framgangi vísinda og mannréttinda. Síðan tók Upplýsingin við, fólk varð almennt minna trúað en áður og vísindi og mannréttindi blómstruðu.

Íslam er sirka 500 árum yngra en kristni....er Íslam ekki bara á vendipunktinum, farið að snúast í sömu átt og kristni gerði á Upplýsingartímanum og þ.a.l. uppfullt af átökum innbyrðis, sem koma fram sem öfgar hjá hinum trúaðri, sem þar með reyna að koma í veg fyrir minnkandi völd fyrirbæris sem allt fram á síðustu öld hefur haft töglin og hagldirnar í samfélögum þar sem það hefur verið við lýði?

 

Eða til að einfalda þetta (svo hægt sé að skjóta það niður): Kristnin er að sötra kaffi og konjakk á meðan Íslam er rétt að klára aðalréttinn.*

 

Það er erfitt að fá menn til að flýta sér að éta - þeir eru nefnilega farnir að kvíða reikningnum.

 

 

*Ógeðslega er þetta góð líking hjá mér.

 

 

 


Mikið er ég orðin þreytt á þessu

Trúarbrögðum, þ.e.a.s.

  Föstudagurinn langi: bannað að spila bingó. Vita menn ekki að Jesú var einmitt í miðju bingóspili þegar hann gaf upp öndina? Og hversvegna er þetta sorgardagur? Án dauða Krists á krossinum væri engin kristni - engin fyrirgefning synda, engir sætir róðukrossar (don't get me started on those), engar fermingar og þ.a.l. engar fermingargjafir! Ætti þetta ekki að vera hátíðisdagur með villtu djammi í öllum kirkjum - takk fyrir mig, Jésú!?

  

Myndir af Múhameð (BSNH): Hú kers? Súnnítar banna myndir af Allah og Múhameð, en ef ég stimpla inn broskall og kalla hann Múhameð gerir það hann ekki að Múhameð. Þeir eru heldur ekki hrifnir af myndum af Jésú - sem ég reyndar er sammála, Múhameðsmyndirnar fókusa þó yfirleitt ekki á ósmekklegar pyntingaraðferðir eða náföl, norræn smábörn umkringd kameldýrum. Bjakkerí.

 

Þjóðsöngurinn: bjakk-bjakkedí-bjakk. Þetta gaul er spilað í dagskrárlok, undir myndum af íslenskri náttúru í allri sinni dýrð. Lofsöngur. Um Guð. Ekki um landið, heldur Guð. Ósýnilega kallinn með ósýnilega skeggið og ósýnilegan endalausan kærleika. Fokk ðatt - nýtt lag á fóninn strax!

 

Páskar almennt: Tengjast Jésú eða pabba hans ekki rassgat - nema Bibblían minnist einhversstaðar á súkkulaðiegg án þess að ég hafi tekið eftir.

 

  Sköpunarsinnar: þið vitið alveg við hvern ég á. Kommon! Þetta er eins og að rífast við einhvern sem heldur því fram að það sé föstudagur þegar þú veist að það er þriðjudagur. Sama hversu góð rök þú kemur með - öll heimsins dagatöl duga ekki til að berja vit í kollinn á viðkomandi. Dagatölin hljóta að vera fölsuð og restin af samfélaginu heilaþvegin af þriðjudagssinnum.

 

 

   Fólk sem hlær að Vísindakirkjunni og Mormónum - en sér ekkert fyndið við Bibblíuna. +++

 

   Fólk sem hefur meiri áhyggjur af því sem hommar aðhafast í svefnherberginu (eða eldhúsinu, stofunni, baðherberginu...) en milljónum sveltandi fólks.

   

Fólk sem heldur að lausnin á kúgun kvenna sé að skipta um nafn á ímynduðum einræðisherra.

 

  Fólk sem veit að morð er rangt - nema þegar verið er að drepa einhvern sem drap einhvern sem drap einhvern sem drap einhvern... eða einhvern sem hugsar öðruvísi.

 

  Fólk sem telur líf fósturs konu sem ekki er í neinni aðstöðu til að hugsa fyrir barni mikilvægara en líf þeirra sem látast úr alnæmi og malaríu.

 

  Fólk sem pikkar út eitt og eitt atriði úr trúarskruddu til að fara eftir, en kallar það sem það er ósammála líkingar, dæmisögur eða "barn síns tíma". Hversvegna er svínakjötsát, samneyti við konu á túr, myndlist og vinna á sunnudegi bara gúddí - en þrælahald, lygar og samkynhneigð svaka syndir?

 

Og hversvegna getur þetta fólk ekki séð hvað þetta er allt mikið bull?

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kverúlant

Tinna Gunnarsdóttir Gígja
Lestu bara helvítis bloggið, minn karakter kemur þessu ekkert við.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ...!
  • Untitled

Bækur

Nýlesið/eftirlæti

  • Mark Steel: It's not a runner bean: Dispatches from a slightly successful comedian
    Yndislegi, yndislegi maður! Bókin fjallar um strögglið við að verða "slightly successful" grínisti, og er algjört möst fyrir uppistands-áhugamenn.
    *****
  • Gregory Maguire: Mirror, Mirror
    Mjallhvít, vonda "stjúpan" Lucrezia Borgia og viskutré. Hvað þarftu meira?
    ****
  • Ýmsir: Lonely Planet: Europe on a shoestring (ISBN: 1740597796 )
    Á að vera nokkuð góð, en við sjáum nú til með það í henni Evrópu. Seiseijá.
    ***

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 3310

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband